136. löggjafarþing — 48. fundur
 10. desember 2008.
nýtt framhaldsskólapróf og fræðsluskylda.
fsp. KJak, 148. mál. — Þskj. 168.

[14:57]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þegar ný lög um skólastigin voru sett á síðasta þingi var miðað við eða gert ráð fyrir svokallaðri fræðsluskyldu til 18 ára aldurs og því tengt var sett á nýtt framhaldsskólapróf í nýjum lögum um framhaldsskóla.

Í lögunum er svo sagt, með leyfi forseta:

„Til að útskrifast með framhaldsskólapróf skal nemandi hafa lagt stund á nám sem svarar til 90–120 eininga samkvæmt námskrá og námsbrautarlýsingu sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra skv. 23. gr.“

Nú er unnið að útfærslu laganna í framhaldsskólum um land allt og greinilegt að ýmsar hugmyndir eru uppi um hvernig eigi að útfæra þetta framhaldsskólapróf. Meðal spurninga er hvort nemendum verði gert að ljúka prófi í 90–120 einingum eða hvort framhaldsskólapróf verði veitt nemendum sem leggja stund á nám í viðkomandi skólastofnun í eitt og hálft til tvö ár án þess þó endilega beinlínis að ljúka prófum eða þreyta próf í öllum þessum einingum.

Ég vil grennslast fyrir um stöðu þessarar vinnu, hvort þessi útfærsla liggur fyrir og hvort hæstv. menntamálaráðherra hefur eitthvert sérstakt viðhorf til þess hvernig eigi að skilgreina framhaldsskólaprófið. Enn fremur langar mig að kanna hvort þessu hefur þá fylgt umræða um reiknilíkanið sem framhaldsskólarnir fá úthlutað fjármunum samkvæmt og hvort ætlunin sé þá að skólarnir fái greitt fyrir nemendur upp að 18 ára aldri samkvæmt fræðsluskyldu óháð því hvort nemendur þreyta próf eða ekki, því hingað til hafa fjármunir og fjárveitingar miðast við að nemendur mæti í próf og einingafjöldinn sem þá er reiknaður miðast við það. En nú, þegar þessi hugmynd um fræðsluskyldu til 18 ára aldurs er uppi, velti ég fyrir mér hvort allir nemendur sem á annað borð eru skráðir í viðkomandi skólastofnun muni teljast virkir þegar fjármunum verður úthlutað.



[14:59]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir spurninguna. Það sem kom fram er hárrétt, fræðsluskyldan er nýmæli í íslenskum lögum og hugmyndin á bak við var skýr, við viljum tryggja börnunum okkar vist í framhaldsskóla til 18 ára aldurs ef þau kjósa svo. Það er því réttur þeirra að fara í skóla og um leið skylda hins opinbera að sjá til þess að þau geti fylgt eftir þeim rétti sínum.

Í nýjum lögum um framhaldsskóla, svo ég svari spurningum hv. fyrirspyrjanda, er gert ráð fyrir að skólar hafi aðlögunartíma til 1. ágúst 2011 til að uppfylla ákvæði laganna um skipulag náms, námslok, námskrár og námsbrautir. Þetta ákvæði gildir einnig um útfærslu framhaldsskólanna á hinu nýja framhaldsskólaprófi en það mun m.a. tengjast viðmiðunarramma menntamálaráðuneytisins um uppbyggingu námsbrauta, sem birtur verður í aðalnámskrá.

Í ráðuneytinu er nú unnið að reglugerðum sem tengjast nýjum lögum um framhaldsskóla og einnig er hafinn undirbúningur námskrárgerðar á þessu skólastigi. Er m.a. unnið að því að skilgreina í almennum kafla aðalnámskrár ákvæði um þrepaskiptingu náms og svokölluð hæfnisviðmið sem munu síðan liggja til grundvallar vinnu í framhaldsskólunum við uppbyggingu námsbrautanna og framhaldsskólaprófanna. Að þessari vinnu koma margir starfshópar á vegum ráðuneytisins þar sem aðilar, m.a. atvinnulífsins, koma að málum auk þess sem sjö framhaldsskólar hafa fengið sérstakan styrk til þróunarvinnu á þessu sviði.

