136. löggjafarþing — 101. fundur
 12. mars 2009.
umræður utan dagskrár.

hagsmunir Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna.

[11:08]
Forseti (Kjartan Ólafsson):

Nú fer fram áður boðuð utandagskrárumræða um hagsmuni Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna. Málshefjandi er hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon verður til andsvara. Umræðan fer fram skv. 2. mgr. 50. gr. þingskapa og stendur í hálfa klukkustund.



[11:08]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það mál sem við fjöllum um hér, Icesave-ábyrgðirnar, er eitt mesta óréttlætismál seinni tíma. Þegar bankarnir hrundu kom í ljós að mjög hár reikningur mundi líklega lenda á íslensku þjóðinni vegna Icesave-ábyrgðanna. Þá voru nefndar tölur eins og 628 milljarðar en síðan hafa komið fram opinberlega tölur um að þetta gæti verið talsvert lægri upphæð. Skilanefnd Landsbankans nefnir töluna 72 milljarða. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann geti upplýst okkur um hver sannleikurinn sé í þessu máli ef hann er einhvers staðar sýnilegur í augnablikinu. Hvað er líklegt að þessar ábyrgðir séu háar?

Það er líka sárgrætilegt þegar maður skoðar málið til baka að hugsanlega hefðum við getað losnað við þessar ábyrgðir. Miðað við þá umræðu sem var í samfélaginu þegar þetta allt átti sér stað var talað um að fyrir 200 milljóna punda fyrirgreiðslu hefðu Bretarnir hugsanlega tekið ábyrgðirnar í sína lögsögu. Sú er hér stendur spurði þáverandi forsætisráðherra sérstaklega að þessu, hvort þetta væri rétt og fékk svar um að hæstv. forsætisráðherra hefði ekki vitað af þessu áður en Landsbankinn var yfirtekinn. Síðan hefur Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, upplýst að hann hefði upplýst fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra um þetta áður en Landsbankinn var tekinn þannig að svörin stangast á. Það er sárgrætilegt að horfa upp á þetta ef rétt er. Ég vil leyfa mér að trúa því að hæstv. forsætisráðherra hafi rétt fyrir sér í þessu máli en það þurfa að koma skýrari svör.

Fyrir nokkru spurði ég hæstv. utanríkisráðherra út í það hvort okkur bæri lagaleg skylda til að greiða. Í því svari sem kom segir að það séu þungvæg lögfræðileg rök sem hnígi að því að við verðum að greiða þessar upphæðir. Það kemur líka fram að ríkin þrjú sem hér eiga hlut að máli og öll ESB-ríkin og Noregur hafi þvertekið fyrir málarekstur á lögfræðilegum grunni um þetta mál og því sé sú leið ekki fær.

Ég spurði líka hæstv. utanríkisráðherra hvort gert hefði verið hagsmunamat á stöðu Íslands ef við borgum og ef við borgum ekki. Svörin sem ég fékk voru mjög veik, virðulegur forseti. Ég vil því beina sömu fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra: Hefur farið fram einhvers konar hagsmunamat á þessum leiðum, þ.e. ef við borgum og ef við borgum ekki? Ég geri mér grein fyrir því að ef við borgum ekki verður uppnám í EES-samningnum en það er spurning hvernig hagsmunamat okkar sé ef við borgum, virðulegur forseti.

Á sínum tíma var það niðurstaða íslenskra stjórnvalda, þ.e. Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, það var mat þeirrar ríkisstjórnar að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið væri best borgið með því að við greiddum þessar ábyrgðir. Í svari hæstv. utanríkisráðherra fyrir stuttu kemur það sama fram og ég vil lesa upp úr því svari af því að ég inni sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvort það sé ekki alveg rétt sem þar kemur fram. Þar stendur eftirfarandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Það er því mat núverandi ríkisstjórnar, og þeirrar fráfarandi einnig, að lausn deilunnar með aðstoð alþjóðasamfélagsins og þeirra ríkja sem næst okkur standa, fyrst og fremst Norðurlandanna, sé ein af forsendum endurreisnar íslensks efnahagslífs.“

Virðulegur forseti. Er það ekki þannig, og það er eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra svari því, er það ekki rétt skilið að Vinstri grænir séu þá sammála þessu mati, að það sé eðlilegt, skást í stöðunni ætti ég kannski frekar að segja, að borga þessar ábyrgðir? Ég spyr einnig hæstv. fjármálaráðherra: Hvar standa samningarnir yfirleitt? Nú er komin nefnd í þetta mál, ný nefnd sem Svavar Gestsson veitir forstöðu og væntanlega er hún að vinna gott starf, en hvernig standa samningarnir? Væri eðlilegt að samningaviðræður tækju jafnvel mörg ár? Við eigum kannski erfitt með að sjá núna hver greiðslugeta okkar er. Megum við búast við því að þetta gæti tekið mörg ár, virðulegur forseti? Ég tel mjög mikilvægt að bæði þing og þjóð átti sig á stöðunni af því að að lokum, þegar samningar eru á lokastigi, þarf Alþingi að samþykkja (Forseti hringir.) eða hafna ábyrgð á því að íslenska ríkið greiði þennan reikning. Það er mjög mikilvægt að við vitum hvenær von sé (Forseti hringir.) á niðurstöðu og í hvaða anda hún verður.



