145. löggjafarþing — 58. fundur
 18. desember 2015.
fjáraukalög 2015, 3. umræða.
stjfrv., 304. mál. — Þskj. 608, nál. 630, brtt. 631.

[12:28]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015. Raunverulega fór ég sjálf fram á það að málið kæmi inn í hv. fjárlaganefnd á milli umræðna. Málið var tekið þar á dagskrá. Engar breytingartillögur eru frá meiri hluta fjárlaganefndar. Því kemur þingskjalið svo breytt til þingsins eins og það var eftir atkvæðagreiðslu við 2. umr. og lagt er til að frumvarpið verði samþykkt eins og það stendur nú.



[12:29]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í síðustu ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, við 2. umr. fjáraukalaga fór hv. þingmaður sjálfur fram á það að fjáraukalögin yrðu kölluð inn á milli umræðna og nefndi sérstaklega að þar yrði rætt um breytingartillögur minni hlutans um afturvirkar greiðslur til aldraðra og öryrkja. Ég verð að viðurkenna að ég var vongóð um að meiri hlutinn ætlaði að taka málið til skoðunar á milli umræðna af einhverri alvöru og hélt að einhver hreyfing væri á málinu, menn væru tilbúnir að gera eitt og annað. Svo var ekki, því miður.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er í Framsóknarflokknum sem oft hefur verið með einhverjar félagslegar taugar í sér og var ekki með tekjuskattslækkanir á sinni stefnuskrá, heldur þvert á móti mikla aukningu. Ég man að hv. þingmaður nefndi sjálf 13 milljarða til nýrra verkefna og bættrar stöðu Landspítalans. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort henni finnist ekki þessi félagslega taug í Framsóknarflokknum skjálfa og togna þegar við erum að lækka tekjuskatt á til dæmis okkur þingmenn? Við getum spanderað 6 þús. kr. meira á mánuði við skattalækkanir sem voru samþykktar hér áðan en það er verið að halda öldruðum og öryrkjum á árinu 2015 á verri kjörum þegar horft er á landið yfir heild og það er óumdeilt. Finnst hv. þingmanni þetta vera í takt við hinar félagslegu áherslur Framsóknarflokksins?



[12:31]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem aldrei viljað blanda sjálfri mér í ræður sem ég held, þannig að ég ætla að láta því ósvarað hverjar lækkanir eða hækkanir þingfararkaups eru, því að eins og allir vita tökum við okkar launakjör út frá kjararáði, þannig að það sé sagt í eitt skipti fyrir öll.

En hv. þm. Oddný Harðardóttir, veit jafn vel og ég að ég sem formaður fjárlaganefndar stóð fyrir því að taka á móti þeim gestum sem minni hlutinn í fjárlaganefnd óskaði eftir. Það voru fulltrúar eldri borgara og öryrkja og var sá fundur opinn fjölmiðlum í fyrsta sinn í tíð fjárlaganefndar, alla vega undir minni stjórn, og ég held að það sé einsdæmi í sögu þingsins. Það var afar góður fundur. Farið var vítt og breitt yfir málin í eina tvo tíma fyrir opnum tjöldum fjölmiðla, þannig að allir höfðu aðgang að því sem áhuga höfðu á að fylgjast með umræðunum sem fram fóru á þeim fundi.

Nú er það svo, ef ég má orða það þannig, að 69. gr. almannatryggingalaga er kjararáð eða kjaradómur þeirra hópa sem þiggja bætur, vegna þess að það er skýrt ákvæði í þeirri lagagrein hvernig þessar bætur skulu hækka. Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2016 var þessi hækkun upp á 9,4%. Þegar ný hagvaxtarspá kom út var ljóst að meira svigrúm var en gert hafði verið ráð fyrir og þessir hópar áttu inni miðað við það hvernig þeir stóðu þegar fjárlagafrumvarpið var birt. Því fengu þeir hækkun upp á 0,3% og nú stendur það í 9,7%.

