Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 119. Uppfært til 1. október 1995.


Lög um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum1)

1936 nr. 24 1. febrúar


1)Ákvæði í þessum lögum, sem ekki samrýmast l. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit (endurútg. sem l. 81/1988), felld brott með 36. gr. l. 50/1981. Ákvæði laga þessara um matvæli og aðrar neysluvörur, felld úr gildi með l. 93/1995, 32. gr.

1. gr.
     Lög þessi ná yfir hvers konar matvæli og aðrar neyslu- og nauðsynjavörur, og er tilgangur þeirra að vernda menn gegn tjóni, sem stafað getur af því ef slíkar vörur skortir eðlilega hollustu, eða ef þær eru skaðlegar heilbrigði manna, eða ef menn eru gabbaðir til að afla sér þeirra, neyta þeirra eða nota þær í þeirri trú, að þær séu annars efnis eða eðlis en þær eru í raun og veru.

2. gr.
     Matvæli eða neysluvörur eru samkvæmt lögum þessum efni, sem ætluð eru mönnum til neyslu sem matur eða drykkur, þar á meðal neysluvatn, svo og efni í mat eða drykk, þar með talið hvers konar krydd, svo og önnur efni, sem notuð eru við tilbúning matvæla og drykkja, þó að þau séu að jafnaði ekki í matvælunum eða drykkjunum, að þeim fullgerðum. Neysluvörur teljast meðal annars hvers konar nautnavörur, svo sem áfengi, tóbak, kaffi, te o.s.frv.
     Um efni, sem eingöngu eru ætluð til lækninga sem lyf og aðeins eru látin úti af lyfsölum eða læknum, fer eftir sérstökum lögum.

3. gr.
     Nauðsynjavörur aðrar en matvæli og neysluvörur (sbr. 2. gr.) eru samkvæmt lögum þessum:
1.
Búsáhöld, svo sem ílát og umbúðir, eldhúsáhöld, borðbúnaður og aðrir þeir hlutir, sem notaðir eru við tilbúning, geymslu eða framreiðslu matvæla eða annarrar neysluvöru.
2.
Tilsvarandi áhöld þeim, sem getur í 1. tölul. þessarar greinar og eru viðhöfð í verksmiðjum, verslunum, skipum og öðrum flutningatækjum eða á geymslustöðum og þar annars staðar, sem farið er með matvæli eða aðrar neyslu- eða nauðsynjavörur, þar á meðal hvers konar vélar til matvæla- eða annarrar neyslu- eða nauðsynjavörugerðar eða við umbúnað, geymslu, flutning, afgreiðslu eða aðra meðferð á slíkum vörum, einnig vogir og mælitæki.
3.
Hreinlætis- og snyrtivörur, hverju nafni sem nefnast. Með snyrtivörum teljast grímur, gervihár og hvers konar vörur eða efni, sem leikarar einkum nota til að breyta útliti sínu, enn fremur hvers konar hreinlætis- og snyrtitæki, þar á meðal hvers konar áhöld og efni, sem notuð eru í rakarastofum og snyrtistofum.
4.
Klæðnaður og hvers konar efni í klæðnað, þar á meðal rúmfatnaður og efni í rúmfatnað.
5.
Húsgögn, þar á meðal upphitunar- og lýsingartæki, veggfóður og húsgagnafóður, gólfdúkar og ábreiður, málningarvörur og aðrir litir, sem ekki teljast matvæli eða neysluvörur (sbr. 2. gr.), stofuplöntur og plöntueftirlíkingar.
6.
Eldiviður og ljósmeti, þar á meðal steinolía, brennsluvínandi, bensín, kerti, eldspýtur og önnur kveikingartæki.
7.
Lækningaáhöld, þar á meðal gervilimir og sjúklingaumbúðir, sáraumbúðir og hvers konar sjúkragögn og hjúkrunarvörur, enn fremur áhöld og efni til getnaðarvarna.
8.
Leikföng.
9.
Aðrir hlutir, sem ráðherra tiltekur nánar í samræmi við tilgang þessara laga.


