145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

breytingar á útlánareglum LÍN.

[15:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Okkur greinir greinilega á um hvaða áhrif þessar breytingar á útlánareglunum hjá LÍN hafa á kjör námsmanna. Við jafnaðarmenn viljum jafnrétti til náms, við jafnaðarmenn viljum ekki að menntun sé munaðarvara og einungis fyrir þá sem betur standa í samfélaginu. Það er það sem verður að tryggja. Auðvitað hljótum við að gera kröfu til þess að niðurstaðan sé að tryggt sé jafnrétti til náms og að menntun sem er mikilvæg fyrir einstaklingana, líf þeirra og stöðu í samfélaginu, og auk þess fyrir okkur öll í samfélaginu sem heild, sé ekki bara fyrir þá sem eiga ríka foreldra sem geta haldið þeim uppi í námi erlendis.

Það er óásættanlegt og það er sú krafa sem við jafnaðarmenn gerum til menntastefnu á Íslandi.