Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 119. Uppfært til 1. október 1995.


Lög um bifreiðagjald

1988 nr. 39 20. maí


1. gr.
     Greiða skal til ríkissjóðs bifreiðagjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi eins og nánar er ákveðið í lögum þessum.
     Með gjaldskyldri bifreið samkvæmt lögum þessum er átt við vélknúið ökutæki sem uppfyllir eitt eða fleiri eftirtalinna skilyrða:
a.
Vélknúið ökutæki sem aðallega er ætlað til fólks- eða vöruflutninga og er á fjórum hjólum eða fleiri, eða á þremur hjólum, og er 400 kg að eigin þyngd eða meira og hannað er til hraðari aksturs en 30 km á klukkustund eða aka má svo hratt án verulegra breytinga.
b.
Vélknúið ökutæki sem aðallega er ætlað til að draga annað ökutæki og hannað er til hraðari aksturs en 30 km á klukkustund.
c.
Vélknúið ökutæki sem aðallega er ætlað til fólks- eða vöruflutninga eða til að draga annað ökutæki og er búið beltum og eftir atvikum stýrimeiðum/stýrihjólum og er 400 kg að eigin þyngd eða meira.
d.
Fjórhjól er fellur í vörulið 8703 í viðauka I við tollalög, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

     Verði ágreiningur um gjaldskyldu bifreiðar sker fjármálaráðherra úr.

2. gr.
     [Bifreiðagjald skal vera 5,62 kr. fyrir hvert kílógramm af eigin þyngd bifreiðar. Sé bifreið þyngri en 1.000 kg skal að auki greiða 3,65 kr. fyrir hvert kílógramm af eigin þyngd bifreiðar sem er umfram 1.000 kg. Þó skal aldrei greiða lægra gjald en 2.870 kr. né hærra gjald en 18.136 kr. af hverri bifreið á hverju gjaldtímabili, sbr. 1. mgr. 3. gr.]1)

1)L. 122/1993, 39. gr.


3. gr.
     Gjalddagar bifreiðagjalds eru 1. janúar ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. janúar til 30. júní og 1. júlí ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. júlí til 31. desember, en eindagi er síðasti dagur næsta mánaðar eftir gjalddaga. Skal gjaldið innheimtast þar sem bifreið er skráð á gjalddaga.
     Gjald vegna nýskráðra bifreiða skal greiðast í hlutfalli við skráningartíma þeirra á gjaldtímabilinu og telst gjaldskyldan frá og með afhendingu skráningarmerkis. Gjaldið reiknast fyrir heila mánuði þannig að 15 dagar eða fleiri teljast heill mánuður, en færri dögum skal sleppt. Bifreiðagjald vegna nýskráðra bifreiða skal þó aldrei vera lægra en 500 kr. Gjald vegna nýskráðra bifreiða fellur í eindaga við skráningu.
     Bifreiðagjald skal sá greiða sem er skráður eigandi á gjalddaga. Hafi orðið eigandaskipti að bifreið án þess að þau hafi verið tilkynnt til skráningar hvílir greiðsluskyldan jafnframt á hinum nýja eiganda.
     Eigi skal endurgreiða gjald af bifreið sem greitt hefur verið af þótt eigandaskipti verði, hún flutt í annað skráningarumdæmi eða afskráð. Gildir greiðslan fyrir bifreiðina hver sem eigandi hennar er eða hvert sem hún er flutt á landinu.
     Fjármálaráðherra er heimilt að endurgreiða, lækka eða fella niður bifreiðagjald af bifreiðum í eigu öryrkja og björgunarsveita, [bifreiðum sem ekki eru í notkun]1) svo og bifreiðum sem eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs. Getur hann í reglugerð kveðið nánar á um hverjir falli undir undanþáguheimild þessa og önnur skilyrði sem hann telur nauðsynleg.

1)L. 122/1993, 40. gr.


4. gr.
     Við árlega aðalskoðun bifreiðar, sem gjaldskyld er samkvæmt þessum lögum, skal eigandi hennar eða umráðamaður færa sönnur á að greitt hafi verið af henni gjaldfallið bifreiðagjald. Að öðrum kosti skal skoðunarmaður neita um skoðun á bifreiðinni, taka af henni skráningarmerki og afhenda þau lögreglustjóra. Lögreglustjóri skal ekki afhenda þau aftur fyrr en færðar hafa verið sönnur á greiðslu bifreiðagjaldsins.
     Skráning eða umskráning bifreiða skal ekki fara fram nema gjaldfallið bifreiðagjald hafi áður verið greitt af henni.
     Ef bifreiðagjald er ekki greitt fyrir eindaga skal lögreglustjóri, eftir kröfu innheimtumanns, taka af bifreiðinni skráningarmerki til geymslu svo sem að framan segir.

5. gr.
     Bifreiðagjald skv. 2. gr. og lágmarksgjald skv. 3. gr. eru grunngjöld. Fjármálaráðherra er heimilt að hækka gjöld þessi í réttu hlutfalli við hækkun sem kann að verða á vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög nr. 42/1987. [Grunngjöld bifreiðagjalds og lágmarksgjalds eru miðuð við vísitölu 1. janúar 1994.]1)

1)L. 122/1993, 41. gr.


6. gr.
     Sé bifreiðagjald ekki greitt í síðasta lagi á eindaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti, sbr. III. kafla laga nr. 25/1987, af því sem ógreitt er talið frá og með gjalddaga.

7. gr.
     Innheimtu bifreiðagjalds annast [tollstjórar]1) og fer um reikningsskil eftir því sem fjármálaráðherra ákveður. Heimilt er að fela Bifreiðaeftirliti ríkisins innheimtu bifreiðagjalds.
     Bifreiðagjald nýtur lögtaksréttar.

1)L. 92/1991, 98. gr.


8. gr.
     Fjármálaráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara í reglugerð.1)

1)Rg. 590/1987, sbr. 526/1993.


9. gr.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. ...

Ákvæði til bráðabirgða.

[I.–III.]1)
...

1)L. 6/1990 og 11/1990.