Ferill 155. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 155 . mál.


Ed.

166. Frumvarp til laga



um húsnæðislánastofnanir og húsbanka.

Flm.: Júlíus Sólnes, Guðmundur Ágústsson.



Almenn ákvæði.


1. gr.

    Markmið með lögum þessum er að tryggt verði nægilegt lánsfé til húsbygginga, einkum íbúðarhúsa, hjá sérstökum húsnæðislánastofnunum handa þeim sem ekki eiga rétt til húsnæðislána hjá Byggingarsjóði ríkisins. Húsnæðislánastofnanir eða húsbankar, sem verða starfræktir samkvæmt lögum þessum, þurfa leyfi félagsmálaráðherra til þess að veita veðlán til íbúðarhúsabygginga á grundvelli sölu á húsbréfum, sbr. 14. gr.

2. gr.

    Nafn og samþykktir fyrir húsnæðislánastofnun eru háð samþykki félagsmálaráðherra. Breytingar á samþykktum, nema þær stafi af laga- eða reglugerðarbreytingum, eru háðar samþykki félagsmálaráðherra.
    Samruni eða skipting húsnæðislánastofnana getur átt sér stað með samþykki félagsmálaráðherra. Slík ákvörðun skal tekin á aðalfundi stofnunar og er háð sama meiri hluta atkvæða og þarf til að breyta samþykktum.

3. gr.

    Húsnæðislánastofnanir, sem starfa samkvæmt leyfi félagsmálaráðherra, hafa einar rétt til þess að nota nöfnin húsnæðislánastofnun og húsbanki. Í lögum þessum er nafnið stofnun notað sem stytt heiti fyrir slíkar stofnanir.
    Stofnanir þessar hafa einar rétt til að gefa út og selja húsbréf á frjálsum markaði til þess að geta veitt veðlán til íbúðarhúsa.

Stjórn og starfsemi.


4. gr.

    Stjórn stofnunar skal kjörin á aðalfundi hennar eða vera að hluta tilnefnd
til ákveðins tíma. Hún er ábyrg fyrir því að starfsemi stofnunar sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir, svo og samþykktir hennar. Í stjórninni skal vera fulltrúi fyrir skuldunauta stofnunar.
    Félagsmálaráðherra er heimilt að skipa einn fulltrúa í stjórn stofnunar.
    Enginn stjórnarmanna má vera ráðinn til starfa við stofnunina.
    Ef stofnun er rekin sem hlutafélag skal einnig fylgt ákvæðum laga um hlutafélög.
    Allt starfsfólk stofnunar er bundið þagnarskyldu um öll innri mál hennar, svo og um öll útlán.

5. gr.

    Félagsmálaráðherra hefur eftirlit með starfsemi stofnunar og fylgist með því að farið sé eftir gildandi lögum og reglugerðum, svo og samþykktum hennar; enn fremur að ekki sé farið yfir mörk útlána og nægjanlegar tryggingar fyrir útgáfu húsbréfa séu fyrir hendi.
    Stjórn stofnunar skal veita félagsmálaráðherra allar upplýsingar um starfsemi hennar sé þess óskað.
    Kostnaður af eftirliti félagsmálaráðherra skal borinn af stofnuninni.

6. gr.

    Félagsmálaráðherra getur heimilað stofnun að efna til samstarfs við hliðstæðar erlendar húsnæðislánastofnanir, m.a. með því að hinar erlendu stofnanir geti öðlast eignaraðild að innlendum húsnæðislánastofnunum.

Um lánveitingar.


7. gr.

    Í samþykktum stofnunar skal nánar skilgreint hvernig útlánum skuli háttað og hvers konar húsbyggingar séu lánshæfar.

8. gr.

    Stofnun ákveður sjálf matsverð fasteignar á grundvelli fasteigna- og brunabótamats, svo og ætlaðs söluverðs hennar. Matsverðið skal ákveðið áður en lánveiting fer fram.
    Félagsmálaráðherra getur sett nánari reglur um ákvörðun matsverðs og lánveitingar.
    Heimilt er að veita veðlán til byggingar áður en framkvæmdir hefjast og miðast þau þá við væntanlegt matsverð fasteignar. Slík veðlán skulu háð því að
lögð sé fram bankaábyrgð fyrir veðinu eða önnur jafngóð trygging. Ef matsverð fasteignar er ekki nægjanlegt þegar frestur til að ljúka byggingarframkvæmdum er runninn út og veðlánið er ekki innan þeirra marka, sem sett eru í 9. gr., er lánið allt fallið í gjalddaga.

