Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1180, 120. löggjafarþing 451. mál: lögreglulög (heildarlög).
Lög nr. 90 13. júní 1996.

Lögreglulög.


I. KAFLI
Hlutverk lögreglu o.fl.

1. gr.

Hlutverk.
     1. Ríkið heldur uppi starfsemi lögreglu.
     2. Hlutverk lögreglu er:
  1. að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi,
  2. að stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins,
  3. að vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð opinberra mála eða öðrum lögum,
  4. að greiða götu borgaranna eftir því sem við á og aðstoða þá þegar hætta steðjar að,
  5. að veita yfirvöldum vernd eða aðstoð við framkvæmd starfa sinna samkvæmt fyrirmælum laga eða venju eftir því sem þörf er á,
  6. að starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu,
  7. að sinna öðrum verkefnum sem henni eru falin í lögum eða leiðir af venju.


2. gr.

Tengsl við þjóðarétt.
     Lögregla skal í störfum sínum hafa í heiðri þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist.

3. gr.

Lögreglumenn.
     Til lögreglumanna teljast þeir sem skipaðir eru eða settir til lögreglustarfs skv. 3. mgr. 28. gr. eða ráðnir tímabundið skv. 4. mgr. 28. gr.

II. KAFLI
Skipulag lögreglu og æðsta stjórn.

4. gr.

Æðsta stjórn lögreglu.
     Dómsmálaráðherra er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu. Ríkislögreglustjóri fer með málefni lögreglunnar í umboði hans.

5. gr.

Ríkislögreglustjóri.
     1. Hlutverk ríkislögreglustjóra er:
  1. að flytja og kynna lögreglustjórum boð og ákvarðanir æðstu handhafa ríkisvaldsins sem snerta starfsemi lögreglunnar með einum eða öðrum hætti og vinna að og fylgjast með að þeim ákvörðunum verði fylgt í starfsemi lögreglunnar,
  2. að láta dómsmálaráðherra í té upplýsingar um hvers konar lögreglumálefni sem hann getur notað til að undirbúa og byggja ákvarðanir sínar á,
  3. að gera tillögur til dómsmálaráðherra um almenn fyrirmæli til lögreglustjóra,
  4. að vinna að og gera tillögur um hagræðingu, samræmingu, framþróun og öryggi í starfsemi lögreglunnar,
  5. að annast alþjóðasamskipti á sviði löggæslu,
  6. að veita lögreglustjórum aðstoð og stuðning í lögreglustörfum,
  7. að annast viðfangsefni sem eðli máls samkvæmt eða aðstæðna vegna kalla á miðstýringu eða samhæfingu á landsvísu eða samstarf við lögreglu í öðru landi,
  8. að hafa með höndum yfirstjórn eða gefa fyrirmæli um framkvæmd einstakra löggæsluverkefna sem krefjast viðamikils undirbúnings eða þátttöku lögreglumanna úr fleiri en einu umdæmi. Ríkislögreglustjóri skal að fengnu samþykki dómsmálaráðherra tilkynna hlutaðeigandi lögreglustjóra eða lögreglustjórum ákvörðun sína varðandi stjórn löggæsluverkefnis með hæfilegum fyrirvara.

     2. Sérstök verkefni sem ríkislögreglustjóra ber að hafa með höndum eru:
  1. að starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar skatta- og efnahagsbrot,
  2. að starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og aðstoðar lögreglustjóra við rannsókn alvarlegra brota, deildin skal rannsaka mál vegna kæra á hendur lögreglumönnum vegna brots í starfi,
  3. að starfrækja almenna deild er annist kerfisbundna skráningu upplýsinga um lögreglumálefni, hafi umsjón með kaupum á ökutækjum, búnaði og fatnaði lögreglu og hafi reglulegt eftirlit með lögreglustöðvum, tækjum þeirra og búnaði,
  4. að starfrækja alþjóðadeild er annist alþjóðleg boðskipti,
  5. að starfrækja rannsóknarstofu sem annist skjalarannsóknir, fingrafararannsóknir og aðrar slíkar tæknilegar lögreglurannsóknir.