4. gr.
     Óheimilt er:
1.
Að búa til eða flytja inn í landið í því skyni að hafa á boðstólum, selja eða láta á annan hátt af hendi matvæli eða aðrar neyslu- eða nauðsynjavörur, sem ætla má, að skorti eðlilega hollustu eða séu skaðlegar heilbrigði manna, ef þeirra er neytt eða þær notaðar á tilætlaðan eða tíðkanlegan hátt.
2.
Að haga umbúnaði, geymslu, flutningi, afgreiðslu eða annarri meðferð á matvælum eða öðrum neyslu- eða nauðsynjavörum, sem ætla má, að verði hafðar á boðstólum, seldar eða látnar á annan hátt af hendi, þannig, að ætla megi, að þær fyrir það skorti eðlilega hollustu eða verði skaðlegar heilbrigði manna, ef þeirra er neytt eða þær notaðar á tilætlaðan eða tíðkanlegan hátt.
3.
Að hafa á boðstólum, selja eða láta á annan hátt af hendi, hvort sem er innanlands eða til útflutnings úr landinu, matvæli eða aðrar neyslu- eða nauðsynjavörur, sem ætla má, að skorti eðlilega hollustu eða séu skaðlegar heilbrigði manna, ef þeirra er neytt eða þær notaðar á tilætlaðan eða tíðkanlegan hátt. [Matvæli og aðrar neyslu- og nauðsynjavörur teljast hafðar á boðstólum á dreifingarstað sé þær þar að finna.]1)

     Ef um venjulegar nautnavörur er að ræða, sem að vísu eru viðurkenndar skaðlegar heilbrigði manna, og eins þó að þeirra sé aðeins neytt á tilætlaðan eða tíðkanlegan hátt, eða um venjuleg matvæli eða um aðrar venjulegar neyslu- eða nauðsynjavörur, sem álitamál getur verið um að þessu leyti, verða menn ekki sakfelldir samkvæmt þessari grein, nema ætla megi, að vörurnar séu annarlega eða óvenjulega skaðlegar heilbrigði manna, ef þeirra er neytt eða þær notaðar á tilætlaðan eða tíðkanlegan hátt, enda sé ekki bann á slíkum vörum eða þær gerðar óheimilar skv. 6. gr.

1)L. 5/1985, 1. gr.


5. gr.
     Óheimilar eru eftirlíkingar eftir matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum í blekkingarskyni í verslun eða viðskiptum, jafnt og hvers konar fölsun slíkrar vöru.
     Um verslun með matvæli og aðrar neyslu- eða nauðsynjavörur, og þar á meðal um auglýsingar um og auðkenni á slíkum vörum, fer almennt eftir lögum nr. 84 19. júní 1933,1) um varnir gegn óréttmætum verslunarháttum, en í einstökum atriðum eftir reglugerðum, er ráðherra kann að setja, eða auglýsingum, er hann kann að birta samkvæmt þessum lögum. Um brot gegn hinum tilvitnuðu lögum, þegar um er að ræða matvæli eða aðrar neyslu- eða nauðsynjavörur, fer eftir þessum lögum.

1)l. 8/1993.