9. gr.

    Lánveitingar til húsbygginga skulu ekki nema hærra hlutfalli af matsverði fasteignar en hér segir:
1.     Lán til byggingar íbúðarhúsnæðis mega nema allt að 75% af matsverði fasteignar.
2.     Lán til kaupa á íbúðarhúsnæði mega nema allt að 75% af matsverði fasteignar.
3.     Viðbótarlán til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem er með áhvílandi lánum, mega nema allt að 35% af matsverði fasteignar. Samanlagt mega lánin ekki fara yfir 80% af matsverði.
4.     Lán til byggingar eða kaupa á sumarbústað mega nema allt að 50% af matsverði fasteignar.
5.     Lán til viðhalds, breytinga eða endurbóta á fasteignum skv. 1.–4. lið má veita innan þess ramma sem þar greinir. Lánið má þó ekki vera hærra en nemur hinum raunverulega kostnaði sem að mati stofnunar telst vera sanngjarn. Taka má tillit til eigin vinnu en slíkt skal háð samþykki stofnunar.
6.     Lán til byggingar leiguíbúða mega nema allt að 85% af matsverði fasteignar. Ef leiguíbúð er seld til annarra nota fellur lánið allt í gjalddaga.
7.     Lán til viðhalds, breytinga eða endurbóta á leiguíbúðum má ekki vera hærra en nemur 90% af hinum raunverulega kostnaði; taka má tillit til eigin vinnu samþykki stofnun það.
8.     Lán skv. 5. lið má því aðeins veita að lánsupphæðin nemi minnst 5% af matsverði íbúðar eftir að endurbótum er lokið. Aðeins má taka tillit til vinnu sem er innt af hendi innan árs frá því að lánstilboð hefur verið gefið.
9.     Ef sveitarstjórn veitir sérstaka ábyrgð á lántöku fyrir endurbótum á fasteignum og umhverfi þeirra, þar sem um er að ræða endurnýjun bæjarhverfis eða útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, má veita lán umfram þau mörk sem sett eru í 5. og 7. lið. Slík lán mega ekki vera hærri en nemur hinum raunverulega kostnaði af endurbótunum sem að mati stofnunar telst vera sanngjarn.
10.     Lán skv. 1.–9. lið mega ekki vera lægri að raunupphæð en 100.000 kr. Þessi upphæð breytist samkvæmt byggingarvísitölu.
11.     Ef eigandi íbúðar eða maki hans er ellilífeyrisþegi eða nýtur örorkubóta er heimilt að víkja frá ákvæðum í 10. lið.

Um lánskjör og lánstíma.


10. gr.

    Allar lánveitingar stofnunar byggjast á sölu húsbréfa, sbr. 14. gr. Við lánveitingar skal því taka tillit til sölugengis þeirra á hverjum tíma.
    Raunvextir veðlána skulu vera breytilegir í samræmi við mismunandi sölugengi húsbréfa. Öllum lánstilboðum skulu fylgja upplýsingar um áætlaða raunvexti lánsins.
    Heimilt er að verðtryggja lán með því að stjórna vöxtum, afborgunum og höfuðstól lánsins á hverjum tíma miðað við verðlagsþróun. Félagsmálaráðherra getur með reglugerð ákveðið hvernig skuli haga verðtryggingu húsnæðislána.
    Heimilt er að setja greiðslumark lána með afkomutryggingu þannig að samið sé fyrir fram um hámarksgreiðslubyrði (vexti, afborgun og framlag til varasjóðs og rekstrar) eftir gjaldþoli lántakanda. Greiðslumark fylgir verðlagsþróun. Ef lántakandi getur ekki staðið við greiðslumark vegna tímabundins atvinnuleysis, veikinda, örorku, slysa eða annars, sem skert hefur tekjur hans án þess að við hafi verið ráðið, greiðist mismunur á greiðslumarki og gjaldþoli lántakanda með afkomutryggingarbótum.

