132. löggjafarþing — 95. fundur
 29. mars 2006.
Háskóli Íslands.
fsp. BjörgvS, 578. mál. — Þskj. 840.

[14:12]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrr í vetur velti hæstv. menntamálaráðherra því upp við rektor Háskóla Íslands hvað þyrfti til að Háskóli Íslands kæmist í hóp 100 bestu háskóla í heimi. Nú eru til nokkrar tegundir af mælikvörðum á það, það er svokallaður Shanghai-listi og það er Times Higher Supplement listinn og ýmsir listar sem þar um ræðir, en mælikvarðarnir eru yfirleitt þeir sömu. Þessi hugmynd hefur vakið mikla athygli hjá rektor Háskóla Íslands og hæstv. menntamálaráðherra og sérstaklega í ljósi þeirrar stöðu sem Háskóli Íslands er í.

Niðurstaðan af málþingi um samkeppnishæfi opinberu háskólanna í gær var einföld og afdráttarlaus. Hún var sú að ríkisháskólarnir eiga á hættu að verða annars flokks skólar. Þetta stingur í stúf við það háleita og glæsilega markmið forustumanna Háskóla Íslands um að koma honum í hóp 100 bestu háskóla. Þess vegna beini ég eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra:

1. Hvernig hyggst ráðherra vinna að því að skólinn nái þessu marki?

2. Hefur verið gerð áætlun um slíkt, og ef svo er, hver er hún?

3. Fylgja þessu markmiði auknar fjárveitingar til skólans eða heimild til aukinnar gjaldtöku?

Auk þess hefur komið fram í máli rektors Háskóla Íslands að til að skólinn eigi einhverja möguleika á að ná þessu markmiði þurfi hann að fimmfalda útskrifaða doktorsnema, hann þarf að auka tekjur sínar um tæpa fimm milljarða á ári, ná því marki á fimm árum með því að auka tekjur sínar um 600–700 milljónir á ári, bæði til að vinna upp uppsafnaðan halla og til að ná í áttina að þessu markmiði.

Þá kom einnig fram á málþinginu að framlög til háskólastigsins á Íslandi úr opinberum sjóðum eru u.þ.b. 1% af vergri landsframleiðslu á meðan þau eru 1,8–1,9% á hinum norrænu löndunum. Þetta kom skýrt fram í áliti og framsögn manna á málþinginu í gær. Háskóli Íslands er því ákaflega langt frá því að ná þessu markmiði en hann gæti örugglega náð því ef ekki strandaði á stjórnvöldum. Viljaskortur stjórnvalda til að byggja undir skólann og gera honum kleift að blómstra hefur í rauninni komið í veg fyrir að skólinn nái að springa út, staðan er nöturleg en gagnlegt að skoða hana í ljósi áðurnefndra markmiða.

Þá sagði forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða Háskólans í gær á þinginu, með leyfi forseta:

„Þá væri það vandi að huglaus stjórnvöld vörpuðu pólitískri ábyrgð á stjórnendur HÍ, bæði í skólagjaldamálum og hvað varðaði aðgangstakmarkanir.“

Allt ber því að sama brunni. Skólinn býr við mjög þröngan fjárhagslegan kost. Hann er óralangt frá að ná því markmiði sem fram hefur verið sett um að komast í hóp úrvalssveitar hinna 100 bestu háskóla en óskandi væri að skólanum væri gert kleift að ná því. Þess vegna hlýtur að vakna sú spurning hvort vænta megi stefnubreytingar í áherslum stjórnvalda þegar um er ræða það mikla fjárfestingarátak sem þarf að ráðast í til að Háskóla Íslands verði gert þetta kleift og ber að muna að hæstv. menntamálaráðherra vakti (Forseti hringir.) fyrst máls á þessari hugmynd og hún hlýtur að ætla að fylgja henni eftir.