     3. Dómsmálaráðherra mælir nánar fyrir um starfsemi ríkislögreglustjóra.
     4. Ríkislögreglustjóra til aðstoðar er vararíkislögreglustjóri. Hann er staðgengill ríkislögreglustjóra.
     5. Þegar ríkislögreglustjóri er svo við málsefni eða aðila riðinn að hann mætti eigi gegna dómarastörfum í því skal hann víkja sæti og setur dómsmálaráðherra þá löghæfan mann til meðferðar þess máls.

6. gr.

Lögregluumdæmi og stjórn þeirra.
     1. Landið skiptist í lögregluumdæmi sem fara saman við skiptingu þess í stjórnsýsluumdæmi. Sýslumenn eru lögreglustjórar, hver í sínu umdæmi nema í Reykjavík þar sem lögreglustjórn er í höndum sérstaks lögreglustjóra. Við embætti lögreglustjórans í Reykjavík skal starfa varalögreglustjóri.
     2. Lögreglustjórar fara með stjórn lögregluliðs, hver í sínu umdæmi. Þeir annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæmi sínu og bera ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess.
     3. Lögreglustjórar fara með yfirstjórn leitar- og björgunaraðgerða á landi. Um björgun sem heyrir undir skipulag almannavarna gilda sérstök lög. Ráðherra setur reglur um samstarf lögreglu og björgunarsveita.
     4. Dómsmálaráðherra getur falið öðrum en hinum reglulega lögreglustjóra umdæmis að fara með lögreglustjórn þar tímabundið þegar sérstaklega stendur á.
     5. Dómsmálaráðherra er heimilt að setja annan löghæfan mann í stað hins reglubundna lögreglustjóra til meðferðar einstaks máls.

7. gr.

Starfssvæði lögreglu.
     1. Lögreglumenn hafa lögregluvald hvar sem er á landinu.
     2. Starfssvæði lögreglumanns er það umdæmi sem hann er skipaður, settur eða ráðinn til þess að starfa í.
     3. Dómsmálaráðherra getur ákveðið að hluti lögregluliðs skuli gegna lögreglustörfum alls staðar á landinu. Hann setur reglur um störf þess lögregluliðs og hvernig stjórn þess skuli háttað.
     4. Heimilt er að víkja frá ákvæði 2. mgr. í eftirfarandi tilvikum:
  1. Ríkislögreglustjóri getur ákveðið að höfðu samráði við lögreglustjóra að lögreglulið í einu umdæmi skuli tímabundið gegna lögreglustörfum í öðru umdæmi og ákveður þá jafnframt hver skuli fara með stjórn þess. Þá getur dómsmálaráðherra samkvæmt tillögu ríkislögreglustjóra falið lögreglustjórum tímabundið tiltekin löggæsluverkefni utan síns umdæmis ef hagfellt þykir vegna staðhátta.
  2. Lögreglumanni er heimilt að fara út fyrir starfssvæði sitt til þess að ljúka lögregluaðgerð sem hann hefur hafið innan þess. Á sama hátt getur lögreglumaður unnið lögregluverk utan umdæmis síns ef verkefnið krefst þess eða brýna nauðsyn ber til.
  3. Lögreglumanni, sem er að störfum en á leið um annað lögregluumdæmi, er heimilt að hafa afskipti af mönnum sem hann stendur að lögbrotum.

     5. Lögreglumaður skal tilkynna yfirmanni sínum um aðgerðir sínar skv. b- og c-liðum 4. mgr. svo fljótt sem kostur er. Með sama hætti ber að tilkynna lögreglustjóra hlutaðeigandi umdæmis um aðgerðir lögreglumanns.

8. gr.

