131. löggjafarþing — 76. fundur
 17. feb. 2005.
Kvennahreyfingin á Íslandi, fyrri umræða.
þáltill. KolH og ÞBack, 56. mál. — Þskj. 56.

[16:41]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um bætt starfsumhverfi fyrir kvennahreyfinguna á Íslandi. En ég hef svo sem mælt fyrir þessari ágætu tillögu áður. Hún gengur út á það að Alþingi álykti að fela félagsmálaráðherra að stuðla að bættu starfsumhverfi fyrir kvennahreyfinguna og fyrir aðra hópa sem vinna að jafnari stöðu kynjanna á Íslandi.

Hugmyndin á bak við tillöguna er að þetta verði gert á eftirfarandi máta:

Í fyrsta lagi með því að stofnaður verði sjóður með lið í fjárlögum í þeim tilgangi að styrkja hvers konar starf félagasamtaka, hópa og einstaklinga sem miðað getur að jafnari stöðu kynjanna. Hluta sjóðsins verði varið til þess að tryggja þátttöku sömu hópa í alþjóðlegu starfi.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að þetta verði gert með því að jafnréttisfulltrúum eða öðrum starfsmönnum ráðuneyta verði falið að koma á beinum tengslum fagráðuneyta og þeirra samtaka, hópa og einstaklinga sem innan starfssviðs hvers ráðuneytis vinna að jafnari stöðu kynjanna á hverjum tíma.

Eins og ég sagði í upphafi hefur þessi tillaga verið lögð fram í tvígang áður. Í hvorugt skiptið varð hún útrædd en í síðara skiptið var henni vísað til félagsmálanefndar til umfjöllunar. Þaðan var hún send til umsagnar og eftirtaldir aðilar sendu nefndinni umsögn um tillöguna: Bandalag háskólamanna, jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, jafnréttisráðgjafinn í Reykjavík, félagsmálaráðuneytið, Jafnréttisstofa, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennakirkjan og Kvenréttindafélag Íslands. Allir þessir aðilar lýstu yfir ánægju og stuðningi við tillöguna utan einn og það vekur nokkra athygli að það var félagsmálaráðuneytið sjálft, sem taldi hana ekki tímabæra. Og hvers vegna ekki? Jú, vegna þess hversu lítil reynsla væri komin á lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

En, virðulegi forseti, í ljósi mjög jákvæðra viðbragða þeirra aðila sem gerst þekkja til er tillagan endurflutt. Hverjir eru þeir aðilar? Jú, það er ekki hvað síst Jafnréttisstofa sem í umsögn sinni tekur fram að jafnréttismálin séu málaflokkur sem eigi undir högg að sækja og því sé verulega mikilvægt að stuðla að því að margir aðilar hafi slagkraft á þeim vettvangi. Það er einmitt eitt af því sem þessi tillaga miðar að, að hægt verði að auka slagkraft þeirra sem starfa í grasrót kvennahreyfingarinnar.

Jafnréttisstofa hefur samkvæmt umsögninni tekið þátt í alþjóðlegu starfi á sviði jafnréttismála og viðurkennir að hlutur félagasamtaka og hópa í slíku starfi hafi verið mjög takmarkaður, fyrst og fremst vegna þess að fjármagn hafi skort. Það kemur jafnframt fram hjá Jafnréttisstofu að það komi oft upp að hópar eða ýmsir aðilar sæki um fjármuni til að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi til Jafnréttisstofu en Jafnréttisstofa hafi því miður enga fjármuni í slíkt þannig að það verði að synja öllum umsóknum af því tagi.

Jafnréttisstofa segir sömuleiðis í umsögn sinni að jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna, sem eru eins og við öll vitum nýjung í íslenskri jafnréttislöggjöf, hafi sinnt afar óskilgreindu hlutverki hingað til og hlutverk þeirra sé breytilegt eftir ráðuneytum. Þótt Jafnréttisstofa lýsi því yfir að hún hafi átt gott samstarf við jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna þá lýsir hún samt sem áður ánægju sinni með það að þingsályktunartillagan skuli gera ráð fyrir því að hlutverk jafnréttisfulltrúanna verði skýrt og telur hana í anda þeirrar samþættingar sem er eitt meginviðfangsefni ríkisstjórnarinnar á sviði jafnréttismála.

