Fjölskylduráðgjöf
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um fjölskylduráðgjöf á þskj. 417. Efni þessa frv. er að hið opinbera skuli veita ráðgjöf í skilnaðarmálum, fræðslu um málefni barna í tengslum við sambúðarslit foreldra og leiðbeiningar um úrlausn í forsjár- og umgengnisréttarmálum.
    Í þessum tilgangi er kveðið á um að starfrækja skuli sérstaka miðstöð fjölskylduráðgjafar undir yfirstjórn félmrn. þar sem veitt verði m.a. sérfræðiaðstoð sálfræðinga og lögfræðinga.
    Hér er fyrst og fremst um að ræða að koma upp miðstöð slíkrar ráðgjafar til reynslu á höfuðborgarsvæðinu sem veita skuli öllu landinu þjónustu. Að fenginni reynslu eftir þrjú ár er gert ráð fyrir að þessi starfsemi verði tekin til endurskoðunar, m.a. það hvort rétt sé að staðsetja slíka starfsemi víðar á landinu.
    Á vegum félmrn. hefur unnið að þessu frv. starfshópur sem í áttu sæti Drífa Pálsdóttir, deildarstjóri í dómsmrn., Guðfinna Eydal sálfræðingur, Lára V. Júlíusdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir, héraðsdómari og formaður barnaverndarráðs, og Sólveig Pétursdóttir, lögfræðingur og formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur.
    Vegna starfa sinna höfðu þær sem starfshópinn skipuðu kynnst mjög mikið þeim málum sem frv. þetta tekur til og hafa lagt mikla áherslu á að hér sé um mjög brýnt mál að ræða. Hver á sínu sviði hafa þær starfað að málum sem tengjast efni þessa frv. og þeim vandamálum sem upp koma í skilnaðarmálum sem geta verið mjög erfið og ekki hefur verið á færi annarra að leysa, svo sem á vegum félagsmálastofnana, heilsugæslustöðva eða barnaverndarnefnda.
    Ég tel ástæðu til að nefna hér að sérstök fjölskylduráðgjöf, sem hér er lagt til að komið verði á fót, dregur á engan hátt úr þýðingu annarrar fyrirbyggjandi starfsemi í fjölskyldumálum sem einkum er unnin á vegum félagsmálastofnana, heilsugæslustöðva og barnaverndarnefnda. Er ástæða til að tilgreina það sérstaklega að í heilsugæslustöðvum má segja að sé veitt almenn ráðgjöf. Fyrirbyggjandi aðgerðir sem þar eru veittar felast einkum í ungbarnaeftirliti, mæðraskoðun og fræðslu af ýmsum toga í formi funda, námskeiða og bæklinga. Félagsmálastofnanir eru einungis starfræktar í stærri byggðarlögum. Við þær eru fjölskyldudeildir þar sem mestur þungi er á framfærslumálum og meðferð barnaverndarmála. Þar er oftast um að ræða erfið og bráð verkefni sem veita lítið svigrúm til ráðgjafar, meðferðar og skipulegs forvarnarstarfs. Segja má einnig að barnaverndarnefndir, sem eru umsagnaraðilar í umgengnisréttar- og forsjárdeilumálum, séu ekki í stakk búnar til að veita sérstaka fjölskylduráðgjöf, enda ekki heppilegt að slík ráðgjöf sé einnig í höndum þeirra sem e.t.v. þurfa síðar að úrskurða í forsjárdeilumálum sömu aðila.
    Allt það sem ég hef hér tíundað og er á verksviði heilsugæslustöðva, félagsmálastofnana og

barnaverndarnefnda stangast á engan hátt á við það sem hér er lagt til, enda er hér einkum um það að ræða að þessi fjölskylduráðgjöf fjalli um mjög erfið og þung vandamál sem ekki hefur verið á færi annarra að leysa.
    Miðað við reynsluna í öðrum löndum er talið nauðsynlegt að fjölskylduráðgjöf sé starfrækt sem sjálfstæð og sérhæfð þjónusta. Á þeim þrem árum sem lagt er til að fjölskylduráðgjöfin starfi til reynslu má vænta að grundvöllur skapist til að flytja hana út um landið verði það niðurstaða við endurskoðunina.