Lögreglurannsóknir.
     1. Lögregla annast rannsókn brota í samráði við ákærendur.
     2. Rannsókn brots skal að jafnaði hefja í því umdæmi þar sem það er framið, sbr. þó ákvæði a- og b-liða 2. mgr. 5. gr.
     3. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um í hvaða umdæmi brot skuli rannsakað, hvernig stjórn rannsóknar skuli háttað, hvenær brot skuli rannsakað undir stjórn ríkislögreglustjóra skv. a-lið 2. mgr. 5. gr. og hvenær lögreglustjórum sé rétt að leita aðstoðar ríkislögreglustjóra við rannsókn skv. b-lið 2. mgr. 5. gr.
     4. Við embætti lögreglustjórans í Reykjavík skal starfrækt tæknideild sem sinni vettvangsrannsóknum og öðrum slíkum rannsóknum. Tæknideildin skal þjóna öllum lögregluumdæmum og setur dómsmálaráðherra nánari reglur um starfrækslu hennar.

9. gr.

Handhafar lögregluvalds.
     1. Ríkislögreglustjóri, vararíkislögreglustjóri, lögreglustjórar, varalögreglustjórinn í Reykjavík, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, löglærðir fulltrúar lögreglustjóra og lögreglumenn fara með lögregluvald.
     2. Dómsmálaráðherra er heimilt í undantekningartilvikum að fela öðrum starfsmönnum lögreglu lögregluvald tímabundið til að sinna sérstökum verkefnum.
     3. Skipshafnir varðskipa fara með lögregluvald þegar þær annast eða aðstoða við löggæslu.
     4. Ríkistollstjóri, tollstjórar, löglærðir fulltrúar þeirra og tollverðir fara með lögregluvald á sínu starfssviði og þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu.
     5. Hreppstjórar fara með lögregluvald samkvæmt lögum um hreppstjóra.
     6. Héraðslögreglumenn fara með lögregluvald þegar þeir gegna starfinu.
     7. Þeir sem kvaddir eru lögreglu til aðstoðar lögum samkvæmt fara með lögregluvald á meðan þeir gegna starfanum.
     8. Nemar í Lögregluskóla ríkisins fara með lögregluvald þegar þeir gegna lögreglustarfi.

10. gr.

Héraðslögreglumenn.
     1. Lögreglustjóra er heimilt að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra að ráða héraðslögreglumenn til starfa í umdæmi sínu, enda fullnægi þeir skilyrðum í a-, b- og c-liða 2. mgr. 38. gr. laganna.
     2. Hlutverk héraðslögreglumanna er að gegna almennum löggæslustörfum þegar á þarf að halda, þar á meðal að halda uppi lögum og reglu á mannfundum og skemmtunum undir stjórn lögreglumanna.
     3. Dómsmálaráðherra setur reglur um fjölda héraðslögreglumanna og störf þeirra.
     4. Héraðslögreglumenn njóta sömu réttinda og bera sömu skyldur og lögreglumenn á meðan þeir gegna lögreglustörfum.

11. gr.

Samvinna lögreglu við önnur stjórnvöld og stofnanir.
     1. Lögreglan skal aðstoða ákæruvaldið við störf þess.
     2. Lögregla og önnur stjórnvöld og stofnanir skulu hafa gagnkvæmt samstarf varðandi verkefni sem tengjast löggæslu, svo sem forvarnir. Sérstaklega skal lögregla vinna með félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntamálayfirvöldum að forvörnum eftir því sem tilefni gefst til og aðstæður leyfa og upplýsa þessa aðila um málefni sem krefjast afskipta þeirra.

12. gr.

Samstarfsnefndir lögreglu og sveitarfélaga.
     1. Í hverju lögregluumdæmi skal starfa samstarfsnefnd um málefni lögreglunnar. Í henni sitja þrír menn: Lögreglustjóri viðkomandi umdæmis sem jafnframt er formaður nefndarinnar og tveir sveitarstjórnarmenn tilnefndir af hálfu sveitarstjórna þeirra sveitarfélaga sem eru í lögregluumdæminu. Fundi skal halda eigi sjaldnar en tvisvar á ári.
     2. Nefndin er vettvangur fyrir samskipti og samvinnu lögreglunnar og sveitarfélaga í umdæminu. Hún gerir m.a. tillögur um úrbætur í málefnum sem varða löggæslu í umdæmi hennar og beitir sér fyrir því að almenningi verði kynnt starfsemi lögreglunnar.

