Um Alþingishúsið

Alþingishúsið stendur við Austurvöll. Það var reist á árunum 1880–1881. Tvær viðbyggingar hafa verið reistar við húsið, Kringlan 1908 og Skálinn 2002.

Framhlið Alþingishússins ©Bragi Þór Jósefsson.

Aðdragandinn

Á Alþingi 1867 var samþykkt ályktun um að minnast þúsund ára Íslandsbyggðar með þjóðhátíð árið 1874 og með því að reisa í Reykjavík alþingishús af íslenskum steini. Til að hrinda því í framkvæmd var skorað á stiftamtmann, biskup og landfógeta að ganga í nefnd með tveimur alþingismönnum til að veita viðtöku og ávaxta það fé sem inn kæmi með almennum samskotum, en hver alþingismaður skyldi gangast fyrir árlegum almennum samskotum í kjördæmi sínu. Næstu ár safnaðist nokkurt fé, en 1871 þótti sýnt að það nægði hvergi nærri til að hrinda af stað byggingu alþingishúss. Var þá m.a. rætt um að verja því til að rita sögu Íslands, en frestað ákvörðun um hvernig því skyldi varið. Fyrsta löggjafarþingið kom saman samkvæmt nýrri stjórnarskrá árið 1875 og á þriðja þinginu, árið 1879, var samþykkt „að á fjárhagstímabilinu 1880-1881 sje byggt hús handa alþingi og söfnum landsins; að sett sje nefnd af fimm þingmönnum, þremur úr neðri og tveimur úr efri deild, er stjórnin leiti álita hjá á milli þinga um tilhögun og bygging hússins“. Jafnframt var á fjárlögum 100 þúsund kr. fjárveiting til byggingarinnar. Í byggingarnefndina voru kjörnir Bergur Thorberg amtmaður, Árni Thorsteinson landfógeti, Grímur Thomsen skáld, Tryggvi Gunnarsson kaupstjóri og séra Þórarinn Böðvarsson. Nefndarmenn og Hilmar Finsen landshöfðingi urðu ásáttir um að fela Ferdinand Meldahl húsameistara og forseta Listaháskólans í Kaupmannahöfn að gera teikningu að húsinu. Tryggva Gunnarssyni var falið að ráða yfirsmið og útvega efni til byggingarinnar en hann hélt á þessum árum heimili í Kaupmannahöfn og dvaldi þar á vetrum.

Talsverðar deilur urðu um staðsetningu hins nýja húss. Arnarhólstún var í eigu ríkisins og lögðu Grímur Thomsen og Árni Thorsteinson til að húsið skyldi reist á hólnum. Hilmar Finsen landshöfðingi var eindregið á móti þessari ráðagerð og hafði meiri hluta nefndarmanna með sér. Í deilunni var látið að því liggja að eiginhagsmunir Hilmars hefðu ráðið ferðinni en hann nytjaði túnið. Að lokum var afráðið að reisa alþingishús norðan við Bakarastíg milli lóðanna sem nú heita Bankastræti 7 og Laugavegur 1.

Byggingarsagan

Haustið 1879 var hafist handa við að grafa fyrir grunni og einnig að höggva grjót til byggingarinnar. Kostnaðurinn við undirbúninginn í Bakarabrekkunni varð 2.200 krónur.

F. Bald sem ráðinn hafði verið yfirsmiður og samverkamenn hans, steinsmiðir frá Borgundarhólmi og múrarar frá Kaupmannahöfn, komu til landsins vorið 1880. Bald lagðist þvert gegn því að húsið yrði reist í hallanum í Bakarabrekkunni og var nú aftur rætt um Arnarhól, en einnig Austurvöll, sem hugsanlegan byggingarstað. Í byrjun maí var enn fundur í byggingarnefndinni um staðsetninguna og samþykkt að húsið skyldi standa vestan við Dómkirkjuna. Var þar með ráðist í kaup á kálgarði Halldórs Kr. Friðrikssonar alþingismanns og yfirkennara undir húsið. Halldóri voru greiddar 2.500 krónur fyrir lóðina og þótti hátt verð. Er sagt að þetta hafi verið fyrsta lóð sem seld var í Reykjavík. Ætlunin var að Alþingishúsið stæði sunnar í lóðinni og væri norðurhlið þess í beinni línu við suðurhlið Dómkirkjunnar. En þegar hafist var handa við að grafa fyrir grunni taldi Bald yfirsmiður að traustara væri og minni leðja undir ef húsið stæði norðar.

