Þingmanna­nefndir EFTA og EES

Committee of Members of Parliament of the EFTA Countries, CMP

Gagnleg vefföng


Markmið, uppbygging og starfsemi þingmanna­nefndar EFTA

Þingmanna­nefnd EFTA (Committee of Members of Parliament of the EFTA Countries, CMP) var stofnuð árið 1977 og hafði það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Umsvif og starfsemi nefndarinnar fór vaxandi þegar samninga­viðræður hófust um Evrópska efnahags­svæðið (EES) árið 1989. Mikilvægi hennar jókst enn þegar EES-samningurinn tók gildi 1. janúar 1994, en fulltrúar nefndarinnar skipa EFTA-hluta hinnar sameiginlegu þingmanna­nefndar EES.

Þing­manna­­nefnd EFTA fjallar um starfsemi EFTA, gerð fríverslunar­­samninga, málefni EES og ESB og efnahags- og viðskiptamál almennt, og hefur sem fyrr segir það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss og sitja þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja í þing­manna­nefnd EFTA. Þar sem Sviss­­lendingar ákváðu að standa utan við EES varð þing­manna­­nefnd EFTA að formi til tvískipt, með gildistöku EES-samningsins, þ.e. annars vegar upphaflega nefndin, með aðildar­ríkjunum fjórum, og hins vegar nefnd ríkjanna þriggja sem mynda EFTA-hluta EES (Members of Parliament of the EFTA States, MPS). Nefndirnar halda hins vegar ávallt fundi saman og því sitja Sviss­­lendingar sem áheyrnar­­fulltrúar þegar rædd eru málefni sem eingöngu varða EES-hluta nefndarinnar. Sviss á einnig áheyrnar­aðild að fundum hinnar sameiginlegu þing­manna­­nefndar EES. Til einföldunar er þó yfirleitt talað um fundi þing­manna­nefndar EFTA (EFTA Parliamentary Committee) þótt í raun sé um báðar nefndirnar að ræða, þ.e. eldri EFTA-nefndina og EES-hluta þing­manna­­nefndarinnar.

Þing­manna­­nefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári. Fundir nefndarinnar eru yfirleitt haldnir í tengslum við fundi hennar með ráðherraráði EFTA og fundi hinnar sameiginlegu þingmanna­nefndar EES sem eru haldnir tvisvar á ári. Í nefndinni eru 20 manns og þar af fimm frá Alþingi. Á milli funda hittist framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar, en hún gerir tillögur að dagskrá og verkefnum þingmanna­nefndarinnar, auk þess sem hún fjallar um aðkallandi mál. Í framkvæmda­stjórn situr einn fulltrúi frá hverju EFTA-landi með atkvæðisrétt, en heimilt er einum fulltrúa til viðbótar frá hverju landi að sitja fundi án atkvæðisréttar. Frá Íslands­deildinni hefur einn fulltrúi stjórnarandstöðu að jafnaði sótt fundi framkvæmda­stjórnarinnar auk formanns. Þing­manna­­nefnd EFTA hefur einnig samstarf við þingmenn frá samstarfs­­ríkjum samtakanna, þ.e. þeim ríkjum sem EFTA hefur gert samstarfs- og fríverslunar­samninga við (svo sem ríki Mið- og Austur-Evrópu og ríki á Miðjarðarhafssvæðinu). Þessi þáttur í starfi EFTA fer vaxandi.


Sameiginleg þing­manna­nefnd EES (EEA Joint Parliamentary Committee, EEA JPC)

Þing­manna­nefnd EFTA vann ötullega að því, í samvinnu við Evrópu­þingið, að í samningnum um EES væri gert ráð fyrir sameiginlegri þing­manna­­nefnd (95. gr. samningsins). Í hinni sameiginlegu þing­manna­­nefnd EES eru nú 24 þingmenn, 12 frá Evrópu­­þinginu og 12 frá EES-aðildarríkjum EFTA. Af þessum 12 fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Hin sameiginlega þing­manna­nefnd EES á að fylgjast með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefa álit sitt á EES-málum. Nefndin hittist tvisvar á ári, en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda nefndarinnar. Í framkvæmda­stjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópu­­þinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmanna­­nefndar EES og Evrópu­þingið skiptast á um formennsku í nefndinni. Frá upphafi hefur hin sameiginlega þingmanna­nefnd EES haft frumkvæði að því að semja skýrslur um málefni sem hún hefur viljað skoða sérstaklega og eru þær svo ræddar á fundum nefndarinnar. Fyrir hverja skýrslu eru tilnefndir tveir framsögumenn, annar úr hópi EFTA-þingmanna og hinn úr hópi Evrópu­­þingmanna, og semja þeir jafnframt drög að ályktunum. Ályktanir sem samþykktar eru á grundvelli þessara skýrslna eru síðan sendar ráðherraráði EES, sameiginlegu EES-nefndinni, þingum EFTA-EES-ríkjanna, Evrópu­þinginu og utanríkis­viðskiptanefnd þess sem og Evrópu­nefndum þjóðþinga ESB. Með því að taka skipulega fyrir skýrt afmörkuð málefni hefur þingmanna­nefnd EES möguleika á að hafa áhrif á þróun EES-samningsins.

Vefur EFTA.