Almannatryggingar
Miðvikudaginn 05. apríl 1989

     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Hér fyrr í vetur, eins og við alþýðubandalagsmenn höfum gert nú um sex ára skeið, lagði ég fram frv. til laga um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum, sem efnislega er byggt á sömu hugmynd og öll hin frumvörpin sem við höfum lagt fram sem hafa snúist um það að fá betra skipulag á mat á örorku.
    En að þessu sinni lögðum við til að settur yrði á stofn áfrýjunardómstóll, eins og reyndar er gert ráð fyrir í lögum um almannatryggingar, þó að við kölluðum það nú ekki dómstól heldur nefnd. Og þar sem ég á sæti í heilbr.- og trn. hef ég haft nokkra þolinmæði með hæstv. ráðherra vegna þess að ég vissi að efnislega er hann okkur sammála um að hér þurfi úr að bæta og féllst því á að bíða með afgreiðslu frv. míns þar til hans frv. kæmi fram og lýsti mig reiðubúna til að styðja það þegar það kæmi fram.
    Ég skal hins vegar ekki leyna því að það hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum að hve litlu leyti þessi 2. gr. frv., sem hann hefur lagt fram, leysir þetta vandamál. Hér hafa talað tveir tryggingaráðsmenn og það kemur mér dálítið á óvart að þeir virðast misskilja mjög illilega 6. gr. laga um almannatryggingar. ( ÓE: Ég er ekki í tryggingaráði ... ) Fyrrverandi þá alla vega, hv. 2. þm. Reykn.
    Sannleikurinn er sá að eins og allir vita er tryggingaráð pólitísk nefnd, kjörin hér á hinu háa Alþingi. Hún á fyrst og fremst, eins og segir í 6. gr., að hafa eftirlit með fjárhag, rekstri og starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins, enda skal undir ráðið heyra endurskoðunardeild stofnunarinnar. Síðan segir hér í 2. mgr. 6. gr.:
    ,,Rísi ágreiningur um`` og hlustið nú vel ,,bætur``, þ.e. bótaupphæðir ,,leggur tryggingaráð úrskurð á málið. Þeim úrskurði má áfrýja til tryggingadóms,,, segir svo hér, ,,sem sett verði um sérstök löggjöf.`` Það hefur raunar ekki verið gert. En það er grundvallarmisskilningur að bætur og örorkumat sé eitt og hið sama. Það er auðvitað gjörsamlega fráleitt að tryggingaráð leggi mat á örorkumat. Ef verið er að greiða manni, sem hafði geymt að taka ellilífeyri, ranga upphæð er auðvitað alveg sjálfsagt að kæra það til tryggingaráðs. En það er alveg fráleitt að fólki sem getur verið með hvaða menntun sem er og situr í pólitískri nefnd sé falið að endurmeta örorku. Það er alveg gjörsamlega út í hött. Þetta legg ég mikla áherslu á að menn skilji.
    Það vildi nú svo vel til að ég vann í þessari góðu stofnun í 10 ár og þar innan dyra hefði engum manni dottið í hug að tala um bætur eins og þar sé um að ræða örorkumat. Vissulega hefur mat áhrif á bætur, en ef örorkumat er ákveðin prósenta, þá er það útreikningsatriði ef sú prósenta er undir 75%, annars er það föst tala. Ég vil því endilega leggja á það áherslu að ég er andvíg því að tryggingaráð yfir höfuð hafi nokkur afskipti af örorkumati sem er háfaglegt mat.