[11:13]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Hér er spurt um tölur og þær eru orðnar nokkuð gamalkunnar, ég held að það láti nærri að heildarreikningurinn vegna Icesave-reikninganna í Bretlandi og Hollandi sé um 600 milljarðar íslenskra króna á núverandi gengi. Um tíma var þessi upphæð um 700 milljarðar og það er að sjálfsögðu bara háð því gengi sem er á pundi og evru á hverjum tíma. Nýjasta mat skilanefndar Landsbankans sem legið hefur fyrir nú um nokkurra vikna skeið er að upp í þessa reikninga kunni að endurheimtast eignir ef þær verða losaðar, kannski einkum eftir 3–5 ár, þannig að eftir standi 70–75 milljarðar króna. Þetta mat er auðvitað háð gríðarlegri óvissu, m.a. um markaðsaðstæður og verðmæti eignanna þegar þarna kæmi. Það er rétt að upplýsa að ekki eru allir aðilar jafnbjartsýnir á þetta mat og skilanefnd Landsbankans.

Hv. þingmaður spyr hvað gerist ef við borgum ekki, í þeim skilningi að við slítum samningaviðræðum og neitum að borga. Ég held að ég verði að taka undir það svar sem hæstv. utanríkisráðherra gaf í þeim efnum. Það liggur því miður fyrir og mátti öllum verða ljóst strax í haust að það eru tengsl milli þessa máls og áætlunarinnar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og það eru líka tengsl milli þessa máls og samningaviðræðna okkar við norræna seðlabanka og Pólland og Rússland um gjaldeyrislán til að efla gjaldeyrisvaraforða okkar.

Ég held að staðan sé einfaldlega sú og þannig er fyrir mælt af hálfu Alþingis að það eigi að halda þessum samningaviðræðum áfram og láta á þær reyna en þar með er að sjálfsögðu ekki sagt að það eigi að skrifa undir hvaða afarkosti sem er. Það er ekki falið í samþykkt Alþingis eins og ég skil hana.

Viðræður eru að hefjast, ríkisstjórnin samþykkti 24. febrúar sl. að fela fjármálaráðherra, mér, að hafa forustu um og bera ábyrgð á því að skipa samninganefnd og það var gert í framhaldinu. Sú nefnd er þannig skipuð að henni veitir forustu Svavar Gestsson sendiherra og ásamt honum eru í nefndinni Indriði H. Þorláksson, settur ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, Páll Þórhallsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, Marteinn Eyjólfsson, lögfræðingur í utanríkisráðuneytinu, Áslaug Árnadóttir, lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu og Sturla Pálsson, hagfræðingur í Seðlabanka Íslands.

Ég geri ráð fyrir að viðræðufundir komist á eða líklegt sé að þeir verði undir lok þessa mánaðar, í nágrenni við mánaðamótin, það hefur ekki verið tímasett endanlega, en samninganefndin hefur unnið mikið undirbúningsstarf að undanförnu. Ýmis tengsl hafa verið byggð upp, þannig höfum við, þ.e. ég ásamt viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra, átt fundi með sendiherrum og sendimönnum þessara ríkja, þar á meðal hæstv. utanríkisráðherra með sérstökum sendimanni forsætisráðherra Bretlands. Slíkum tengslum verður haldið áfram og eins og ég segi líklegt að formlegir viðræðufundir komist á á nýjan leik undir lok þessa mánaðar. Málið er í þeirri stöðu sem fráfarandi ríkisstjórn skildi það eftir í en hafði í raun verið afvelta frá því í desember og fram í febrúar að ný stjórn tók við. Það er hlutskipti okkar að reyna að greiða úr þessu erfiða, svo ég segi ekki hörmulega, máli eftir því sem best er hægt við þær aðstæður sem það er í og við erum stödd í gagnvart því.

Ég hef átt ágætan fund með utanríkismálanefnd þar sem við fórum rækilega yfir stöðuna í þessu máli um svipað leyti og samninganefndin var skipuð. Og þótt það sé fremur óvenjulegt að fjármálaráðherra sitji á löngum fundum með utanríkismálanefnd var það engu að síður svo og ég geri ráð fyrir að óska eftir því að hitta nefndina fljótlega aftur til að upplýsa hana frekar um stöðu málsins og viss samskipti, þar á meðal við bresk stjórnvöld.

