Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 120b. Uppfært til október 1996.


Póstlög

1986 nr. 33 5. maí


I. kafli.
Póstþjónustan, skilgreining og verksvið.
1. gr.
     Með póstþjónustu er fyrst og fremst átt við starfsemi er varðar viðtöku, flutning og skil á póstsendingum.
     Póstsendingar greinast í þrjá höfuðflokka:
a.
Bréfapóstsendingar.
b.
Bögglapóstsendingar.
c.
Fjármunapóstsendingar.


2. gr.
     Bréfapóstsendingar má senda í ábyrgð.
     Enn fremur er heimilt að senda bréf og böggla sem verðsendingar.
     Til fjármunapóstsendinga teljast greiðsluviðskipti með millifærslum (póstgíró).
     Póstsendingar samkvæmt þessari grein skulu ávallt bókfærðar.
     Nánari ákvæði um þetta setur ráðherra í reglugerð.

3. gr.
     Með póstþjónustu er einnig átt við aðra samrýmanlega starfsemi sem ákveðin er eða kann að verða ákveðin með öðrum lögum, reglum eða samningum.

II. kafli.
Einkaréttur.
4. gr.
     [Íslenska ríkið]1) hefur einkarétt á að safna saman, flytja og bera út eftirtaldar sendingar:
a.
Lokaðar bréfapóstsendingar hvert svo sem innihald þeirra kann að vera.
b.
Aðrar lokaðar sendingar sem uppfylla skilyrði til þess að vera veitt viðtaka í póst, að svo miklu leyti sem innihald þeirra er ritaðar orðsendingar eða prentaðar tilkynningar, útfylltar með skrift, að undanskildum vörureikningum, fylgiseðlum, farmskrám og svipuðum fylgiskjölum með sendingum sem heimilt er að flytja án atbeina póstþjónustunnar.

     [Samgönguráðherra er heimilt að veita Pósti og síma hf. rekstrarleyfi til að annast þá póstþjónustu sem ríkið hefur einkarétt á samkvæmt þessari grein.]1)

1)L. 107/1996, 1. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


5. gr.
     Póstsendingar skv. 4. gr., sem koma frá útlöndum og eiga að fara til viðtakenda hér á landi eða flytjast áfram með íslensku flutningafyrirtæki eða um íslenskt póstsvæði, skulu þegar í stað afhentar [Pósti og síma hf.]1)

1)L. 107/1996, 5. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


6. gr.
     Póstflytjendum, hvort heldur sem þeir eru starfsmenn [Pósts og síma hf.]1) eða flutningsaðilar sem á hennar vegum annast póstflutninga, er óheimilt að flytja sjálfir eða hafa meðferðis sendingar utan póstflutningsins.
     Flutningafyrirtækjum, sem halda uppi reglubundnum farþegaflutningum, er þó heimilt að flytja slíkar sendingar utan póstflutnings með flutningatækjum sínum milli starfsstöðva fyrirtækisins enda varði þær starfsemi þess.
     Enn fremur má flytja fyrrnefndar sendingar utan pósts ef þær eru frímerktar samkvæmt gildandi gjaldskrá fyrir póstþjónustu og frímerkin síðan gerð ógild eða þegar einhver flytur sendingar fyrir sjálfan sig eða aðila sem hann starfar fyrir.

1)L. 107/1996, 5. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


7. gr.
     Á þeim stöðum, þar sem [Póstur og sími hf.]1) hefur komið á daglegum póstútburði a.m.k. fimm sinnum í viku, má enginn hafa atvinnu af að safna saman, flytja eða bera út sendingar þær sem greinir í 4. gr.

1)L. 107/1996, 5. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


8. gr.
     [Íslenska ríkið hefur einkarétt á uppsetningu póstkassa á almannafæri.
     Notkun póstlúðurs með eða án stjarna eða örva, til auðkenningar póstþjónustu, er einungis heimil Pósti og síma hf.]1)

1)L. 107/1996, 2. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


III. kafli.
Póstleynd.
9. gr.
     Starfsmönnum [Pósts og síma hf.]1) er óheimilt að gefa óviðkomandi aðilum upplýsingar um það hverjir nota póstinn eða á hvern hátt hann er notaður, né heldur gefa neinum tækifæri til þess að verða sér úti um slíka vitneskju. Enn fremur er þeim óheimilt að opna eða lesa það sem látið er í póst til flutnings.
     Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

1)L. 107/1996, 5. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


10. gr.
     Heimilt er þrátt fyrir ákvæði 9. gr. að opna eftir sérstökum reglum þær póstsendingar, sem ekki er unnt að koma til skila, til þess að freista þess að komast að því hverjir sendendur séu svo að unnt sé að endursenda þær. Enn fremur er heimilt eftir sérstökum reglum í undantekningartilvikum að leyfa að sendingar séu opnaðar þegar það er óhjákvæmilegt vegna flutnings þeirra eða til þess að kanna hugsanlegar skemmdir á innihaldi. Reglur samkvæmt þessari grein skulu settar af ráðherra.