11. gr.

    Lánveitingar geta verið með eftirfarandi hætti:
1.     Jafngreiðslulán (annuitet) þar sem afborganir og grunnvextir ásamt framlagi til varasjóðs og rekstrar eru jafnstórar upphæðir allan lánstímann.
2.     Raðlán þar sem um er að ræða jafnar afborganir, en vextir og framlag til varasjóðs og rekstrar reiknast af höfuðstól lánsins á hverjum tíma.
3.     Blönduð lán þar sem heildarlánveiting er að hluta til jafngreiðslulán og að hluta til raðlán.
    Heimilt er að haga afborgunarröð þannig að lán verði afborgunarlaus fyrstu tvö árin.

12. gr.

    Lánstími veðlána skv. 11. gr. skal vera sem hér segir:
1.     40 ár fyrir lán til byggingar leiguíbúða og til húsnæðissamvinnufélaga.
2.     30 ár fyrir lán til byggingar á einbýlishúsi eða eignaríbúð í fjölbýlishúsi sem byggjandi hyggst nota sjálfur eða selja.
3.     30 ár fyrir lán til viðhalds, breytinga og endurbóta á leiguhúsnæði.
4.     20 ár fyrir lán til kaupa á notaðri íbúð í einbýlis- eða fjölbýlishúsi.
5.     20 ár fyrir lán til viðhalds, breytinga og endurbóta á eignaríbúðum.
6.     15 ár fyrir lán til byggingar sumarbústaða sem byggjandi hyggst nota sjálfur eða selja.
7.     10 ár fyrir lán til annarra hluta, þar með talin lán til viðhalds og breytinga á sumarbústöðum.

13. gr.

    Lán má ekki veita til bygginga sem brjóta í bága við byggingarreglugerð og skipulagsreglur viðkomandi sveitarfélags.
    Ef notkun byggingar breytist innan tveggja ára frá því að lán til hennar var veitt samkvæmt skilmálum 12. gr., þannig að lánstími miðað við breytta notkun hefði átt að vera styttri, er allt lánið fallið í gjalddaga. Ákvæði hér um skulu vera í veðskuldabréfum lána ásamt kröfu um að lántakandi tilkynni stofnun ef notkun fasteignar breytist.
    Ef notkun byggingar er ekki einhlít og um er að ræða bæði leigu- og eignaríbúðir er heimilt að ákvarða lánsmörk og lánstíma sérstaklega fyrir hvern hluta byggingar í samræmi við notkun hans.

sbréf.


14. gr.

    Stofnun getur staðið að útgáfu húsbréfa sem eru skráð á nafn eða handhafa.
    Félagsmálaráðherra getur heimilað að tvær stofnanir eða fleiri sameinist um útgáfu húsbréfa.
    Húsbréf, sem eru í umferð, skulu vera tryggð með veðskuldabréfum sem lántakendur undirrita og þess gætt að heildarnafnverð húsbréfa sé ekki hærra en samanlagt nafnverð allra veðskuldabréfa.
    Innlausn húsbréfa fer fram með útdrætti (happdrættisbréf) eða við lok gildistíma bréfanna.
    Heimilt er að nota svokölluð rafeindabréf, þ.e. húsbréf sem eingöngu eru skráð, seld og keypt með tölvuboðum.

Varasjóður.


15. gr.

    Fjárhagsskuldbindingar stofnunar, umfram þá tryggingu sem felst í 3. mgr. 14. gr., skulu tryggðar á eftirfarandi hátt:
1.     Stofnanir, þar sem lántakendur eru gerðir samábyrgir fyrir öllum skuldbindingum hennar allt að 2 / 3 hlutum matsverðs fasteignar, skulu hafa varasjóð sem er jafngildur 5% af nafnverði allra húsbréfa stofnunarinnar sem eru í umferð.
2.     Stofnanir, þar sem lántakendur eru án samábyrgðar, skulu hafa varasjóð sem er jafngildur 10% af nafnverði allra húsbréfa sem eru í umferð.
3.     Varasjóði stofnunar skal skipt niður í allsherjarvarasjóð og varasjóð fyrir hverja röð af húsbréfum sem stofnunin setur í umferð. Heimilt er að reikna með allsherjarvarasjóðnum við uppgjör á því hvort nægjanlegar tryggingar séu að baki hverri röð af húsbréfum.

