Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 959, 123. löggjafarþing 351. mál: almenn hegningarlög (reynslulausn o.fl.).
Lög nr. 24 16. mars 1999.

Lög um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (reynslulausn o.fl.).


1. gr.

     40. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1976 og 4. gr. laga nr. 42/1985, orðast svo:
     Þegar fangi hefur afplánað 2/ 3 hluta refsitímans getur Fangelsismálastofnun ríkisins ákveðið að fanginn skuli látinn laus til reynslu.
     Reynslulausn má þó veita, ef sérstaklega stendur á, þegar liðinn er helmingur refsitímans.
     Reynslulausn verður ekki veitt ef slíkt þykir óráðlegt vegna haga fangans, enda skal honum vís hentugur samastaður og vinna eða önnur kjör sem nægja honum til framfærslu. Yfirlýsing hans skal og fengin um að hann vilji hlíta þeim skilyrðum sem sett eru fyrir reynslulausn.
     Þegar fangi fær lausn til reynslu skal afhenda honum skírteini er greini skilyrði fyrir reynslulausn og hverju skilorðsrof varði.
     Þegar hluti fangelsisrefsingar er óskilorðsbundinn en hluti skilorðsbundinn verður reynslulausn ekki veitt. Sama gildir þegar fangi afplánar vararefsingu fésektar.

2. gr.

     41. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 16/1976 og 5. gr. laga nr. 82/1998, orðast svo:
     Reynslutími skal vera allt að 3 árum. Nú er óafplánað fangelsi lengra en 3 ár, og má þá ákveða reynslutíma allt að 5 árum.
     Það er skilyrði reynslulausnar að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslutíma. Ákveða má að reynslulausn skuli vera bundin því skilyrði að aðili sé háður umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar ríkisins eða annars aðila sem hún ákveður, allan eða nánar tiltekinn hluta reynslutímans. Enn fremur má binda reynslulausn þeim skilyrðum, nokkrum eða öllum, sem greinir í 3. mgr. 57. gr. Skilyrði um vistun á hæli getur þó eigi staðið lengur en til loka refsitímans.
     Fangelsismálastofnun ríkisins tekur ákvarðanir skv. 1. og 2. mgr. og getur vegna breyttra ástæðna fellt skilyrði niður að nokkru leyti eða öllu.

3. gr.

     42. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 16/1976, 5. gr. laga nr. 42/1985 og 6. gr. laga nr. 82/1998, orðast svo:
     Nú fremur aðili nýtt brot eftir að hann hlýtur reynslulausn og rannsókn hefst hjá lögreglu gegn honum sem sakborningi fyrir lok reynslutíma, og ákveður þá dómstóll sem fjallar um mál þetta refsingu í einu lagi fyrir brot það sem nú er dæmt um og svo með hliðsjón af fangelsisrefsingu sem óafplánuð er samkvæmt reglum 60. gr. þannig að fangelsi samkvæmt eldra dómi er virt með sama hætti og skilorðsdómur.
     Rjúfi aðili skilorð að öðru leyti getur Fangelsismálastofnun ríkisins ákveðið hvort breytt skuli skilyrðum og reynslu- og/eða tilsjónartími lengdur allt að lögmæltu hámarki hans eða að aðili taki út refsingu sem eftir stendur.
     Nú er ekki tekin ákvörðun um að aðili afpláni fangelsisrefsingu sem hann átti ólokið, sbr. 1. og 2. mgr., og telst refsingu þá fullnægt á því tímamarki sem aðili fékk reynslulausn.
     Nú er ákveðið að láta aðila taka út eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sbr. 2. mgr., og má þá veita reynslulausn á ný þótt eigi sé fullnægt skilyrðum 1. og 2. mgr. 40. gr. Í þessu tilviki gilda ákvæði 41. gr. um reynslutíma en þó þannig að dreginn skal frá sá tími sem hann hefur notið reynslulausnar áður.
     Nú er aðili sem sætt hefur nokkrum hluta fangelsisrefsingar náðaður skilorðsbundið, og er þá heimilt að setja honum þau skilyrði að hann hlíti ákvæðum 1.–4. mgr.

4. gr.

     4. mgr. 56. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 22/1955, orðast svo:
     Mál aðila má taka upp að nýju ef rannsókn hefst hjá lögreglu gegn honum sem sakborningi áður en skilorðstíma lýkur út af nýju broti sem hann hefur framið á skilorðstímanum eða áður en máli var frestað, svo og ef hann rýfur ella í veigamiklum atriðum skilyrði þau sem honum voru sett.

5. gr.

     58. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 22/1955 og 12. gr. laga nr. 84/1996, orðast svo:
     Þegar umsjón er gerð að skilyrði fer Fangelsismálastofnun ríkisins með hana eða felur umsjónina öðrum aðila. Fangelsismálastofnun getur af sjálfsdáðum eða eftir tilmælum aðila breytt fyrirmælum sem aðila hafa verið sett skv. 2., 5. og 6. tölul. 3. mgr. 57. gr.
     Nú hefur aðila verið sett skilyrði um dvöl á hæli skv. 4. tölul. 3. mgr. 57. gr., og getur Fangelsismálastofnun þá vegna breyttra ástæðna fellt skilyrðið niður að nokkru leyti eða öllu, að fengnum tillögum forstöðumanns hælis, ef því er að skipta.

6. gr.

     1. mgr. 59. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 20/1981 og 12. gr. laga nr. 84/1996, orðast svo:
     Ef aðili rýfur í verulegum atriðum skilyrði þau eða fyrirmæli sem honum hafa verið sett skv. 1.–6. tölul. 3. mgr. 57. gr. getur ákærandi krafist þess að dómari taki málið fyrir að nýju, enda sé skilorðstími ekki liðinn þegar rannsókn á skilorðsrofi hefst hjá lögreglu gegn viðkomandi manni.

7. gr.

     1. málsl. 60. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 20/1981, orðast svo: Nú hefst rannsókn hjá lögreglu gegn manni sem sakborningi fyrir lok skilorðstíma, og er dómstólum þá heimilt að dæma refsingu fyrir það brot sér í lagi án skilorðs, en láta skilorðsdóm haldast.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 3. mars 1999.