Hvalveiðistefna Íslendinga
Föstudaginn 25. nóvember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Norðurl. v., gerði þetta að persónulegri umræðu um mig sem stjórnmálamann sem ekki léti beygja sig. Þetta er alrangt. Ég hef oft verið beygður og það hefur stundum verið talað um að ég hefði níu líf því ég kæmi alltaf niður á fæturna. (Gripið fram í.) Það er bara vegna þess að maður keyrir ekki bíl á miðri götu ef annar kemur beint á móti manni, maður víkur og fer eftir umferðarreglum og heimurinn er að verða minni og minni og menn verða bara að kunna að umgangast hver annan. Það þýðir ekkert að segja: Ég er sterkur, ég er svo sterkur að það ræður enginn við mig. Það skal enginn beygja mig. Ég skal brjóta niður allt og alla sem koma nálægt mér. Það getur vel verið að það sé hægt. (Gripið fram í.) Það er akkúrat það sem felst í þessum orðum, að láta ekki beygja sig undir neinum kringumstæðum, vera ekkert að hugsa um það hvort við erum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Látum þjóðina bara líða frekar en að beygja okkur.
    Ég vil segja það að með þeim málflutningi sem hv. þm. hefur haft hér, er hann ekki góður talsmaður af því að hann er ekki hlutlaus til að meta stöðuna eins og hún er í Þýskalandi eða annars staðar en koma svo heim og tala eins og hann talar. Það er ekki verið að gefa hlutlaust mat. Það er verið að tala fyrir málinu og ég er engu nær um það hvernig ástandið er í Þýskalandi eftir að hv. þm. hefur farið á kostnað ríkisins þangað til að segja mér sem þm. hvernig ástandið er þar, hlutlaust. Og ég tel, og ég á erfitt með að skilja að aðrir skuli ekki hugsa það sama, að það sé hættulegt að telja fólki trú um máttleysi grænfriðunga. Við getum verið með þeim eða við getum verið á móti þeim, við þurfum ekki að vera sammála þeim. En að vanmeta þá, að vanmeta andstæðing er það versta sem maður gerir.
    ,,Álfur út úr hól`` kom hér upp samkvæmt hans eigin skýringu. Ég vissi ekki að hann teldi sig vera ,,álf út úr hól``, ég hef alltaf haldið að hann væri 3. þm. Vesturl. en hann um það. Ég kallaði engan álf út úr neinum hól, það voru ekki mín orð, og tilefni þess að ég kom hér upp nú er að leiðrétta. Ég kæri mig ekkert um að vera misskilinn. Það er rétt sem hv. þm. sagði. Samtökin, og á hann þá við Greenpeace, hafa milljónir dollara úr að spila og hann segir, gefur mér upplýsingar, að þær milljónir séu notaðar til að hafa áhrif á kennara og að kennararnir láti jafnvel ungabörn sem eru jafnvel ekki skrifandi gera stíla og ritgerðir um hvalamálið að þeirra geðþótta. Þetta vissi ég ekki.
    En vegna þess að hv. 3. þm. Vesturl. sagði sögu --- hann sagði sögu af kaupendum okkar afurða sem komu hingað til þess að kynna sér okkar útflutningsafurðir. Þegar þeir keyrðu Skúlagötuna sá bílstjórinn hvalveiðiskip sigla út úr höfninni. Hann benti þessum mönnum á hvalveiðiskipið og þá kom í ljós að þeir höfðu ekki hugmynd um hvalveiðimálið. Og þetta átti að gefa til kynna hvað Greenpeace væri máttlaust í Bandaríkjunum, að fullorðið fólk sem er í

fiskbisniss, sem kaupir okkar afurðir, hafði ekki heyrt um þetta hvalveiðimál. Þess vegna sagði ég þá einu sögu sem ég kann af hvalveiðimálum frá sama landi, frá Bandaríkjunum. Ég vona að hann taki það ekki illa upp, en um eitt getum við verið sammála hvort sem amerískir fiskkaupendur ferðast í rútubíl á Skúlagötunni eða barnabörn mín eru í skóla og læra um hvalveiðimálið í Oklahoma, þá tek ég undir með hv. 3. þm. Vesturl. að það er áreiðanlega illt að eiga Greenpeace-menn að andstæðingum. Það erum við að upplifa og ég sé enga ástæðu til þess að egna þá umfram það sem nauðsynlegt er. Ég sé enga ástæðu til þess. Og ég vil segja það eitt að bæði frv. sem var lagt fram af borgaraflokksmönnum og eins þessi þáltill. frá hv. 3. þm. Norðurl. e. eiga fullan rétt á sér þegar við metum blákalt hagsmuni þjóðarinnar þar sem við erum að gæta meiri hagsmuna gegn minni hagsmunum, hvort sem við sem einstaklingar erum sammála eða ekki sammála. Það er þjóðarhagur að við getum selt afurðir okkar, okkar hefðbundnu afurðir sem gefa okkur mörgum, mörgum sinnum meira og betra lifibrauð en hvalveiðin getur nokkru sinni gert.