145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:06]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þetta er vissulega áhyggjuefni. Við fljótan lestur, við höfum nú ekki haft tíma til annars, á frumvarpinu og greinargerðinni er þetta vissulega nefnt, en mér finnst mikilvægt að við höfum þetta sérstaklega í huga. Það er nú þegar áhyggjuefni hvað fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna er farin að hafa gríðarleg áhrif á ótrúlegustu sviðum íslensks efnahagslífs eftir að fjármagnshöftin voru sett á. Það virðist bara sífellt bæta í og hér erum við að tala um alveg risastóra mögulega viðbót inn í það. Það er því gott að heyra að þessi mál eru undir. Ég hlakka til að heyra meira af því í meðförum þingsins.

Ég hef áhyggjur af því að lífeyrissjóðakerfið og þetta fjármagn er farið að leika svo stóran þátt í efnahagslífinu yfir höfuð að það fer sjálft að verða ábyrgt (Forseti hringir.) fyrir þeim hagvexti sem hæstv. ráðherra minntist á að væri grundvöllurinn undir öllu klabbinu. Hefur ráðherra ekki áhyggjur af því hvort kerfið geti yfirleitt verið sjálfbært til lengri tíma?