Fjölskylduráðgjöf
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Jón Helgason:
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt um það mikla vandamál sem efni þessa frv. fjallar um, þ.e. afleiðingar af skilnaðarmálum og þörf á því að hjálpa þeim sem í þeirri ógæfu hafa lent. Mig langar hins vegar að víkja að tveimur atriðum frá aðeins öðru sjónarhorni en hér hefur komið fram til íhugunar og athugunar þá fyrir þá nefnd sem um þetta mál mun fjalla.
    Í fyrsta lagi þekkjum við það sem höfum kynnst afleiðingum hjónaskilnaða í starfi okkar að það er varla hægt að lýsa því í nógu skýrum dráttum hversu ömurleg eru stundum örlög þeirra einstaklinga sem í því lenda, þá fyrst og fremst barnanna sem þar eiga hlut að máli. Að sjálfsögðu viljum við öll gera það sem við getum til þess að hjálpa þeim. Hins vegar finnst mér gleymast hin hliðin að gera það sem við getum til þess að koma í veg fyrir að svona fari. Þar kemur mér í hug að þetta er að nokkru leyti aðeins einn angi, einn hluti af því gífurlega vandamáli sem áfengisneysla í landinu veldur.
    Neysla áfengis og annarra vímugjafa á stóran hlut í því hve hjónabönd enda oft með skilnaði. Hér er því verið að glíma við eina af afleiðingum þess vanda. Því miður virðist það vera svo að Alþingi vilji frekar snúa sér að þeirri hliðinni að reyna að gera eitthvað sem á að draga úr afleiðingum en að koma í veg fyrir eða draga úr orsökunum. Þar á ég við sívaxandi áfengisneyslu en á síðasta þingi var ákveðið að auka mjög fjölbreytni og framboð áfengis og má búast við að afleiðingarnar láti ekki á sér standa. Það mál þarf að sjálfsögðu að ræðast undir öðrum dagskrárlið en ég held að það væri full ástæða til þess að Alþingi ræddi nú í vetur þá hlið málsins hvort alþingismenn vilja ekki í raun leggja eitthvað á sig til að draga úr orsök og afleiðingum af sívaxandi neyslu, m.a. því sem kemur fram í hjónaskilnuðum og þeim vanda sem þetta frv. fjallar m.a. um.
    Hv. 8. þm. Reykv. las hér upp setningu eitthvað á þá leið að menn stefndu inn í blindgötu skammsýni og tengslaleysis og mér datt einmitt í hug hvort það ætti ekki við um þetta svið líka. Menn eru að reyna að klóra í bakkann og að setja upp einhverja varnargarða í staðinn fyrir að reyna að draga úr flaumnum. En engu að síður vil ég leggja áherslu á að að sjálfsögðu viljum við öll gera það sem við getum til að hjálpa þessum einstaklingum þegar út í óefni er komið.
    Hitt atriðið er svo að benda aðeins á hvort í sambandi við svona hjálparstarf, aðstoðarstarf, væri ekki rétt að hafa eina stofnun enn í huga en það er kirkjan í landinu. Við vitum að það eru fjölmargir einstaklingar sem leita til hennar starfsmanna í sínum þrengingum á öllum tímum sólarhrings. Mér er að sjálfsögðu ljóst að núverandi starfsmenn kirkjunnar ráða ekki við öllu meira starf en þeir annast. En ég held að það gæti verið æskilegt að hafa í huga hvort það ætti ekki að skoða samstarf við þá stofnun í landinu líka. Kirkjan er með á sínum vegum hjálparstofnun sem vinnur fyrir fjarlægar þjóðir ásamt

okkar eigin þjóð og hér er um að ræða verkefni sem er nátengt hennar starfi.
    Svipað kom upp í huga minn fyrir örstuttu heyrði ég einhverjar glefsur af fundi sem hér var haldinn þar sem verið var að ræða um friðarfræðslu í skólum. Ég heyrði ekki nema lítið af því, aðeins síðustu orðin, og veit því ekki hvað þar fór fram. En í þessum orðum, þegar verið var að tala um friðarfræðslu í skólum, var ekki minnst á kristindómsfræðsluna í skólum sem virðist hafa verið minnkandi áhersla á á síðustu árum og áratugum. En að sjálfsögðu er þar fyrst og fremst um friðarfræðslu að ræða, hvernig við komum fram í samskiptum við náungann og þá einnig við aðrar þjóðir. Því er ekki ástæða til að gleyma því, heldur þvert á móti að íhuga hvort við höfum ekki einnig á því sviði á síðustu árum verið að fara inn á blindgötu skammsýni með því að leggja minni áherslu en áður á kristindómsfræðsluna.