    Gagnrýni mín og ástæða fyrir þessum síendurteknu

frumvörpum, ástæðan fyrir þeirri gagnrýni er sú að ég hef talið um margra ára skeið, og er ekki ein um það, að ekki sé farið að lögum um almannatryggingar við örorkumat og leyfi mér hér að vitna í 12. gr. --- og það er líklega svona í sjötta sinn sem ég geri það hér í þingsal --- en þar segir og ég ætla enn einu sinni að lesa það yfir hv. þingheimi. Hér er talað um í 12. gr. hverjir hafa rétt til örorkulífeyris og í b-lið segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eru öryrkjar til langframa á svo háu stigi að þeir eru ekki færir um að vinna sér inn *y1/4*y þess er andlega og líkamlega heilir menn eru vanir að vinna sér inn í því sama héraði við störf sem hæfa líkamskröftum þeirra og verkkunnáttu og sanngjarnt er að ætlast til af þeim með hliðsjón af uppeldi og undanfarandi starfa.``
    Þetta ber ekki mikil merki þess að örorkumat eigi að vera svo til eingöngu læknisfræðilegt. Hér er í fleiri, fleiri atriðum tekið fram að litið skuli til félagslegrar aðstöðu þess sem meta skal. Þetta hefur að mínu viti ekki verið gert og um þetta hefur verið ágreiningur öll þessi ár.
    Í tryggingastofnunum Norðurlanda er hvergi einum yfirlækni falið að bera ábyrgð á örorkumati. Við örorkumat vinnur ævinlega félagslega menntað fólk og lagalega. Þetta er ekki sett á einn mann eins og hér hefur verið gert. Ég held að þeir séu orðnir æðimargir landsmenn sem hafa enda orðið illilega fyrir barðinu á þessu hreinlæknisfræðilega mati. Og svo sannleikurinn sé nú allur sagður, þá hefur þetta verið þannig að eina stofnunin sem hægt var að snúa sér til ef fólk var óánægt með örorkumat var tryggingaráð. Og hvernig fór það fram? Tryggingayfirlæknir, sá hinn sami og bar ábyrgð á og ber ábyrgð á öllu örorkumati í landinu, sat fundina og sannfærði auðvitað hv. nefndarmenn um að þetta væri aldeilis allt í lagi.
    Og hvað á nú að gera? Í staðinn fyrir að líta nú betur til tillögu minnar um nefnd sem ég gerði ráð fyrir að væri skipuð í fyrsta lagi einum tilnefndum af Hæstarétti, í öðru lagi einum tilnefndum af forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, og skyldi sá vera lögfræðingur, en Hæstiréttur skyldi skipa læknisfræðilega menntaðan mann, og tryggingaráð skyldi síðan tilnefna einn
mann sem skyldi hafa félagslega menntun, þá kemur ráðherra með þá breytingu að í staðinn fyrir að tryggingayfirlæknir sjálfur leggi mat á sitt eigið örorkumat, þá sé heimilt að kalla á annan lækni utan úr bæ. Það er gott og blessað, það er skárra en ekki, ég viðurkenni það. En það vantar enn þá í þessa áfrýjun félagslega hlið málsins og til þess að menn skilji hvað ég á við með því skal dæmi tekið: Tveir menn geta haft nákvæmlega sömu fötlun, við skulum segja að þeir sitji báðir í hjólastól. Sá sem býr í Reykjavík og hefur verið við skrifstofustörf áður en hann fatlaðist á ærið miklu meiri möguleika að lifa eðlilegu lífi og vinna sér inn eðlilegar tekjur heldur en sjómaður af Súgandafirði sem hefur aldrei unnið í landi. Það er fráleitt að meta þessa tvo menn með

sömu örorku vegna þess, eins og ég hef þegar gert grein fyrir hér með tilvitnun í 12. gr., að örorkumat er ekki hreinlæknisfræðilegt. Það er mat faglega menntaðs fólks á því hvað manneskjan getur unnið sér mikið inn þrátt fyrir fötlun sína miðað við menntun, fyrri störf í því sama héraði og hann hefur lifað lífi sínu o.s.frv. Um það snýst þetta mál.