Virðulegi forseti. Ég vil líka taka fram að þarna er búið að taka tillit til fjölgunar í þeim hópum þannig að það eru 9,7% sem þessir hópar fá og komið hefur fram að það er nákvæmlega rétt reiknað.



[12:33]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Opni fundurinn var haldinn að kröfu minni hlutans (Gripið fram í.) og vísað í þingsköp hvað það varðar. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður lét að því liggja að það hefði verið sérstakt framfaraskref af hálfu meiri hlutans. En látum það gott heita, ég vil bara minna á að lög um almannatryggingar eru til þess að standa vörð um lágmarkskjör aldraðra og öryrkja. Fordæmi er fyrir því að gera betur, það var gert um mitt ár eftir kjarasamninga 2011. Það er ekkert sem segir að ekki megi gera betur, lögin eru aðeins til að gæta lágmarkshagsmuna.

Ég hef aldrei haldið því fram að meiri hlutinn hafi reiknað rangt, ég er aðeins að segja: Þetta er of lágt. Það er ekki hægt að segja að kjör aldraðra og öryrkja á árinu 2015 og þeirra með lægstu laun á árinu 2015 séu sambærileg vegna þess að munur á þessum tvennum árstekjum á árinu 2015 er 260 þús. kr. Á árinu 2016, þegar búið er að hækka um 9,7% sem hv. þingmaður fór yfir áðan, verður munurinn 216 þús. kr. á árslaununum vegna þess að lægstu laun hækka frá 1. maí 2016. Með þessum aðgerðum er verið að sjá til þess að þeim sem hafa engar aðrar tekjur, þeim lífeyrisþegum sem hafa engar aðrar tekjur, sé haldið undir lágmarkslaunum í landinu. Öldruðum og öryrkjum sem ekki geta unnið fyrir sér á vinnumarkaði er haldið sem fátækasta hópnum í samfélaginu. Það er ekki í anda laga um almannatryggingar. Það eru þau skilaboð sem við höfum verið að reyna að koma á framfæri og það er reikningsdæmið sem við þurfum (Forseti hringir.) að láta ganga upp með fjárframlögum hér í þingsal.



[12:36]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að hv. þm. Oddný Harðardóttir fór aðeins inn á umræðuna varðandi lágmarkslaun og bætur.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að óeðlilegt sé að lægstu laun og bætur séu sama krónutala, mjög óeðlilegt. Það kostar að vera í vinnu, það kostar að hafa börn á leikskóla, þannig að ég lýsi nokkurri ábyrgð á verkalýðshreyfingu landsins fyrir að hafa ekki barist betur fyrir kjörum þeirra sem lægstu launin hafa. Auðvitað er það svo að þetta stingur kannski einhvern og enginn vill vera öryrki og það er ekki það líf sem allir vilja. En fjárlaganefnd hefur aðeins verið að ræða þessi mál nú í vetur og verið að skoða að það er óeðlilega hátt hlutfall öryrkja hér á landi miðað við nágrannalöndin. Hátt í 10% vinnubærra manna eru skráðir öryrkjar á Íslandi. Mér finnst það mjög óeðlilegt og við höfum verið að skoða hvað veldur því.

Í tölum Tryggingastofnunar kemur fram að það liggi á bilinu 9–10 milljarðar í svikum í bótakerfunum. Komið hefur fram hjá ríkisskattstjóra að 80 milljarðar liggi í skattsvikum í skattkerfinu á ári. Við erum að tala þarna um tæpa 100 milljarða sem ekki skila sér inn í kerfið. Það er rúmlega heill Landspítali á ári sem liggur þarna úti í samfélaginu. Ég held frekar að stjórnvöld og stjórnarandstaðan ættu að ganga í það með okkur í meiri hlutanum að reyna að höfða til samvisku fólks að fara að skila þessu fé til ríkisins svo við getum farið í stórkostlegar hækkanir (Gripið fram í.) til þeirra sem þurfa að reiða sig á velferðarkerfið, netið sem búið er að búa til hér á landi, þannig að þeir sem virkilega þurfa á þessum bótum að halda geti þá haft það betra. Það er „win win-staða“ fyrir alla.