[14:16]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Þegar leitast er við að svara spurningum hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um þau áform Háskóla Íslands að verða einn af 100 bestu háskólum í heimi þykir mér rétt að geta þess hér að Háskóli Íslands hefur sjálfur sett sér það markmið að verða leiðandi afl í uppbyggingu þekkingarsamfélagsins og stefnir í því samhengi að því að skipa sér í röð 100 bestu háskóla í heiminum innan 10 til 12 ára. Með því að setja sér ögrandi og djörf markmið um að komast í hóp 100 bestu háskólanna er skólinn að leggja fram sinn skerf til þekkingarsamfélags okkar sem við stefnum síðan öll að, en íslensk stjórnvöld hafa sett fram þá stefnu Ísland verði meðal fremstu þekkingarsamfélaga árið 2010.

Það hefur verið markmið mitt á undanförnum árum að leyfa háskólasamfélaginu að vaxa og dafna á eigin forsendum og byggja því það umhverfi sem leiðir af sér frumkvæði, kraft og sköpunarmátt. Við höfum náð að fjölga nemendum eins og margoft hefur komið fram og það ætluðum við okkur að gera til að geta tekist á við önnur öflug og mikilvæg verkefni síðar meir.

Hins vegar má benda á að ég hef einnig lagt áherslu á þá þætti sem þykja mikilvægir þegar háskólar eru flokkaðir eftir árangri og gæðum. Staða háskóla á slíkum gæðalistum, sem hv. þingmaður kom m.a. inn á, ákvarðast að stórum hluta af almennum gæðum náms, fjölda nemenda í meistara- og doktorsnámi og umfangi og árangri rannsóknarstarfseminnar í skólanum.

Ég hef einmitt lagt áherslu á þessa þætti í minni tíð sem menntamálaráðherra. Það er ljóst að Háskóli Íslands er elsti og stærsti háskóli landsins og þar er þungamiðja háskólarannsókna hér á landi. Það hefur margoft komið fram að rannsóknarstarf skólans er öflugt og vaxandi að afköstum. Góðar forsendur eru því fyrir eflingu doktorsnáms á mörgum sviðum og nýting fjármuna er góð. Þannig má segja að skólinn hafi ákveðna burði til að stefna að því í áföngum að komast á lista hinna bestu á komandi árum.

Markmið háskólans er því ekki sett fram, eins og margir hafa viljað telja, sem einhver meiningarlaus uppsláttur, heldur að vel ígrunduðu máli og þá sérstaklega af hálfu rektors Háskóla Íslands. Ég tel það skipta miklu máli að það verði skoðað af mikilli alvöru af hálfu stjórnvalda að móta Háskóla Íslands þannig umhverfi að hann hafi faglega sem fjárhagslega burði til að skipa sér í hóp þeirra bestu.

Við höfum sameiginlegt markmið um að koma Íslandi í fremstu röð þekkingarsamfélaga. Aðrar Norðurlandaþjóðir eiga nú þegar háskóla á þessum lista og sumar fleiri en einn. Við vitum að þetta kostar fjármuni. Við höfum verið að fjárfesta þó að sumir vilji ekki koma auga á það að bæði fjölgunin og fjárfesting í menntun á síðustu árum hefur verið gríðarleg. Ég man eftir að einn stjórnmálaflokkur sagði fyrir nokkrum árum rétt fyrir kosningar að hann ætlaði að setja milljarð á ári í háskólann. Við erum löngu byrjuð á því og eiginlega búin að gera það á hverju einasta ári (Gripið fram í.) og munum gera það áfram. Við munum gera það áfram og efla og auka starfsemi háskólanna.

Það er auðvitað mjög auðvelt að koma hér með yfirboð. Ég fagna því þó sérstaklega að það skuli engu að síður vera mikill áhugi og eljusemi af hálfu allra þingmanna sem hér eru til að standa að því markmiði að komast í röð fremstu þekkingarsamfélaga í heimi. Ég vona að þeir geti slegist í lið með háskólanum og okkur sem viljum veg háskólans sem mestan og bestan til þess að hann geti staðið á þeim grundvelli að hann verði í fremstu röð.