6. gr.
     Ráðherra er heimilt í samræmi við tilgang þessara laga:
1.
Að banna eða takmarka tilbúning í landinu og þá jafnframt innflutning í landið á matvælum eða öðrum neyslu- eða nauðsynjavörum, sem tilbúnar eru á ákveðinn hátt.
2.
Að banna eða takmarka, að um matvæli eða aðrar neyslu- eða nauðsynjavörur sé búið eða þær geymdar, fluttar, afgreiddar eða að öðru leyti með þær farið á ákveðinn hátt.
3.
Að banna eða takmarka, að matvæli eða aðrar neyslu- eða nauðsynjavörur, sem tilbúnar eru, um er búið, geymdar eru, fluttar, afgreiddar eða að öðru leyti með farið á ákveðinn hátt, séu hafðar á boðstólum, seldar eða látnar á annan hátt af hendi.
4.
Að banna eða takmarka, að áhöld eða efni, sem ætluð eru til ólöglegra eftirlíkinga eða fölsunar á matvælum eða öðrum neyslu- eða nauðsynjavörum, séu búin til í landinu eða flutt inn í landið, höfð á boðstólum, seld eða látin á annan hátt af hendi.
5.
Að skipa fyrir, að á umbúðir, matvæli og aðrar neyslu- og nauðsynjavörur eða á vörurnar sjálfar séu skráðar réttar upplýsingar um, hvar og af hverjum og hvenær þær séu tilbúnar, hver hafi selt þær eða látið þær af hendi, hverrar tegundar eða efnis eða eðlis þær séu, og ef um samsettar vörur er að ræða, hve mikið sé af hverju efni fyrir sig, svo og að segja fyrir um, hvernig að öðru leyti skuli gengið frá þessum áletrunum.
6.
Að ákveða með reglugerðum eða auglýsingum,1) hvernig einstakar tegundir af matvælum eða öðrum neyslu- eða nauðsynjavörum skuli gerðar til þess að verða ekki taldar skorta eðlilega hollustu eða vera skaðlegar heilbrigði manna, óheimilar eftirlíkingar eða falsaðar samkvæmt ákvæðum laga þessara, eða til þess að mega auðkennast á ákveðinn hátt. Í þessum reglugerðum eða auglýsingum má ákveða, hverjum þrifnaðar- og heilbrigðisreglum skuli fylgja við tilbúning, umbúnað, geymslu, flutning, afgreiðslu og aðra meðferð hinna einstöku tegunda af matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum, að húsakynni og áhöld séu viðunandi, og þegar um framleiðslu eða aðra vandasama meðferð á slíkum vörum er að ræða, að næg kunnátta sé fyrir hendi til að annast allt, er að slíku lýtur.

1)Rg. 35/1986, sbr. 654/1989 og 625/1991, (um mjólk og mjólkurvörur). Rg. 408/1988, sbr. 493/1990, (um merkingu neytendaumbúða fyrir matvæli og aðrar neysluvörur). Rg. 409/1988 (aukaefni í matvælum o.fl.). Augl. 147/1985 (merking nauðsynjavara, sem innihalda eiturefni o.fl.). Rg. 196/1987 (takmörkun sölu á kveikjaragasi). Rg. 518/1993 (um aðskotaefni í matvælum). Rg. 527/1993 (um leirhluti sem er ætlað að snerta matvæli). Rg. 531/1993 (um efni og hluti úr plasti sem er ætlað að snerta matvæli). Rg. 537/1993 (um efni og hluti sem er ætlað að snerta matvæli). Rg. 538/1993 (um vinýlklóríð í efnum og hlutum). Rg. 541/1993 (um filmur úr sellulósa sem er ætlað að snerta matvæli). Rg. 556/1993 (um hraðfryst matvæli). Rg. 579/1993 (um aukefni í matvælum). Rg. 586/1993 (um merkingu næringargildis matvæla). Rg. 587/1993 (um bragðefni í matvælum). Rg. 588/1993 (um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla). Rg. 289/1994 (um leysiefni til notkunar í matvælaiðnaði). Rg. 389/1994 (um takmörkun á sölu gerileyðandi efna sem innihalda etanól. Rg. 447/1994 (um kaffi, kaffikjarna og kaffibæti). Rg. 521/1994 (um þvotta- og hreingerningarefni). Rg. 522/1994 (um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla).