Útfærsla framhaldsskólaprófsins er hluti af þessari vinnu og því er fyrirkomulag prófsins enn í mótun en það er unnið í samvinnu við þessa aðila sem ég minntist á áðan og við höfum styrkt þessa sjö framhaldsskóla sérstaklega til að útfæra þetta í samvinnu við okkur. Þetta undirstrikar kannski þann tón sem var dreginn fram í framhaldsskólalöggjöfinni að við erum ekki að fara inn í miðstýrt kerfi, ekki er skipun að ofan um hvernig þetta skal útfært. Útfærslan kemur ekki fullbúin frá ráðuneytinu heldur er hún unnin í samræmi við skólana. Vel getur verið að skólarnir hafi líka mismunandi áherslur varðandi útfærslu á prófunum og við verðum að skoða það.

Um fræðsluskyldu stendur í 32. gr. laga um framhaldsskóla að þeir sem eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla skuli eiga rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs en þurfa jafnframt að hlíta skólareglum. Framhaldsskóla er heimilt að gera sérstakar kröfur um undirbúning og námsárangur vegna innritunar á einstakar námsbrautir framhaldsskóla enda miði þær að því að bjóða nemendum fjölbreytt nám sem hæfir ólíkum undirbúningi þeirra. Í samningi skóla og menntamálaráðuneytis, samkvæmt 44. gr. laganna, skal kveðið sérstaklega á um skyldur einstakra framhaldsskóla við innritun nemenda og þær forsendur sem skólinn leggur til grundvallar innritun. Ráðuneytið vinnur að reglugerð um innritun nemenda og hefur einnig hafið skoðun á því hvernig hægt er að tryggja aðgengi nemenda að framhaldsskólum næsta vor í samræmi við fræðsluskyldu. Einnig verður fjallað um þessi atriði við endurnýjun samninga við framhaldsskóla um áramótin.

Í þessu samhengi og einnig í samhengi við það sem hv. þingmaður kom inn á varðandi þreyttar einingar og greiðslur fyrir þreyttar einingar er rétt að undirstrika að endurskoðun á reiknilíkaninu er á fleygiferð og nokkuð er síðan hún var sett af stað en hún tafðist vegna nýrra útfærslna í nýjum lögum sem verður eðlilega að taka tillit til. Þá stöndum við frammi fyrir spurningunum: Hvernig á að meta einingarnar? Hvað þýða þreyttar einingar? Verða próf eða verður það mat kennarans sjálfs að haka við að viðkomandi hafi í rauninni lokið viðkomandi einingum? Þetta er hluti af því sem verið er að fara yfir og ljóst að þeir menn og konur sem standa að mótun nýs reiknilíkans fyrir framhaldsskóla líta til þess að það er ekki eitthvert líkan í lofttæmi heldur verður miklu frekar að vera sveigjanlegt út af nýjum lögum.

Ljóst er að bæði menntamálaráðuneytið og skólar munu þurfa einhvern aðlögunartíma til að móta ferlið við innritunina sjálfa, hvernig best sé að tryggja rétt nemenda varðandi fræðsluskyldu, sem sagt undirstrika þennan rétt nemenda. Ég legg hins vegar ríka áherslu á að þessu ferli verði hraðað eins og kostur er enda er hér um mikið hagsmunamál að ræða, fyrst og fremst fyrir nemendur í öllum framhaldsskólum landsins.



[15:04]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er ljóst að það er mikil deigla í þessum málum og mikil vinna sem stendur yfir en mig langar þó aðeins að grennslast nánar fyrir um nokkur atriði.

