Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1390, 133. löggjafarþing 20. mál: almenn hegningarlög (kynferðisbrot).
Lög nr. 61 27. mars 2007.

Lög um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 (kynferðisbrot).


1. gr.

     Við 81. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., sem orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. fyrnist sök vegna brota samkvæmt ákvæðum 194. gr., 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 201. gr. ekki þegar brot er framið gagnvart barni undir 18 ára aldri.

2. gr.

     Síðari málsliður 1. mgr. 82. gr. laganna orðast svo: Fyrningarfrestur vegna brota samkvæmt ákvæðum 197. gr., 198. gr., 199. gr., 2.–3. mgr. 200. gr., 2. mgr. 201. gr., 202. gr. og 218. gr. a telst þó eigi fyrr en frá þeim degi er brotaþoli nær 18 ára aldri.

3. gr.

     194. gr. laganna orðast svo:
     Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.
     Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.

4. gr.

     195. gr. laganna orðast svo:
     Þegar refsing fyrir brot gegn 194. gr. er ákveðin skal virða það til þyngingar:
  1. ef þolandi er barn yngra en 18 ára,
  2. ef ofbeldi geranda er stórfellt,
  3. ef brotið er framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt.


5. gr.

     196. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

     197. gr. laganna orðast svo:
     Ef umsjónarmaður eða starfsmaður í fangelsi, annarri stofnun á vegum lögreglu, fangelsisyfirvalda eða barnaverndaryfirvalda, geðdeild sjúkrahúss, heimili fyrir andlega fatlað fólk eða annarri slíkri stofnun hefur samræði eða önnur kynferðismök við vistmann á stofnuninni varðar það fangelsi allt að 4 árum.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 198. gr. laganna:
  1. Orðin „utan hjónabands eða óvígðrar sambúðar“ í 1. mgr. falla brott.
  2. 2. mgr. fellur brott.


8. gr.

     199. gr. laganna orðast svo:
     Hver sem gerist sekur um kynferðislega áreitni skal sæta fangelsi allt að 2 árum. Kynferðisleg áreitni felst m.a. í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur í táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 200. gr. laganna:
  1. Í stað „2 ára“ í 2. mgr. kemur: 4 ára.
  2. Í stað „4 ára“ í 2. mgr. kemur: 6 ára.


10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 201. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 18 ára, sem er kjörbarn hans, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða tengt honum þannig fjölskylduböndum í beinan legg eða barn, sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis, skal sæta fangelsi allt að 8 árum og allt að 12 ára fangelsi sé barn yngra en 16 ára.
  3. Í stað „2 árum“ í 2. mgr. kemur: 4 árum.
  4. Í stað „4 ára“ í 2. mgr. kemur: 6 ára.


11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 202. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „14 ára“ í 1. mgr. kemur: 15 ára, og í stað orðanna „allt að 12 árum“ í sömu málsgrein kemur: ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum.
  2. Við 1. mgr. bætist svohljóðandi málsliður: Lækka má refsingu eða láta hana falla niður, ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi.
  3. Í stað „4 árum“ í 2. mgr. kemur: 6 árum.
  4. Í stað orðsins „ungmenni“ í 3. mgr. kemur: barn.
  5. Orðin „eða ungmenni“ í 4. mgr. falla brott.


12. gr.

     205. gr. laganna orðast svo:
     Nú hefur sá sem sæta skal refsingu fyrir eitthvert þeirra kynferðisbrota sem að framan greinir áður verið dæmdur sekur um slíkt brot og má þá hækka refsingu svo að bætt sé við hana allt að helmingi hennar.

13. gr.

     206. gr. laganna orðast svo:
     Hver sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af vændi annarra skal sæta fangelsi allt að 4 árum.
     Sömu refsingu varðar það að ginna, hvetja eða aðstoða barn yngra en 18 ára til vændis.
     Sömu refsingu varðar það einnig að stuðla að því að nokkur maður flytji úr landi eða til landsins í því skyni að hann stundi vændi sér til viðurværis.
     Hver sem stuðlar að því með ginningum, hvatningum eða milligöngu að aðrir hafi samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu eða hefur tekjur af vændi annarra, svo sem með útleigu húsnæðis eða öðru, skal sæta fangelsi allt að 4 árum en sektum eða fangelsi allt að 1 ári ef málsbætur eru.
     Hver sem í opinberri auglýsingu býður fram, miðlar eða óskar eftir kynmökum við annan mann gegn greiðslu skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.

14. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 2. gr. gildir einnig um brot sem framin eru fyrir gildistöku laga þessara, enda sé fyrningarfrestur þeirra ekki hafinn.

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2007.