Almannatryggingar
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, ásamt síðari breytingum sem er 372. mál þingsins og kemur nú fram með breytingum sem fluttar voru af heilbr.- og trn. Nd. og birtar eru á þskj. 1171.
    Frv. þetta sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um almannatryggingar, ásamt síðari breytingum, fjallar um fjórar meginbreytingar á lögunum. Þessar breytingar eru allar þess eðlis að ekki er ástæða til þess að bíða eftir niðurstöðum úr heildarendurskoðun almannatryggingalaganna sem nú stendur yfir og reiknað er með að ljúki á árinu.
    Breytingarnar fjalla í fyrsta lagi um valdsvið tryggingaráðs, í öðru lagi um breytingar á kosningum í sjúkrasamlög vegna nýlega samþykktra laga, þ.e. nýrra sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, um skil af hálfu sýslufélaga til sveitarfélaga og héraðsnefnda, en hvað þennan lið varðar var gerð breyting í Nd. og mun ég gera nánari grein fyrir því á eftir. Þriðja atriðið sem þetta frv. fjallar um er um það að ráðherra geti kveðið nánar á um framkvæmd laganna með reglugerð án þess að nánar sé tiltekið um hvaða framkvæmdaratriði sé að ræða. Og í fjórða lagi um tímabundna heimild árið 1989 til þess að semja við sérfræðinga um rannsóknir og aðgerðir án þess að til þurfi tilvísun heilsugæslulæknis eða heimilislæknis. Ég mun nú gera örlítið nánari grein fyrir þessum breytingum.
    Samkvæmt gildandi almannatryggingalögum, sbr. nánar 6. gr., gegnir tryggingaráð nánast tvíþættu hlutverki. Annars vegar kemur ráðið fram sem stjórn Tryggingastofnunar ríkisins með þeim skyldum sem því fylgir sem er eftirlitsskylda með starfsemi stofnunarinnar og að veita samþykki fyrir ákveðnum atriðum. Hins vegar fer tryggingaráð með það hlutverk að leysa úr ágreiningi sem skotið er til þess um rétt til bóta frá Tryggingastofnun.
    Varðandi síðari þáttinn er lagt til svo að ekki orki tvímælis að tryggingaráð hafi ekki aðeins vald til þess að leysa úr ágreiningi um það hvort reglur laganna veiti rétt til greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins heldur einnig til þess að leysa úr ágreiningi um önnur skilyrði slíks réttar. Tryggingaráð hefur farið þess á leit að þessi breyting verði gerð á lögunum þar sem uppi hefur verið ágreiningur um valdmörk milli tryggingaráðs annars vegar og tryggingayfirlæknis hins vegar. Telur ráðuneytið nauðsynlegt að tvímæli verði tekin af í því efni og er ráðuneytið þeirrar skoðunar að svo beri að gera.
    Rétt er að benda á að frv. gerir ráð fyrir því annars vegar að skildar séu að annars vegar reglur um stjórnunarhlutverk tryggingaráðs og að um þau ákvæði verði áfram í 6. gr. laganna. Hins vegar reglur um úrskurðaratriði tryggingaráðs vegna ágreinings um rétt til bóta almannatrygginga sem lagt er til að verði framvegis í 7. gr. laganna. Nái þessi breyting fram að ganga hefur tryggingaráð heimild til að endurmeta öll atriði varðandi rétt til greiðslu úr almannatryggingunum sem starfsmenn

Tryggingastofnunar ríkisins leggja mat á eða taka ákvörðun um í störfum sínum án tillits til þess hvort mat starfsmanna eða ákvörðun varðar einungis skýringu á fyrirmælum almannatryggingalaga eða hvort mat eða ákvörðun snýr að öðrum atriðum, svo sem læknisfræðilegu mati á skilyrðum bóta og lífeyrisréttar. Tryggingaráð getur við þessar aðstæður fengið til ráðuneytis einn til þrjá sérfróða lækna, tannlækna þar sem það á við, við úrlausn einstakra ágreiningsefna.
    Brtt. sem heilbr.- og trn. Nd. flutti og fram kemur á þskj. 1171, svo sem áður segir, fjallar annars vegar um að varðandi þetta atriði sé kveðið skýrar á um það hvernig og hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til þess að tryggingaráð geti lagt úrskurð á málið og hins vegar að það sé hægt að leita álits fleiri sérfræðinga heldur en lækna í sambandi við ágreiningsatriði, þ.e. að það sama gildi um ráðgjöf og aðstoð lögfræðinga, félagsfræðinga og félagsráðgjafa um efni sem undir þá skilgreiningu falla eins og brtt. gerir ráð fyrir.
