Ferill 113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 113 . mál.


Nd.

116. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Kjartan Jóhannsson.



1. gr.

    Við 111. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðist svo:
    Það skal vera stefna við innheimtu á tekjuskatti og eignarskatti samkvæmt lögum þessum að allir gjaldendur, sem eins stendur á um við innheimtu, vanskil og nauðungaraðgerðir, skuli hljóta sams konar meðferð. Telji innheimtumaður tök á að tryggja greiðslu á kröfu, sem ella mundi tapast, með samningi um greiðslu skal hann gefa fjármálaráðherra ítarlega skýrslu um málavöxtu. Fjármálaráðherra er heimilt að samþykkja slíkan samning, að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar. Að loknu hverju innheimtuári skal Ríkisendurskoðun gefa Alþingi skýrslu um alla samninga af þessu tagi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Fyrir Alþingi liggur vitneskja um að fjármálaráðherrar hafa tekið sér vald sem þeir ekki hafa að lögum til að leyfa einstökum aðilum að greiða háar fjárhæðir opinberra gjalda með skuldabréfum til lengri eða skemmri tíma og með mismunandi kjörum að öðru leyti eftir geðþótta ráðherra.
    Með þessu hefur verið brotið gegn sjálfri meginstefnu allrar skattalöggjafar að allir þegnar þjóðfélagsins, sem eins stendur á um, hljóti sömu meðferð og þá eingöngu samkvæmt lögum eins og kveðið er á um í stjórnarskrá lýðveldisins.
    Með vitneskju þessa getur Alþingi ekki annað en tekið þetta mál til meðferðar með því að setja í lög skýr ákvæði um innheimtu á opinberum gjöldum og hvernig bregðast megi við þegar um vanskil er að ræða.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að tekið verði á þessu máli með því að gera breytingu á 111. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Rétt er að vekja athygli á því að þessi breyting mun einnig ná til innheimtu á söluskatti samkvæmt lögum nr. 10/1960 þar sem í 28. gr. þeirra laga er kveðið á um það að ákvæði laga nr. 75/1981 skuli einnig gilda um söluskatt, eftir því sem við á. Frumvarp þetta var flutt á síðasta þingi, en hlaut þá ekki afgreiðslu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með þessari grein eru sett skilyrði fyrir því að fjármálaráðherra sé heimilt að leyfa einstökum aðilum að greiða opinber gjöld með skuldaviðurkenningum til lengri eða skemmri tíma. Samkvæmt greininni skal einungis heimilt að lána opinber gjöld í þeim tilvikum þar sem innheimtuaðili telur að krafan fáist ekki greidd nema með því að semja um greiðslu á henni. Í slíkum tilvikum er fjármálaráðherra heimilt að samþykkja greiðsluskilmála, enda liggi fyrir umsögn Ríkisendurskoðunar. Þá kveður greinin á um að Ríkisendurskoðun gefi Alþingi árlega skýrslur um slíka samninga.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.