Ég tel einnig sjálfsagt mál ef nefndin óskar eftir því að samninganefndin eða formaður samninganefndar komi á hennar fund. Utanríkismálanefnd hefur í fórum sínum, að ég held, nánast öll gögn og trúnaðarskjöl í þessu máli og það verður séð um það áfram að hún fái þau í hendur eða verði upplýst um málin eins og þeim miðar. Það er ákaflega mikilvægt að geta átt slík samskipti við utanríkismálanefnd í trúnaði um þessi mál því auðvitað er öllum ljóst að hér eru gríðarlega afdrifaríkir hagsmunir á ferðinni, viðkvæmir og vandasamir samningar og samskipti við erlend ríki og því er afar mikilvægt að geta átt gott samstarf við utanríkismálanefnd um þessa hluti eins og þeim vindur fram og þar með þverpólitískt samstarf við fulltrúa allra flokka hér á þingi.



[11:19]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Icesave-málið er líklega eitt stærsta og mikilvægasta hagsmunamál sem íslenska þjóðin hefur staðið frammi fyrir á síðari tímum. Ríkisstjórnin verður að taka sig saman í andlitinu, það er lítið að gerast í málinu þó að hagsmunirnir séu gríðarlegir. Ég hef margoft sagt að ríkisstjórnin þurfi að endurskoða frá grunni aðgerðir vegna deilunnar við bresk stjórnvöld um uppgjör vegna Icesave-reikninganna. Í því máli verður að verjast af hörku og ég hef verið harður talsmaður þess að farið verði í mál við Breta vegna Icesave-deilunnar. Ég hef sagt að til þess sé nauðsynlegt að leitað verði til færustu sérfræðinga og samningamanna sem hafa reynslu af samningaviðræðum sem þessum. Það hefur því miður ekki verið gert. Slíkt er ekki ásættanlegt, herra forseti, og ég gagnrýni ríkisstjórnina harðlega fyrir viðbrögð sín í Icesave-málinu.

Tveir valinkunnir lögfræðingar, Stefán Már Stefánsson, prófessor í Evrópurétti, og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður, hafa einnig gert það í blaðagreinum í Morgunblaðinu og furða sig á því hvers vegna ríkisstjórnin hefur ekki haldið fram lagalegum rétti Íslendinga í málinu gagnvart Bretum í máli sem varðar hagsmuni okkar Íslendinga, allt að 600 milljarða kr., og auk þess leynt þingið lögfræðilegum álitsgerðum sem unnar hafa verið vegna málsins.

Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum leitar ríkisstjórnin ekki til þessara sérfræðinga til að gæta hagsmuna okkar í málum gegn Bretum? Það er óskiljanlegt að það hafi ekki verið gert.

Eitt það versta við framgöngu utanríkisráðherra í Icesave-málinu er það pukur og sú leynd sem hvílt hefur yfir málinu. Við þingmenn þurftum t.d. að sætta okkur við það að sjá í viðtali á sjónvarpsstöðinni Skjá 1 að hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefði átt leynifund um Icesave-málið við utanríkisráðherra Breta, David Miliband. Hvorki þjóðin sem þarf nú hugsanlega að greiða þessi ósköp né þingið fá að vita neitt um það hvað fór fram á þessum fundi og ríkisstjórnin skuldar þinginu og þjóðinni (Forseti hringir.) skýringa á því hvað þar fór fram. Herra forseti. Það er ekki valkostur að skuldbinda ríkið og kynslóðir framtíðarinnar um allt að 600 milljarða króna og ríkisstjórnin verður að koma í veg fyrir (Forseti hringir.) að það verði gert.



[11:21]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvæg umræða um grundvallaratriði. Mótmæli vegna bankahrunsins á Íslandi hófust ekki í Reykjavík, heldur við sendiráð Íslands í öðrum löndum. Hundruð þúsunda almennra borgara í löndum eins og Hollandi, Þýskalandi, Bretlandi, Lúxemborg og á Norðurlöndunum óttuðust um eða töpuðu ævisparnaði. Þetta var ekki verk íslensks almennings en í heimsþorpinu sem við lifum í núna litu þessi hundruð þúsunda venjulegs fólks svo á að Ísland væri ábyrgt. Orðspor Íslands var undir, landið sem aldrei hefur farið með ófriði á annarra hendur var í fyrsta skipti í sögu sinni í deilu við alla nágranna sína. Við þessar aðstæður kaus bankastjóri Seðlabankans og heimastjórnararmur Sjálfstæðisflokksins að senda þau skilaboð til umheimsins að Íslandi væri skítsama. Við borgum ekkert, sagði hann, og heimspressan frá New York til Berlínar, um Lundúnir til Tókíó, sló því upp sem heimsfrétt. Á grundvelli þessarar afstöðu einangraðist Ísland frá öllum, vinum á Norðurlöndunum jafnt sem annars staðar. Öll ríki sem voru reiðubúin að lána okkur fé vildu gera það á grundvelli áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nema vinir okkar Færeyingar. Forsenda jákvæðra samskipta var að Icesave-deilan kæmist í diplómatískan farveg.