Reikningshald og endurskoðun.


16. gr.

    Reikningar stofnunar skulu sýna nákvæma fjárhagsstöðu og allar skuldbindingar. Endurskoðaðir ársreikningar skulu birtir opinberlega í einu eða fleiri dagblöðum á þann hátt er félagsmálaráðherra samþykkir.
    Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda samkvæmt fyrirmælum sem félagsmálaráðherra setur.

Sérstök ákvæði.


17. gr.

    Bankastjórar, aðstoðarbankastjórar og útibússtjórar banka eða sparisjóða mega ekki taka sæti í stjórn stofnunar nema með sérstöku leyfi félagsmálaráðherra.

18. gr.

    Ef stjórn stofnunar fer ekki að lögum eða samþykktum hennar eða rýrir verulega tryggingar húsbréfa stofnunar með aðgerðum sínum að mati félagsmálaráðherra getur hann fyrirskipað að stofnunin verði leyst upp.

19. gr.

    Ef stjórn, framkvæmdastjórn eða endurskoðendur stofnunar þverskallast við fyrirmælum félagsmálaráðherra um að leiðrétta það sem er í ósamræmi við ákvæði 8.–13. og 15.–17. gr. getur ráðherra beitt þá aðila dagsektum.

20. gr.

    Þessi lög öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


Inngangur.
    Það sem hefur einkennt íslenska húsnæðislánakerfið mörg undanfarin ár er óstöðugleiki og sífelld fjárvöntun. Húsnæðislánakerfið er algerlega á vegum ríkisins og hefur sem slíkt alla tíð verið bitbein stjórnmálamanna sem eru sífellt að gera á því breytingar. Það fjármagn, sem húsnæðislánakerfið byggir á, kemur aðallega frá ríkissjóði með beinum framlögum í fjárlögum, oft gegnum erlendar lántökur, og í seinni tíð frá lífeyrissjóðunum gegnum skuldabréfakaup þeirra af byggingarsjóðum ríkisins.
    Það hefur því ætíð verið mikið áhættuspil að leggja út í fjárfestingu í íbúðarhúsnæði á Íslandi, einkum hjá launafólki. Það hefur aldrei verið hægt að treysta því að nægilegt fjármagn til útlána sé tryggt fyrir hvert ár í senn. Því hafa myndast langar biðraðir og húsbyggjendur og íbúðarkaupendur hafa ekki getað reitt sig á húsnæðislánin í fjármálalegum forsendum sínum fyrir íðbúðarkaupum eða húsbyggingum. Þetta hefur verið áberandi síðustu árin, einkum eftir að sú breyting varð að lánum úr Byggingarsjóði ríkisins og lífeyrissjóðunum var slegið saman. Á árinu 1986 kom þannig til samkomulag um skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna af Byggingarsjóði ríkisins sem hefur aukið fjárstreymi til hans svo um munar. Samkvæmt því skyldu allir sjóðfélagar, sem hefðu 20 mánaða lífeyrissjóðsréttindi í þeim lífeyrissjóðum sem samþykktu að kaupa skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins, fá lán hjá Húsnæðisstofnun. Aðrir, þ.e. þeir sem ekki hefðu slík réttindi, voru ekki taldir skipta máli. Þannig var ætlað að loksins hefði fundist leið til að tryggja rekstur húsnæðislánakerfisins með ríflegu fé til útlána og koma til móts við íbúðarkaupendur með hærri lánum en áður höfðu þekkst.