Talið er að um 100 Íslendingar hafi fengið vinnu við Alþingishúss­smíðina. Grjótið í Alþingishúsið var aðallega tekið úr Þingholtunum þar sem nú er Óðinsgata. Var það klofið með járn- eða stálfleygum eða sprengt með púðri. Grjótið var síðan flutt í vinnuskúr og höggvið til og ýmist ekið á vögnum eða dregið á sleðum að Alþingishúss­grunninum.

Vinna við húsið gekk greiðlega og röskum mánuði eftir að kaup höfðu verið fest á lóðinni var hornsteinn þess lagður, en það gerði Hilmar Finsen landshöfðingi. Í hornsteininn voru settar allar danskar myntir sem þá voru í gildi og skjöldur með eftirfarandi áletrun: „Samkvæmt fjárlögum Íslands fyrir árin 1880 og 1881 og ályktun alþingis 1879 er þetta hús byggt handa alþingi og söfnum landsins á 17. ríkisstjórnar ári Kristjáns konungs hins IX. Ráðgjafi J. Nellemann. Landshöfðingi Hilmar Finsen. Forsetar alþingis: biskup Pétur Pétursson og Jón Sigurðsson frá Gautlöndum. Byggingarnefnd kosin af alþingi Árni Thorsteinsson, Bergur Thorberg, Grímur Thomsen, Tryggvi Gunnarsson, Þórarinn Böðvarsson. Arkitekt F. Meldahl. Yfirsmiður F. Bald. Jóh. 8,32. Sannleikurinn mun gera yður frjálsa. 9. júní 1880.“

Um sumarið var vinnu við húsið haldið áfram af kappi og um haustið var það komið undir þak.Alþingishúsið

Húsið ber einkenni ítalsks nýendurreisnarstíls, með skífulögðu valmaþaki. Það þykir minna nokkuð á Medici-Riccardihöllina í Flórens, svo sem grófhöggvinn steinninn, sterkar láréttar línur, umbúnaður bogaglugga og framstæð þakbrún. Meldahl húsameistari hafði ætlast til að undir húsinu væri kjallari eða hlaðinn stallur og það stæði þannig nokkru hærra en raunin varð. Tryggvi Gunnarsson fékk því ráðið, í sparnaðarskyni, að hætt var við að hafa kjallara undir húsinu. Að öðru leyti var teikningu Meldahls fylgt. Veggir Alþingishússins eru tæpir 80 sm á þykkt á neðri hæð, en þynnast upp, eru 63 sm á efri hæð, 47 sm þar fyrir ofan og 36 sm efst. Þeir eru tvöfaldir, tveir steinar lagðir samhliða langsum í ytri og innri hleðslu en þriðji steinninn liggur þversum og tengir veggina. Í holrúminu milli ytri og innri veggjar er fylling úr sandi, kalki og sementi. Að utan hafa veggirnir verið látnir halda höggnu áferðinni en að innan eru þeir pússaðir með múrhúð.

Miklar frosthörkur einkenndu veturinn 1880–1881 en engu að síður var unnið á hverjum degi við húsið að innan. Loftið á fyrstu hæð hússins er úr holum múrsteini sem hlaðinn er milli járnbita sem sums staðar hvíla á járnsúlum. Önnur loft eru úr timbri. Járnhlerar voru settir að innan fyrir glugga á fyrstu hæð og þannig gengið frá að unnt yrði að verja hana fyrir eldi enda var hún ætluð Stiftsbókasafninu (Landsbókasafninu).

Bald yfirsmiður var talinn ganga fram af miklum dugnaði við stjórn á smíði þinghússins enda stóðst áætlun um að húsið skyldi fullsmíðað áður en þing kæmi saman sumarið 1881.

Framhlið Alþingishússins, þ.e. norðurhliðin, er nokkuð skreytt. Hæst ber kórónu og merki Kristjáns IX á burst á þakinu. Undir upsinni er ártalið 1881, málmstafir með stjörnum á milli. Yfir fjórum gluggum á annarri hæð eru landvættir Íslands í lágskurði, bergrisi, gammur, griðungur og dreki.