Hæstv. forseti. Þetta mál komst einmitt á dagskrá í síðustu viku á afmælisdegi Kvenfélagasambands Íslands sem fagnaði þá 75 ára afmæli sínu. Mér þótti afar viðeigandi að þessi tillaga yrði rædd á þinginu á þeim degi. Örlögin höguðu því þó þannig að hún komst ekki á dagskrá þann dag en við látum okkur hafa það að senda síðbúnar afmæliskveðjur úr ræðustól til Kvenfélagasambands Íslands í tilefni af 75 ára afmælinu. Eins og menn vita er þetta ár afar stórt afmælisár þegar litið er til kvennasögunnar á Íslandi og á eflaust eftir að minnast á það í fleiri ræðum það sem eftir lifir af þessu þingi.

Tillagan á að öðru leyti rætur að rekja til tillögu sem hv. fyrrverandi þingkonur Kvennalistans, Kristín Halldórsdóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir, fluttu á 123. löggjafarþingi. Þá hlaut tillagan ekki brautargengi. Henni var vísað til félagsmálanefndar til frekari umfjöllunar. Ég gerði það að gamni mínu að fletta upp á vef Alþingis fyrir 123. löggjafarþing. Þar stendur um þessa tillögu Kristínar og Guðnýjar að hún sé til umfjöllunar í félagsmálanefnd síðan 12. mars 1999. Ég viðurkenni að þetta er viðamikil tillaga og kann að vera þörf á að fjalla mikið um hana en ég held því samt fram að félagsmálanefnd hafi ekki varið miklum tíma frá þeim tiltekna degi.

Ég vil bæta því við málflutning minn varðandi þetta mál að ég komst að því að sænska þingið hefur látið gera rannsókn á því hvernig sænska ríkið standi við bakið á kvennasamtökum þar í landi og hversu miklir fjármunir renni til kvennasamtaka úr ríkissjóði. Það var þáverandi dómsmálaráðherra Svíþjóðar, ef ég man rétt, Mona Sahlin sem tilnefndi sérstakan ráðgjafa til að hafa yfirumsjón með þeirri rannsókn þingsins. Niðurstöðurnar voru birtar 10. júní síðasta sumar. Í greinargerð málsins er að finna mjög mikinn fróðleik um stöðu kvennasamtaka í Svíþjóð og þar eru líka tillögur til úrbóta hvað varðar fjárhagslegan stuðning hins opinbera.

Í skýrslunni er lögð áhersla á það að kvennahreyfingin sé þýðingarmikil vegna hins lýðræðislega afls sem í henni býr enda sé hún upphaflega sprottin af baráttu kvenna fyrir kosningarrétti og almennum mannréttindum í lok 19. aldar. Þörfin fyrir opinbert fjármagn er viðurkennd í skýrslunni og rökstudd á ýmsa lund, m.a. með því að lýðræðislega kjörin stjórnvöld þurfi á þeim áhrifum að halda sem kvennahreyfingin getur látið þeim í té. Þetta finnst mér vert að undirstrika, hæstv. forseti. Ég tel að lýðræðislega kjörin stjórnvöld þurfi verulega mikið á þeim áhrifum að halda sem kvennahreyfingin getur látið þeim í té.

Meðal þess annars sem er áhugavert í þessari sænsku skýrslu er lausleg könnun á opinberum stuðningi á hinum Norðurlöndunum við kvennahreyfinguna. Í henni kemur í ljós að Svíþjóð, Finnland, Noregur og Danmörk hafa sett opinbera fjármuni til kvennahreyfingarinnar í löndunum þótt við það hafi verið farnar ólíkar leiðir. Svíþjóð, Finnland og Noregur hafa auk þess stutt fjárhagslega við bakið á kvennadeildum eða félögum stjórnmálaflokkanna með framlögum, annaðhvort með því að veita beint til þeirra eða með því að eyrnamerkja hluta þess fjár sem rennur til stjórnmálaflokkanna almennt. Ég tel að þetta sé einnig afar athyglisvert fyrir okkur Íslendinga að skoða. Það er sameiginlegt keppikefli stjórnmálaflokkanna að auka hlut kvenna í stjórnmálum og því ekkert óeðlilegt að þjóðþingið komi til móts við þau sjónarmið að kvennahreyfingar stjórnmálaflokkanna fái sérstaka athygli í fjárveitingum.

