Áfengiskaup handhafa forsetavalds
Mánudaginn 05. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Vegna ræðu hv. alþm. Þorvalds Garðars Kristjánssonar vil ég aðeins geta þess að þegar áfengiskaup Magnúsar Thoroddsens, fyrrv. forseta Hæstaréttar, komu á dagskrá hafði hann þau ummæli að þau væru á sama veg og önnur áfengiskaup annarra handhafa forsetavalds á árum áður. Þá komu fram eindregnar óskir til mín, sérstaklega frá fulltrúum fjölmiðla, að upplýst yrði hver hefðu verið áfengiskaup handhafa forsetavalds undanfarin ár. Ég varð við þessari ósk og lét þær upplýsingar í té. Auðvitað má um það deila hvort fjmrh. hafi átt að gera það eða Ríkisendurskoðun. Það getur verið formságreiningur. Hitt tel ég ekki að eigi að vera nein launung, hver þau hafi verið, einkum og sér í lagi þegar fyrrv. forseti Hæstaréttar, Magnús Thoroddsen, hafði um það ákveðnar fullyrðingar.
    Það er misskilningur hjá hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni að þetta hafi verið gert í pólitísku skyni. Og ég veit það að ef hann hugleiðir það mál vel sér hann að það eru lítt ástæður til þess af minni hálfu að hafa haldið þannig á þessu máli. Ef hv. alþm. kjósa hins vegar að upplýsingar af þessu tagi fari alfarið á opinberan vettvang frá Ríkisendurskoðun hef ég ekkert við það sjónarmið að athuga og mun beita mér fyrir því. En ef krafan er að upplýsingar séu ekki látnar í té verð ég að lýsa því yfir að ég er ekki sammála því og taldi skyldu mína að verða við þeim óskum sem til mín bárust um það efni.