Í upphafi voru tveir skildir festir á veggi á annarri hæð, annar með flöttum þorski, tákni Íslands, en hinn með skjaldarmerki Danmerkur, þremur ljónum. Þeir voru fljótlega fjarlægðir og eru varðveittir í Þjóðminjasafninu.

Nýklassískur stíll hefur verið ríkjandi innan dyra í Alþingishúsinu frá upphafi. Stiginn í Alþingishúsinu er úr járni með viðarþrepum, renndu viðarhandriði og skreyttum pílárum og stólpum á stigapöllum.

Grunnlitir í þingsölum voru ljósblár og fölgrænn en að auki bætist við hvítur litur á trélistum og hurðum. Einnig er notaður gylltur litur á dyraumbúnaði. Í þingsölunum voru gerðar miklar kalkskreytingar í loftin.

Fyrstu stólar í þingsalina voru pantaðir frá Danmörku og einnig skrifborð landshöfðingja og forseta. Jakobi Sveinssyni smiði var á hinn bóginn falið að smíða önnur borð í þingsalinn eftir teikningum Meldahls.

Á þinginu 1881 kom í ljós að kostnaður við smíði þinghússins og húsbúnað í það hafði farið nokkuð fram úr áætlun og var samþykkt á fjáraukalögum 25.000 króna aukafjárveiting vegna þess.

Vígsluhátíðin

Fyrir þingsetningarathöfnina 1. júlí söfnuðust alþingismenn saman í þinghúsinu en gengu síðan til Dómkirkju og hlýddu á messu. Að henni lokinni gengu þingmenn til þingsalarins þar sem Hilmar Finsen landshöfðingi flutti vígsluræðu. Rakti hann byggingarsöguna og ýmis vandamál sem upp komu í undirbúningi og mælti síðan: „... er samt sem áður húsið nú fullgjört til hins ákveðna tíma, og stendur það nú sem hið skrautlegasta og öruggasta hús, er nokkurn tíma hafi verið reist á Íslandi, landi og lýð til sóma, og niðjum vorum til minnis um það, að á fyrsta kosningartíma stjórnarfrelsisins hafi alþingi Íslendinga í samverknaði við stjórnina haft vilja og dug til að framkvæma eins fagurt og stórkostlegt verk.“

Frá 1881 hefur Alþingi haldið alla fundi sína í Alþingishúsinu ef frá eru taldir hátíðarfundirnir á Þingvöllum árin 1930, 1944, 1974, 1994, 2000 og 2018.

Söfnin

Þegar þingi var slitið 27. ágúst 1881 var hafist handa við að flytja Stiftsbókasafnið (Landsbókasafnið) í Alþingishúsið. Var safnið opnað almenningi 6. mars 1882 og var í fyrstu opið þrjá tíma á dag þrjá daga vikunnar.

Forngripasafnið (Þjóðminjasafnið) var flutt í húsið haustið 1881 og haft til sýnis tvisvar í viku. Það var til húsa á þriðju hæð og ætlað allgott rými. Á hæðinni var einnig herbergi sem geymdi húsbúnað Jóns Sigurðssonar forseta sem Tryggvi Gunnarsson hafði fest kaup á í Kaupmannahöfn og flutt til Íslands. Forngripasafnið var flutt í nýreist Landsbankahús árið 1899 og fékk Landsskjalasafnið (Þjóðskjalasafnið) þá þriðju hæð Alþingishússins til afnota.

Listasafnið bættist við í Alþingishúsinu þegar fyrstu verkin sem gefin höfðu verið til safnsins bárust til landsins árið 1885. Veturinn 1908–1909 fluttu Landsbókasafnið og Landsskjalasafnið svo í nýreist safnahús við Hverfisgötu. Fyrirhugað hafði verið að það rúmaði öll söfn landsins en strax varð ljóst að ekki tækist að finna listasafninu stað í safnahúsinu og varð það því eftir í Alþingishúsinu. Listasafnið jókst smám saman að vöxtum og var verkum í eigu þess komið fyrir í ýmsum opinberum byggingum en mörg voru áfram til sýnis í Alþingishúsinu, allt fram til ársins 1950 þegar safnið fékk til umráða eigið húsnæði í húsi Þjóðminjasafnsins á háskólalóðinni.