Það er rétt að geta þess að í fjárlögunum 2006 hafa grunnframlög til rannsókna við háskóla á verksviði menntamálaráðuneytisins hækkað. Þá er ég að tala um grunnframlögin ein og sér, þau hafa hækkað um 140 milljónir. Jafnframt hafa framlögin til Vísinda- og Tæknisjóðs aukist svo um munar. Ég vil geta þess að áætlun vísinda- og tækniráðs er sú að tvöfalda þetta ráðstöfunarfé samkeppnissjóðanna á kjörtímabilinu. Ráðstöfunarfé sjóðanna hefur aukist úr 792 millj. kr. árið 2003 í 1.750 millj. kr. árið 2006. Það er því verið að bæta í á þeim sviðum þar sem bæta þarf.

Ég mun fara sérstaklega yfir þessi mál með rektor Háskóla Íslands. Við munum að sjálfsögðu taka þetta inn í áætlanir okkar eins og við getum innan þeirra marka sem snerta fjárlög og efnahagsmál. Við munum gera það sem við getum til að stuðla að því að háskólinn nái þessu takmarki á 10–12 árum. En við vitum að fleira þarf að koma til. Það þarf fleira að koma til en eingöngu fjárframlög af hálfu ríkisins. Það er eitt og annað sem gera þarf í innri skipulagsmálum háskólans. Það hefur margoft komið fram í þeim skýrslum sem (Forseti hringir.) hafa verið lagðar fram sem og að auka framlög annars staðar frá til háskólasamfélagsins.



[14:21]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætlaði að taka undir það sem komið hefur fram hjá öðrum hv. þingmönnum að það markmið Háskóla Íslands að skipa sér sess meðal 100 bestu háskóla í heimi er metnaðarfullt. Það er markmið sem ég styð eindregið.

Af því að hv. þingmaður kallaði eftir svörum frá hæstv. ráðherra um hvað íslensk stjórnvöld ætluðu að gera til að auðvelda háskólanum að ná þessu markmiði sínu, finnst mér rétt að það komi fram í umræðunni að frumvarp til laga um háskóla frá hæstv. menntamálaráðherra er núna til umfjöllunar. Það kom fram hjá Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, á fundi menntamálanefndar að hún teldi að það frumvarp væri mjög ánægjulegt og merkilegt skref fyrir háskólann til að ná þessu markmiði sínu. (Forseti hringir.) Það sem mig langar að fá fram í þessari umræðu (Forseti hringir.) er svar við þeirri spurningu (Forseti hringir.) hvað hv. þingmaður vill gera í málinu vegna þess að það skortir.

(Forseti (JóhS): Enn og aftur skal það ítrekað að óskað er eftir því að þingmenn haldi sig innan tiltekins ræðutíma.)



[14:22]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Fyrirsögnin sem birtist í Morgunblaðinu í frásögninni af málþinginu sem haldið var í gær um samkeppnishæfi opinberra skóla er þessi: „Ríkisskólarnir eiga á hættu að verða annars flokks skólar.“

Þetta er afar alvarleg niðurstaða og upphrópun frá þessu málþingi sem hæstv. menntamálaráðherra verður auðvitað að taka mjög alvarlega. Sá stuðningur sem hæstv. menntamálaráðherra lýsir yfir við hina opinberu háskóla verður að vera algjörlega afdráttarlaus. Það er mjög mikilvægt sá stuðningur sem hæstv. menntamálaráðherra gefur út í sölum Alþingis sé trúverðugur og sömuleiðis í samstarfi sínu við Háskóla Íslands.

Það er lífsspursmál fyrir Háskóla Íslands að hafa hæstv. menntamálaráðherra með sér í þeim áformum sem uppi eru núna að gera Háskóla Íslands samkeppnishæfan ekki bara innan lands heldur á alþjóðavettvangi.



[14:24]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það vekur athygli að hinum hraðmælta og knáa menntamálaráðherra hæstv. tókst að standa í stólnum í allar þær mínútur sem hún á hér án þess að svara neinni af þeim þremur spurningum sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson bar hér fram.

Hvernig hyggst ráðherra vinna að því að Háskóli Íslands nái þessu setta marki? Jú, sagði menntamálaráðherra, ég hef mótað mér þá stefnu að búa háskólanum þannig umhverfi að hann hafi faglegt sem fjárhagslegt bolmagn til að skipa sér í hóp hinna bestu. Hún hefði alveg eins getað sungið hér „Sáuð þið hana systur mína“.