    Önnur breyting frv. var fólgin í því að taka mið af ákvæðum nýrra sveitarstjórnarlaga varðandi skipan í stjórnir sjúkrasamlaga. Í verkaskiptafrv. því sem hér er nú til meðferðar í þinginu eru sjúkrasamlög hins vegar felld niður svo að grein þessi, eins og hún nú lítur út, er óþörf og var gerð tillaga um það af hálfu heilbr.- og trn. Nd. að fella þessa grein niður, svo að ástæðulaust er að fjalla frekar um rökstuðning fyrir því sem þar var kveðið á um.
    Með þriðju breytingunni er lagt til að ráðherra verði fengin heimild til að kveða á um nánari framkvæmd almannatryggingalaga í reglugerð án þess að sérstaklega sé tiltekið um hvaða atriði sé að ræða. Í þessu tilviki er rétt að benda á að við heildarendurskoðun almannatryggingalaga, sbr. nú lög nr. 67/1971, voru felld niður ákvæði hér að lútandi, en þess í stað látið nægja að hafa ákvæði í einstökum greinum varðandi framkvæmd hinna einstöku þátta almannatrygginga.
    Það er mat ráðuneytisins að með þessu séu ráðherra settar of þröngar skorður varðandi ýmis ótiltekin framkvæmdaatriði sem nauðsynlegt kann að vera að grípa
til. Í þessu tilviki vill ráðuneytið benda á að reglugerðir um greiðslu almannatrygginga í fæðingarorlofi styðjist ekki við beina lagaheimild þar sem hlutaðeigandi lagaákvæði kveða ekki beint á um setningu reglugerðar. Hins vegar liggur ljóst fyrir að þessi ákvæði laganna verða ekki framkvæmd öðruvísi en með reglugerð. Þar sem ágreiningur er uppi varðandi þennan þátt telur ráðuneytið nauðsynlegt að sett verði inn í almannatryggingalög skýr ákvæði varðandi setningu reglugerða án þess að atriðin séu sérstaklega tilgreind eða tiltekin.
    Fjórða breytingin fjallar síðan um heimild fyrir Tryggingastofnun ríkisins á árinu 1989 að semja við sérfræðinga um nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir án þess að til þurfi tilvísun heilsugæslulæknis eða heimilislæknis. Í þessu tilviki bendir ráðuneytið á að með samningi um sérfræðihjálp milli Læknafélags

Reykjavíkur og Tryggingastofnunar ríkisins fyrir hönd sjúkrasamlaga sem undirritaður var í lok síðasta árs, en samningurinn gildir frá 1. jan. sl. til næstu tveggja ára, er gert ráð fyrir því að ekki þurfi á tilvísun heilsugæslulæknis eða heimilislæknis að halda á yfirstandandi ári. Þannig gerir samningurinn ráð fyrir því að sjúkratryggðir geti farið beint til sérfræðings án tilvísunar frá heilsugæslulæknum eða heilbrigðislæknum. Rétt er að benda á að hér er ekki um nýlundu að ræða því að á árinu 1984 var samið um það við Læknafélag Reykjavíkur að ekki þyrfti tilvísun heilsgæslulækna eða heimilislækna og hefur verið svo síðan án þess að b-staflið 43. gr. laganna hafi verið breytt, en þar er kveðið skýrt á um tilvísunarskyldu.
    Það er því skoðun ráðuneytisins að nauðsynlegt sé að breyta þessari lagagrein þannig að hún standi ekki beinlínis í vegi fyrir áðurnefndum samningi um sérfræðihjálp, þó þannig að eingöngu skuli gert ráð fyrir tímabundinni heimild er gildi á yfirstandandi ári, en gildistaka samningsins er af hálfu Læknafélags Reykjavíkur háð því skilyrði að engin breyting verði gerð á framkvæmd tilvísana af hálfu hins opinbera á árinu. Er ætlunin fyrir árslok að meta þann sparnað sem stefnt er að með samningnum og verður tekin afstaða til tilvísunarkerfisins fyrir nk. áramót. Þyki sýnt að samningurinn nái ekki tilætluðum árangri og að líkur verði á því að frekar megi spara við upptöku tilvísunarkerfis að nýju verður að sjálfsögðu gripið til þess.
    Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta frv. fleiri orðum, en vísa þess í stað til ítarlegra athugasemda með einstökum greinum frv. og vil geta þess einnig að eftir töluverðar umræður um málið í Nd., bæði við 1. umr. og 2. umr., náðist samkomulag í heilbr.- og trn. um málsmeðferð við 3. umr. og komu brtt. frá nefndinni allri, en þó var nál. undirritað með fyrirvara af hálfu fulltrúa Sjálfstfl. í nefndinni.
    Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. með beiðni um það að nefndin taki röggsamlega á frv. og reyni að afgreiða það svo hratt sem verða má þannig að það nái fram að ganga á yfirstandandi þingi þrátt fyrir það að skammt kunni nú vera til þingloka.