Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 55. máls.

Þskj. 56  —  55. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 101/2010,
um greiðsluaðlögun einstaklinga.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Frá gildistöku laga þessara til 1. júlí 2011 hefst tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. laganna þegar umboðsmaður hefur móttekið umsókn um greiðsluaðlögun. Frestunin tekur einnig til umsókna sem umboðsmaður hefur móttekið fyrir gildistöku laga þessara.
    Móttaka umboðsmanns skuldara á umsókn leiðir þó ekki til tímabundinnar frestunar greiðslna ef umsókn umsækjanda um greiðsluaðlögun hefur verið hafnað á síðustu þremur mánuðum.
    Þegar umboðsmaður skuldara hefur móttekið umsókn skal stofnunin óska eftir því að athugasemd um að umsókn um greiðsluaðlögun hafi borist umboðsmanni verði skráð í þinglýsingabækur, eftir því sem við á. Skal sú skráning vera gjaldfrjáls.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 24. júní 2010 samþykkti Alþingi lög nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, og tóku lögin gildi 1. ágúst sl. Þann dag tók embætti umboðsmanns skuldara til starfa.
    Mikið álag hefur verið á embætti umboðsmanns skuldara frá stofnun þess og hafa stofnuninni borist 426 umsóknir um greiðsluaðlögun. Þörfin fyrir greiðsluaðlögun einstaklinga er mikil og ljóst er að hið nýja embætti umboðsmanns skuldara nær ekki að stækka nægilega hratt til að anna eftirspurn eftir þjónustu stofnunarinnar þótt ötullega sé unnið að eflingu embættisins. Það er því ljóst að á fyrstu starfsmánuðum embættis umboðsmanns skuldara munu umsóknir um greiðsluaðlögun ekki verða afgreiddar fyrr en jafnvel nokkrum mánuðum eftir að þær berast. Því er mikilvægt að þeim aðilum sem lagt hafa inn umsókn um greiðsluaðlögun til umboðsmanns skuldara verði veitt frestun greiðslna þegar við móttöku umsóknar, en ekki við samþykkt umsóknar eins og nú er. Því er lagt til að við lögin verði bætt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. laganna um greiðsluaðlögun einstaklinga hefjist þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara. Lagt er til að ákvæðið gildi frá gildistöku laga þessara til 1. júlí 2011 en þá er gert ráð fyrir að bið eftir afgreiðslu umsókna um greiðsluaðlögun hafi styst umtalsvert. Þó er lagt til að gerð verði sú undantekning á reglunni til að koma í veg fyrir misnotkun að innlögn umsóknar leiði ekki til tímabundinnar frestunar greiðslna ef umsókn umsækjanda um greiðsluaðlögun hefur verið hafnað af umboðsmanni skuldara á síðustu þremur mánuðum.
    Frumvarpið var samið í samvinnu við umboðsmann skuldara og önnur ráðuneyti.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 101/2010,
um greiðsluaðlögun einstaklinga.

    Með frumvarpi þessu er verið að lögfesta ákvæði til bráðabirgða um tímabundinn greiðslufrest vegna umsókna um greiðsluaðlögun sem umboðsmaður skuldara hefur móttekið. Í gildandi lögum er greiðslufrestur fyrst veittur þegar umsókn hefur verið samþykkt af umboðsmanni skuldara.
    Embætti umboðsmanns skuldara tók til starfa 1. ágúst síðastliðinn og er því ekki komið í fullan rekstur. Af þeim sökum getur á næstu mánuðum myndast nokkur biðtími frá því að umsókn um greiðsluaðlögun er lögð inn þar til umsókn er tekin fyrir og greiðslufrestur hefur verið veittur. Frumvarpinu er ætlað að taka á þessu vandamáli og er gert ráð fyrir að ákvæðið gildi til 1. júlí 2011 en þá er reiknað með að biðtími eftir að umsókn verði tekin fyrir hafi styst í það sem eðlilegt getur talist. Til að fyrirbyggja mögulega misnotkun verður þeim umsækjendum sem fengið hafa synjun um greiðsluaðlögun á síðastliðnum þremur mánuðum ekki veittur greiðslufrestur.
    Verði frumvarpið lögfest geta áhrifin fyrir lánastofnanir ríkissjóðs legið í tímabundnu neikvæðu fjárstreymi þeirra vegna umsókna sem síðar verður hafnað. Engar áætlanir liggja hins vegar fyrir um umfang og fjölda slíkra mála og því er ekki hægt að segja nákvæmlega til um skert sjóðstreymi vegna þessa. Miðað við fjölda umsókna um greiðsluaðlögun sem liggja fyrir og að ekki verði umtalsverðum hluta hafnað virðist ekki ástæða til að ætla að aukinn greiðslufrestur hafi teljandi áhrif að því tímabili loknu sem honum er ætlað að gilda. Þessi breyting á lögum ætti ekki að hafa umtalsverð áhrif á verkefni og þar með á útgjöld stofnana sem fjármagnaðar eru úr ríkissjóði.