Í fyrsta lagi hvað varðar endurskoðun reiknilíkansins. Ég fagna því að taka á upp aukinn sveigjanleika í því hvernig þreyttar einingar eru metnar. Það væri áhugavert að vita nánar um það hvenær ráðherra sér fyrir sér að þeirri endurskoðun ljúki. Því miður hefur reiknilíkanið verið þeim annmörkum háð að skólar hafa t.d. kennt nemendum heila önn sem hafa síðan ekki mætt í próf og þar af leiðandi hefur ekki verið greitt fyrir þá af því að þeir mættu ekki í próf þó að gert sé ráð fyrir þeim í öllum undirbúningi og þeir stundi nám jafnvel í tvo mánuði. Mér þætti áhugavert að vita hvort einhverjar tímasetningar eru í loftinu um það hvenær þessari endurskoðun verður lokið eða er áætlað að ljúki og hvort ráðherra telji líklegt að sá skilningur verði ofan á að miðað verði fremur við mat skóla á einingum til að fá greitt. Þetta skiptir auðvitað máli þegar kemur að fræðsluskyldunni, að skólar geti uppfyllt hana og staðið við hana og fái greitt fyrir nemendur sem sannanlega leggja stund á nám þó að þeir mæti, sumir hverjir, ekki í próf, því að það er vissulega það sem hefur verið við að eiga í mörgum framhaldsskólum hingað til. Mig langar að fá að vita aðeins nánar um þetta og þær tímasetningar sem kunna að liggja fyrir í þessum efnum.



[15:06]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Tímasetningar liggja í rauninni ekki fyrir og mér finnst miður að geta ekki sagt úr þessum stól að við verðum búin að endurskoða reiknilíkanið innan ákveðins tíma. Ástæðan er sú að þessi lög eru tiltölulega ný af nálinni, voru samþykkt síðasta vor, en það er mikill sveigjanleiki í þeim, ég ætla ekki að segja að hann sé algerlega nýr af nálinni en þarna er ný nálgun sem ég tel að reiknilíkansnefndin verði að skoða. Það getur vel verið að nefndin sem slík hafi aðrar skoðanir á þessu en ég. Ég tek undir að fulltrúi fjárlaganefndar situr í nefndinni og eðli málsins samkvæmt fylgist fjárlaganefnd vel með því hvernig á að útfæra reiknilíkanið, hvort reiknilíkanið sé að sinna þörfum framhaldsskólanna. Við munum að fyrir nokkrum árum var reiknilíkaninu breytt með tilliti til þess að auka vægi verknámsskóla og starfsnámsskóla. Sumir segja að það hafi verið of ýkt breyting, ákveðnir skólamenn hafa sagt það. Þetta er eitthvað sem verður að líta til. Nú verður að líta til þess þáttar hvernig reiknilíkanið ætlar að borga fyrir þá nemendur sem eingöngu verða síðan með framhaldsskólapróf. Hvernig á að greiða fyrir það? Þetta er verkefni sem ég tel að reiknilíkansnefndin eigi að fara yfir í samvinnu við bæði framhaldsskólana og ráðuneytið þannig að menn átti sig á hvernig hægt er að meta þær 90–120 einingar sem nemendur þurfa að uppfylla til að fá framhaldsskólapróf. Hluti af stefnumótuninni í kringum framhaldsskólaprófið og markmiðið með því að setja þetta fram á sínum tíma var m.a. að koma í veg fyrir brottfall. Við teljum að þetta sé sú leið, eins og t.d. Danir hafa farið, að bjóða upp á próf í framhaldsskóla sem er styttra en stúdentsprófið og það muni stuðla að því að brottfall minnki, enda er reynsla Dana af því ágæt.

Við verðum líka að leita í smiðju annarra, læra af reynslu annarra og sjá hvað setur allt til að byggja upp betra framhaldsskólakerfi.