    Hér er ekki á ferðinni hugmynd sem er ekki ný af nálinni hér í þingsölum vegna þess að á árinu 1982 og aftur 1983 var lagt fram stjfrv. um sama efni af þáv. félmrh. Svavari Gestssyni. Ég tel ástæðu til þess að vitna hér í greinargerð sem mér barst meðan frv. þetta var í vinnslu frá Sigrúnu Júlíusdóttur félagsráðgjafa sem starfar hjá ráðgjafar- og fræðsluþjónustu að hjóna- og fjölskylduráðgjöf og er því gjörkunnug þeim vandamálum sem frv. þessu er ætlað að taka til. Vil ég, með leyfi forseta, rekja í örstuttu máli einstök atriði úr þeirri greinargerð, en þar kemur fram, með leyfi forseta:
    ,,Eins og málum er nú háttað á Reykjavíkursvæðinu eru möguleikar á fjölskylduráðgjöf takmarkaðir.`` Víkur Sigrún fyrst að félagsmálastofnunum, en þar segir í hennar greinargerð: ,,Eins og kunnugt er miðast þjónusta þessara stofnana einkum við afgreiðslu framfærslumála og meðferð barnaverndarmála. Eftirlit, greinargerð og undirbúningur athafna tekur drjúgan tíma þeirra starfskrafta sem þar er nú á að skipa. Þó kostur á fjölskylduráðgjöf væri hér æskileg viðbót, það sé í samræmi við markmið þjónustunnar og oft sé þar starfandi fagfólk með þjálfun í samskiptamálum, þá virðist sem ófullnægjandi mönnun og þung og bráð verkefni skapi starfsaðstæður sem tæplega veita svigrúm til ráðgjafar og því síður meðferðar eða skipulegs forvarnarstarfs.``
    Síðan er vikið að heilsugæslustöðvum, en þar kemur fram eftirfarandi:
    ,,Nokkuð er um almenna ráðgjöf og forvarnarstarf, m.a. í formi fræðslunámskeiða, hefur verið unnið á heilsugæslustöðvum. Þar hins vegar starfa aðallega sérfræðingar á sviði heilbrigðisþjónustu en lítið er um félagssálfræðilega menntað starfsfólk, þótt gert hafi verið ráð fyrir því í
upphafi. Þannig virðist þessi þjónusta einkum taka mið af líkamlegri heilsugæslu. Þar fer þó alltaf fram einhver ráðgjöf og greining á einstökum málum og er hún mikilvæg þó í litlum mæli sé.``
    Síðan er vikið að göngudeildum geðdeilda. Þar kemur fram eftirfarandi:
    ,,Hér er á að skipa sérhæfðu starfsfólki í geð- og samskiptafræðum. Þó eru skiptar skoðanir um það meðal ráðamanna á þessu sviði í hvaða mæli almenn fjölskylduráðgjöf, skilnaðarfræðsla eða hjónameðferð eigi heima inni á geðdeildum. Reynslan hefur enn fremur sýnt að almenningur hefur veigrað sér við að leita á geðdeildir með svokölluð vandamál daglegs lífs, enda tengist geðheilbrigðisþjónustan í huga fólks

oft geðrænum truflunum og vanda af sjúklegum toga.``
    Síðan er vikið að þörfinni og kemur þar fram að töluvert sé um að almenningur spyrjist fyrir á göngudeildum geðdeilda um möguleika á fjölskylduráðgjöf þegar vandi kemur upp í fjölskyldunni, en ef fólk vill síður fara á skrá hjá geðheilbrigðisþjónustunni eða hefur ekki tök á að greiða fullan sérfræðingataxta er um fáa kosti að velja. Tilvísanir á stofur sérfræðinga berast sífellt frá félagsmálastofnunum, heimilislæknum og heilsugæslustöðvum. Allnokkuð er um tilvísanir frá félagsráðgjöfum á sjúkrahúsum. Í þessum tilvikum liggur til grundvallar mat félagsráðgjafa og lækna eða hjúkrunarfræðinga sem oft hafa þá átt nokkur greiningarviðtöl við viðkomandi einstaklinga, hjón eða fjölskyldu og mæla með sérhæfðri fjölskylduráðgjöf og meðferð á þeim grundvelli.