Í samanburðinum sem gerður er í skýrslunni sést að Ísland og Færeyjar skera sig úr að því leyti að kvennahreyfingunni í þessum löndum er ekki ætlað neitt formlegt framlag frá ríkinu þótt við veitum auðvitað ákveðinn stuðning til kvennahreyfingarinnar í gegnum einstök ráðuneyti. Það er hins vegar allt tilviljunum háð og kannski geðþótta einstakra ráðherra.

Hlutirnir hafa verið í nokkuð föstum skorðum í Svíþjóð hvað þessi mál varðar. Þar hefur staðan verið best eða lengst á veg komið á öllum Norðurlöndunum. Þar hefur verið lagaskylda á stuðningnum sem á sínum tíma var studd þeim rökum að leggja þyrfti áherslu á þýðingu kvennahreyfingarinnar fyrir bætta stöðu kvenna í samfélaginu. Skýrsluhöfundar leggja til breytingu á sænsku löggjöfinni sem gæti aukið enn á þátttöku kvenna í lýðræðisþróun, fylgt betur eftir réttindum kvenna og kortlagt kröfur þeirra. Þetta eru grundvallaratriði í störfum kvennahreyfingarinnar, þ.e. að þær fái tækifæri til að leggja sitt lóð á vogarskálar aukins og bætts lýðræðis og til að fylgja eftir réttindamálum kvenna og gera kröfur kvenna og kvennahreyfingarinnar skýrar.

Tillögur skýrsluhöfundanna ganga út á að stuðningur til kvennasamtaka verði þríþættur: Í fyrsta lagi almenns eðlis, á svipuðum nótum og verið hefur. Í öðru lagi að nýstofnuðum kvennasamtökum, þ.e. nýjum hreyfingum eða samtökum sem verða til verði gefinn sérstakur gaumur og í þriðja lagi að hægt verði að sækja um sérstaka verkefnatengda styrki. Þannig er lagt til í skýrslunni að allt að 140 millj. sænskra króna verði til ráðstöfunar fyrir almennar styrkveitingar og gert er ráð fyrir að til viðbótar við þau 18 félög sem um þessar mundir njóta opinbers stuðnings muni um 20 ný bætast í hópinn.

Ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti, hvort ég hafi ekki misritað þessar 140 millj. Ég veit að þetta eru afskaplega háar tölur en ég las þessa skýrslu af mikilli athygli. Ég var kannski búin að umreikna þetta — nei, þetta eru 140 millj. sænskra króna. Ég man það örugglega rétt.

Skýrsluhöfundarnir gera ráð fyrir að um 1 millj. sænskra króna þurfi að vera til ráðstöfunar í erlent samstarf, 2 millj. í stuðning við ný félög og sérstakt frumkvæði og loksins 13 millj. í verkefnatengda styrki. Samtals leggja skýrsluhöfundar til að 30 millj. sænskra króna verði ráðstafað til kvennahreyfingarinnar á ári. Það mundu vera um 300 millj. íslenskra króna og gera Svíarnir ráð fyrir að það muni gagnast 35–60 einstökum félögum. Sem sagt, 300 millj. leggja sænsku skýrsluhöfundarnir til að renni til kvennahreyfingarinnar í það heila tekið og það muni gagnast allt að 60 félögum. Það má segja að ólíkt höfumst við að, herra forseti, á Norðurlöndunum hvað þessi mál varðar.

Fyrir utan mjög svo athyglisverðu tillögur gerir þessi sænska skýrsla ráð fyrir því að það verði tekið úr höndum félagsmálaráðuneytisins að úthluta þessu fé. Þess í stað verði umsýslan og ákvarðanavaldið flutt til sjálfstæðrar stofnunar en meðan ekki hefur verið stofnuð sérstök umsýslustofnun um þetta mætti athuga hvort ekki sé fært að fela umboðsmanni jafnréttismála í Svíþjóð hlutverkið eða opinberri nefnd um málefni ungs fólks t.d. eða nefndinni sem fer með málefni fullorðinsfræðslu. Hér er lögð áhersla á að höggvið verði á hin beinu tengsl félagsmálaráðuneytisins eða ráðherrans við þessar fjárveitingar.

