Ráðherrar og ráðuneyti frá 1904

Skipting starfa ráðherra eftir 1917 fylgir að mestu leyti skipulagi Stjórnarráðsins á hverjum tíma. Á árunum 1917–26, þegar ráðuneyti voru þrjú, fór forsætisráðherra jafnframt með dómsmálaráðuneytið. Eftir 1932 tók að bera á því að málaflokkar voru lagðir undir annan ráðherra en þann sem fór með ráðuneytið sem þeir heyrðu undir.

Ráðherrar bera (eftir 1917) embættisheiti eftir því ráðuneyti sem þeir fóru með eða aðalmálaflokki samkvæmt auglýsingum um skiptingu starfa ráðherra.

Ráðuneyti eru kennd við forsætisráðherrann eins og venja er.

Eftirfarandi yfirlit (Ráðherrar Íslands 1904–1917 og Ráðuneyti frá 1917) byggist að mestu á riti Agnars Kl. Jónssonar, Stjórnarráð Íslands 1904–1964 (einkum II, 993-999). Frá því er þó vikið í nokkrum atriðum:

Tilgreint er sérstaklega ef ráðherrar fóru með málaflokka sem samkvæmt skiptingu Stjórnarráðsins heyrðu undir annað ráðuneyti en það sem þeir voru kenndir við. Á þessu bar fram til 1970 en með stjórnarráðslögunum, sem tóku gildi í byrjun þess árs, komst hins vegar föst skipan á skiptingu starfa ráðherra.

Ef verulegar breytingar verða á ráðuneyti er starfstíma þess skipt í tímabil til glöggvunar (t.d. ráðuneyti Tryggva Þórhallssonar 1927–1932).

Breytist þingræðislegur grundvöllur ráðuneytis, t. d. við það að nýir flokkar fá aðild að því, er það hér talið nýtt ráðuneyti (t. d. myndun þjóðstjórnar 1939, þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar 1989).