    Það nær þess vegna afar skammt, að mér sýnist, frv. hæstv. ráðherra. Eina breytingin er sú að stjórnmálamenn, sem sitja í tryggingaráði hverju sinni og geta verið afar miskunnugir þessum málum, geta nú vísað tryggingayfirlækni niður á læknisstofur sínar og fengið annan lækni til að líta á mat tryggingayfirlæknis. Það getur hver sagt sér sjálfur hvaða breytingu þetta hefur í för með sér. Hún er auðvitað nákvæmlega engin. Þess vegna vil ég biðja hv. þingheim, ef mönnum er einhver alvara að leysa þá erfiðleika sem þarna eru á ferðinni, að sýna nú drenglund og kynna sér 171. mál þessa þings. Nú er ég ekkert að fara fram á að það verði samþykkt eins og það nákvæmlega er, þó að í það hafi verið lögð veruleg vinna og ég telji að það sé alveg fullboðlegt. Ég er auðvitað alveg tilbúin til að vinna þessar tvær tillögur saman og reyna að bæta hér um. En ég held að það sé alveg grundvallaratriði að koma inn í þessi mál hinni félagslegu hlið því að gildandi lög virðast ekki duga til þess.
    Ég er satt að segja undrandi á því hvað fólk utan af landsbyggðinni hefur sýnt þessu máli takmarkaðan áhuga --- og þar vil ég taka fram að einn hv. þm. hefur sýnt þessu máli meiri áhuga en aðrir, en það er hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefán Valgeirsson --- vegna þess að fólk utan af landi hefur átt afar erfitt með að bera sig eftir leiðréttingu mála sinna. Það sækir auðvitað sitt örorkumat til síns heimilislæknis eða héraðslæknis og það mat er oftar en ekki gert heldur lítið með suður í Tryggingastofnun ríkisins, oftlega mjög vegna algjörrar vanþekkingar á lifnaðarháttum manna á viðkomandi stöðum. Þess vegna finnst mér að hv. landsbyggðarþingmenn ættu að sýna þessu máli sérstakan áhuga eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. hefur margsagt. Í allri vinsemd vildi ég því biðja hv. þm. að skoða þessi tvö frumvörp. Ég á sjálf sæti í heilbr.- og trn. Nd. og mun að sjálfsögðu vinna að þessu máli þar, en ég hlýt að lýsa því yfir að ég mun reyna til þrautar hvort ekki sé hægt að gera þetta ofurlítið myndarlegar en þarna er að sjá í frv. hæstv. ráðherra.
    Menn falla stundum í þá gryfju að líta á tryggingaráð eins og það er hverju sinni. Ég verð að játa það hreinskilnislega að núverandi tryggingaráð er óvenjulega vel setið fólki sem veit þó nokkuð mikið um þennan málaflokk. En mig rekur minni til að við einhverjar kosningar tók við gjörsamlega nýtt tryggingaráð með fólki sem hafði ekki hugmynd um hvað það átti að fara að gera þarna í stofnuninni. Þannig að við löggjöf getum við náttúrlega ekki litið til þess þó að núverandi tryggingaráð sé kannski nokkuð með á nótunum um slík mál, og treyst því að það verði endilega til frambúðar. Þetta hélt ég að þyrfti ekki að segja hv. þm.

    Ég skal ekki eyða meiri tíma hv. þm. um þetta mál. Ég hef talað um það ansi oft og er satt að segja orðin langeygð eftir að sjá einhverjar umbætur í þessum efnum. Ég veit og hef orðið vör við vaxandi skilning manna á þessu máli og æ fleiri hv. þm., sem ég hef setið með á Alþingi Íslendinga, hafa orðið heilbrigðisráðherrar og hafa verið fljótir að skipta um skoðun þegar þeir komu í ráðuneytið og þurftu að taka á móti gestum sínum sem höfðu ýmis erindi við þá út af þessum málum. ( Gripið fram í: Flestir.) Langflestir. Rétt. Það er því kannski ráð að gera hálfan þingheim að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherrum til þess að þeir skilji hvað er hér um að ræða, en þess gerist kannski ekki þörf.
    Ég treysti hv. þm. til þess að skoða þessi mál og leysa þetta af meiri myndarskap en frv. hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir og hef ég til lítils beðið allan veturinn með að fá afgreiðslu mála minna ef þetta er það eina sem ég hef haft upp úr því.