Leiðbeiningar um notkun lagasafns

Til leiðbeiningar um notkun lagasafns

  1. Upphaf hverrar greinar er auðkennt með fylltum ferningi.
  2. Málsgrein byrjar alltaf á nýrri línu og er upphaf hennar auðkennt með opnum ferningi.
  3. Töluliðir og stafliðir byrja á nýrri og inndreginni línu.
  4. Neðanmálsgreinar birtast eftir hverja lagagrein eða við heiti laga eða kafla þar sem við á.
  5. Breytingar og viðaukar, sem eru felldir inn í eldri lög, eru innan hornklofa. Tölustafur aftan við síðari hornklofann vísar til neðanmálsgreinar þar sem breytingarlaganna er getið.
  6. Athugasemdir til frekari skýringar eru í neðanmálsgreinum þar sem efni hefur þótt til.
  7. Stundum kemur aðeins greinarnúmer fram í lögum með punktalínu til marks um úrfellingu í stað texta ákvæðisins en engin neðanmálsgrein til skýringar á brottfalli textans. Í slíkum lagagreinum hefur verið mælt fyrir um atriði varðandi gildistöku laganna, brottfall annarra lagaákvæða eða tengsl eldri laga og yngri. Það sama getur átt við um málsgrein, eina eða fleiri, innan lagagreinar sem er birt að öðru leyti. Með samsvarandi hætti hefur texti bráðabirgðaákvæða við lög í ýmsum tilvikum verið felldur niður og í hans stað sett punktalína án neðanmálsgreinar til skýringar á afdrifum hans. Þetta hefur verið gert í tilvikum þar sem sýnilegt hefur þótt að bráðabirgðaákvæði hafi ekki lengur raunhæft gildi, en í lagasafninu eiga þá að standa eftir nægilegar upplýsingar til að finna megi upphaflega textann í Stjórnartíðindum, hvort sem er í viðkomandi stofnlögum eða lögum sem síðar voru sett til breytingar á þeim. Heildartexta laga er í flestum tilvikum hægt að finna á vef Alþingis undir Lagasafn, Lög samþykkt á Alþingi (stjórnartíðindanúmer laga).
  8. Áður tíðkaðist að birta ekki í lagasafninu texta laga sem höfðu í reynd lokið hlutverki sínu eða þóttu ekki lengur hafa raunhæft gildi þótt þau hefðu ekki verið felld brott með öðrum lögum og væru því að formi til enn í gildi. Nokkuð er enn af slíkum lögum í lagasafninu og er þá aðeins greint frá númeri, ártali, dagsetningu og heiti þeirra, ásamt upplýsingum um gildistöku og tilvísun til eldra lagasafns eða Stjórnartíðinda um texta laganna og til ferils málsins á Alþingi og frumvarps til laganna ef því er að skipta.
  9. Þurfi notandi lagasafns að taka upp tilvitnun af fullkominni nákvæmni ber til öryggis að líta til frumtexta í Stjórnartíðindum þar sem að í eldri útgáfum var lagatexti ekki alltaf nákvæmlega eins og hann var birtur í Stjórnartíðindum. Stafsetning var þá löguð að gildandi reglum, augljósar ritvillur leiðréttar og skammstafanir samræmdar, auk uppsetningar fyrirsagna.
  10. Á eftir heiti og númeri hverra laga er gildistökudagur þeirra tilgreindur, svo og öll breytingalög og gildistökudagur þeirra. Þegar við á er einnig tiltekið ef lög eru sett vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum. Er þá tiltekið hvaða stofngerð lögin eru reist á og undir hvaða viðauka samningsins lögin heyra. Þar á eftir kemur fram hvaða ráðherra eða ráðuneyti fer með lögin, en þar liggur til grundvallar forsetaúrskurður um málefnasvið ráðuneyta.

Helstu skammstafanir

  • augl. auglýsing
  • ákv. ákvæði
  • brbákv. bráðabirgðaákvæði
  • forsbr. forsetabréf
  • gr. grein
  • konbr. konungsbréf
  • l. lög
  • mgr. málsgrein
  • málsl. málsliður
  • rg. reglugerð
  • rgl. reglur
  • samþ. samþykkt
  • stjskr. stjórnarskrá
  • Stjtíð. Stjórnartíðindi
  • tilsk. tilskipun
  • tölul. töluliður