11. gr.
     Einungis má veita upplýsingar um notkun pósts að undangengnum dómsúrskurði eða samkvæmt heimild í öðrum lögum. Ráðherra ákveður hvort dómsúrskurði skuli áfrýja.

IV. kafli.
Póstmeðferð.
12. gr.
     Með póstmeðferð er átt við viðtöku póstsendinga, flutning þeirra og skil.
     Húseigendum er skylt að setja upp bréfakassa í eða við hús sín á sinn kostnað. Nánari ákvæði um þetta setur ráðherra í reglugerð.

13. gr.
     Hver sá, sem heldur uppi reglubundnum flutningum innanlands og til útlanda, er skyldur til, sé þess krafist, að flytja póst milli endastöðva og póststöðva á leiðinni enda komi eðlileg greiðsla fyrir. Póstur skal njóta forgangs fram yfir annan flutning.

14. gr.
     Sendandi hefur ráðstöfunarrétt yfir sendingu sem hann hefur afhent til póstflutnings þangað til hún er afhent viðtakanda.

15. gr.
     Í pósti má ekki flytja neitt sem bannað er að dreifa eða sem að ytra útliti ber með sér eitthvað ólögmætt, ósæmilegt eða móðgandi.
     Óheimilt er að taka til flutnings hluti sem hætta stafar af eða erfiðleikar eru á að flytja. Heimilt er þó að veita undanþágur fyrir flutningi ef komið er í veg fyrir hættu eða óhagræði af honum eins og frekast er unnt eða með sérstökum ráðstöfunum og ástæður að öðru leyti mæla með flutningnum.

16. gr.
     Póstsendingar, aðrar en ábyrgðarbréf í lokuðu umslagi og verðsendingar, mega ekki innihalda peningaseðla, mynt eða neins konar verðskjöl á handhafa, dýra málma, skartgripi og hliðstæð verðmæti.

17. gr.
     Póstsendingar, sem ekki verður komið til skila hvort heldur til viðtakanda eða sendanda, skulu eyðilagðar eða seldar samkvæmt nánari reglum.

18. gr.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um meðferð pósts.

V. kafli.
Gjaldskrá og frímerki.
19. gr.
     [Samgönguráðherra setur, að fengnum tillögum frá Pósti og síma hf., gjaldskrá fyrir þjónustu sem lýtur einkarétti. Jafnframt getur hann ákveðið gjaldskrá fyrir flutning og dreifingu dagblaða, vikublaða og tímarita á vegum Pósts og síma hf.]1)

1)L. 107/1996, 3. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


20. gr.
     Gjaldfrjálsar skulu vera þær sendingar sem samkvæmt alþjóðasamningum eru frígengar í alþjóðapóstþjónustunni.
     Enn fremur eru gjaldfrjálsar allar sendingar innan [Pósts og síma hf.]1) sem snerta þjónustuna.

1)L. 107/1996, 5. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


21. gr.
     [Póstur og sími hf.]1) getur, að höfðu samráði við ráðherra, ákveðið þóknun fyrir ýmsa auka- og viðbótarþjónustu og verð á söluvarningi sem ekki er sérstaklega tilgreint í gjaldskrá fyrir póstþjónustu.

1)L. 107/1996, 5. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


22. gr.
     Gjald fyrir póstþjónustu greiðist fyrir fram með álímdum eða áprentuðum frímerkjum, frímerkingarvélastimplum eða áprentunum um greitt burðargjald.
     Heimilt er þó að ákveða í reglugerð að burðargjald fyrir ákveðnar tegundir póstsendinga eða vissar tegundir póstþjónustu skuli ekki greitt með frímerkjum heldur í reiðufé.

23. gr.
     Eyðublöð, sem notuð eru í póstþjónustunni, verða ásamt frímerkjum fyrir burðargjaldi sendinganna eign [Pósts og síma hf.]1) um leið og viðkomandi póstsendingum er skilað til flutnings.

1)L. 107/1996, 5. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


24. gr.
     Um póstmeðferð ófrímerktra eða vanfrímerktra sendinga skal farið samkvæmt því sem ákveðið er í reglugerð sem ráðherra setur.