    Ef hugað er að mismunandi aðstöðu fólks til öflunar á íbúðarhúsnæði er ljóst að mikil gjá er milli þeirra sem höfðu komið sér upp þaki yfir höfuðið áður en almenn verðtrygging húsnæðislána var tekin upp um 1980 og hinna sem eru að festa kaup á íbúð nú. Áður var það ekki óalgengt að fólk gæti komið sér upp stórum einbýlishúsum á fáeinum árum sem næst skuldlausum. Verðbólgan sá um að eyða byggingarskuldunum. Þeir sem nú eru að byggja eða kaupa íbúð eiga aðeins kost á lánum með fullri verðtryggingu. Eignarhlutfall þeirra fer ekki hraðvaxandi eins og áður, heldur er jafnvel hætta á að það minnki með tímanum. Þannig eru þegar mörg dæmi þess að fólk hefur átt í erfiðleikum með sölu á
íbúðum með miklum verðtryggðum lánum, t.d. í verkamannabústaðakerfinu, einfaldlega vegna þess að söluverð þeirra heldur ekki í við verðtryggðu lánin. Áhvílandi lán með uppfærðum verðbótum eru orðin mun hærri en markaðsverð íbúðarinnar. Þetta er einkum bagalegt úti á landsbyggðinni þar sem verðmæti fasteigna er mun minna en gerist t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Þess eru mörg dæmi að fasteignir í dreifbýli seljist ekki með öðrum hætti en þeim að kaupandi tekur að sér að halda áfram að greiða af áhvílandi lánum án nokkurrar greiðslu til fyrri eiganda.
    Þessi hætta ágerist eftir því sem lánshlutfall verðtryggðra lána eykst. Það er fyrirsjáanlegt að mikil hætta er á því að allar minni íbúðir, sem verða byggðar og keyptar á næstu árum með fullum húsnæðismálalánum (þau geta nú numið allt að 3,3 millj. kr.), muni ekki halda verðgildi sínu í takt við lánskjaravísitölu. Þannig gæti skapast það ástand að stór hluti fólks sitji í íbúðum sem það getur ekki selt vegna þess að skuld við Byggingarsjóð ríkisins er meiri en söluverð íbúðarinnar. Það má því segja að Byggingarsjóður ríkisins eigi allar slíkar íbúðir. Fólkið er í raun orðið að leiguliðum hjá ríkinu. Það á ekkert í íbúðinni þótt hún sé þinglýst á nafn viðkomandi, en hefur samning um afnot af henni næstu 40 árin meðan það stendur í skilum. Sjálfseignarstefnan margrómaða er í reynd hrunin.
    Þrátt fyrir þessa augljósu vankanta á núverandi húsnæðislánakerfi hefur umræðan nær eingöngu snúist um biðraðirnar, þ.e. hvernig eigi að sjá til þess að hægt sé að afgreiða þessi lán með hengingaról til allra umsækjenda sem fyrst. Umsóknirnar hrannast upp því fólk verður að hafa þak yfir höfuðið hvort sem lánin eru óheppileg eða ekki. Það á ekki annarra kosta völ. Allar aðgerðir stjórnvalda og hagsmunaaðila hafa því einkum einkennst af því að útvega meira fjármagn til kerfisins og reyna að finna leiðir til þess að stytta biðraðirnar. Þannig var á síðasta þingi samþykkt frumvarp þess efnis að skilgreina betur forgangshópa til húsnæðislána og takmarka aðgang þeirra sem eiga miklar eignir fyrir.
    Ekki virðist þessi ráðstöfun hafa gagnað. Þannig voru um 9500 umsóknir óafgreiddar hjá Húsnæðisstofnun ríkisins í upphafi árs 1988. Það mun taka um þrjú ár að afgreiða þessar umsóknir og biðtíminn eftir lánum er því um tvö og hálft til þrjú ár. Á þessu ári hafa borist að meðaltali um 420 umsóknir á mánuði eða 3790 umsóknir fyrstu níu mánuði ársins. Á sama tíma hafa verið afgreidd að meðaltali um 270 lánsloforð á mánuði eða samtals 2700 fyrstu tíu mánuði ársins 1988. Ekkert bendir því til þess að tekist hafi að stemma stigu við hinum mikla flaum umsókna eða finna leiðir til þess að auka fjárstreymi til kerfisins svo hægt sé að stytta biðtímann eftir lánum.