III. KAFLI
Skyldur lögreglumanna og framkvæmd lögreglustarfa.

13. gr.

Almennar reglur.
     1. Handhafa lögregluvalds ber að sýna árvekni í starfi sínu og kunna glögg skil á skyldum sínum og þeirri ábyrgð sem starfinu fylgir.
     2. Handhafa lögregluvalds ber að rækja starfa sinn af kostgæfni og samviskusemi og ávallt gæta fyllstu hlutlægni og réttsýni. Þeir skulu gæta þess að mönnum verði ekki gert tjón, óhagræði eða miski framar en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur. Ekki mega þeir beita sakaðan mann harðræði fram yfir það sem lög heimila og nauðsynlegt er til þess að vinna bug á mótþróa hans gegn lögmætum aðgerðum né á annan hátt beita hann ólögmætri þvingun í orði eða verki, svo sem með hótunum.
     3. Við framkvæmd starfa sinna skulu handhafar lögregluvalds bera á sér sérstök skilríki er sýni m.a. nafn þeirra og stöðu, ásamt mynd. Ráðherra ákveður notkun lögregluskilríkja með reglugerð.

14. gr.

Valdbeiting.
     Handhöfum lögregluvalds er heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna. Aldrei mega þeir þó ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni.

15. gr.

Aðgerðir í þágu almannafriðar, allsherjarreglu o.fl.
     1. Lögreglu er heimilt að hafa afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu eða koma í veg fyrir yfirvofandi röskun til að gæta öryggis einstaklinga eða almennings eða til að afstýra afbrotum eða stöðva þau.
     2. Í þessu skyni er lögreglu m.a. heimilt að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl á ákveðnum svæðum, svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau, taka í sínar vörslur hættulega muni, vísa á brott eða fjarlægja fólk, fyrirskipa stöðvun eða breytingu á aðgerðum eða starfsemi, fara inn á svæði í einkaeign og fyrirskipa brottflutning fólks af þeim.
     3. Óhlýðnist maður fyrirmælum lögreglu skv. 2. mgr. getur hún gripið til nauðsynlegra ráðstafana á hans kostnað til að koma í veg fyrir að óhlýðni hans valdi tjóni eða stofni almenningi í hættu.
     4. Lögreglu er heimilt að krefjast þess að maður segi til nafns síns, kennitölu og heimilisfangs og sýni skilríki því til sönnunar.
     5. Lögreglu er heimilt að hafa afskipti af málefnum sem samkvæmt lögum heyra undir önnur stjórnvöld ef það er talið nauðsynlegt til að stöðva eða koma í veg fyrir alvarlega röskun á almannafriði og allsherjarreglu og ekki næst til viðkomandi stjórnvalds eða aðgerðir af þess hálfu eru útilokaðar, þýðingarlausar eða fyrirsjáanlegt er að þær muni hefjast of seint. Tilkynna skal hlutaðeigandi stjórnvaldi um aðgerðir lögreglu svo fljótt sem auðið er.

16. gr.

Heimild til handtöku.
     1. Handhafa lögregluvalds er heimilt að handtaka mann og færa á lögreglustöð eða á annan stað þar sem lögregla hefur aðstöðu:
  1. í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu, svo sem ef maður ærist á almannafæri eða veldur þar hneyksli eða hættu á óspektum,
  2. ef hann hefur hér ekki landvistarleyfi,

     2. Lögregla skal gera manni grein fyrir ástæðum þess að hann er færður á starfsstöð lögreglu. Ekki má halda manni lengur en nauðsyn ber til.

17. gr.

Leit á mönnum.
     1. Lögreglu er heimilt ef ástæða er til að leita að vopnum eða öðrum hættulegum munum á hverjum þeim sem fjarlægður er eða handtekinn af lögreglu.
     2. Sé maður vistaður í fangageymslu er lögreglu heimilt að leita á honum og taka til varðveislu muni sem hann hefur á sér og hann getur notað til þess að vinna tjón á sjálfum sér eða öðrum. Ef ástand manns eða aðstæður að öðru leyti gefa tilefni til er heimilt að taka af honum peninga og muni sem hann hefur á sér og hætta þykir á að geti skemmst, eyðilagst eða glatast.
     3. Verðmætum, sem lögregla tekur til varðveislu skv. 2. og 3. mgr., ber að skila aftur þegar maður er látinn laus, enda séu ekki skilyrði til að leggja hald á þau samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

18. gr.

