Hafa á síðustu tólf mánuðum unnið samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf í tryggingagjaldsskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða, sbr. þó 17. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sbr. lög nr. 46/1993. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði. Til að finna vinnuframlag sjómanna skal telja fjölda lögskráningardaga. Mánaðarvinna sjómanna telst 21,67 lögskráningardagar.
Þeir sem hafa sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á. Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 40 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem því nemur. Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótarétt að nýju, nema hann sanni að hann hafi stundað vinnu í samfellt sex vikur eftir að hann missti bótaréttinn.
Þeir sem hætta námi fyrir lok námsannar. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að setja reglur um að þeir sem hætta námi fyrir lok námsannar skuli undir sérstökum kringumstæðum eiga bótarétt. Reglur þessar skulu hljóta staðfestingu ráðherra.
Þeir sem stunda vinnu í eigin þágu sem gefur þeim tekjur eða tekjuígildi er a.m.k. samsvarar hámarksbótum atvinnuleysistrygginga á hverjum tíma. Nú samsvara tekjurnar eða tekjuígildið ekki hámarksbótum atvinnuleysistrygginga og má þá greiða mismun atvinnuleysisbóta og teknanna eða tekjuígildisins.