Nú hefur nýr fjármálaráðherra tekið við forustu samninganna um Icesave. Í stjórnarandstöðu hélt hann reyndar aðrar ræður en þá sem hann hélt hér áðan, en ný ríkisstjórn hefur í engu breytt þeim ákvörðunum sem teknar voru í fyrri ríkisstjórn undir forustu fyrrverandi forsætisráðherra Geirs Haarde.

Það sýnir að leiðin að málinu sem var ákveðin í haust er sú rétta. Það vantar yfirþjóðlegan dómstól en við samningaborðið hefur Ísland náð miklum árangri og eins og fyrrverandi utanríkisráðherra sagði vinnur tíminn með okkur í þessu máli, þetta er pólitískt úrlausnarefni en ekki mál sem (Forseti hringir.) þrífst í lagatæknilegu tómarúmi.



[11:23]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Við eigum auðvitað mjög erfitt með að borga þessar skuldir vegna Icesave-reikninganna og það verður verk nýrrar ríkisstjórnar eftir kosningar í vor að reyna að semja sig frá þessum skuldum og reyna að semja um sem best lánakjör og helst að semja sig alveg frá þessum skuldum sem verður auðvitað mjög erfitt.

Óvissan um hvað er til af eignum upp í þessar skuldir er með þeim hætti að enginn getur sagt um það, enginn veit hvernig málin þróast næstu tvö, þrjú árin. Það er gaman að rifja upp ummæli þingmanna Vinstri grænna um þessar skuldir og Icesave-reikningana og hvað átti að gera fyrir áramót og svo aftur hvað þeir leggja til að verði gert núna, tveimur mánuðum seinna. Ekki síður ummæli þeirra um samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem þeim leist ekkert á fyrir áramót en breyttist á nýju ári. Ég get alveg tekið undir það sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði, auðvitað eigum við að fara í mál við Bretana. Auðvitað eigum við að fara í mál við þá út af hryðjuverkalögunum og því tjóni sem þeir hafa valdið okkur út af þessum Icesave-skuldum.

Það er eins með sjálfstæðismennina, hvað hafa þeir ekki verið að segja í þessari umræðu? Hvernig höguðu þeir sér þegar bankahrunið varð? Hvað sagði fyrrverandi seðlabankastjóri, sem er átrúnaðargoð þeirra í pólitík, um það að Jón og Gunna ættu ekki að borga skuldir fyrir óráðsíumennina? Hvar erum við stödd í þessu þegar Jón og Gunna í Breiðholtinu þurfa að borga brúsann fyrir misgjörðir (Forseti hringir.) sjálfstæðismannanna?



[11:26]
Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Icesave-málið er ekki nema hluti af stórri heild. Stóra heildin er sú að íslensku viðskiptabankarnir komu sér í þá stöðu að þeir réðu ekki við skuldbindingar sínar og líklega munu þúsundir milljarða króna tapast og þeir sem tapa þessu fé eru erlendir kröfuhafar, bankar og fyrirtæki erlendis. Það er nefnilega þannig að stóri skellurinn í þessu máli lendir á viðskiptavinum bankanna en ekki á íslensku þjóðinni.

Við eigum mikið undir því að samkomulag náist um uppgjör á þrotabúum gömlu bankanna við þessa erlendu kröfuhafa og að menn gæti þess í skilum milli gömlu og nýju bankanna að sátt verði um þær færslur þannig að við lendum ekki í deilum við erlendar þjóðir. Við höfum ekki bolmagn til að standa í deilum við erlendar þjóðir, við byggjum okkar lífskjör á viðskiptum erlendis, við höfum hærra hlutfall af þjóðarframleiðslu sem tengist viðskiptum við útlönd en nokkur önnur þjóð og ef ekki gengur að halda þeim úti með sómasamlegum hætti munu lífskjör hér á landi falla mjög hratt.

Það er umdeilanlegt hvort okkur beri lagaleg skylda til að greiða Icesave-reikningana en ég er kominn á þá skoðun eftir athugun málsins að það sé óskynsamlegt að láta reyna á það, skynsamlegra fyrir okkur er að ná samningum um uppgjör á þeim deilum. Við getum aldrei unnið það stríð ef við ætlum í það vegna þess að þolendurnir í því stríði eru einstaklingar í mörgum Evrópusambandsríkjum, fyrirtæki, sveitarfélög en fyrst og fremst fólk sem er að tapa miklum peningum í löndum sem við viljum eiga mikil viðskipti við. Ég tel skynsamlegast að við náum samkomulagi um uppgjör á þeim (Forseti hringir.) skuldum.



