145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[18:24]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel þann vilja hæstv. ráðherra að vilja mæla fyrir þessu máli, en að sjálfsögðu hef ég bent á það hér á þingi að mjög skammur tími er til stefnu, u.þ.b. tíu þingfundadagar, níu þingfundadagar samkvæmt nýrri starfsáætlun hæstv. forseta, sem er ekki langur tími miðað við öll þau mál sem við eigum eftir að ræða í þinginu, til að mynda grundvallarbreytingar á almannatryggingakerfi fyrir eldri borgara sem mikið er líka búið að þrýsta á að fá hér til umfjöllunar. Það eina sem ég er að benda á er að í umsögnum er verið að benda okkur, pólitískum fulltrúum, á stór vafaatriði sem verkefnisstjórn segir réttilega: Þetta verður ekki útkljáð á þessu stjórnsýslustigi. Hvað ætlum við að gera sem pólitískir fulltrúar með ábyrgð gagnvart náttúru landsins, af því að hér er um að ræða óafturkræfar ákvarðanir? Það er svo að þessar ákvarðanir eru óafturkræfar ekki síst þegar um er að ræða nýtingarflokkinn. Það er í sjálfu sér hægt að snúa við með pólitískum ákvörðunum seinna meir. En nýtingarflokknum er erfitt að snúa við þegar búið er að virkja.

Þá vil ég spyrja: Hvers konar staða er það sem er verið að setja okkur þingmenn í, biðja okkur um að taka ákvarðanir t.d. um virkjanir í neðri hluta Þjórsár þar sem búið er að segja: Hér er uppi gríðarleg óvissa um framtíð villta laxastofnsins á Íslandi. Svarið sem ég fæ í þessum umræðum er: Við verðum bara að ýta ábyrgðinni eitthvert annað. Við verðum að setja þetta til einhverra annarra aðila því að Alþingi ætlar ekki að taka ábyrgð á þessari ákvörðun.

Þá velti ég fyrir mér, af því að hv. þingmaður spyr hvort tími sé til stefnu, hvort tími er til stefnu til að taka nægjanlega vandaða umfjöllun um svona mál sem felur í sér óafturkræfar ákvarðanir. Svo minni ég á hversu mikilvægt það (Forseti hringir.) er líka að við höfum einhver meðöl til að skjóta slíkum ákvörðunum (Forseti hringir.) til þjóðarinnar.