7. gr.
     Almennt eftirlit með framkvæmd laga þessara hafa lögreglustjórar, hver á sínum stað, með aðstoð héraðslækna, heilbrigðisnefnda og tollvörslumanna.
     ...1) Hlutaðeigendum skal jafnan skylt að leyfa eftirlitsmönnum óhindraðan aðgang til eftirlits á þeim stöðum, þar sem matvæli eða aðrar neyslu- eða nauðsynjavörur eru búnar til, eða þar sem um slíkar vörur er búið, þær geymdar, fluttar eða á annan hátt með þær farið, eða þar sem slíkar vörur eru hafðar á boðstólum, seldar eða látnar á annan hátt af hendi, svo og að láta eftirlitsmönnum ókeypis í té nauðsynleg sýnishorn til rannsóknar, gefa þeim, eftir því sem þörf krefur vegna eftirlitsins, upplýsingar um aðferðir við tilbúning, umbúnað, geymslu, flutning, afgreiðslu og aðra meðferð á slíkum vörum, heimila þeim aðgang að innkaupareikningum og öðrum skjölum, er máli skipta fyrir starf þeirra, og að aðstoða þá í öllum greinum við framkvæmd eftirlitsins.
     Ráðherra er heimilt að ákveða nánar í reglugerð um tilhögun eftirlitsins. Í reglugerðinni má ákveða, hverjar aðferðir skuli viðhafðar við rannsóknir á matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum, til að sannreyna vörurnar. Kostnaður við eftirlitið greiðist úr ríkissjóði. Heimilt skal þó með reglugerðarákvæði að leggja gjald á vörur þær, sem eftirlitinu eru háðar, til greiðslu á þeim kostnaði, og skal það gjald miðað við verðmæti framleiðslunnar eða innflutnings.

1)L. 12/1969, 19. gr.


8. gr.
     Áður en reglugerðir eru settar samkvæmt 9. tölul. 3. gr. og 6. og 7. gr., skal gefa hlutaðeigandi framleiðendum eða kaupmönnum kost á að láta sérfræðinga, er þeir nefna til, athuga málið og segja álit sitt um það.
     Í reglugerðum samkvæmt lögum þessum má aldrei gera minni kröfur til erlendrar vöru en sams konar vöru innlendrar.

9. gr.
     Þeir, sem hafa á hendi eftirlit með framkvæmd laga þessara skulu, að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum hinna almennu hegningarlaga um embættis- og sýslunarmenn, bundnir þagnarskyldu um öll framleiðslu- og verslunarleyndarmál, er þeir kunna að komast að við framkvæmd eftirlitsins, og mega hvorki færa sér þau í nyt sjálfir né verða þess valdandi, að aðrir geri það.

10. gr.
     Lögreglustjóra er heimilt, með ráði héraðslæknis eða sérstaklega skipaðs eftirlitsmanns, að taka í sínar vörslur eða umsjá matvæli og aðrar neyslu- og nauðsynjavörur, sem ástæða er til að ætla, að séu skaðlegar heilbrigði manna, óheimilar eftirlíkingar eða falsaðar samkvæmt ákvæðum þessara laga, og hindra þannig, að þær verði hafðar á boðstólum, seldar eða á annan hátt látnar af hendi, svo lengi sem hann telur ástæðu til, og ef mál er höfðað, þangað til dómur er genginn.

11. gr.
     ...1)
     Brot gegn lögum þessum varða sektum, ...2) nema þyngri hegning liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sektirnar renna í ríkissjóð.
     Ætíð skal sá, er sekur hefur fundist við ákvæði þessara laga, greiða allan þann kostnað, sem leitt hefur af útvegun sýnishorna og rannsókna á þeim, er nauðsynlegar voru til að sanna sekt hans.
     Nú hefur sá, sem sekur hefur fundist um vörusvik samkvæmt þessum lögum, sannanlega grætt á svikunum, og má þá, auk sektar þeirrar, sem greind er í 2. mgr. þessarar greinar, eða annarrar refsingar, dæma hann til að greiða viðbótarsekt, jafnháa upphæð sem hagnaðurinn sannanlega nemur. Hinar sviknu vörur skulu jafnan dæmdar upptækar á kostnað hins seka, svo og áhöld þau og efni, sem notuð hafa verið við vörusvikin og sérstaklega eru til slíks ætluð.
     Fyrir ítrekuð brot eða mikilsháttar, og einkum ef tjón hefur hlotist af, má með dómi svipta hinn seka leyfi til að fást áfram við framleiðslu eða verslun með matvæli og aðrar neyslu- eða nauðsynjavörur um stundarsakir eða fyrir fullt og allt, ef sakir eru mjög miklar.

1)L. 19/1991, 194. gr.2)L. 116/1990, 18. gr.



12. gr.
     ...1)

1)L. 19/1991, 194. gr.