[11:28]
Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að bera umræðu um Icesave-reikninga á borð hér rétt eina ferðina. Þó er það svo að þjóðin hefur ekki fengið þau svör sem hana vantar. Kannski er kjánalegt að reyna að kalla þessi svör fram hér í þinginu því að hæstv. ráðherrar sem bæði eru löggjafar- og framkvæmdarvald geta staðið hér mánuðum saman án þess að gefa nokkur svör. Og virðulegir embættismenn eru ítrekað kallaðir fyrir nefndir þingsins til að leita upplýsinga við ýmsum dylgjum sem þeir hafa látið falla í fjölmiðlum — en allt kemur fyrir ekki.

Það eina sem þjóðin veit er að hún verður á komandi vikum eða mánuðum skuldsett þannig að þau lífsgæði sem við höfum grobbað okkur af í nokkurn tíma og fært okkur samfélag velferðar, nægrar atvinnu, kröftugs heilbrigðiskerfis og ágæts menntakerfis er liðin tíð. Þess utan höfum við haft efni á ýmsum munaði eins og því að velta því fyrir okkur hvort við eigum að nýta landsins gæði, en sá tími er líka liðinn.

Það veit hvert mannsbarn að aldrei var látið reyna á lagalega hlið þessa máls. Það veit hvert mannsbarn að mikil óvissa ríkir um regluverkið sem smíðað hafði verið utan um það sem sumir hafa kallað skuldbindingar ríkisins, en lagalega séð er algjörlega óvíst hvort eru nokkrar skuldbindingar. Fyrrverandi ríkisstjórn fékk ráðgjöf um að það þjónaði ekki hagsmunum íslenska ríkisins að leita réttar síns. Íslenska þjóðin vill vita hvers vegna. Hvaða hagsmunir eru það sem ekki er hægt að uppfylla og hvers vegna er ekki hægt að uppfylla þá? Er það vegna þess að íslenskir ráðamenn létu hræða sig með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum inn í húsasund og leystu svo bara niður um sig? Af hverju, hæstv. fjármálaráðherra? Af hverju?

Eins og ég sagði í upphafi er kannski að bera í bakkafullan lækinn að bera umræðu um skuldbindingar íslenskra banka á erlendri grundu hér á borð eina ferðina enn og líklega er það tímasóun eftir allt sem á undan er gengið og miðað við farveginn sem málið hefur verið sett í, en það er þó alveg á hreinu að venjulegt fólk sem fylgir lögum og reglum í þessu landi vill skýringar á því hvernig íslensku bankarnir gátu hleypt því í þá stöðu að þurfa að borga þennan brúsa á næstu áratugum. Það er ekki í samræmi við það réttarríki sem við þó búum við sem reyndar hefur (Forseti hringir.) verulega látið á sjá undanfarna mánuði.



[11:30]
Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég þakka frummælanda fyrir að vekja máls á þessu. Þetta er afar mikilsvert mál og skiptir sköpum hvernig til tekst. Ég hef áður flutt hér ræður um þetta og ég hef ekki breytt neinni skoðun um það. Ég minni á ummæli hv. þm. Árna Mathiesens 13. nóvember um að þetta væri gjörsamlega óaðgengilegt. Undir það tók hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra. Sú afstaða breyttist og skýringar á þeirri breytingu má finna í ræðu fyrrverandi utanríkisráðherra 17. nóvember 2008 og tengsl við Evrópska efnahagssvæðið og fleira í þeim dúr.

Ég minni líka á að Ríkisendurskoðun taldi á sínum tíma að við bærum enga ábyrgð á þessum skuldbindingum og að ekki ætti að færa þetta inn í ríkisreikning, það ætti að standa þar fyrir utan. Ég leyfi mér líka að minna á ummæli lögfræðinganna Stefáns Más Stefánssonar og Lárusar Blöndals og ræðu Bjargar Thorarensen 1. desember 2008 um ógildanlega nauðungarsamninga. Ég segi það að hugsanleg eftiráábyrgð ríkisins er í raun brot á samkeppnisreglum ESB. Ef við hefðum tekið þetta upp áður hefðum við verið talin brotleg. Öll þessi rök verða frammi í samningaviðræðunum og verða að vera það. Við tókum við málinu í þeim farvegi sem það er og við verðum að leysa það. Tíminn mun vinna með okkur í þeim efnum.