Til gamans má geta þess að skýrslan gerir ráð fyrir að ríkisstjórnin þurfi að setja um bil 3,5 millj. sænskra kr. í umsýslu þessara mála, þ.e. 35 millj. í umsýslu þessara fjárveitinga til kvennahreyfinganna. Ég þori að fullyrða að kvennahreyfingin á Íslandi yrði ánægð þótt ekki væru nema 35 millj. kr. eyrnamerktar Kvennahreyfingunni á Íslandi á hverju ári. Við erum ekki einu sinni hálfdrættingar og langt fyrir neðan það sem þessar systurþjóðir okkar eru að tala um. Það er ekki einu sinni sambærilegt og himinn og haf þar á milli.

Ég hef nú greint frá vangaveltum skýrsluhöfunda. Enn sem komið er hefur ekkert lagafrumvarp litið dagsins ljós á grundvelli þessarar skýrslu. Engu að síður þótti mér rétt að geta um skýrsluna, úr því að mér var bent á að hún væri komin. Mér fannst rétt og forvitnilegt fyrir alþingismenn að fá að heyra hvað félagar okkar í sænska þinginu og rannsóknaraðilar á þeirra vegum aðhafast.

Að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og félagsmálanefndar.



[16:54]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mitt erindi í ræðustólinn að þessu sinni er að lýsa stuðningi við prýðilega tillögu þeirra hv. þingmanna Kolbrúnar Halldórsdóttur og Þuríðar Backman. Sem betur fer er það opinber stefnumörkun á Íslandi að stuðla að jafnrétti kynjanna og raunar ýmsu öðru jafnrétti. Hver einasti stjórnmálaflokkur tekur a.m.k. í orði undir þá stefnu, einkum þegar nálgast kosningar. Það er engin ástæða til að ætla að stjórnmálaflokkarnir meini ekki það sem þeir segja um þau mál. Þeir hafa hver með sínum hætti, þegar þeir hafa haft aðstöðu til í ríkisstjórn eða í forustu sveitarfélaga, beitt sér fyrir árangri í þessum efnum. Ég held að það sé rétt að undanskilja engan stjórnmálaflokk í því efni.

Ýmis réttindamál að eiga sér sinn tíma. Fram koma hugsjónamenn og baráttumenn fyrir ákveðnum réttindum eða fyrir því sem á þykir skorta í samfélaginu. Þeir berjast hetjulega og um þá myndast hreyfingar fyrir baráttumálinu. Hreyfingarnar koma einhverju á legg sem síðan hefur oft, a.m.k. í okkar heimshluta eða hér á Norðurlöndum, orðið til þess að hið opinbera, sveitarfélög eða ríki, hafa með einhverjum hætti tekið við því. Það má nefna leikskólana sem dæmi um slíkt. Hér er ekki um þvílíkt mál að fást. Jafnréttismálin eru brýnt úrlausnarefni enn þá þótt liðin séu 100 eða 120 ár frá upphafi hinnar klassísku kvennahreyfingar eða um það bil 30 eða 35 ár frá upphafi hinnar nýrri kvennahreyfingar. Ég ætla ekki að fara í sundurgreiningar á þeim nær okkur í tíma. Enn vantar þó mikið á og ég held að jafnréttismálin verði, jafnvel í besta heimi allra heima sem einhvern tíma rennur upp, sífellt verkefni. Hver einasta ný kynslóð þarf að móta afstöðu til málsins og koma sér niður á hvernig jafnréttismálunum sé best háttað og hvernig með þau eigi að vinna. Þess vegna er svo mikilvægt, forseti, að til sé veruleg hreyfing og samtök í grasrótinni í þessum efnum, að kvennahreyfingin sé sterk og öflug og aðrir hópar sem vinna að jafnari stöðu kynjanna á Íslandi eða í heiminum, eins og það er orðað í þingsályktunartillögunni, séu líka sterkir. Margt gott er hægt að gera í ráðuneytum eða sveitarstjórnum en það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir þann áhuga, þann vilja, kraft og stuðning og þrýsting sem kemur frá samtökum í grasrótinni, hvort sem um er að ræða samtök sem upp koma og eiga við tiltekinn tíma eða formlegri samtök sem eiga sér töluverða sögu, t.d. Kvenréttindasamband Íslands.

