Sveigjanleg starfslok
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Mig langar til að lýsa stuðningi mínum við þessa till. sem hér hefur verið mælt fyrir og tel mjög mikilvægt það sem kemur fram í ályktunartillögunni sjálfri um sveigjanleg starfslok. Það skiptir verulega miklu máli að hægt sé að sveigja þau bæði niður á við og ekki síður upp á við því að það eru mjög margir sem hafa fulla starfsorku miklu lengur en til 67 eða 70 ára aldurs.
    Það er líka mjög mikilvægt að eldra fólk geti minnkað við sig vinnu undir lok ævinnar án þess að lífeyrisréttindi þess skerðist eins og nú er algengt og það er mjög slæmt að margir neyðast til þess að vinna mjög mikið þó svo að getan sé orðin mjög skert, alla vega gildir það um marga. Það er ekki síður mikilvægt og kom reyndar fram í ræðu 1. flm.
    Það var gaman að hlusta á þennan lífeðlisfræðilega fyrirlestur sem við fengum hérna einnig varðandi hvernig breytingar verða við aldur á frumum og öðru en mig langar til að bæta við öðru sem kemur fram vegna þess að hv. þm. Guðni Ágústsson, 1. flm., hætti lestrinum einmitt þar sem mér fannst vera svo mikilvægt en í grg. stendur á bls. 4, með leyfi forseta: ,,Líkamsþjálfun vinnur gegn aldursbreytingum í vöðvum og stoðkerfi. Hæfileg þjálfun getur hamlað beineyðingu og efnaskiptabreytingum. Þjálfun styrkir hjartavöðvann, þ.e. eykur slagrúmmál hjartans og þol.`` Þetta tel ég vera mjög mikilvægt og þetta er það sem við þyrftum að beina athygli okkar ekki síður að, að jafnframt því sem starfsorkan minnkar þurfum við að auka áróður og benda fólki á, og reyndar vita það nú kannski flestir nú þegar, að þessi þjálfun er mikilvæg ekki síst til að hamla gegn þeim aldursbreytingum sem verða í vöðvum og á stoðkerfi og sem koma reyndar fram miklu fyrr en við 67 ára aldur. Þetta kemur fram miklu fyrr.
    Ég ítreka því að ég styð þessa till. sem hér er fram komin og vona að hún fái skjóta meðferð í þinginu.