Ég vil segja að lokum að mér finnst afar mikilvægt að utanríkismálanefnd fylgist nákvæmlega með þessu máli og fái frá ríkisstjórninni af sjálfsdáðum og jafnharðan allar upplýsingar sem þar skipta máli. Aðalatriðið í lausn þessa máls er þó kannski það að leita friðarsamninga við Breta út frá greiðslugetu þjóðarinnar, leggja hana á borðið og leita eftir friðarsamningum. Við þurfum líka að ná í þessu máli þverpólitískri sátt vegna þess að það skiptir sköpum um framtíð þjóðarinnar.



[11:32]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Íslensk þjóð varð fyrir fimm áföllum í fyrrahaust: eignahrun, keðjuverkun gjaldþrota með atvinnuleysi í kjölfarið, jöklabréfin, Icesave og kröfuhafar bankanna. Fyrstu þrjú áföllin munum við greiða með herkjum. Síðustu tvö áföllin eiga íslenskir skattgreiðendur ekki að greiða en eru neyddir til þess, annars vegar af ESB sem beitti okkur viðskiptastríði þó að um galla í regluverki þess sé að ræða og hins vegar lánardrottnum bankanna sem segja Íslendinga geta gleymt því að taka lán um allan heim næstu 25 árin nema eitthvað sé gert vegna neyðarlaganna.

Mikilvægt er að þessar óréttmætu kröfur steypi þjóðinni ekki í skuldir sem hún ræður ekki við til viðbótar við hin áföllin. Það gagnast ekki þessum erlendu aðilum, heldur er það hagur þeirra og allra að íslensk þjóð standi sterk og geti borgað. Þess vegna krefst ég þess að þessi mál verði leyst sem ein heild. Ég krefst þess enn fremur að leyndarhjúp verði aflétt af þessum málum og við fáum að vita hvað búið er að semja eða gefa loforð um. Varðar það hæstv. fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra? En þessi ráðuneyti virðast vinna hvert í sínu skoti að lausn sem hver um sig er viðráðanleg en kaffærir þjóðina þegar þær koma saman. Við eigum ekki að borga þessar kröfur og þess vegna er eðlilegt að setja efri mörk á þær í heild sinni sem við ráðum við og það er fráleitt að við greiðum einhverja vexti af þessum óréttmætu kröfum eins og gerð er krafa um.



[11:34]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að fylgjast með Sjálfstæðisflokknum í þessari umræðu. Við þekkjum það frá því í haust að þá fór fram mikil barátta þegar við öttum kappi við sjálfstæðismenn í ríkisstjórnarsamstarfi um það hvernig ætti að taka á því hruni sem þá varð. Þá var það ljóst að heimastjórnarklíkan í Sjálfstæðisflokknum vildi skella öllum hurðum í lás, segja landið úr lögum við umheiminn og búa til úr Íslandi einhvers konar sjóræningjaland í Norðurhöfum sem ekki stæði við þær skuldbindingar sem leiddu af þjóðarrétti. Hins vegar var þáverandi forusta flokksins, undir forustu hv. þm. Geirs Haarde og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, tilbúin til að axla ábyrgð og leiddi ásamt Samfylkingunni til þeirrar niðurstöðu sem náðist um Icesave-ábyrgðirnar.

Í umræðunni hér í dag eru tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem eru báðir fulltrúar einangrunarklíkunnar sjálfrar, mennirnir sem vilja ekki að við stöndum við þær skuldbindingar sem við höfum sannanlega þurft að standa við, (Gripið fram í.) menn sem þá töluðu gegn því að við stæðum við þessar ábyrgðir og gera það aftur nú. Hvað þýðir þetta, virðulegi forseti? (Gripið fram í.) Þetta þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn er greinilega á harðahlaupum undan ábyrgð í þessum málum. (Gripið fram í: Hvað finnst …?) Sjálfstæðisflokkurinn verður hér ber að því að verða lýðskrumsflokkur af verstu sort rétt fyrir kosningarnar. (Gripið fram í: Þetta …) Og það hlýtur að vera dapurlegra en tárum taki fyrir hv. þm. Geir H. Haarde að sitja hér í salnum og hlusta á þennan málflutning þeirra sömu manna og héldu þessum þvættingi fram í haust sem halda því aftur fram nú að Ísland geti sagt sig úr lögum við umheiminn og þurfi ekki að taka ábyrgð í samfélagi þjóðanna.

Virðulegi forseti. Það þarf staðfestu á erfiðum tímum. Málstað Íslands hefur verið haldið fram. Það er engin slík lagaóvissa um réttarstöðu Íslands að það sé ekki eðlilegt að ganga til samninga við nágrannaríki okkar á eðlilegum forsendum um þessi mál. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Við eigum að axla ábyrgð á því sem við höfum gert og við eigum ekki (Forseti hringir.) að reyna að koma fram sem sjóræningjaríki í Norðurhöfum eins og Sjálfstæðisflokkurinn (Forseti hringir.) augljóslega leggur nú til.



