Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1483, 131. löggjafarþing 67. mál: almenn hegningarlög (bann við limlestingu á kynfærum kvenna).
Lög nr. 83 24. maí 2005.

Lög um breytingar á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (bann við limlestingu á kynfærum kvenna).


1. gr.

     Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Í þeim tilvikum sem greinir í 2. tölul. 1. mgr. skal refsað eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot manns, sem var íslenskur ríkisborgari eða búsettur hér á landi á verknaðarstundu, er fellur undir 218. gr. a og framið er erlendis þrátt fyrir að verknaðurinn teljist ekki refsiverður eftir lögum þess ríkis.

2. gr.

     Síðari málsliður 1. mgr. 82. gr. laganna orðast svo: Fyrningarfrestur vegna brota samkvæmt ákvæðum 194.–202. gr. og 218. gr. a telst þó eigi fyrr en frá þeim degi er brotaþoli nær 14 ára aldri.

3. gr.

     Á eftir 218. gr. laganna kemur ný grein, 218. gr. a, svohljóðandi:
     Hver sem með líkamsárás veldur tjóni á líkama eða heilsu stúlkubarns eða konu með því að fjarlægja kynfæri hennar að hluta eða öllu leyti skal sæta fangelsi allt að 6 árum. Nú hefur árás í för með sér stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hlýst af, eða hún telst sérstaklega vítaverð vegna þeirrar aðferðar sem notuð er, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.

4. gr.

     Í stað orðanna „217. eða 218. gr.“ í 218. gr. a laganna, er verður 218. gr. b, kemur: 217., 218. eða 218. gr. a.

5. gr.

     219. gr. laganna orðast svo:
     Ef tjón á líkama eða heilbrigði, slíkt sem í 218. gr. eða 218. gr. a getur, hlýst af gáleysi annars manns, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 4 árum.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2005.