Tvöfalt húsnæðislánakerfi.
    Þeirri skoðun hefur oft verið hreyft að bankakerfið eigi að taka að sér húsnæðislánin, bankarnir geti algerlega séð um öll húsnæðislán og þurfi ríkið ekki að skipta sér frekar af þeim. Flutningsmenn telja að slíkt kerfi muni aldrei geta gengið í þessu fámenna þjóðfélagi. Bankarnir eiga fullt í fangi með að sinna lánum til atvinnurekstrar og veita lán til skamms tíma til að fjármagna kaup á alls kyns neysluvörum, bílum, heimilistækjum og Spánarferðum svo eitthvað sé nefnt. Þeir veita einnig skammtímalán vegna húsbygginga og íbúðakaupa og munu þurfa að halda því áfram hvaða húsnæðislánakerfi yrði svo sem fundið upp. Það að veita langtímaveðlán, allt að 40 ára lán, vegna fasteigna samræmist illa þeim bankarekstri sem landsmenn þekkja til. Þá hefur þeirri spurningu heldur ekki verið svarað: Hvar eiga bankarnir að finna eða skapa það fjármagn sem óseðjandi húsnæðislánkerfið þarfnast? Má benda á það að bankarnir mundu aðallega geta sinnt þeim sem hafa góða afkomu og ættu auðveldara með að greiða hina háu markaðsvexti af húsnæðislánum bankanna. Eftir sem áður verður nauðsynlegt að ríkisvaldið sinni málefnum þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Þannig verða félagslegar íbúðir áfram að vera undir verndarvæng ríkisins og eins verður það að sinna ungu fólki sem er að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð og hefur hreinlega ekki bolmagn til þess að standa undir miklum lánum með markaðsvöxtum.
    Flutningsmenn leggja því til að tekið verði upp tvöfalt húsnæðislánakerfi. Í fyrsta lagi sjái ríkið aðeins um lánveitingar til bygginga með félagsleg markmið og til þeirra sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð. Í þessu skyni verði Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna sameinaðir. Eru flutningsmenn að undirbúa frumvarp til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins í þessu skyni. Þar segir um hlutverk hins sameinaða byggingarsjóðs ríkisins.
    „Úr Byggingarsjóði ríkisins er heimilt að veita lán til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði, til meiri háttar viðbygginga, endurbóta og endurnýjunar á notuðu húsnæði, til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði og til orkusparandi breytinga á húsnæði sem hér segir:
1.     Íbúðir fyrir lágtekjufólk (verkamannabústaðir).
2.     Íbúðir fyrir þá sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð.
3.     Verndaðar íbúðir fyrir öryrkja.
4.     Verndaðar íbúðir fyrir aldraða.
5.     Leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka.
    Úr Byggingarsjóði ríkisins er enn fremur heimilt að veita lán til byggingar eða kaupa á húsnæði fyrir félagslegar stofnanir á vegum opinberra aðila og félagasamtaka svo sem dagvistarstofnanir fyrir börn og aldraða, hjúkrunarheimili og dvalarheimili.“
    Þetta leiðir af sér að hlutverk Húsnæðisstofnunar ríkisins verður aðallega að annast lánveitingar, hugsanlega með niðurgreiddum vöxtum eða sérstökum skattaívilnunum, til 1) íbúða fyrir lágtekjufólk (verkamannabústaða), 2) þeirra sem eru að kaupa eða byggja sína fyrstu íbúð, 3) til byggingar leiguíbúða í samvinnu við sveitarfélög, félagasamtök og hagsmunasamtök launþega, 4) til byggingar verndaðra íbúða fyrir aldraða og öryrkja, 5) til að takast á við sérstök verkefni félagsleg, tæknileg og fjárhagslegs eðlis.