[11:36]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða mjög alvarlegt mál. Við hljótum að spyrja okkur einnar spurningar, Íslendingar allir: Hver er greiðslugeta okkar? Hver er raunveruleg greiðslugeta okkar? Hvað getum við leyft okkur? Mín skoðun á þessu máli er einfaldlega sú að ef við eigum að taka þessar skuldbindingar á okkur, með 5–7% vöxtum eins og menn hafa rætt um, er þetta gjörsamlega út úr kortinu. Það er hægt að ímynda sér og óska þess að þær eignir sem eru til í Bretlandi eða þeim löndum sem Icesave-reikningar voru reknir í gangi upp í eitthvað af þessum skuldbindingum. Það er talað um að þetta séu 600 milljarðar og í besta falli gætum við setið eftir með innan við 100 milljarða. Ég held að eins og staðan er í málinu hljótum við að láta reyna á alla réttarstöðu okkar, hvort við yfirleitt eigum að bera þetta sem ég dreg mjög í efa. Það gæti þó verið vegna þess að fyrri ríkisstjórn hafi ekki sinnt skyldum sínum, ekki viðskiptaráðherra, Fjármálaeftirlit eða Seðlabanki, um að láta uppi sögurnar þar sem bankastarfsemin var rekin um að Íslendingar gætu ekki borið ábyrgð á þeirri stöðu sem þar var komin.

Ég er að vísu ekki löglærður maður en hef reynt að lesa þessar reglugerðir Evrópusambandsins að þessu leyti og fæ ekki annað séð en að ef við Íslendingar hefðum formlega sagt að við gætum ekki axlað þessar ábyrgðir hefði myndast önnur réttarstaða gagnvart þessum ríkjum. Það hljóta löglærðir menn að geta leitt í ljós og vissulega hafa sumir þeirra haldið því fram að réttarstaða okkar í þessu máli væri sú að við þyrftum ekki að borga. (Forseti hringir.)



[11:39]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þau svör sem fengust hérna og ég tek undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni, það er mjög sérstakt að hlusta á fulltrúa Sjálfstæðisflokksins tala í þessari umræðu. Þeir geta ekki komið hingað upp og sagt eitthvað allt annað núna en fyrir stuttu síðan. Mér finnst það bara ekki boðlegt í svona stóru máli. Þeir ákváðu ásamt Samfylkingunni í síðustu ríkisstjórn og greiddu atkvæði með því (Gripið fram í: Nei.) að við ættum að borga, það væri hin pólitíska lausn og skynsamlegasta lausnin í málinu. Það er mjög skrýtið að þeir koma upp núna og telja að við eigum ekki að borga. Staðan er sú að allir þeir flokkar sem hafa verið í ríkisstjórn upp á síðkastið telja að þetta sé leiðin. Það er hægt að deila um þetta en þetta er sannleikurinn. Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Vinstri grænir eru á þessari skoðun, bæði síðasta ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn. Þar stendur málið.

Virðulegur forseti. Ég hef svolitlar áhyggjur af stöðu málsins af því að ég óttast að Bretarnir sýni okkur ekki nógu mikinn skilning, þ.e. stöðu mála hér. Ég er þó ánægð með að það er komin ný nefnd í þetta mál sem Svavar Gestsson veitir forustu. Hann þekkir íslenskt samfélag mjög vel og er afar öflugur á erlendum vettvangi, ég hef fylgst með því sjálf, þannig að vonandi gengur þetta vel.

Ég vil að lokum spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er eitthvað sem rekur sérstaklega á eftir því að niðurstaða náist hratt? Getur ráðherra eitthvað upplýst um tímaferlið? Er eitthvað sem rekur á eftir því að við náum niðurstöðu hratt? Ég held að það sé okkur í hag að ná ekki niðurstöðu of hratt af því að eftir því sem tíminn líður held ég að Bretarnir hljóti að skynja, (Forseti hringir.) þeir sem eru þarna með stærstu upphæðirnar, stöðu mála hér og sýna okkur meiri skilning (Forseti hringir.) á vaxtakjörum og öðru.



[11:41]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er vissulega lagður þrýstingur á það að þessu máli sé hraðað og á einum tímapunkti var talað um að menn ætluðu sér um það bil sex mánuði til að leiða það til lykta, í framhaldi af undirritun hinna sameiginlegu viðmiða ef ég man rétt. Engu að síður er það þannig að gagnaðilar okkar þekkja til aðstæðna á Íslandi. Þeir vita hvað hér hefur gerst, þeir vita af stjórnarskiptum, þeir vita af kosningum þannig að það er skilningur á hinn bóginn á því í hvaða aðstöðu við erum.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um upplýsingar spái ég því að þegar að því kemur að gögn um rannsóknir á orsökum og aðdraganda þessa Icesave-máls og hvernig það þróaðist í framhaldinu verða aðgengileg muni það þykja fróðleg lesning. Ég hef lagt ríka áherslu á það við samninganefndina að sérstaklega verði vandað til utanumhalds á öllum skjölum og öllum gögnum og bókhaldskerfi ráðuneytis notað til að tryggja að þar verði allt aðgengilegt en á meðan á samningaviðræðum stendur verða menn að sjálfsögðu að hafa ýmis slík gögn í sínum fórum.