Ráðherrann segir svo um fjárþörf háskólans að vissulega þurfi ríkið að koma til ef þetta eigi að verða að veruleika en fleira þurfi að gerast, það þurfi breytingar á innra skipulagi og fjármagn annars staðar frá. Á að skilja þetta svo að þetta daufa loforð, óljósa loforð um aukið fjármagn sé háð þeim skilyrðum að háskólinn fái fjármagn annars staðar frá og breyti innra skipulagi? Frá hverjum? Frá nemendum?



[14:25]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta voru alveg ótrúlega rýr svör hjá hæstv. menntamálaráðherra sem hér komu fram við fyrirspurn hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar. Það er alveg með hreinum ólíkindum að eftir allan þann tíma, eftir allan þann árafjölda sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með menntamálin í landinu, skuli ekki enn vera komin skýr sýn og skýr markmið um hvert við stefnum með háskólastigið, heldur er staðið endalaust í þessum stól og málið þvælt með því að tala um góðan vilja og með því að fjalla um þá þætti málsins sem kannski skipta minna máli þegar kjarni málsins er fjármögnunin. Það kom skýrt fram í báðum þeim skýrslum sem komu fram á síðasta ári og að Háskóli Íslands hefur staðið sig mjög vel í því að vinna úr þeim lágu framlögum sem honum er úthlutað af hálfu ríkisins. Hin skýra sýn sem við þurfum (Forseti hringir.) að heyra hér snýst því um fjármagn fyrst og fremst.



[14:26]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra er gjarnt að gefa málflutningi okkar í Samfylkingunni einkunnir. (Menntmrh.: Nú?) Flest það sem við segjum hér kallar hún merkingarlaust þvaður og bull. Ég ætla ekki að velja orðum hæstv. ráðherra slíkar einkunnir. En ég hef hins vegar aldrei heyrt svar frá nokkrum hæstv. ráðherra sem hefur verið jafnmerkingarlaust og innihaldslítið. Það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra hefur enga sýn eða stefnu í þessu máli. Mér finnst hins vegar málið það þungt og alvarlegt að ég ætla hér fyrir hönd Samfylkingarinnar að óska formlega eftir að það verði rætt utan dagskrár við hæstv. ráðherra.

Það var hæstv. ráðherra sem fyrst vakti máls á þessu. Rektor háskólans tók hana á orðinu og sagði að hún vildi berjast fyrir þessu máli. Þá bað hæstv. ráðherra um kostnaðargreiningu. Hún liggur fyrir núna. Þá er spurt: Hvernig á að uppfylla þetta? Spurt er um afstöðu Samfylkingarinnar. Sá milljarður sem við lögðum til umfram áætlanir ríkisstjórnarinnar mundi meira en duga samkvæmt áætlunum Kristínar Ingólfsdóttur.



[14:27]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Lengi getur vont versnað. Svo afleitt var svar hæstv. ráðherra við fyrirspurninni að það var átakanlegt að hlusta á það. Hæstv. ráðherra setti sjálf af stað fyrrgreinda áætlun um 100 bestu háskóla í heimi með því að velta því upp við rektor Háskóla Íslands. Í dag, þegar hún hefur tækifæri til að svara því hvernig hún ætli að standa við stóru orðin, heykist hún á að svara og svaraði engri af spurningunum þremur sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra. Ég hlýt að óska eftir að hún svari þeim í síðara svari sínu á eftir.

