Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1111, 122. löggjafarþing 444. mál: almenn hegningarlög (tölvubrot).
Lög nr. 30 8. apríl 1998.

Lög um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 (tölvubrot).


1. gr.

     Við 155. gr. laganna bætist ný málsgrein, sem verður 2. mgr., svohljóðandi:
     Sömu refsingu varðar að nota fölsuð gögn, sem geymd eru á tölvutæku formi, til að blekkja með þeim í lögskiptum.

2. gr.

     Við 157. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um notkun ófalsaðra gagna sem geymd eru á tölvutæku formi.

3. gr.

     Við 158. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga einnig við um rangfærslu og notkun upplýsinga og gagna sem geymd eru á tölvutæku formi.

4. gr.

     Við 1. mgr. 228. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sömu refsingu skal sá sæta sem á ólögmætan hátt verður sér úti um aðgang að gögnum eða forritum annarra sem geymd eru á tölvutæku formi.

5. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 249. gr. a, svohljóðandi:
     Ef maður á ólögmætan hátt breytir, bætir við eða eyðileggur tölvuvélbúnað, eða gögn eða forrit sem geymd eru á tölvutæku formi, eða hefur með öðrum hætti gert ráðstafanir sem eru til þess fallnar að hafa áhrif á niðurstöðu tölvuvinnslu, varðar það fangelsi allt að 6 árum.

6. gr.

     Við 1. mgr. 257. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sömu refsingu varðar að breyta, bæta við, þurrka út eða eyðileggja með öðrum hætti án heimildar gögn eða forrit sem geymd eru á tölvutæku formi og ætluð eru til tölvuvinnslu.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 31. mars 1998.