Kringlan

Alþingi samþykkti árið 1905 lög um stofnun byggingarsjóðs og byggingu opinberra bygginga. Í þeim var gert ráð fyrir að verja allt að 160 þúsund kr. til byggingar húss yfir söfn landsins og 50 þúsund kr. til að byggja risnuherbergi til afnota fyrir Alþingi og leggja hitalagnir í Alþingishúsið. Var í greinargerð með frumvarpinu tekið fram að enginn ráðherrabústaður né risnuherbergi væri til þar sem taka mætti á móti tignum útlendum gestum eða þjóðhöfðingjum. Var í frumvarpinu gert ráð fyrir byggingu ráðherrabústaðar en það samþykkti þingið ekki, heldur taldi nóg að reisa útbyggingu við Alþingishúsið til gestamóttöku.

Kringlan var byggð við Alþingishúsið á árunum 1908–1909. Hún er á tveim hæðum og undir þeim kjallari þar sem komið var fyrir miðstöð fyrir allt húsið.

Danskur arkitekt, Frederik Kjörboe, sem kominn var til Íslands til að annast eftirlit með byggingu Safnahússins við Hverfisgötu, mun hafa teiknað Kringluna. Hún er nokkru skrautlegri en aðrir hlutar Alþingishússins, með gulllagðri rósettu í lofti og rósasveigum yfir inngangi. Líklegt má teljast að upphaflegt hlutverk Kringlunnar sem risnuherbergis hafi ráðið þar nokkru. Skreytingarnar í Kringlunni voru hreinsaðar og færðar til upprunalegs horfs sumarið 1994. 

Húsgögn í Kringlunni viðbyggingu við Alþingishúsið. ©Guðmundur Ingólfsson.

Kringlan var notuð sem veitingastofa Alþingis til 1973 þegar veitingunum var valinn staður þar sem áður voru skrifstofur forseta Íslands á fyrstu hæð Alþingishússins.

Háskólinn og forsetaskrifstofur í þinghúsinu

Háskóli Íslands var stofnaður 1911 og hóf starfsemi sína í Alþingishúsinu. Þröngbýlt þótti í Alþingishúsinu við komu stúdentanna. Árið 1912 var horfið frá því að hafa vetrarþing og þingtíminn færður á sumarið þegar Háskólinn starfaði ekki. Þess má geta að Alþingi hafði í fyrsta sinn komið saman að vetrarlagi árið 1909. Frá 1920 var þingtíminn aftur færður yfir á veturinn og Alþingi og Háskólinn í sambýli þar til skólinn fluttist í eigin byggingu 1940. Menntaskólinn í Reykjavík fékk næsta vetur litla kennarastofu og tvær kennslustofur á fyrstu hæð fyrir gagnfræðadeild, en sumarið 1941 tók Alþingi fyrir þingflokka herbergin sem höfðu verið kennslustofur, en ríkisstjóri og síðar forseti Íslands skrifstofur þar sem verið hafði kennarastofa Háskólans og skrifstofa rektors. Skrifstofur forsetaembættisins voru fluttar úr Alþingishúsinu í Stjórnarráðshúsið árið 1973.Stúdentar við Háskóla Íslands 1911 í Alþingisgarðinum

Fyrirkomulag í Alþingishúsinu

Margvíslegar breytingar hafa verið gerðar á Alþingishúsinu innan stokks í áranna rás. Herbergjaskipan á fyrstu hæð er nokkuð breytt og árið 1939 voru þingpallar stækkaðir og viðbótin gerð þar sem áður voru herbergi Fornminjasafnsins.

Árið 1934 voru smíðuð ný borð í báða þingsali og um leið settir ræðustólar í báðar deildir, en þeir voru í fyrstu einungis notaðir við útvarpsumræður. Annars töluðu þingmenn úr sætum sínum sem fyrr eða þar til farið var að taka ræður þeirra upp á segulband 1952. Guðjón Samúelsson teiknaði nýju innréttingarnar en Þorsteinn Sigurðsson smíðaði.