Svörin eru í sjálfu sér ákaflega einföld. Annaðhvort ætlar hæstv. menntamálaráðherra að gera skólanum þetta markmið kleift eða sýna a.m.k. viðleitni til að nálgast það með auknum framlögum sem nema 600–700 milljónum á ári. Þannig að aflafé skólans í það heila aukist um 4,8 milljarða á ári sem eru þær tölur sem settar hafa verið fram af rektor Háskóla Íslands og forustumönnum skólans. Annaðhvort ætlar hæstv. menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að framlög til skólans verði aukin sem þessu nemur eða að hún ætlar ekki að gera það. Tvískinnungurinn í framgöngu hennar hér er mjög dapurlegur. Annaðhvort svarar hún því afdráttarlaust að hún ætli að beita sér fyrir því að skólinn fái aukin framlög og eigi þannig einhverja möguleika á að ná því markmiði að verða einn af 100 bestu háskólum í heimi eða að þetta var ekkert annað en blekkingartal og skollaleikur til að slá ryki í augu fólks um raunverulega stöðu háskólanna, opinberu háskólanna, og það er grafalvarlegt.

Hætta er á því að þeir verði annars flokks, var niðurstaða og yfirskrift málþingsins í gær um stöðu opinberu háskólanna. Frumvarpið um háskóla sem hér var nefnt, og liggur fyrir menntamálanefnd, tekur í engu á því að jafna stöðu opinberu háskólanna til jafns við þá einkareknu eða sjálfstætt reknu, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli og óskir okkar stjórnarandstæðinga um að það verði tekið inn í lagagerðina. Það verður sem sagt ekki gert.



[14:29]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er greinilegt að það fer mjög fyrir brjóstið á hv. þingmönnum Samfylkingarinnar, sérstaklega, að ég skuli hafa leyft mér að hafa þá hugmynd og hugsjónastefnu að við eigum háskóla hér á landi sem verði hugsanlega í fremstu röð eftir 10–12 ár, að ég leyfi mér að setja fram slíka hugmynd. Mér finnst það frekar lýsa metnaðarleysi í hugmyndafræði Samfylkingarinnar að menntamálaráðherra landsins geti ekki lagt fram slíka spurningu og haft slíka hugsjón. Mér finnst ósköp dapurlegt að það skuli í rauninni vera leifarnar af þessari umræðu hér í dag.

Að sjálfsögðu mun ég styðja Háskóla Íslands í þeirri viðleitni sinni að verða háskóli í fremstu röð. (Gripið fram í: Hefurðu engin svör við þessu?) En það verður hins vegar ekki gert með þeim hætti að slengja fram einhverjum tölum eins og hv. þingmenn hafa gert. (Gripið fram í.) Frú forseti. Ég hef þegar sagt og margítrekað að ... (Gripið fram í.) Er hv. þingmaður búinn?

(Forseti (JóhS): Það er mikilvægt að hv. þingmenn gefi hæstv. ráðherra tíma til að svara fyrirspurninni.)

Þessi óróleiki er nú bara ánægjulegur. Ég held að hann sé vísbending um að það fari í taugarnar á hv. þingmönnum að standa frammi fyrir því að við séum að ræða háskólamál sem snerta Háskóla Íslands, og að ég skuli hafa leyft mér að setja fram þá hugmynd og þá stefnu að Háskóli Íslands verði í fremstu röð eftir 10–12 ár. Það fer í taugarnar á hv. þingmönnum.

Við höfum aukið framlög til háskólastigsins svo um munar á síðastliðnum árum. Nýjustu tölur munu sýna það, m.a. frá Hagstofunni. Það ætlum við að sjálfsögðu að gera áfram. Við ætlum að stórefla framlög til háskólastigsins. Það munum við gera. Það hefur komið fram í stefnu vísinda- og tækniráðs að við ætlum að efla rannsóknarsjóðina. Það er mín stefna að reyna að koma fram breytingum á Rannsóknarnámssjóði, sem gerir hvað? Hann gerir ekkert annað en að styrkja doktorsnema í háskólunum og þá ekki síst Háskóla Íslands. Það er hluti af þeirri stefnu sem stuðlar að því að við getum (Forseti hringir.) byggt upp háskóla sem er í fremstu röð meðal háskóla í heiminum. (Gripið fram í.) Ég vona að hv. þingmenn hætti nú að vera svona truntulegir og fari frekar með mér í það verkefni að stuðla að því að við Íslendingar (Forseti hringir.) eigum hér háskóla í fremstu röð.

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja hæstv. menntamálaráðherra að gæta orða sinna.)