- a.
- Ákvæði 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, sem heimilar frádrátt er nemur 7% af nafnverði hlutafjár frá skattskyldum tekjum, skal ekki eiga við.
- b.
- Þrátt fyrir 7. tölul. 1. mgr. 3. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 71. gr. laga nr. 75/1981 og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1996 skal skattur ekki lagður á eða dreginn frá arði, sem úthlutað er til hluthafa sem búsettir eru í OECD-ríki, að því tilskildu að hluthafinn uppfylli skilyrði i) og ii) liðar b-liðar 2. mgr. 12. gr. samnings milli Bandaríkjanna og Íslands til að koma í veg fyrir tvísköttun, nr. 22/1975, sem birtur er í Stjórnartíðindum.
- c.
- Fastafjármunir vegna byggingar bræðslunnar skulu teljast byggingar, vélar og tæki í ákveðnum hlutföllum sem samið verður um. Fastafjármunir, sem að öðru leyti er aflað vegna viðhalds eða endurbóta á bræðslunni, skulu flokkaðir í samræmi við 32. og 38. gr. laga nr. 75/1981. Fyrningu skal hagað í samræmi við 5. tölul. þessarar greinar.
- d.
- Félaginu skal heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu átta almanaksárum eins og nánar er kveðið á um í 7. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981.
- e.
- Félaginu skal heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári og leggja í sérstakan innri fjárfestingarsjóð fjárhæð sem svarar til 4% af nafnverði hlutafjár. Fé, sem verið hefur í fjárfestingarsjóði og notað er til fjárfestinga í fyrnanlegum eignum innan sex ára frá því að það var lagt inn, skal telja til skattskyldra tekna félagsins á því ári sem fjárfestingin á sér stað. Félaginu skal heimilt að auka fyrningu eigna um sömu fjárhæð á því ári.
Fé í hinum sérstaka fjárfestingarsjóði, sem ekki hefur verið notað til fjárfestinga eða til að vega upp á móti rekstrartapi innan framangreindra tímamarka, skal telja til skattskyldra tekna og það skattlagt með skatthlutfalli þess árs þegar það var lagt inn. Það sama skal eiga við ef félagið er leyst upp.