Hjúkrunarheimili fyrir heilaskaðaða
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Á þskj. 482 hefur hv. 4. þm. Vesturl. borið fram fsp. um byggingu hjúkrunarheimilis fyrir heilaskaðaða í tveimur liðum og er fyrst spurt: ,,Hvenær má vænta þess að framkvæmdir hefjist við hjúkrunarheimili fyrir heilaskaðaða?``
    Eins og reyndar kom fram í framsögu hv. fyrirspyrjanda hefur undanfarin ár farið fram könnun á aðstöðu þeirra einstaklinga sem hlotið hafa heilaskaða af völdum slysa og sjúkdóma. Árið 1983 lagði stjórnarnefnd um málefni fatlaðra fram tillögur um lausn málsins sem ekki náðu fram að ganga. Hins vegar var sett á fót nefnd síðari hluta árs 1987 sem fengið var það hlutverk að gera tillögur um hvernig staðið skyldi að þjónustu fyrir þessa einstaklinga. Nefndin lagði til að reist yrðu tvö hjúkrunar- og/eða sambýli, annað í tengslum við Grensásdeild Borgarspítalans í Reykjavík og hitt í tengslum við Reykjalund í Mosfellsbæ þar sem gert yrði ráð fyrir fimm vistmönnum á hvorum stað. Hefði það þó ekki dugað nema til þess að leysa vanda um það bil helmings af þeim einstaklingum sem taldir eru verst settir eins og reyndar kom einnig fram í framsögu hv. fyrirspyrjanda.
    Þessar tillögur voru ræddar í stjórnarnefnd um málefni fatlaðra sem m.a. lagði til svipaða meðferð, þó þannig að eingöngu yrði gert ráð fyrir vistun þeirra sem verst væru á sig komnir en öðrum yrði komið fyrir í venjulegum sambýlum. Heilbrmrn. og félmrn. urðu sammála þessari tillögu stjórnarnefndarinnar um málefni fatlaðra og fólu starfsmönnum sínum að gera tillögur um framkvæmdina. Lágu þær frammi í upphafi síðasta árs og var gert ráð fyrir að heimilið yrði reist í tengslum við Grensásdeild Borgarspítala.
    Skömmu síðar var skipuð þriggja manna byggingarnefnd sem í eiga sæti auk fulltrúa heilbr.- og trmrn. fulltrúi sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar og fulltrúi stjórnarnefndar um málefni fatlaðra, en í stjórnarnefnd um málefni fatlaðra eiga m.a. sæti fulltrúar Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar. Hefur nefnd þessi starfað á undanförnum mánuðum og lagt fyrir heilbrmrn. og félmrn. ákveðnar tillögur um byggingu á lóð Grensásdeildar sem yrði sjálfstæð bygging í tengslum við endurhæfingaraðstöðu Grensásdeildarinnar. Stjórnarnefnd um málefni fatlaðra hefur fallist á þessa skipan mála. Gert er ráð fyrir að hægt verði að veita allt að tíu einstaklingum þjónustu í þessari byggingu og yrði á þann hátt með skjótum hætti hægt að koma þeim til aðstoðar sem brýnasta lausn þurfa. Sem stendur er unnið að teikningum á þessu húsi jafnframt því sem leitað er heimilda skipulags- og byggingaryfirvalda fyrir framkvæmdum þessum og standa vonir til að hægt verði að hefja framkvæmdir á yfirstandandi ári.
    Síðari liður fsp. hljóðar svo: ,,Hefur ráðherra áform um sérstaka fjárveitingu til þessa verkefnis?``
    Ég hef gert tillögur um það til Framkvæmdasjóðs fatlaðra sem starfar skv. lögum nr. 41/1983, um

málefni fatlaðra, að varið verði til þessa verkefnis 20 millj. kr. á þessu ári. Samkvæmt útreikningum má reikna með að bygging sú sem ég hef áður nefnt ásamt búnaði kosti á bilinu 40--50 millj. kr. Gera verður ráð fyrir því að tvö fjárveitingaár a.m.k. taki að koma byggingunni í nothæft ástand þannig að hægt verði að hefja starfsemi frá og með haustinu 1990 eða í ársbyrjun 1991. Vissulega hafa verið uppi áform um að reyna að fá fé til byggingarinnar eftir öðrum leiðum en það hefur ekki tekist þrátt fyrir góða viðleitni. Því átti ég ekki annars úrkosti en að gera nefnda tillögu til Framkvæmdasjóðs fatlaðra vegna framkvæmda á yfirstandandi ári til þess að mögulegt verði að hefjast handa sem fyrst.
    Mér er kunnugt um að þessa dagana er verið að ganga frá tillögum um fjárveitingar úr Framkvæmdasjóðnum. Því miður er ekki líklegt að við fáum þær 20 millj. kr. sem sótt var um því mörg nauðsynleg verkefni bíða fjárveitinga úr sjóði þessum, en ég vænti þess þó að fjárveiting verði svo há að framkvæmdir geti hafist á árinu og leyfi mér einnig að vona að þar sem um svo brýnt verkefni er að ræða sem lengi hefur beðið, þá fáist leyfi til þess að hefja framkvæmdir þrátt fyrir hin almennu ákvæði um að ekki skuli hleypa af stað nýjum verkefnum á þessu ári.
    Sé vilji til þess að veita beinum fjárframlögum til þessara framkvæmda á vegum fjárveitingavaldsins væri æskilegt að slíkar fjárveitingar kæmu á næsta ári. Þyrfti þá ekki að grípa til þess ráðs að sækja í Framkvæmdasjóð fatlaðra allt sem á vantar. Eins og málum var háttað átti ég hins vegar ekki annars úrkosti en að sækja til Framkvæmdasjóðsins um fé á þessu stigi.
    Rétt er að vekja athygli á því að Lions-hreyfingin á Íslandi hefur ákveðið að næsta landssöfnun hreyfingarinnar til velferðarmála verði tengd þessu verkefni. Sala rauðu fjaðrarinnar svokölluðu á þessu ári verður helguð því verkefni að koma upp aðstöðu fyrir öryrkja sem hlotið hafa heilaskaða af völdum slysa og sjúkdóma. Má reikna með því að umtalsverð upphæð safnist ef tekið er mið af fyrri söfnunum. Þessi söfnun tekur mið af því að reist verði lítil sérdeild sem gæti þjónað fimm einstaklingum að Reykjalundi. Hvernig sú framkvæmd gengur fer eftir árangri söfnunarinnar en málið er nú til umræðu milli Lions-hreyfingarinnar og stjórnar Reykjalundar. Ber að þakka sérstaklega
þann hug sem Lions-hreyfingin ber til heilbrigðisþjónustunnar í landinu og best kemur fram í þeirri ákvörðun hreyfingarinnar að beina sinni aðalfjáröflun aftur og aftur að stórum og brýnum verkefnum sem beðið hafa úrlausnar á sviði heilbrigðismála.