25. gr.
     [Ríkið hefur einkarétt á útgáfu frímerkja. Með orðinu frímerki er átt við gjaldmiðil sem ætlaður er til greiðslu fyrir póstþjónustu sem innt er af hendi í umboði ríkisins.]1)

1)L. 107/1996, 4. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


26. gr.
     Heimilt er að greiða þeim sem hafa algeng frímerki á boðstólum fyrir almenning sölulaun og setur [Póstur og sími hf.]1) nánari reglur þar um.

1)L. 107/1996, 5. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


VI. kafli.
Skaðabætur.
27. gr.
     Póstsending telst í vörslu [Pósts og síma hf.]1) frá viðtöku í póst og þar til hún er afhent á reglulegan hátt samkvæmt utanáskrift.

1)L. 107/1996, 5. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


28. gr.
     Skaðabætur greiðast ekki fyrir glataðar almennar bréfapóstsendingar. Heldur ekki þótt innihaldið glatist að nokkru eða öllu leyti.

29. gr.
     Fyrir bréfapóstsendingar í ábyrgð og böggla, sem glatast eða eyðileggjast að einhverju eða öllu leyti, á sendandi rétt á skaðabótum er svari til hins raunverulega verðmætis, þó ekki hærri en ráðherra ákveður hverju sinni í gjaldskrá.

30. gr.
     Fyrir verðsendingar, sem glatast eða eyðileggjast að einhverju eða öllu leyti, á sendandi rétt á skaðabótum er svari til hins raunverulega verðmætis en þó aldrei hærri en nemur hinu tilgreinda verði.

31. gr.
     [Póstur og sími hf.]1) ber fulla ábyrgð á því fé sem hún hefur tekið við til sendingar sem fjármunapóstsendingu.

1)L. 107/1996, 5. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


32. gr.
     Skaðabætur ná aðeins til verðs þess hlutar sem glatast hefur eða þeirrar rýrnunar sem hinir skemmdu hlutir hafa orðið fyrir.
     Eigi skal bæta ábata- eða afnotamissi, tjón vegna rýrnunar á verðgildi peninga eða yfirleitt neinar óbeinar afleiðingar skaðans.

33. gr.
     Um skaðabætur fyrir póstsendingar milli landa fer samkvæmt gildandi milliríkjasamningum. Verði tjón á sendingu meðan hún er á íslensku póstsvæði greiðast þó skaðabætur eins og um innlenda sendingu sé að ræða enda sé það hagstæðara fyrir hlutaðeigandi tjónþola.

34. gr.
     [Póstur og sími hf.]1) getur í sérstökum undantekningartilvikum bætt tjón samkvæmt almennum skaðabótareglum ef tjónið er slíkt og ástæður allar þess eðlis að ákvæði þessa kafla um takmarkaðar skaðabætur þykja ekki eiga við.

1)L. 107/1996, 5. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


35. gr.
     Skylda til greiðslu skaðabóta fellur niður sé þeirra ekki krafist innan árs frá því sending var afhent til flutnings.

VII. kafli.
Viðurlög.
36. gr.
     Brot gegn ákvæðum 4., 5., 6., 7., 8., 12., 13., 15. og 16. gr. varða sektum eða varðhaldi ef miklar sakir eru nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Fyrir brot á 4. og 6. gr. skal auk sekta greiða venjulegt burðargjald fyrir hverja sendingu sem flutt hefur verið ólöglega.
     Fyrir brot á ákvæðum 4., 5., 6., 7., 15. og 16. gr. má ákveða sektina eftir atvikum á hendur sendanda eða þeim sem flutt hefur sendinguna eða þeim báðum. Brot gegn 9. gr. varða refsingu skv. 136. og 137. gr. almennra hegningarlaga.
     Auk framangreindra sekta er [Pósti og síma hf.]1) heimilt að útiloka hlutaðeigendur frá póstsambandi þannig að hvorki séu fluttar til þeirra póstsendingar né frá þeim.
     Á sama hátt er heimilt að útiloka frá póstsambandi þá sem gera sig seka um megna og ítrekaða vanrækslu á að fara eftir lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
     Í reglugerð settri samkvæmt lögum þessum má enn fremur setja ákvæði um sektir fyrir brot á ákvæðum hennar.

1)L. 107/1996, 5. gr., sem tekur gildi 1. janúar 1997.


VIII. kafli.
Ýmis ákvæði.
37. gr.
     Ákvæði þessara laga gilda einnig um póstþjónustu við önnur lönd að svo miklu leyti sem þau fara ekki í bága við milliríkjasamninga um póstþjónustu.

38. gr.
     Reglugerðir um framkvæmd laga þessara setur ráðherra.1)

1)Rg. 449/1986 og 333/1981. Rg. 161/1990.


39. gr.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     ...