Afskipti af börnum.
     Lögreglu ber að hafa afskipti af börnum yngri en 16 ára sem eru á stöðum þar sem heilsu þeirra eða velferð er alvarleg hætta búin og koma þeim í hendur forsjármanna eða barnaverndaryfirvalda ef nauðsynlegt þykir.

19. gr.

Skylda til að hlýða fyrirmælum lögreglu.
     Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri.

20. gr.

Skylda til að aðstoða lögreglu.
     1. Ef nauðsyn ber til getur lögregla kvatt sér til aðstoðar hvern fulltíða mann, þar á meðal til að afstýra óreglu eða óspektum á almannafæri. Maður er skyldur til að hlýða kvaðningu lögreglu ef hann getur veitt aðstoð án þess að stofna lífi, heilbrigði, velferð eða verulegum hagsmunum sjálfs sín eða nánustu vandamanna í hættu.
     2. Þeir sem kvaddir eru lögreglunni til aðstoðar skv. 1. mgr. fara með lögregluvald meðan þeir gegna starfinu og njóta sömu verndar og aðrir lögreglumenn.

21. gr.

Bann við að tálma lögreglu í störfum sínum.
     Enginn má á neinn hátt tálma því að maður gegni lögreglustörfum.

22. gr.

Þagnarskylda.
     1. Lögreglumönnum og öðru starfsliði lögreglu ber þagnarskylda um þau atvik sem þeim verða kunn í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna. Tekur þetta til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsinga sem varða starfshætti lögreglu og fyrirhugaðar lögregluaðgerðir og annarra upplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, starfsreglum lögreglu eða eðli máls.
     2. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

23. gr.

Afskipti af eigin málum eða nákominna vandamanna.
     Starfsmanni lögreglu er í starfi sínu óheimilt að aðhafast í eigin málum eða nákominna vandamanna nema afskipti hans af máli séu nauðsynleg til verndar lífi eða heilsu manna eða eignum gegn yfirvofandi hættu eða hætta sé á að frestun aðgerðar muni leiða til þess að tilgangi hennar verði ekki náð.

24. gr.

Afskipti af vinnudeilum.
     Lögreglu er óheimilt að hafa önnur afskipti af vinnudeilum en að halda þar, eins og annars staðar, uppi friði og afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum.

25. gr.

Lögreglustörf utan vinnutíma.
     1. Lögreglumanni er heimilt að sinna lögreglustörfum í frítíma sínum ef:
  1. þess er þörf til verndar lífi eða heilsu fólks eða verulegum opinberum hagsmunum,
  2. þess er þörf til að afstýra eða stöðva alvarlegt lögbrot eða
  3. þess er þörf til að handtaka megi mann sem grunaður er um alvarlegan refsiverðan verknað.

     2. Hafi lögreglumaður haft afskipti af máli skv. 1. mgr. ber honum tafarlaust að tilkynna það yfirmanni sínum. Hafi hann unnið slík verk utan starfsumdæmis síns skal hann tilkynna það lögreglustjóra þess umdæmis.

26. gr.

Heimild til að fela lögreglu tollgæslustörf.
     Dómsmálaráðherra er heimilt að ákveða með samkomulagi við fjármálaráðherra að lögreglumenn skuli gegna tollgæslustörfum jafnframt öðrum löggæslustörfum eftir nánari fyrirmælum lögreglustjóra og eftir reglum sem settar eru í samráði við tollgæslustjóra. Þar sem slík starfstilhögun er ákveðin skal þess getið í auglýsingu um starf lögreglumanns.

IV. KAFLI
Um veitingu starfa í lögreglu.

27. gr.

