Ferill 26. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 26 . mál.


Nd.

26. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 23 28. maí 1985, um ríkisábyrgð á launum.

Flm.: Lára V. Júlíusdóttir, Jón Sæmundur Sigurjónsson.



1. gr.

    10. gr. laganna orðist svo:
    Hafi krafa samkvæmt lögum þessum á hendur ríkissjóði verið framseld glatast réttur til greiðslu hennar úr ríkissjóði. Þetta á þó ekki við ef krafan hefur verið framseld stéttarfélagi launþegans eftir að skiptameðferð á búi vinnuveitandans hófst né heldur ef krafan hefur verið að fullu eða að hluta til framseld Atvinnuleysistryggingasjóði.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með lögum nr. 31 28. mars 1974 voru fyrst sett ákvæði um ábyrgð ríkissjóðs á greiðslu krafna launþega um vangoldin laun á hendur vinnuveitanda sem orðið hefur gjaldþrota. Þeim lögum var breytt með lögum nr. 8/1979. Ýmsir vankantar komu fram á þeim lögum og voru ný lög sett af Alþingi á árinu 1985, lög nr. 23 28. maí 1985.
    Á síðustu árum hafa gjaldþrot mjög aukist hér á landi og má segja að nýir annmarkar hafi nú komið í ljós sem nauðsynlegt er að sníða af.
    Einn stærsti galli þess kerfis, sem lög um ríkisábyrgð á launum byggist á, er hversu langan tíma það tekur launamann að fá laun sín greidd frá því að vinnuveitandi er lýstur gjaldþrota og þar til hann fær launagreiðsluna í hendur. Nokkrir mánuðir líða frá því fyrirtæki er lýst gjaldþrota og launþegi því jafnvel án nokkurra tekna þar til hann fær í fyrsta lagi þá launagreiðslu sem hann átti inni hjá fyrirtækinu við gjaldþrotið og í öðru lagi bætur vegna atvinnumissisins, þ.e. laun á uppsagnarfresti.
    Ákvæði laganna um ríkisábyrgð á launum kveða á um að launakrafa sé send félagsmálaráðherra eftir að bú atvinnurekanda hefur verið lýst gjaldþrota jafnframt því sem lýsa skal kröfunni í þrotabúið. Þegar félagsmálaráðherra hefur borist greiðslukrafan skal hann leita umsagnar skiptaráðanda áður en krafan er greidd út. Þótt skiptaráðanda sé heimilt að taka afstöðu til kröfunnar án undangengins skiptafundar hefur reynslan sýnt að þessi ferill er ærið tímafrekur, einkum þegar gjaldþrot verða úti á landi. Yfirleitt leita starfsmenn aðstoðar verkalýðsfélags og lögfræðings við frágang krafna í þrotabú. Þann tíma, sem líður á meðan á frágangi krafna, bréfaskriftum og bið eftir afstöðu skiptaráðanda stendur, fær það starfsfólk, sem ekki hefur fengið vinnu annars staðar, engin laun. Í þessu sambandi er rétt að minna á ástand sem skapaðist á Ísafirði nýverið vegna gjaldþrots rækjuvinnslu O. N.Olsen hf., en skýrt var frá þessu í fréttum.
    Fyrir nokkrum árum var fólki bent á að sækja um atvinnuleysisbætur meðan beðið væri eftir uppgjöri á launakröfum úr gjaldþroti. Atvinnuleysistryggingasjóður greiddi þá bætur á meðan fólk var atvinnulaust vegna þrotabús Blikksmiðjunnar Vogs hf. Bætur Atvinnuleysistryggingasjóðs voru síðan dregnar frá kröfunni í þrotabú atvinnurekanda. Þegar Atvinnuleysistryggingasjóður hugðist síðan endurkrefja félagsmálaráðuneytið um þessar greiðslur var erindi sjóðsins synjað með vísan til álitsgerðar sem leitað hafði verið eftir hjá ríkislögmanni. Í bréfi ríkislögmanns sagði að í 4. gr. laga nr. 23/1985 væru tæmandi taldar þær kröfur sem ábyrgð ríkissjóðs taki til. Bætur sem tryggingafélög eða aðrir, þar á meðal Atvinnuleysistryggingasjóður, kynnu að inna af hendi til launþega í tilefni af atvinnumissi féllu ekki innan ríkisábyrgðar samkvæmt þeirri grein. Ríkislögmaður vakti athygli á að sé krafa, sem fellur innan ríkisábyrgðar skv. 4. gr., framseld glatist réttur til greiðslu hennar úr ríkissjóði með þeirri einu undantekningu að krafa sé framseld stéttarfélagi launþegans eftir að skiptameðferð á búi vinnuveitandans hófst, sbr. 10. gr. laganna.