Ýmsar breytingar hafa síðan verið gerðar í þingsalnum eftir því sem þingmönnum hefur fjölgað. Þaðan eru horfin sæti og borð þingskrifara, tveggja í hvorri deild, en störf þeirra voru lögð niður þegar hljóðupptökur hófust í þingsalnum.

Þingmennirnir 63 hafa hver sitt sæti í þingsalnum. Við gluggavegg eru sæti ráðherra, fimm hvorum megin við forsetastól. Innréttingarnar í salnum eru hannaðar af Gunnari Ingibergssyni og voru settar upp 1987. Stóll forsetans fyrir miðjum sal mun skorinn út af Ríkarði Jónssyni. Forsetaborðið og ræðustóllinn eru frá 1934 og stóðu upphaflega í sal efri deildar en voru flutt í þingsalinn vorið 1991 er Alþingi var gert að einni málstofu. Stóla skrifstofustjóra Alþingis og starfsmanna skrifstofu Alþingis beggja vegna við forsetastólinn hannaði Guðjón Samúelsson um 1930.

Þingsalurinn, ræðustóll og borð forseta. ©Bragi Þór Jósefsson.

Bak við stól forseta er gengið út á svalirnar. Eina málverkið sem prýðir veggi þingsalarins er af Jóni Sigurðssyni, málað af Dananum August Schiøtt. Litir á veggjunum eru upprunalegir og er leitast við að halda þeim. Ljósakrónurnar tvær voru settar upp sumarið 2004 en þær voru áður í salnum fram yfir miðja 20. öld. Frá 1966 til 2004 voru í salnum ljósakrónur frá verkstæði danska hönnuðarins Louis Poulsens.

Sjónvarpsvélar eru í þingsalnum, eru þær til að taka upp umræður úr þingsalnum sem sýndar eru á vef Alþingis og í sjónvarpi.

Alþingishúsið er sem áður miðstöð þinghaldsins en þurft hefur að auka húsrými eftir því sem starfsemin hefur breyst og orðið umsvifameiri, til dæmis hvað varðar störf þingnefnda, útgáfu þingtíðinda og þjónustu við þingmenn. Starfsemi þingsins er nú í níu húsum sem keypt hafa verið eða tekin á leigu í næsta nágrenni þinghússins.

Stærsta listaverk í Alþingishúsinu er í anddyrinu, málverk Gunnlaugs Blöndals af Þjóðfundinum 1851. Flest málverk önnur sem nú eru í Alþingishúsinu eru af þingforsetum.

Skálinn - viðbygging við Alþingishúsið

Efnt var til samkeppni árið 1986 um nýbyggingu á Alþingisreit sem hýsa skyldi nær alla þjónustu fyrir þingið, en þingsalur og nánasta þjónusta við hann yrði þó áfram í Alþingishúsinu. Með Alþingisreit er átt við svæðið sem afmarkast af Kirkjustræti, Vonarstræti, Templarasundi og Tjarnargötu. Áformað var að rífa öll gömlu húsin við Kirkjustræti og tengja nýbygginguna neðan jarðar við þinghúsið. Sigurður Einarsson arkitekt hlaut 1. verðlaun í samkeppninni. Þegar til kom þótti í of mikið ráðist í einu og var talið rétt að vinna að verkefninu í smærri áföngum. Í nýju skipulagi var ákveðið að byggja þjónustumiðstöð í tengslum við Alþingishúsið og endurgera flest gömlu húsin á reitnum en byggja hús fyrir skrifstofur og nefndir á vesturhluta reitsins meðfram Tjarnargötu. Endurbyggingu tveggja timburhúsa við Kirkjustræti lauk árið 1996. Að loknu löngu undirbúningsferli samþykkti forsætisnefnd árið 1998 að reisa Skálann. Fyrsta skóflustungan var tekin í maí 1999 og byggingarvinnu lauk í september 2002.

Merki Alþingis©Bragi Þór Jósefsson.

Í Skálanum er aðalinngangur í Alþingishúsið og margháttuð þjónusta fyrir þingmenn og starfsmenn Alþingis. Þeir hafa nú starfsaðstöðu í nokkrum skrifstofubyggingum á Alþingisreitnum og í nágrenni hans, við Vonarstræti, Kirkjustræti og Austurstræti. Skálinn er því þjónustumiðstöð margra bygginga og tengiliður þeirra við Alþingishúsið. Í Skálanum er fundarherbergi fyrir þingmenn til að taka á móti gestum, matstofa, auk ýmissar annarrar starfsemi.