Það væri vel við hæfi að þessi tillaga eða einhver svipuð yrði samþykkt á þessu þingi. Eins og hv. flutningsmaður nefndi er núna merkilegt afmælisár, raunar ákaflega margvíslega merkilegt í sögu kvenna og kvennahreyfingar á Íslandi. Hv. þingmaður nefndi Kvenfélagasambandið sem átti afmæli um daginn. Ég get nefnt tvennt í viðbót. Annars vegar kosningarrétt kvenna 1915, sem nú hefur verið í 90 ár og verður væntanlega haldið veglega upp á í byrjun sumars. Síðan er sjálft kvennaverkfallið orðið 30 ára og vonandi verður þess minnst með viðeigandi máta á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október.

Ég held að þetta sé góð tillaga. Einkum tel ég snjallt að stofna sjóð sem njóti sjálfstæðis frá hverjum og einum ráðherra þannig að það sé ekki undir þeim komið — að þeim algerlega ólöstuðum enda breytingar á ferð í þeim hópi, a.m.k. vonar maður það — þannig að það fari ekki eftir pólitík, hvorki flokkspólitík né persónupólitík ráðherrans, hvaða samtök og grasrótarhreyfingar kynnu að njóta styrkja eða stuðnings úr sjóðunum. Auðvitað má segja að þetta eigi með sínum hætti við allt félagslíf en þó er á það að minnast að önnur félagasamtök njóta oft og tíðum einhvers konar stuðnings, án þess að ég jafni kvennahreyfingunni saman við neitt annað vegna þess að hún er alveg sérstök. Íþróttahreyfingin nýtur þegar töluverðs stuðnings frá sveitarfélögum og má heita fastur liður að sveitarfélög styrki íþróttafélög á sínu svæði. Sama gildir um stjórnmálafélög þó að hagur þeirra hafi nú mjög versnað á síðari árum, t.d. eftir að póstgjald var hækkað og af ýmsum orsökum öðrum. En stjórnmálaflokkarnir hafa a.m.k. ákveðinn stuðning í gegnum fjárlög en það hafa grasrótarhreyfingar á þessu sviði, kvennahreyfingar og aðrir jafnréttishópar, ekki.

Ég vil svo í lokin spyrja hv. flutningsmann sem hér er stödd að því hvort hún eða þær hafi gert sér einhverjar hugmyndir um með hvaða hætti fjármagn geti runnið í þennan sjóð, hvort það eigi að fara af fjárlögum eða hvort það eigi að vera einhverjir tekjustofnar eða með hvaða hætti það geti verið.

Ég verð að vísu að segja að síðari liður tillögunnar er mér ekki jafnmikið fagnaðarefni og hinn fyrri og vil biðja hv. flutningsmann, ef hún ætlar í stólinn aftur, að skýra það betur hvað sá liður hefur eiginlega við hinn fyrri lið saman að sælda, því að þar er um að ræða eitthvert skipulag ráðuneyta og starfsliðs þeirra og ég sé í raun og veru ekki að það sé markmið sem hægt er að ná með þeim hætti að þingið t.d. gæti fylgt því eftir, ef það yrði svo gæfusamt að samþykkja þessa tillögu.



[17:02]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni afar jákvæðar móttökur og málefnalegar umræður um þessa tillögu.

Svör við spurningum hans í fyrsta lagi hvað varðar a-liðinn þá gerum við ráð fyrir að þessi sjóður verði stofnaður með ákveðnum lið í fjárlögum, þ.e. við hugsum okkur ekki að það séu einhverjir aðrir markaðir tekjustofnar en þeir að Alþingi Íslendinga samþykki upphæð til málaflokks á þessum nótum, þannig að það sé alveg á hreinu að við erum ekki að hugsa um neina aðra tekjustofna.

Varðandi síðan b-liðinn, um eins konar íhlutun í innri málefni ráðuneyta þá er sá liður kannski kominn til vegna þess að jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar hefur sýnt okkur og sannað að það gengur afar illa fyrir ríkisstjórnina að samþætta jafnréttismálin inn í öll þau störf sem unnin eru í stjórnsýslunni. Það eru fögur fyrirheit og það eru undirritaðir alþjóðlegir samningar og yfirlýsingar norrænna ráðherra um þessi mál, að jafnréttismálin verði samþætt inn í alla málaflokka, en það hefur tekist afar illa í ráðuneytum okkar. Ein af ástæðunum fyrir því er sú að innan ráðuneytanna hefur málaflokkurinn ekki haft nægilega mikið vægi. Hann hefur ekki verið vistaður eða haft þann sess sem honum ber. Það er vegna þess að það er enginn einn aðili í ráðuneytunum sem aðgætir það að jafnréttismálin séu samtvinnuð öllum þeim málum sem viðkomandi ráðuneyti vinnur með.

