Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 119. Uppfært til 1. október 1995.


Lög um Bjargráðasjóð

1972 nr. 51 26. maí


1. gr.
     Bjargráðasjóður er sjálfstæð stofnun, sameign ríkisins, sveitarfélaganna og Stéttarsambands bænda. Eignaraðilar bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins umfram árleg, óafturkræf framlög sín til hans skv. 5. gr. laga þessara.
     Heimili og varnarþing Bjargráðasjóðs er í Reykjavík.

2. gr.
     Stjórn Bjargráðasjóðs er skipuð fimm mönnum, ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins, sem er formaður stjórnarinnar, fiskimálastjóra, formanni Búnaðarfélags Íslands, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga og formanni Stéttarsambands bænda. Sé einhver stjórnarmanna forfallaður, tekur varamaður hans í viðkomandi starfi sæti í stjórninni.

3. gr.
     Stjórn sjóðsins hefur á hendi stjórn hans og tekur ákvarðanir um afgreiðslu á umsóknum um fyrirgreiðslu úr deildum sjóðsins, styrk- og lánveitingar.
     Stjórnin ræður forstjóra og annað starfslið sjóðsins og ákveður kaup þess og kjör í samræmi við launakerfi opinberra starfsmanna. Heimilt er þó stjórninni að semja við Lánasjóð sveitarfélaga eða aðra stofnun, sem henta þykir, um sameiginlega framkvæmdastjórn, skrifstofuhald og rekstur sjóðsins.

4. gr.
     Bjargráðasjóður skiptist í tvær deildir, almenna deild og búnaðardeild. Halda skal bókhaldi hvorrar deildar um sig aðgreindu. Rekstrarkostnaður sjóðsins greiðist úr almennu deild hans.

5. gr.
     [Árlegar tekjur Bjargráðasjóðs eru:
a.
Framlög sveitarfélaga, sem nema skulu 300 kr. fyrir hvern íbúa sveitarfélags miðað við 1. desember undanfarið ár. Fjárhæð þessi er miðuð við framfærsluvísitölu 1. janúar 1980 og skal síðan breytast árlega miðað við framfærsluvísitölu 1. janúar ár hvert.
b.
0,6% af söluvörum landbúnaðarins,1) sbr. 2. gr. laga nr. 38 frá 15. febrúar 1945, um stofnun búnaðarmálasjóðs.
c.
Framlag ríkissjóðs samkvæmt ákvörðun í fjárlögum ár hvert, þó eigi lægra en sameiginlegar tekjur samkvæmt a-lið og sem svarar 0,35% af söluvörum landbúnaðarins samkvæmt b-lið.2)
d.
Vextir af fé sjóðsins.]3)

1)Á árinu 1995 skal innheimta 0,3% af söluvörum landbúnaðarins í stað 0,6%, sbr. l. 148/1994, 30. gr.2)Þetta framlag úr ríkissjóði fellur niður á árinu 1995, sbr. l. 148/1994, 30. gr.3)L. 57/1980, 1. gr.


6. gr.
     Tekjur sjóðsins skiptast þannig milli deilda:
a.
Í almennu deild sjóðsins renna 75% af framlögum sveitarfélaga skv. 5. gr. a-lið og jafnhá fjárhæð af framlagi ríkissjóðs skv. 5. gr. c-lið, svo og vaxtatekjur sjóðsins.
b.
Í búnaðardeild rennur allt framlag skv. 5. gr. b-lið, 25% af framlögum sveitarfélaga skv. 5. gr. a-lið og sá hluti af framlagi ríkissjóðs skv. 5. gr. c-lið, sem ekki rennur til almennu deildar sjóðsins skv. a-lið þessarar greinar.


7. gr.
     Framlög sveitarfélaganna innheimtir félagsmálaráðuneytið með því að draga þau frá úthlutun til þeirra úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
     Framlag ríkissjóðs greiðist með jöfnum, mánaðarlegum greiðslum.
     Framleiðsluráð landbúnaðarins innheimtir búvörugjald skv. 2. gr. laga nr. 38 frá 15. febrúar 19451) og greiðir Bjargráðasjóði hluta hans af gjaldinu skv. 5. gr. b-lið, eftir því sem gjaldið innheimtist.

1)l. 41/1990.


8. gr.
     [Hlutverk almennu deildar sjóðsins er að veita einstaklingum, félögum og sveitarfélögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar tjón á fasteignum og lausafé af völdum náttúruhamfara, að svo miklu leyti sem ekki er unnt að tryggja gegn slíkum tjónum eða fá þau bætt með öðrum hætti, sbr. ákvæði laga nr. 52 frá 27. maí 1975,1) um Viðlagatryggingu Íslands.]2)

1)l. 55/1992.2)L. 110/1976, 2. gr.


9. gr.
     Hlutverk búnaðardeildar er að veita einstaklingum eða sveitarfélögum fjárhagsaðstoð til:
a.
að bæta meiri háttar tjón vegna búfjárdauða af völdum sjúkdóma eða af slysum, þegar gáleysi eiganda verður eigi um kennt;
b.
fóðurkaupa vegna grasbrests af völdum kulda, kals eða óþurrka til að afstýra óeðlilega mikilli förgun búfjár;
c.
að bæta uppskerubrest á garðávöxtum;
d.
að veita fjárhagsaðstoð vegna verulegs afurðatjóns á sauðfé og nautgripum.