Í hugmyndafræði Skálans er unnið með samtengingu fortíðar og framtíðar. Hann er úr tveimur meginbyggingarhlutum sem skerast af ás sem er hornréttur á Vonarstræti. „Þungi hluti“ Skálans er klæddur íslensku grágrýti og tengist Alþingishúsi í efnisvali og hlutföllum. Í „létta hlutann“ er notað gler og birki, byggingin er mjög opin og stórir gluggafletir tengja bygginguna við Alþingisgarðinn og Tjörnina. Látlaus og gagnsæ glerbygging tengir Skálann við Alþingishús á 1. og 2. hæð.

Tvær freskur eftir Hafdísi Helgadóttur prýða neðri hæð Skálans, önnur í forsal en hin í fundarherbergi. Verkið var unnið á staðnum með hefðbundinni buon fresco aðferð, málun í blautan nýgerðan kalkmúr með hreinu litadufti í vatni. Það byggist á litrófi og formi tvöfalds regnboga og er hluti hrings sem nær út fyrir bygginguna. Verkinu er ætlað að vekja bjartsýni og jákvæðar hugrenningar sem tengjast regnboganum, um sátt, óskir, liti og ljós, auk vísunar í litróf hugmynda, lífsskoðana, reynslu, uppruna, tilfinninga og aðstæðna þeirra sem mynda samfélagið.

Hljóðverk eftir Ólöfu Nordal er í forsal Skálans. Nafn verksins Vituð ér enn - eða hvat? er sótt í hið þúsund ára gamla kvæði Völuspá. Umgjörð verksins er hringlaga grágrýtissteinn með opi í miðju sem greyptur er inn í hlaðinn steinvegg. Ef áhorfandinn/áheyrandinn leggur vangann að opinu heyrist hljóðmynd í veggnum, setning, setningabrot, orð eða hljóð sem flutt er af hvíslandi kvenmannsrödd, eins konar safn hug- og orðtaka sem liggja í samvitund þjóðarinnar. Hljótt og kalt bergið öðlast rödd og líf, líkt og við þekkjum úr þjóðsögunum, líkist völvu sem flytur okkur véfrétt eða einfaldlega rómi lands og þjóðar.

Endurbætur á Alþingishúsinu 2003–2005

Árið 2002 var ákveðið að ráðast í gagngerar endurbætur á Alþingishúsinu öllu. Engar heildstæðar viðgerðir höfðu þá verið gerðar á húsinu frá því það var byggt árið 1881. Framkvæmdunum var skipt í nokkra áfanga enda einungis hægt að vinna að þeim að sumarlagi meðan hlé er á þingstörfum. Sumarið 2003 var gert við suður- og austurhlið hússins að utan og anddyri þess endurgert. Sumarið 2004 var unnið að endurbótum og viðgerðum innan húss á 1. og 2. hæð. Sumarið 2005 var viðgerðum haldið áfram, einkum á 1. og 3. hæð. Lyfta var sett í húsið svo að nú eiga fatlaðir greiðan aðgang að þingpöllum.

Anddyri Alþingishússins og þjóðfundarmálverkið ©Bragi Þór Jósefsson.

Umfangsmiklar viðgerðir á útveggjum hússins reyndust nauðsynlegar en viðhald á þeim hafði verið lítið frá upphafi. Ákveðið var að færa húsið að innan sem næst upprunalegu horfi og margvíslegar viðgerðir unnar á veggjum, gólfum og loftum, meðal annars voru lagfærðar skemmdir eftir jarðskjálfta í suðvesturhluta hússins.

Í áranna rás hafði húsið tekið breytingum, til dæmis með tilkomu nýrrar tækni, svo sem síma, rafmagns, miðstöðvarkyndingar og tölvubúnaðar og oft var lítt hugað að áhrifum breytinganna á útlit hússins. Úreltar lagnir voru hreinsaðar burtu og gengið sem snyrtilegast frá nýjum. 