    Eftir að þessi afstaða félagsmálaráðuneytisins lá fyrir í nóvember 1985 hefur Atvinnuleysistryggingasjóður hafnað því að greiða atvinnuleysisbætur vegna gjaldþrota, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Sjóðurinn hefur í rökstuðningi sínum vísað til þess að ekki sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur fyrir tímabil sem umsækjandi á kröfu á launum fyrir.
    Það frumvarp, sem hér er lagt fram, gerir ráð fyrir því að heimild 10. gr. laga um ríkisábyrgð á launum sé rýmkuð. Þannig verði Atvinnuleysistryggingasjóði veitt heimild til að ganga inn í kröfu launamanns um bætur vegna launa á uppsagnarfresti með sama hætti og verkalýðsfélögum. Þegar kröfu verður síðan lýst í þrotabú liggur fyrir hversu háa upphæð viðkomandi launamaður hefur fengið greidda frá Atvinnuleysistryggingasjóði, en sú upphæð verður dregin frá kröfu hans. Á móti krefur Atvinnuleysistryggingasjóður félagsmálaráðherra um það sem hann hefur innt af hendi til launamannsins. Þannig má koma í veg fyrir langa bið launamanns eftir launum á uppsagnarfresti þegar gjaldþrot verða.
    Þótt nú sé fyrir hendi heimild fyrir verkalýðsfélög að ganga inn í kröfur launafólks við gjaldþrot er það fátítt að félögin treysti sér til að ganga inn í kröfurnar. Þar ræður mestu að upphæðir launa eru oft svo háar að það er einungis á færi stærri félaga að leggja slíkar fjárhæðir út. Þannig er fólki í raun mismunað eftir því hversu stór gjaldþrot eru og hvar á landinu þau verða.
    Það er hlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs að greiða fólki bætur í atvinnuleysi. Með þeirri leið sem hér er lögð til verður sjóðnum gert kleift að endurkrefja ríkissjóð um þær bætur sem starfsmenn gjaldþrota fyrirtækja eiga rétt til og launafólk þarf ekki lengur að bíða í vikur og mánuði eftir launum sem það sannanlega á rétt á.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Núgildandi 10. gr. laga um ríkisábyrgð á launum hljóðar svo:
    „Hafi krafa samkvæmt lögum þessum á hendur ríkissjóði verið framseld glatast réttur til greiðslu hennar úr ríkissjóði. Þetta á þó ekki við ef krafan hefur verið framseld stéttarfélagi launþegans eftir að skiptameðferð á búi vinnuveitandans hófst.“
    Viðbótin, sem hér er lögð til, felur síðan í sér heimild til þess að Atvinnuleysistryggingasjóður geti með sama hætti og stéttarfélag launþegans gengið inn í kröfu hans með framsali.
    Í greininni er tekið fram að launþegi geti framselt kröfu sína að fullu leyti til Atvinnuleysistryggingasjóðs eða einungis að hluta. Rétt þykir að taka þetta fram þar sem framkvæmdin yrði sú að starfsmaður fyrirtækis, sem orðið er gjaldþrota, skráði sig atvinnulausan og fengi atvinnuleysisbætur eftir þeim reglum sem um þær gilda þar til hann hæfi störf að nýju annars staðar. Hann ætti síðan kröfu á hendur ríkissjóði fyrir bótum, sem jafngiltu launum hans á uppsagnarfresti, að frádregnum þeim atvinnuleysisbótum sem hann hefði fengið greiddar.

Um 2. gr.


    Þarfnast ekki skýringar.