Fall íslensku bankanna

Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 var skipuð í desember 2008 og skilaði skýrslu sinni 12. apríl 2010. Nefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið og móta tillögur að viðbrögðum þingsins við niðurstöðum hennar var kosin á Alþingi 30. desember 2009. Í henni áttu sæti níu þingmenn og áttu allir þingflokkar fulltrúa í nefndinni.

Þingmannanefnd um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis starfaði á 138. löggjafarþingi, 2009-2010

Skýrslur og þingsályktunartillögur

 
Reglur um störf þingmannanefndarinnar

Almennar reglur þingskapa um fastanefndir Alþingis giltu um störf þingmannanefndarinnar eftir því sem við átti en auk þess setti nefndin sér sérstakar starfsreglur. Nefndin hafði sömu heimildir og fastanefndir Alþingis til boða gesti á sinn fund, óska eftir skriflegum umsögnum og halda opna nefndarfundi.
Þingmannanefndin fékk sérfræðiaðstoð frá starfsfólki skrifstofu Alþingis og gat einnig leitað til utanaðkomandi sérfræðinga.

 Sérfræðingar nefndarinnar voru: Bryndís Hlöðversdóttir, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, dr. Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og Jónatan Þórmundsson prófessor.

Verkefni þingmannanefndarinnar - viðbrögð Alþingis

Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var ætlað að greina ástæður bankahrunsins og var skýrslan lögð störfum þingmannanefndarinnar til grundvallar. Verkefni rannsóknarnefndarinnar voru skilgreind í 1. gr. laga nr. 142/2008 og eru niðurstöður hennar og upplýsingar birtar í skýrslu nefndarinnar.
Með hliðsjón af verkefnum rannsóknarnefndarinnar voru verkefni þingmannanefndarinnar lögð upp á eftirfarandi hátt:

  • Almennt pólitískt uppgjör á efnahagshruninu

Þingmannanefndin mun taka afstöðu til ályktana í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um ástæður efnahagsáfallanna og hvaða lærdóm megi draga af þeim.

  • Breytingar á lögum og reglum

Þingmannanefndin mun fylgja eftir ábendingum rannsóknarnefndarinnar um æskilegar breytingar á lögum og reglum er miða að því að hindra að efnahagsleg áföll endurtaki sig. Nefndin getur lagt fram lagafrumvörp og þingsályktunartillögur eða vísað einstökum ábendingum til fastanefnda þingsins.

  •  Mat á ábyrgð

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar verður lagt mat á ábyrgð á hugsanlegum mistökum og vanrækslu stjórnvalda sem áttu þátt í hruninu. Gefi niðurstöður rannsóknarnefndarinnar tilefni til mun þingmannanefndin taka afstöðu til framgöngu ráðherra í aðdraganda hrunsins.

Þingmannanefndin mun einnig fjallað um eftirlit með fjármálastarfsemi, starfsemi fjölmiðla, starfsemi fjármálafyrirtækja og aðra starfsemi í viðskiptalífinu, starfshætti og siðferði.

Skýrsla þingmannanefndar

Þingmannanefndin gerði grein fyrir tillögum sínum í skýrslu sem hún lagði fram fyrir lok 138. löggjafarþings.