     Um fjárhagsaðstoð samkvæmt grein þessari fer samkvæmt reglum, er sjóðstjórn setur.

10. gr.
     [Fjárhagsaðstoð beggja deilda sjóðsins skv. 8. og 9. gr. laga þessara er fólgin í veitingu styrkja og/eða lána, eftir reglum, sem sjóðstjórn setur. Stjórn sjóðsins ákveður kjör á lánum þ.m.t. lánstíma, vexti og hvort lán skuli bundin verðtryggingu.]1)
     [Lán, sem veitt eru einstaklingum eða félögum, skulu tryggð með sjálfskuldarábyrgð sveitarfélags eða annarri tryggingu, sem stjórn sjóðsins metur gilda.
     Lán til sveitarfélaga skulu tryggð með framlagi til þeirra úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
     Verði vanskil á láni sveitarfélags, er ráðherra heimilt að inna greiðslu af hendi af jöfnunarsjóðsframlagi til sveitarfélagsins. Sama gildir um vanskil sveitarfélags sem ábyrgðaraðila, sbr. 2. mgr. þessarar greinar, enda hafi sveitarfélag sannanlega áður verið krafið um greiðslu án árangurs.
     Umsóknir um aðstoð skulu að jafnaði hafa borist sjóðnum innan árs, frá því að tjón varð.]2)

1)L. 57/1980, 2. gr.2)L. 41/1977, 1. gr.


11. gr.
     Nú er um að tefla almenn bótaskyld tjón í einu byggðarlagi eða fleirum, og getur þá stjórn Bjargráðasjóðs skipað nefnd til þess að rannsaka tjónin og gera tillögur til stjórnar sjóðsins um aðstoð vegna þeirra.
     Kostnaður vegna slíkra nefndarstarfa greiðist úr þeirri deild sjóðsins, sem veitir aðstoð vegna tjónanna.

12. gr.
     Nú hefur sveitarstjórn notið aðstoðar Bjargráðasjóðs vegna samfellds harðæris í tvö ár eða lengur, og er þá stjórn sjóðsins heimilt að ákveða, að frekari aðstoð til sveitarstjórnarinnar skuli vera styrkur, ef um er að ræða áframhaldandi samfellt harðæri í sveitarfélaginu, enda verði tjón af völdum harðærisins talið nema a.m.k. þriðjungi tekna sveitarsjóðs á því ári.

13. gr.
     [Séreignir sýslu- og bæjarfélaga við gildistöku laga þessara skulu vera í vörslu almennu deildar sjóðsins og ávaxtast í Lánasjóði sveitarfélaga.]1)

1)L. 108/1988, 7. gr.


14. gr.
     Ársreikningar sjóðsins skulu fullgerðir fyrir febrúarlok ár hvert. Sjóðstjórn felur löggiltum endurskoðanda að endurskoða reikninga sjóðsins, og skal endurskoðun að jafnaði lokið fyrir 30. apríl ár hvert.
     Að endurskoðun lokinni skal birta reikninga sjóðsins í B-deild Stjórnartíðinda.

15. gr.
     Fé Bjargráðasjóðs, sem ekki hefur verið ráðstafað skv. 8.–13. gr. laga þessara, skal ávaxtað í Lánasjóði sveitarfélaga og banka með ríkisábyrgð samkvæmt nánari ákvörðun stjórnarinnar.
     Nú hrekkur fé annarrar hvorrar deildar sjóðsins eigi til að veita þá aðstoð, sem nauðsyn krefur samkvæmt lögunum og að mati sjóðstjórnar, og er þá sjóðstjórninni heimilt að lána fé milli deilda án vaxta. Einnig er ríkisstjórninni heimilt að ábyrgjast nauðsynleg lán fyrir sjóðinn eða veita honum lán úr ríkissjóði gegn veði í eignum og tekjum sjóðsins. [Stjórn sjóðsins er ekki heimilt að taka lán með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings.]1)

1)L. 48/1995, 1. gr.


16. gr.
     Skuldabréf fyrir lánum, sem Bjargráðasjóður tekur samkvæmt 15. gr. laga þessara, skulu undanþegin stimpilgjöldum og ríkisábyrgðargjöldum. Einnig skulu undanþegin stimpilgjöldum skuldabréf fyrir lánum, sem sjóðurinn veitir, svo og skuldabréf til sveitarfélaga vegna endurlána til einstaklinga. [Enn fremur skulu undanþegin stimpilgjöldum skuldabréf fyrir lánum, sem sveitarfélög veita einstaklingum af fé, sem þau hafa tekið að láni hjá Bjargráðasjóði.]1)

1)L. 110/1976, 4. gr.


17. gr.
     Í reglugerð,1) sem stjórnin semur og ráðherra staðfestir, skal setja nánari reglur um sjóðinn og starfsemi hans, þ. á m. nánari skilyrði fyrir veitingu fjárhagsaðstoðar, um upplýsingar, vottorð og önnur gögn, sem fylgja skulu umsóknum, og um dráttarvexti af vanskilagreiðslum.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1973. ...

1)Rg. 122/1994.