Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 120a. Uppfært til febrúar 1996.


Lög um gatnagerðargjöld

1974 nr. 51 16. maí


1. gr.
     Heimilt er sveitarstjórn að ákveða með sérstakri samþykkt, sem ráðherra staðfestir, að innheimt skuli gatnagerðargjald af hverri lóð, áður en þar er veitt byggingarleyfi. Heimilt er að krefja gatnagerðargjald, ef reist er nýtt hús á lóð, sem áður var byggð. Sama gildir, ef hús er stækkað, að því er stækkunina varðar.

2. gr.
     Gatnagerðargjaldi skv. 1. gr. skal varið til gatnagerðarframkvæmda í sveitarfélaginu, og má það nema allt að áætluðum meðalkostnaði við að undirbyggja götu með tilheyrandi lögnum og slitlagi.

3. gr.
     Sveitarstjórnum er heimilt að ákveða með sérstakri samþykkt, sem ráðherra staðfestir, að innheimta sérstakt gjald, sem varið skal til framkvæmda við að setja bundið slitlag á götur í sveitarfélaginu og til lagningar gangstétta.
     Heimild til að leggja á slík gjöld er bundin við það, að sveitarfélagið hafi ekki áður innheimt af hlutaðeigandi fasteign gatnagerðargjald, sem ætlað hefur verið a.m.k. að hluta til bundins slitlags.

4. gr.
     [Gjald skv. 3. gr. má innheimta af öllum fasteignum við þær götur, sem bundið slitlag hefur verið sett á og þar sem gangstéttir hafa verið lagðar, enda sé eigi lengri tími en fimm ár liðinn frá því að slitlag var sett eða gangstétt lögð. Má gjaldið nema allt að meðalkostnaði við þessar framkvæmdir.]1)

1)L. 31/1975, 1. gr.


5. gr.
     Við ákvörðun gjalda skv. 1. og 3. gr. laga þessara skal miða við lóðarstærð og/eða rúmmál bygginga, eftir því sem nánar er ákveðið í samþykkt. Gjöld mega vera mismunandi eftir notkun húss, t.d. eftir því, hvort um er að ræða hús til íbúðar, verslunar, iðnaðar o.s.frv. Þá mega gjöld af íbúðarhúsum vera mismunandi eftir því, hvort um er að ræða einbýlishús, raðhús, fjölbýlishús o.s.frv.

6. gr.
     Gatnagerðargjald skv. 1. gr. skal vera gjaldkræft, þegar sveitarstjórn krefst, eftir því sem nánar er ákveðið í samþykkt.
     Sérstakt gatnagerðargjald skv. 3. gr. skal gjaldkræft, þegar lagningu bundins slitlags og gangstéttar við hlutaðeigandi götu er lokið. Þó skal sveitarstjórn heimilt að ákveða í samþykkt, að greiðslu slíks gjalds sé dreift á tiltekið árabil, eftir því sem nánar er tiltekið í samþykkt.

7. gr.
     Gatnagerðargjaldi skv. 1. og 3. gr. fylgir lögveð í viðkomandi fasteign.