Mér þykir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson nokkuð kokhraustur. Hann vill endurskoða aðferðafræði í málinu frá grunni og hann vill fara í mál við Breta. Hv. þingmanni yfirsést að það var hans eigin ríkisstjórn sem féll frá því að höfða mál gegn Bretum 7. janúar sl. Það kann að vera að það hafi verið í andstöðu við hv. þingmann en það er þá þannig.

Það er einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið sjálfum sér samkvæmur í gegnum allt þetta mál í málflutningi og afstöðu, hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hann greiddi atkvæði gegn málinu á sínum tíma og málflutningur hans hefur samræmst því allan tímann.

Ég veit ekki betur en að allar lögfræðilegar álitsgerðir sem enn eru til séu í höndum utanríkismálanefndar og ég endurtek það sem ég sagði um samstarf við nefndina. Samninganefndin mun fá þá lögfræðilegu aðstoð sem hún telur sig þurfa á að halda. Það verður séð um það, hvort sem það verða innlendir eða erlendir lögfræðingar, en ég vek þó athygli á að þrír af sex nefndarmönnum eru lögfræðingar sjálfir. (Forseti hringir.)

Að lokum skiptir að sjálfsögðu öllu sem hér hefur verið réttilega bent á að niðurstaðan í þessu máli verði viðráðanleg fyrir íslenskt þjóðarbú. Þar vinnur það vissulega með okkur (Forseti hringir.) að vextir fara lækkandi og það má ætla að við getum náð hagstæðari kjörum nú en við hefðum gert fyrir nokkrum mánuðum, sérstaklega hvað þann þáttinn varðar.



[11:43]
Geir H. Haarde (S) (ber af sér sakir):

Virðulegi forseti. Fyrr í umræðunni komu fram sakir af hálfu málshefjanda sem ég vil mótmæla. Málshefjandi gaf hér til kynna, eins og hún hefur gert við annað tækifæri, að ég hafi gefið þinginu rangar upplýsingar í skriflegu svari við fyrirspurn frá henni um einn þátt þessa máls.

Að sjálfsögðu hef ég ekki gefið þinginu rangar upplýsingar og ég mótmæli því að á mig sé borinn slíkur áburður. Ég mótmæli því. Fyrir honum er ekki minnsti fótur og ef hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur einhvern áhuga á því að kanna þennan þátt málsins sérstaklega sem hún spurði þrjá ráðherra um og fékk hér sömu svör frá þeim öllum fyrir jólin á hún að kanna hvort það er einhver fótur yfirleitt fyrir því sem kallað hefur verið tilboð á síðustu stundu frá breska Fjármálaeftirlitinu um þetta mál gegn greiðslu 200 milljóna punda.

Hvað menn segja í örvæntingu sinni um miðja nótt við aðstæður sem þessar er eitt, og kannski ekki alltaf mikið mark á því takandi, en að koma síðan hér og bera á forsætisráðherrann að hann hafi sagt þinginu rangt frá er óboðlegt og ég sætti mig (Forseti hringir.) ekki við það.



[11:45]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sú er hér stendur bað um svar á sínum tíma. Þar var spurt hvort fyrrverandi forsætisráðherra, hv. þm. Geir H. Haarde, hefði vitað af þessu svokallaða tilboði sem sú er hér stendur veit ekkert hvort átti sér stað eða ekki — en það var í fjölmiðlaumræðu á sínum tíma — hvort hv. þingmaður hefði vitað af þessu tilboði áður en Landsbankinn var yfirtekinn. Svar hv. þingmanns var nei og það var líka spurt hvort einhverjir ráðgjafar eða embættismenn hv. þingmanns, þáverandi forsætisráðherra, hefðu vitað af þessu. Svarið var: Mér er ekki kunnugt um það.

Síðan kemur um síðustu helgi frétt þar sem Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, segist hafa sagt fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra frá þessu svokallaða tilboði á mánudeginum sem ég held að sé 6. október. (Forseti hringir.) Það er þetta sem ég var að segja áðan og ég sagði líka að ég vonaði að hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra hefði sagt þinginu (Forseti hringir.) rétt frá og nú hefur hann hefur staðfest það hér í þingsal.