Þó erum við komin svo langt að ráðuneytin eiga að munstra jafnréttisfulltrúa í ráðuneytum sínum, en það eru þá venjulega einstaklingar sem sinna einhverjum allt öðrum störfum í ráðuneytunum og eiga að sinna jafnréttismálunum svona til hliðar.

Vægi þessa málaflokks í ráðuneytunum hefur ekki verið með þeim hætti að samþættingaráformin hafi getað gengið eftir. Það er svona hugmyndin eða hugmyndafræðin á bak við b-liðinn.



[17:03]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svörin en ég held að hv. flutningsmenn séu kannski fullbláeygir um b-liðinn því að jafnvel í hinu besta ráðuneyti af öllum ráðuneytum tel ég að of náið samneyti grasrótarinnar við ráðuneytin geti hugsanlega verið grasrótinni varasamt. Ég veit ekki hvort hægt er að koma á beinum stjórnsýslulegum tengslum af slíku tagi þarna á milli. Kannski ætti að orða þetta svo eða a.m.k. koma því þannig í verk að jafnréttisfulltrúarnir verði með einhverjum hætti styrktir og það verði séð til þess að þeir séu t.d. í fullu starfi og að þeir hafi einhverjar skýrsluskyldur út á við, þannig að hinir pólitísku ráðamenn í ráðuneytinu verði að taka tillit til þeirra og vinna með þeim. Í stað þess, eins og hv. flutningsmaður sagði, að þeirri stöðu eða þeim titli sé svona splæst á menn sem eru í raun og veru — menn í skilningnum karlar eða konur — að gera eitthvað annað.

Með sjóðinn á fjárlögum þá er það bara viðfangsefni sem gaman væri að takast á við. Auðvitað mætti líka hugsa sér að sá sjóður yrði styrktur með annars konar framlögum eða hefði einhverja tekjustofna þó að ég viti að markaðir tekjustofnar eru ekki í tísku á okkar áratugum.



[17:05]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni hvað varðar tengsl ráðuneytanna við grasrótina að það liggi kannski ekki í augum uppi að slík tengsl eigi að vera til staðar eða að styrkja þurfi þau eða efla eitthvað sérstaklega. Það liggur ekki í augum uppi. Á hinn bóginn vil ég meina að það yrði jafnréttisfulltrúum ráðuneytanna styrkur ef þeir gera sér grein fyrir því eða vita á hverjum tíma hvað grasrótin er að vinna í þessum efnum. Ég held að ákveðið samtal á milli ráðuneytanna, starfsmanna ráðuneytanna og þeirra sem starfa í grasrótinni að viðkomandi málefnum geti gert ráðuneytin ábyrgari og upplýstari um það sem er í gangi í grasrótinni hjá málaflokknum.

Ég held að þetta sé líka spurning um að koma á virku samtali þannig að ráðuneytin verði ekki í einhverjum fílabeinsturni og átti sig ekki á því að þau eru auðvitað bandamenn þeirra sem vinna í grasrótinni. Það kann að vera að við séum bláeygar, flutningsmenn tillögunnar, í þessum efnum en mér finnst svo þýðingarmikið að það komist af stað öflugt skapandi samtal á milli grasrótarinnar, ekki bara í jafnréttismálum heldur almennt í almannasamtökum, að það sé virkt, opið, skapandi samtal á milli grasrótarinnar og þeirra sem hafa umsýslu með málaflokknum í umboði t.d. ráðherranna.

Ég held að það hafi fyrst og fremst verið slíkar hugsanir sem við vorum að reyna að koma hér í orð og reyna að skýra með þessari tillögu. Ég held að það væri mjög gaman ef félagsmálanefnd færi einmitt ofan í saumana á þessu og skoðaði kannski frá víðum sjónvinkli þau atriði sem upp hafa komið í umræðunni því það kann vel að vera að það megi bregða á þetta öðrum gleraugum en þeim sem við höfum gert sem erum flutningsmenn.

Ég geri ekki ráð fyrir að koma aftur í ræðustól þannig að ég ætla að ljúka máli mínu með því að þakka góðar undirtektir og láta í ljósi þá von að félagsmálanefnd taki þetta málefni til virkrar umfjöllunar.