Fjöldi lögreglumanna.
     Ráðherra ákveður á hverjum tíma í samráði við ríkislögreglustjóra að fengnum tillögum hlutaðeigandi lögreglustjóra fjölda lögreglumanna í hverju umdæmi.

28. gr.

Veiting starfa í lögreglu.
     1. Forseti Íslands skipar ríkislögreglustjóra, vararíkislögreglustjóra, lögreglustjóra og varalögreglustjóra í Reykjavík.
     2. Ríkislögreglustjóri, vararíkislögreglustjóri, lögreglustjórar og varalögreglustjóri í Reykjavík skulu fullnægja sömu almennum hæfisskilyrðum og héraðsdómarar til skipunar í embætti. Þó eiga skilyrði um lágmarksaldur ekki við um lögreglustjórana og varalögreglustjóra í Reykjavík.
     3. Dómsmálaráðherra skipar lögreglumenn til lögreglustarfa, enda hafi þeir staðist próf frá Lögregluskóla ríkisins. Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsstig lögreglumanna.
     4. Dómsmálaráðherra getur heimilað lögreglustjóra að ráða mann tímabundið til lögreglustarfa vegna orlofstöku, veikinda- eða slysaforfalla eða tímabundinna leyfa lögreglumanna þó að hann hafi ekki lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins, enda fullnægi hann skilyrðum 2. mgr. 38. gr. laganna, staðan hafi verið auglýst með venjulegum hætti og enginn með próf frá Lögregluskóla ríkisins sótt um hana.

29. gr.

Heitstafur.
     Allir lögreglumenn sem eru skipaðir eða ráðnir til starfa skulu vinna svofellt heit: Því heiti ég og legg við drengskap minn og heiður að lögreglumannsstarfa minn skal ég rækja með kostgæfni og samviskusemi í hvívetna og vinna að því eftir fremsta megni að halda uppi stjórnarskrá lýðveldisins og öðrum lögum þess.

V. KAFLI
Atriði sem varða starfskjör lögreglumanna.

30. gr.

Bótagreiðslur.
     Ríkissjóður skal bæta lögreglumönnum líkamstjón og munatjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Greiða skal bætur fyrir missi framfæranda ef því er að skipta.

31. gr.

Bann við verkföllum.
     Lögreglumenn mega hvorki gera verkfall né taka þátt í verkfallsboðun.

32. gr.

Aukastörf.
     1. Heimilt er að fela lögreglumanni að vinna fyrir sanngjarnt endurgjald aukastörf í þágu ríkisins, enda valdi það ekki vanrækslu á þeim störfum er stöðu hans fylgja.
     2. Áður en lögreglumaður hyggst, samhliða starfi sínu, taka við launuðu starfi í þjónustu annars aðila, ganga í stjórn atvinnufyrirtækis eða stofna til atvinnurekstrar ber honum að skýra lögreglustjóra frá því. Innan tveggja vikna skal lögreglumanni skýrt frá því ef áðurnefnd starfsemi telst ósamrýmanleg stöðu hans og honum bannað að hafa hana með höndum. Bera má slíkt bann undir ríkislögreglustjóra.
     3. Rétt er að banna starfsmanni slíka starfsemi sem í 2. mgr. segir ef það er síðar leitt í ljós að hún megi ekki saman fara starfi hans í þjónustu ríkisins.
     4. Við mat á því hvort starfsemi teljist ósamrýmanleg lögreglustarfi skal horft til þess hvort ástæða er til að ætla að aukastarfið valdi vanrækslu á þeim störfum sem stöðu hans fylgja, ástæða er til að ætla að það brjóti á einhvern hátt í bága við lögreglustarfið eða það geti með öðrum hætti hamlað því að viðkomandi geti sinnt lögreglustarfinu forsvaranlega.
     5. Dómsmálaráðherra setur almennar reglur um hvaða aukastörf teljist heimil.

VI. KAFLI
Löggæslukostnaður.

33. gr.

Kostnaður við rekstur lögreglu.
     Kostnaður af starfsemi lögreglunnar greiðist úr ríkissjóði.