Alþingisgarðurinn

Á Alþingi árið 1893 kom fram tillaga um hvernig verja skyldi fjármunum sem safnast höfðu í þinghúss­byggingarsjóðinn frá 1867. Áður hafði komið fram hugmynd um að nota sjóðinn til að skreyta húsið að innan en nú kom fram tillaga um að veita úr honum til skipulags lóðar og garðyrkju við húsið. Urðu miklar umræður um tillöguna á þinginu og miðluðu þingmenn þar af reynslu sinni af garðyrkju, t.d. Árni Thorsteinson landfógeti og forseti efri deildar sem Landfógetagarðurinn (Hressingarskála­garðurinn) er kenndur við.

Alþingi samþykkti að lokum að verja 1.500 krónum til framkvæmda í garðinum og fá þingforseta umsjón verksins. Mun þar með hafa verið tekin ákvörðun um fyrsta opinbera skrúðgarðinn á Íslandi. Benedikt Sveinsson, forseti sameinaðs þings, fól Tryggva Gunnarssyni að sjá um framkvæmdir í garðinum. Tillöguuppdrættir Árna Thorsteinsonar að garðinum eru varðveittir í Þjóðskjalasafninu en uppdráttur, sem farið var eftir, er í skjalasafni Seðlabankans og á honum rithönd Tryggva Gunnarssonar. Tryggvi var smiður að mennt og lærði einnig búvísindi á Norðurlöndum og er ekki ólíklegt að hann sé höfundurinn að skipulagi garðsins. Garðurinn er enn nánast óbreyttur frá upphaflegu skipulagi.

Suðurhlið Alþingishússins, Kringlan og Alþingisgarðurinn. ©Bragi Þór Jósefsson.

Tryggvi hófst handa við að láta skipta um jarðveg í garðstæðinu og ræsa það fram. Einnig keypti hann mykju og tað til áburðar og pantaði plöntur innan lands og utan. Kostnaðarsamast var að girða garðinn og var Ólafur Sigurðsson steinhöggvari fenginn til að hlaða garðveggina. Veggurinn sem snýr að Dómkirkjunni er vandaður og prýða hann steinsúlur með hnúð. Suður- og vesturveggirnir eru einfaldari og frágangurinn grófari enda voru þeir á lóðamörkum en sneru ekki að opnum svæðum eins og nú. Slökkvitækjaskúr Reykjavíkurbæjar stóð að hluta á lóð Alþingis og var rifinn þegar garðvinnan hófst.

Tryggvi fékk plöntur víða að, víði og birki úr Fnjóskadal, ilmreyr úr Hörgárdal, reynivið úr Nauthúsagili undir Vestur-Eyjafjöllum, birki úr Hafnarfjarðarhrauni og mjaðarjurt úr Gufunesi. Árni Thorsteinson og Schierbeck landlæknir voru Tryggva einnig innan handar með plöntur og fræ í garðinn. Víðitegund, sem Tryggvi flutti til landsins, dregur íslenskt heiti sitt af garðinum og er kölluð þingvíðir. Ekki er talið að neitt af upprunalegu trjánum standi enn í garðinum.

Kostnaður við framkvæmdir í garðinum varð meiri en á horfðist og var sumarið 1894 kominn í 2.839 krónur. Hafði Tryggvi lagt út fyrir því sem á vantaði þegar 1.500 króna fjárveitingin var þrotin. Á þinginu 1894 var samþykkt að verja rúmlega 1.000 krónum sem eftir stóðu í þinghúss­byggingarsjóðinum til að gera upp reikninga og veita 1.200 krónur úr landssjóði til að ljúka verkinu.

Næstu ár eyddi Tryggvi ómældum tíma í vinnu í Alþingisgarðinum og var ósk hans að verða jarðsettur þar. Var orðið við henni, garðurinn vígður sem heimagrafreitur og hvílir Tryggvi syðst í garðinum undir steinhæð með íslenskum blómum og grösum. Á leiðinu er brjóstmynd af Tryggva eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara.

Hönnun lóðar

Við frágang og hönnun lóðarinnar eftir að viðbyggingin Skálinn reis var leitast við að tengja saman gamalt og nýtt með efnisvali og mótun lóðar. Frá torginu sem myndast á milli Alþingishússins, Kirkjustrætis 10 og Skála er dregin göngulína með blágrýti sem heldur áfram í gegnum Skálann og út á torg milli Skála, Vonarstrætis 8 og Oddfellowhússins. Notaðar eru steyptar hellur og tilhöggvið íslenskt grágrýti. Lóðin er að mestu ofan á steyptri plötu bílageymsluhúss og því örðugt að nota trjágróður en í hönnun svæðisins er tilvísun í Alþingisgarðinn.