    Samkvæmt þeim upplýsingum, sem flutningsmenn hafa fengið, munu þeir sem þannig ættu rétt á húsnæðislánum hjá Húsnæðisstofnun ríkisins vera tæplega 40% af þeim sem sækjast eftir lánum til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði hverju sinni. Ljóst er að mun auðveldara verður fyrir Húsnæðisstofnun að sinna þörfum þessa takmarkaða hóps. Starfsemi hennar og fjárþörf umfram það sem endurgreiðslur lána tryggja verður eftir sem áður fjármögnuð með ríkisframlögum og skuldabréfaútgáfu. Ljóst er að því aðeins er hægt að veita hagstæð lán til ofangreindra forgangshópa.
    Í öðru lagi þarf að sinna þeim sem ekki koma til með að eiga aðgang að Húsnæðisstofnun. Það er sá hópur sem þegar á íbúð og hefur væntanlega fengið lán á hagstæðum kjörum hjá Húsnæðisstofnun áður. Þetta munu vera rúmlega 60% þeirra sem eru á almennum fasteignamarkaði. Hér er um að ræða íbúðareigendur sem ætla að stækka við sig eða minnka við sig, breyta eða lagfæra íbúðir sínar og þurfa að flytja milli staða og selja og kaupa íbúð þess vegna, svo dæmi séu tekin.
    Til þess að tryggja aðgang þessa hóps að hagstæðum langtímaveðlánum vegna fjárfestingar í fasteignum telja flutningsmenn að nauðsynlegt sé að koma upp sérstökum húsnæðislánastofnunum, húsbönkum, sem hafi það hlutverk eingöngu að veita slík lán. Slíkir húsbankar verða að lúta lögmálum þess fjármagns- og viðskiptakerfis sem landsmenn búa við, en með heppilegri löggjöf má ætla að þeir geti haft jákvæð áhrif á þróun fjármála í landinu, einkum lánskjör og stefnumótun í verðtryggingar- og vaxtamálum. Flutningsmenn gera ráð fyrir því að bankarnir, tryggingafélög, hagsmunasamtök launþega og lífeyrissjóðirnir muni koma upp slíkum sjálfstæðum húsnæðislánastofnunum eða húsbönkum. Mikilsvert er að vel til takist. Almenningur verður að geta borið fullt traust til slíkra lánastofnanna ef á að vísa honum að hluta til frá húsnæðislánakerfi ríkisins yfir til sjálfstæðra stofnana.
    Það lagafrumvarp, sem hér er lagt fram og skilgreinir starfsemi slíkra húsbanka, er byggt á erlendum fyrirmyndum. Slíkir húsbankar eru víða starfandi í nágrannalöndum okkar og hafa gefið góða raun. Húsnæðislánakerfi nágrannaþjóðanna virðist yfirleitt vera í góðum farvegi og hinar örvæntingafullu ráðstafanir, sem sífellt er verið að gera á Íslandi til þess að bjarga gjörónýtu húsnæðislánakerfi okkar, óþekktar með öllu. Stjórnmálamenn nágrannalandanna þurfa ekki að hafa mikil afskipti af húsnæðislánamálum, um þau hefur ríkt friður og ró um áratugaskeið, jafnvel um aldir. Þannig hefur danska húsnæðislánakerfið lítið breyst frá því að fyrstu húsnæðislánastofnanirnar komu til sögunnar um miðja síðustu öld. Það vekur nokkra furðu að Íslendingar skuli ekki hafa borið gæfu til þess að nýta sér danska húsnæðislánakerfið meðan þeir voru í ríkjasambandi við Danmörku.

