Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 119. Uppfært til 1. október 1995.


Lög um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, landslagshönnuði, húsgagna- og innanhússhönnuði, tæknifræðinga eða byggingafræðinga1)

1986 nr. 62 5. september


1)Lagaheiti breytt skv. l. 44/1989, 1. gr.

1. gr.
     Rétt til að kalla sig verkfræðinga eða heiti, sem felur í sér orðið verkfræðingur (civil-ingeniör, diplom-ingeniör), hafa þeir menn einir hér á landi, sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra.

2. gr.
     Engum má veita leyfi það, er um ræðir í 1. gr., nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í verkfræði við fjöllistaskóla eða teknískan háskóla, sem stéttarfélag verkfræðinga hér á landi viðurkennir sem fullgildan skóla í þeirri grein.
     Að fengnum meðmælum stéttarfélags verkfræðinga hér á landi má þó veita mönnum, sem stundað höfðu verkfræðistörf eigi skemur en sex ár, áður en lög nr. 24/1937 tóku gildi, leyfi til að kalla sig verkfræðinga, enda þótt þeir fullnægi eigi prófskilyrðum þeim, sem um ræðir í 1. mgr. þessarar greinar.
     Þeir menn, sem fullnægja skilyrðum þeim, sem sett eru í 1. mgr. þessarar greinar, eiga rétt á, að þeim sé veitt leyfi til að kalla sig verkfræðinga.

3. gr.
     Rétt til að kalla sig húsameistara (arkitekt) hafa hér á landi þeir menn einir, sem hafa fengið til þess leyfi ráðherra.

4. gr.
     Engum má veita leyfi það, sem um ræðir í 3. gr., nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í byggingarlist við listaháskóla eða teknískan háskóla, sem stéttarfélag húsameistara hér á landi viðurkennir sem fullgildan skóla í þeirri grein.
     Að fengnum meðmælum stéttarfélags húsameistara hér á landi má þó veita mönnum, sem stundað höfðu húsameistarastörf eigi skemur en 6 ár, áður en lög nr. 24/1937 tóku gildi, leyfi til að kalla sig húsameistara, enda þótt þeir fullnægi eigi prófskilyrðum þeim, sem um ræðir í 1. mgr. þessarar greinar.
     Þeir menn, sem fullnægja skilyrðum þeim, sem sett eru í 1. mgr. þessarar greinar, eiga rétt á, að þeim sé veitt leyfi til að kalla sig húsameistara.

5. gr.
     Rétt til að kalla sig tæknifræðinga (ingeniör) eða heiti, sem felur í sér orðið tæknifræðingur, hafa þeir menn einir hér á landi, sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra.

6. gr.
     Engum má veita leyfi það, sem um ræðir í 5. gr., nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í tæknifræði frá teknískum æðri skóla, sem Tæknifræðingafélag Íslands viðurkennir sem fullgildan skóla í þeirri grein.
     Þeir menn, sem fullnægja skilyrðum þeim, sem sett eru í 1. mgr. þessarar greinar, eiga rétt á, að þeim sé veitt leyfi til að kalla sig tæknifræðinga.

7. gr.
     Rétt til að kalla sig byggingafræðinga (bygningskonstruktör) hafa hér á landi þeir einir, sem hafa fengið til þess leyfi ráðherra.

8. gr.
     Engum má veita leyfi það sem um ræðir í 7. gr., nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í byggingafræði frá byggingafræðilegum æðri skóla, sem Byggingafræðingafélag Íslands viðurkennir sem fullgildan skóla í þeirri grein.
     Þeir menn, sem fullnægja skilyrðum þeim, sem sett eru í 1. mgr. þessarar greinar, eiga rétt á, að þeim sé veitt leyfi til að kalla sig byggingafræðinga.

9. gr.
     Ráðherra sker úr ágreiningi, sem rísa kann um notkun starfsheita, sem fela í sér orðið „ingeniör“.

10. gr.
     Rétt til að kalla sig húsgagna- og innanhússhönnuði hafa þeir einir hér á landi sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra.

11. gr.
     Engum má veita leyfi það sem um getur í 10. gr. nema hann hafi stundað nám og lokið fullnaðarprófi við listiðnaðarskóla eða aðra sérskóla sem ráðherra viðurkennir sem fullgildan skóla í þeirri grein, að fenginni umsögn stéttarfélags húsgagna- og innanhússhönnuða.
     Þeir sem fullnægja skilyrðum þeim, sem sett eru í 1. mgr. þessarar greinar, eiga rétt á að þeim sé veitt leyfi til að kalla sig húsgagna- og innanhússhönnuði.

[12. gr.
     Rétt til að kalla sig landslagshönnuði (landskabs-arkitekt) hafa þeir einir hér á landi sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra.]1)

1)L. 44/1989, 2. gr.


[13. gr.
     Engum má veita leyfi það sem um getur í 12. gr. nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í landslagshönnun frá háskóla, sem ráðherra viðurkennir sem fullgildan í þeirri grein, að fenginni umsögn stéttarfélags landslagshönnuða hér á landi.
     Þeir einir, sem fullnægja skilyrðum þeim sem sett eru í 1. mgr. þessarar greinar, eiga rétt á að þeim sé veitt leyfi til að kalla sig landslagshönnuði.]1)

1)L. 44/1989, 2. gr.


[14. gr.]1)
     Hver, sem kallar sig heiti, er leyfi þarf til samkvæmt lögum þessum, án þess að hafa fengið slíkt leyfi, skal sæta sektum. Sektirnar renna í ríkissjóð.

1)L. 44/1989, 2. gr.


[15. gr.]1)
     Með mál út af brotum gegn lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála.

1)L. 44/1989, 2. gr.


[16. gr.]1)
     Lög þessi öðlast þegar gildi. ...

1)L. 44/1989, 2. gr.