34. gr.

Sérstakur löggæslukostnaður.
     1. Lögreglustjóra er heimilt að binda skemmtanaleyfi því skilyrði að lögreglumenn verði á skemmtistað og jafnframt að leyfishafi greiði kostnað af þeirri löggæslu samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setur.
     2. Enn fremur má í slíkum reglum kveða á um greiðslu kostnaðar af gæslustörfum vegna framkvæmda á almannafæri og flutnings á óvenjulegum eða hættulegum farmi þar sem lögreglustjóri telur nauðsynlegt að fyrirskipa slíka löggæslu.

VII. KAFLI
Kærur á hendur lögreglu.

35. gr.

     Berist kæra á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans, eða vakni grunur um slíkt brot, skal lögreglustjóri þegar í stað tilkynna ríkissaksóknara um ætlað brot. Ríkissaksóknari stýrir rannsókn málsins.

VIII. KAFLI
Lögregluskóli ríkisins.

36. gr.

Hlutverk Lögregluskóla ríkisins.
     1. Lögregluskóli ríkisins er sjálfstæð stofnun. Skólinn skal starfrækja grunnnámsdeild er veiti lögreglunemum menntun í almennum lögreglufræðum og framhaldsdeild er veiti starfandi lögreglumönnum símenntun, framhaldsmenntun og sérmenntun.
     2. Lögregluskóli ríkisins skal vera vettvangur rannsókna í lögreglufræðum og stjórnvöldum til ráðgjafar um lögreglumálefni.

37. gr.

Stjórn Lögregluskóla ríkisins.
     1. Forseti Íslands skipar skólastjóra Lögregluskóla ríkisins. Hann skal fullnægja sömu skilyrðum fyrir skipan í embætti og lögreglustjórar og hafa staðgóða þekkingu á lögreglumálefnum.
     2. Við Lögregluskóla ríkisins skulu starfa yfirlögregluþjónn og aðstoðaryfirlögregluþjónn sem dómsmálaráðherra skipar.

38. gr.

Inntaka nýnema og námstilhögun.
     1. Ríkislögreglustjóri auglýsir eftir nemum í skólann um land allt. Hann ákveður fjölda nemenda sem hefja skulu nám ár hvert á grundvelli áætlunar um endurnýjun í lögreglu ríkisins.
     2. Lögreglumannsefni skulu fullnægja eftirtöldum almennum skilyrðum:
  1. vera íslenskir ríkisborgarar, 20 til 35 ára og ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum,
  2. vera andlega og líkamlega heilbrigð og standast læknisskoðun trúnaðarlæknis,
  3. hafa lokið a.m.k. tveggja ára almennu framhaldsnámi eða öðru sambærilegu námi með fullnægjandi árangri, þau skulu hafa gott vald á íslensku, einu Norðurlandamáli auk ensku eða þýsku, þau skulu hafa almenn ökuréttindi til bifreiðaaksturs, lögreglumannsefni skulu synd,
  4. standast inntökupróf samkvæmt kröfum skólanefndar með áherslu á íslensku og þrek.

     3. Valnefnd velur nema í lögregluskólann úr hópi umsækjenda. Nefndina skipa fimm menn, einn tilnefndur af dómsmálaráðherra, einn af ríkislögreglustjóra, einn af Sýslumannafélagi Íslands, einn af Landssambandi lögreglumanna og einn af skólastjóra Lögregluskóla ríkisins er skal vera formaður nefndarinnar.
     4. Nám í lögregluskólanum skiptist í tvær annir og skal nám á fyrri önn ólaunað. Áður en nám á síðari önn hefst skal ríkislögreglustjóri sjá nemum fyrir starfsþjálfun í lögreglu ríkisins í a.m.k. átta mánuði. Nám á síðari önn skólans skal vera launað.

39. gr.

Reglugerð um Lögregluskóla ríkisins.
     Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um stjórn skólans og starfslið, inntökuskilyrði, námstilhögun og prófkröfur.

IX. KAFLI
Ýmis ákvæði.

40. gr.

Nánari reglur um framkvæmd laganna.
     Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

41. gr.

