Fjölskylduráðgjöf
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Margrét Frímannsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég fagna framkomu frv. sem hér er til umræðu og er sammála því að nauðsyn ber til að koma á fót ráðgjöf og aðstoð við foreldra og börn sem hafa lent í skilnaði eða sambúðarslitum því að þó svo það séu foreldrarnir sem ákveða að slíta sambúð eða hjónabandi eru þetta einkum sambúðarslit barna og oft annars foreldris og getur skilið eftir sig varanleg merki í sálarlífi barna ef ekki er brugðist rétt við. Því er það fagnaðarefni að hér hefur verið lagt fram frv. þess efnis að hið opinbera standi að því að veitt sé þjónusta og aðstoð sérfræðinga í slíkum tilvikum.
    Það eru samt sem áður nokkrar athugasemdir sem mig langar að gera við þetta frv. og mun að sjálfsögðu gera í félmn. en ég á sæti þar. Þá er þar fyrst að nefna staðsetninguna eins og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir benti á áðan. Ég efast um að það gefi rétta mynd ef aðeins á að þróa þessa starfsemi á höfuðborgarsvæðinu og gefa til þess þrjú ár. Ég er alls ekki viss um að þörfin sé sú sama eða sams konar í dreifbýlinu og hér í þéttbýlinu.
    Algengar orsakir skilnaðar eða sambúðarslita eru peningavandamál og mjög dýrt og oft erfitt fyrir einstaklinga að sækja þjónustu hingað til Reykjavíkur. Það er jafnframt yfirlýst stefna þessarar ríkisstjórnar að standa að því að dreifa opinberri þjónustu um landið og við hjá Alþb. höfum stutt þetta, haft það markmið á oddinum hjá okkur í stefnu okkar. Ég held að þarna gefist tækifæri þegar farið er af stað með nýja þjónustustofnun.
    Einnig tengist frv. kannski beint verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tekjuöflun sveitarfélaga. Ég vil hugsa það vel áður en ég samþykki að vera skuli gjaldtaka fyrir slíka þjónustu.
    Ég ítreka að ég er ekki sannfærð um að þriggja ára reynslutími slíkrar miðstöðvar fjölskylduráðgjafar, sem staðsett væri í Reykjavík, gæfi rétta mynd og þá kannski ekki síst vegna þess, sem ég nefndi áðan, að það er mjög dýrt fyrir þá sem lengst eiga að fara að sækja til Reykjavíkur til þess að ná í þá þjónustu og fólk veigrar sér þá e.t.v. við því og jafnvel þannig að það gæfi ekki rétta mynd af þeirri þörf sem er fyrir hendi.
    Síðan vil ég varpa fram þeirri spurningu hvort ekki er rétt, þó svo um sérstaka miðstöð fjölskylduráðgjafar sé að ræða, að hún sé staðsett á heilsugæslustöðvum sem eru til staðar í landsfjórðungunum öllum og vítt og breitt um landið. Þar væri auðvelt að koma henni fyrir og ég legg áherslu á það að ef frv. verður hér samþykkt verði talað um t.d. tvær stöðvar til reynslu og mætti hugsa sér aðra hér í Reykjavík en aðra fyrir austan eða norðan.