Vesturveggur Alþingisgarðsins, sem snýr að Skálanum, hefur verið opnaður með léttu grindverki í stað hlaðins veggjar og gönguleið opnuð í gegnum garðinn. Súlnaröð hlaðna veggjarins við Templarasund er haldið í nýjum vesturvegg sem endurspeglast áfram í súlum Skálans. Suðurveggur garðsins var endurhlaðinn í upprunalegri mynd en ekki var raskað við austurveggnum við Templarasund.

Nýbygging á Alþingisreit

Alþingi hefur lengi áformað að koma starfsemi sinni fyrir í einni samtengdri byggingarheild á Alþingisreitnum. Í þingsályktun, sem gerð var á 100 ára afmæli Alþingishússins árið 1981, var mörkuð sú stefna að uppbygging fyrir starfsemi Alþingis skyldi verða á Alþingisreitnum. Í framhaldi af samþykktinni fór fram samkeppni um nýbyggingu Alþingis við Kirkjustræti, en ekki náðist samstaða um framgang málsins þá. Nálega öll starfsemi þingsins, utan þingfunda og funda þingflokka, fer fram utan Alþingishússins, í leiguhúsnæði sem Alþingi hefur við Austurvöll. 

Eftir talsverðar umræður um framtíðarhúsnæði Alþingis var niðurstaðan sú að ráðast í nýbyggingu á Alþingisreitnum, í suðvesturhluta hans, á gatnamótum Vonarstrætis og Tjarnargötu. Hinni nýju byggingu er ætlað að tengjast Alþingishúsinu og Skálanum vel og vera órofa hluti af þinghúsbyggingunum. Þar munu alþingismenn hafa skrifstofur sínar, svo og þingnefndir, þingflokkar og starfsfólk Alþingis.

1. verðlaun í hönnunarsamkeppni um nýbygginu á Alþingisreitnum

Hönnunarsamkeppni um nýbyggingu á Alþingisreitnum var haldin árið 2016. Alls bárust 22 tillögur og var niðurstaða dómnefndar sú að tillaga frá Arkitektum Studio Granda skyldi hljóta fyrstu verðlaun. Í umsögn dómnefndar segir að tillagan feli í sér „sannfærandi og listræna heildarlausn á þeim húsnæðis- og skipulagsmálum Alþingis sem aðkallandi er að hrinda í framkvæmd. Jafnframt sýnir hún fram á dýrmæta möguleika til framtíðarþróunar á húsakosti þingsins. Höfundar leitast við að tengja nýbygginguna við sögu Alþingis og þróun byggðar í Kvosinni allt frá landnámsöld. Minjar um upphaf byggðar og minni úr seinni tíma byggingarsögu Reykjavíkur eru dregin fram og mynda samþætta heild með nýrri byggingarlist sem ber samtíð sinni vitni af hógværð og tillitssemi við nánasta umhverfi. Höfundar leggja áherslu á að styrkja og fegra þau borgarrými sem fyrir eru við jaðra reitsins fremur en að skapa ný inn á miðju hans. Tengsl samtíðar við atburði fyrri alda eru viðfangsefni myndlistarverks við aðalinngang og þau endurspeglast jafnframt í hugmynd um lagskipta steinklæðningu á ytra borði aðalbyggingar. Innra skipulag allra hæða er vel leyst og öll vinnurými njóta dagsbirtu og beinnar útloftunar í annars samþjappaðri byggingu. Hringgangur innan hverrar hæðar umhverfis ljósgeil í miðju býður upp á margbreytileg sjóntengsl og sveigjanleika í nýtingu. Í heild er tillagan verðugur merkisberi framsækinnar og vandaðrar byggingarlistar fyrir Alþingi á 21. öldinni á líkan hátt og Alþingishúsið við Austurvöll var tákn nýrra tíma í listhugsun og verkmenningu á 19. öld.“

Fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni um nýbyggingu á Alþingisreitnum