Endurskoðun útvarpslaga
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Þetta var ágæt fyrirspurn, en aðdragandinn var skrýtinn að því hver bar fsp. fram, sá sem bar ábyrgð á því að endurskoðun útvarpslaga hefði átt að sinna í menntmrn. á undanförnum árum og lá ekkert fyrir í þeim efnum þegar ég kom í ráðuneytið, ekki neitt. Hins vegar rak ég strax á eftir ákveðinni nefnd sem hv. fyrirspyrjandi hafði skipað. Hún skilaði drögum að frv. en ekki fullbúnu nál. nokkrum vikum eftir að ég kom í ráðuneytið en ekki dögum. Ég lét það hins vegar verða mitt fyrsta verk þegar ég kom í menntmrn. að skipa nefnd til að fara yfir fjárhag Ríkisútvarpsins sem var á hausnum. Þannig var skilið við það. Sú nefnd skilaði tillögum í desembermánuði. Þær tillögur voru teknar inn í fjárlög ársins 1989 og forsendur þeirra liggja þar fyrir.
    Nefndin hefur fengið það hlutverk að auki að gera tillögur um endurskoðun útvarpslaganna. Hún mun skila sínum tillögum að frv., eins og fram hefur komið opinberlega að undanförnu aftur og aftur og sérkennilegt að þingmaðurinn skuli ekki vita það, og mun skila áliti 10. mars, fullbúnu nál., bæði grg. um stöðu Ríkisútvarpsins, þróun þess á undanförnum árum og um útvarpslögin í heild, árangurinn af þeim og hvað það er sem þarf að breyta í útvarpslögunum þegar þau verða endurskoðuð. Það er Alþingi sem endurskoðar að lokum og ræður úrslitum í þessu máli.
    Ég tel að það geti orðið mjög góð samstaða um endurskoðun útvarpslaganna í þeirri nefnd sem vinnur að málinu. Þar eru fulltrúar flestra sjónarmiða í þessu máli. Ég hef kallað í nefndina, auk fólks sem starfað hefur við Ríkisútvarpið, fólk sem starfar við Stöð 2 og við Stjörnuna svo að ég nefndi dæmi um tvær stöðvar sem koma þarna við sögu.
    Ég mun leggja á það áherslu að um þetta mál verði sem víðtækust samstaða og þarna verði tekið á þeim málum sem mestu skipta. Það er fjárhagur þessara stofnana á komandi árum sem er mesti vandinn í raun og veru. Í þeim efnum tel ég að eigi að fjalla um hvort og hvernig verður farið með söluskatt af þessum stofnunum á komandi árum. Ég tel að það sé óeðlilegt að þær búi við allt annað söluskattskerfi en aðrir fjölmiðlar. Ég teldi rétt að breyta því, líka vegna þess að það er nauðsynlegt að taka tillit til þess að þessar stöðvar, sjónvarpsstöðvarnar, munu á komandi árum þurfa að keppa við tugi erlendra sjónvarpsrása sem verður mjög erfitt að keppa við þegar þar að kemur.
    Sem sagt: Málið er í fullum gangi, virðulegi forseti.