Vantrauststillögur

Vantrauststillögur á ríkisstjórnir á Íslandi síðan 1900

Vantraust á ríkisstjórn er lagt fram og afgreitt sem þingsályktunartillaga. Um meðferð vantrauststillagna gilda ákvæði 2. mgr. 45. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Yfirleitt eru tillögurnar mjög stuttorðar.

Frá 1944 hafa verið lagðar fram þingsályktunartillögur um vantraust á ríkisstjórn í 24 skipti. Þar af var ein tillaga um vantraust á alla ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 1994 en henni var vísað frá að tillögu forsætisráðherra. Á tímabilinu var aðeins ein vantrauststillaga samþykkt. Það var árið 1950 þegar ríkisstjórn Ólafs Thors fór frá. Árið 1974 rauf Ólafur Jóhannesson þing áður en vantrauststillaga á ríkisstjórn hans kom til umræðu á þinginu.

Á tímabilinu 1909–1943 voru níu sinnum lagðar fram þingsályktunartillögur um vantraust á ríkisstjórn. Af þeim vantrauststillögum sem fluttar voru fyrir 1944 er þingrofið 1931 þekktast en Alþýðuflokkurinn hætti að veita minnihlutastjórn framsóknarmanna, undir forsæti Tryggva Þórhallssonar, hlutleysi sitt vegna ágreinings um kjördæmaskipan. Tryggvi rauf þing og boðaði til nýrra kosninga. Fjórar tillögur um vantraust á einstaka ráðherra voru lagðar fram á árunum 1911–1943.

Þrisvar sinnum hefur verið lögð fram tillaga um þingrof án tillögu um vantraust,  tillaga Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar  á 76. þingi 1956,  tillaga Geirs Hallgrímssonar o.fl. á 100 þingi 1979  og tillaga Geirs Hallgrímssonar og Gunnars Thoroddsens á 101 þingi 1979.

Tillögur um vantraust frá 1944

(Byggt á upplýsingum úr gagnagrunni Alþingis. Sbr. leit í málaskrá, öll þing, leitarorð í málsheiti: vantraust*)

  • 2016. Tillaga  um vantraust á ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar lögð fram af Árna Páli Árnasyni, Katrínu Jakobsdóttur, Óttari Proppé og Birgittu Jónsdóttur. Tillagan var felld.
  • 2016. Tillaga um vantraust á ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar lögð fram af Árna Páli Árnasyni, Katrínu Jakobsdóttur, Óttari Proppé og Birgittu Jónsdóttur. 
  • 2013. Tillaga Þórs Saari, um vantraust á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, var lögð fram 20. febrúar en afturkölluð.
  • Þór Saari lagði aftur fram tillögu um vantraust á ríkisstjórnina 6. mars. Tillagan var felld.
  • 2011. Í apríl lagði Bjarni Benediktsson ásamt fleirum fram tillögu um vantraust á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.
  • 2008. Steingrímur J. Sigfússon, Valgerður Sverrisdóttir og Guðjón A. Kristjánsson lögðu fram tillögu um vantraust á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í kjölfar efnahagshrunsins.
  • 1994. Kristín Ástgeirsdóttir, Finnur Ingólfsson og Ólafur Ragnar Grímsson, lögðu fram tillögu um vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.
  • 1989. Tillaga um vantraust á ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar.
  • 1988. Tillaga um vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar. Í tillögunni segir að hún sé lögð fram með hliðsjón af því alvarlega ástandi sem ríki í þjóðfélaginu.
  • 1984. Tillaga um vantraust á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
  • 1982. Tillaga um vantraust á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðubandalags.
  • 1976. Tillaga um vantraust á ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar.
  • 1974. Tillaga um vantraust á ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar. Ólafur rauf þing áður en tillagan kom til umræðu.
  • 1972. Tillaga um vantraust á ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar.
  • 1966, 1967 og 1968. Tillögur um vantraust á ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.
  • 1961 og 1963. Tillögur um vantraust á ríkisstjórn Ólafs Thors (tvær tillögur lagðar fram árið 1961).
  • 1956. Tillaga um vantraust á ríkisstjórn Hermanns Jónassonar.
  • 1950. Í mars var lögð fram tillaga um vantraust á ríkisstjórn Ólafs Thors. Tillagan var samþykkt og fékk ráðuneytið lausn 2. mars. Er það í eina skiptið sem vantraust á ríkisstjórn hefur verið samþykkt á Alþingi.
  • 1949. Tillaga um vantraust á ríkisstjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar.
  • 1946. Tillaga um vantraust á ríkisstjórn Ólafs Thors.
  • 1944. Tillaga um vantraust á ríkisstjórn Björns Þórðarsonar, sem var utanþingsstjórn.