    Víðast hvar í nágrannalöndunum og í Bandaríkjunum er nú rekin sérstök fjölskylduráðgjöf. Hún er ýmist rekin af hinu opinbera eða heilbrigðisþjónustunni, af hagsmunasamtökum eða af einkaaðilum og þá oft með styrk frá ríki, sveitarfélögum eða öðrum. Flestir eru sammála um nauðsyn þess og réttmæti að almenningur eigi kost á faglegri aðstoð í fjölskyldumálefnum, enn fremur að best færi á að hún starfi undir eigin nafni og tengist almennri félagsmála- og heilbrigðisþjónustu. Þannig er almenningi gert jafnt undir höfði. Möguleiki væri á að leita hjálpar milliliðalaust og þagnarvernd væri vel tryggð.``
    Ég taldi ástæðu til þess að rekja nokkur atriði úr greinargerð Sigrúnar Júlíusdóttur félagsráðgjafa sem starfað hefur einmitt að því máli sem frv. þetta fjallar um eða fjölskylduráðgjöf.
    Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um mjög brýnt verkefni að ræða sem ástæða er til að reyna hér, starfsemi sem taka á á mjög vandasömum málum sem hætt er við ef ekki er við brugðist að verði miklu alvarlegri og kostnaðarsamari fyrir þjóðfélagið en starfræksla slíkrar fjölskylduráðgjafar sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Hér er því um mikilvæga fyrirbyggjandi starfsemi að ræða sem getur komið í veg fyrir erfið og þung félagsleg vandamál í fjölskyldum.
    Starfshópurinn sem um þetta mál fjallaði lagði á það mat hvað gera mætti ráð fyrir að starfsemi slíkrar ráðgjafar kostaði. Niðurstaðan varð sú að áætlaður kostnaður við rekstur fjölskylduráðgjafar miðað við tvo sérfræðinga, annan með stjórnunarábyrgð, ásamt ritara í um 100 m2 leiguhúsi yrði um 6 millj. kr. á verðlagi 1988.
    Hins vegar er gert ráð fyrir því í frv. að gjaldtaka verði fyrir þessa þjónustu og að um það verði sett reglugerð. Brýnt er þó að gjaldtakan verði við það miðuð að sérstakt tillit verði tekið til efnalítils fólks. Þar sem hér er ekki um ókeypis þjónustu að ræða ætti það að verða til þess að fólk legði sig frekar fram um að árangur næðist. Tekjur af þjónustunni mundu eiga a.m.k. að hluta til að standa undir kostnaði.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta mál fleiri

orð. 1. gr. frv. felur það í sér að hið opinbera veiti aðstoð í sambúðarslita- og skilnaðarmálum. Lögð er áhersla á að þjónustan verði undir yfirstjórn félmrn. þar sem félagsleg aðstoð er veitt á vegum sveitarfélaganna sem félmrn. hefur eftirlit með. Ekki þykir heppilegt að tengja þjónustuna dómsmrn. þar sem það ráðuneyti úrskurðar í flestum tilvikum í forsjárdeilumálum. Einnig má benda á að barnaverndarnefndir sem heyra undir menntmrn. eru umsagnaraðilar í forsjárdeilum. Gert er ráð fyrir að miðstöð ráðgjafarinnar verði fyrst um sinn á höfuðborgarsvæðinu, en hún þjóni öllu landinu.
    Eins og fram kemur í ákvæði til bráðabirgða er hér lagt til að þessi starfsemi verði fyrst um sinn tilraunastarfsemi bundin við þrjú ár. Þá er gert ráð fyrir að úttekt verði gerð á starfseminni og á grundvelli hennar ákveðið hvert framhald málsins skuli vera og hvernig megi koma betur til móts við þarfir fólks á landinu öllu. En við endurskoðun er sérstaklega miðað við að athugað verði hvort staðsetja beri starfsemina víðar um landið, t.d. í tengslum við skipulag félagsþjónustu sveitarfélaga, en í undirbúningi hefur verið á vegum félmrn. að setja löggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga og væri einmitt fengur að því áður en til slíkrar lagasetningar kæmi að einhver reynsla fengist af þeirri fjölskylduráðgjöf sem frv. þetta gerir ráð fyrir.
    Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað
til 2. umr. og hv. félmn.