Refsingar.
     Brot gegn 19.–21. gr. varða fésektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

42. gr.

Gildistaka.
     1. Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1997.
     2. Frá sama tíma falla úr gildi lög um lögreglumenn, nr. 56/1972, ásamt síðari breytingum. Þá falla úr gildi lög um rannsóknarlögreglu ríkisins, nr. 108/1976, ásamt síðari breytingum.

43. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara breytast eftirfarandi lagaákvæði:
  1. Í stað orðanna „(rannsóknarlögreglustjóra ríkisins)“ í 1. málsl. 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, kemur: (ríkislögreglustjóra).
  2. Í stað orðanna „lögreglustjórinn í Reykjavík“ í 2. mgr. 4. gr. laga um almannavarnir, nr. 94/1962, kemur: ríkislögreglustjóri.
  3. 1. mgr. 5. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25/1967, orðast svo:
  4.      Skipshafnir varðskipa fara með lögregluvald þegar þær annast eða aðstoða við löggæslu.
  5. 1. málsl. 2. mgr. 108. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, fellur brott.
  6. Í stað orðanna „Rannsóknarlögreglu ríkisins“ í 2. málsl. 8. mgr. 28. gr. og 5. mgr. 31. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, kemur: lögreglu. 1. málsl. 2. mgr. 31. gr. sömu laga fellur brott.
  7. Í stað orðanna „lögreglustjórinn í Reykjavík“ í 2. mgr. 113. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, kemur: ríkislögreglustjóri.
  8. Í stað orðanna „Rannsóknarlögreglu ríkisins“ í 9. mgr. 27. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, kemur: lögreglu. 1. málsl. 2. mgr. 41. gr. sömu laga fellur brott.
  9. Við 1. mgr. 22. gr. laga um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992, bætist nýr málsliður sem hljóðar svo: Lögreglustjóri skal sjá um að lögreglurannsókn fari fram þegar eftir brunatjón.
  10. Í stað orðsins „rannsóknarlögreglustjóri“ í 1. mgr. 9. gr. laga um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992, kemur: ríkislögreglustjóri.
  11. Í stað orðanna „lögreglustjórinn í Reykjavík“ í 1. mgr. 20. gr. laga um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965, kemur: ríkislögreglustjóri.
  12. Í stað orðsins „lögreglumönnum“ í 4. mgr. 52. gr. laga um loftferðir, nr. 34/1964, kemur: lögreglu.
  13. Í stað orðsins „lögreglumönnum“ í 3. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, kemur: lögreglu.
  14. Í stað orðsins „lögreglumönnum“ í 1. mgr. 32. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, kemur: lögreglu.
  15. Í stað orðsins „lögreglumönnum“ í 3. mgr. 36. gr. og 2. mgr. 60. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991, kemur: lögreglu.
  16. Í stað orðanna „lögreglumenn liðsinna við aðför skulu þeir að jafnaði vera óeinkennisklæddir“ í 3. mgr. 75. gr. barnalaga, nr. 20/1992, kemur: lögregla liðsinnir við aðför skal hún að jafnaði vera óeinkennisklædd.


X. KAFLI
Ákvæði til bráðabirgða.

44. gr.

Niðurlagning Rannsóknarlögreglu ríkisins.
     1. Starfsmenn Rannsóknarlögreglu ríkisins skulu við skipun í nýtt starf njóta áunninna réttinda sinna.
     2. Dómsmálaráðherra skipar nefnd fimm manna til ráðgjafar og eftirlits með niðurlagningu Rannsóknarlögreglu ríkisins og skipun starfsmanna hennar í stöður við embætti ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans í Reykjavík og önnur embætti. Ráðherra skipar einn fulltrúa í nefndina án tilnefningar. Eftirtaldir aðilar skulu tilnefna hina fjóra: starfsmenn Rannsóknarlögreglu ríkisins, Landssamband lögreglumanna, Stéttarfélag lögfræðinga í ríkisþjónustu og Sýslumannafélag Íslands.

Samþykkt á Alþingi 4. júní 1996.