Um húsbanka.
    Það form sjálfstæðra húsnæðislánastofnana, sem þetta lagafrumvarp gerir ráð fyrir, er byggt á ævagömlum hugmyndum Friðriks mikla Prússakonungs, en hann setti það fram í stjórnartíð sinni til að auðvelda borgarastéttinni að eignast eigið húsnæði. Fyrstu húsnæðislánastofnanirnar komu til sögunnar í Þýskalandi um miðbik átjándu aldar. Danir tóku þessar hugmyndir til sín og gerðu tilraun til þess að stofna húsnæðislánastofnun í Danmörku seint á átjándu öld. Það var þó ekki fyrr en um miðbik síðustu aldar að húsnæðislánastofnanir, þar sem lántakendur mynda með sér félagsskap til að fara með og ábyrgjast húsnæðislán þeirra, komu þar til sögunnar. Dönsku húsnæðisstofnanirnar hafa þróast og breyst gegnum árin, en grundvallarhugmyndin er hin sama, þ.e. lántakendur ábyrgjast sameiginlega öll útlán stofnunarinnar og eru jafnframt félagar í henni. Í seinni tíð hefur þó verið heimilt að húsbankar séu reknir í formi hlutafélags án þessarar samábyrgðar. Er gert ráð fyrir báðum þessum möguleikum í frumvarpinu.
    Húsbankarnir fjármagna útlán sín með útgáfu sérstakra húsbréfa (obligationer) sem þeir hafa einkarétt til að gefa út og selja á frjálsum peningamörkuðum. Í rauninni er um að ræða venjuleg skuldabréf eða spariskírteini sem húsbankinn býður til sölu í samkeppni á fjármagnsmarkaðnum. Ef húsbréfin eru fullkomlega traust og áreiðanleg í líkingu við verðtryggð spariskírteini ríkisins ættu ekki að vera vandkvæði á því að selja þau á hagstæðu verði fyrir stofnunina þannig að nægt fjármagn verði til útlána hverju sinni. Þar sem útlán húsbankans byggja algerlega á sölu húsbréfanna verður að vera jöfnuður milli útgáfu og sölu húsbréfa og útlána. Fyrir hvert
nýtt útlán þarf að gefa út og selja húsbréf. Oftast er þetta gert á þann veg að röð húsbréfa er sett á markað með reglulegu millibili (blokemission) og lánsumsóknir afgreiddar í takt við útgáfu bréfanna. Þó er jafnalgengt hjá dönsku húsbönkunum að húsbréfin séu seld frá degi til dags og lánsumsóknir afgreiddar á sama hátt. Biðraðir eftir húsnæðislánum er óþekkt fyrirbrigði í Danmörku. Lánsumsókn er venjulega afgreidd og lánið veitt innan viku frá því að hún barst.
    Dönsku húsbréfin njóta mikls trausts meðal almennings. Algengt er að gefa börnum húsbréf í skírnar- og fermingargjafir. Það eru þó fyrst og fremst bankar og tryggingafélög sem geyma lausafé sitt í húsbréfum. Húsbréfin eru auglýst til sölu í öllum bönkum og peningastofnunum. Gengi þeirra, þ.e. söluverð og raunvextir, er skráð á viðskiptasíðum dagblaðanna á hverjum degi. Ef óheppileg þróun söluverðs húsbréfa er fyrirsjáanleg kemur danski seðlabankinn yfirleitt til aðstoðar og kaupir húsbréf í miklu magni.
    Í seinni tíð hefur bankakerfið í Evrópu í æ ríkara mæli farið inn á bein tölvuviðskipti. Þetta hefur gert nauðsynlegt að skilgreina og heimila svokölluð rafeindabréf (elektroniske obligationer). Rafeindahúsbréf eru aðeins til í tölvukerfi stórbankanna, tryggingafélaga og verðbréfasala svo dæmi séu nefnd. Þau ganga kaupum og sölum á venjulegan hátt, en eru aldrei skráð á pappír. Þannig er hægt að selja eða kaupa mikið magn af húsbréfum á svipstundu.
    Aðalatriði þessa húsnæðislánakerfis er það að lánsumsækjandi sendir inn umsókn og fær húsnæðislán til margra ára. Hann skrifar undir veðskuldabréf fyrir öllu láninu handa stofnuninni. Þessi veðskuldabréf ásamt varasjóði stofnunarinnar er sú trygging sem liggur að baki húsbréfanna. Þess vegna er nauðsynlegt að veðskuldabréfin séu gefin út af stofnuninni og á ábyrgð hennar. Það er ekki hægt að treysta óviðkomandi aðilum að gefa út slík veðskuldabréf og ætla stofnuninni að vera einhver skiptimiðstöð fyrir veðskuldabréf og húsbréf. Húsbréfin eru þannig hin eiginlegu verðmæti sem lántakandinn fær að láni. Í seinni tíð hefur orðið sú breyting að stofnunin sér sjálf um sölu húsbréfanna fyrir lántakanda sem verður því ekkert var við húsbréfin. Hann fær beinharða peninga að láni. Áður var þó algengara að lántakandinn yrði sjálfur að selja húsbréfin sem stofnunin afhenti honum við móttöku veðskuldabréfsins. Eftir sem áður er stofnunin óháð utanaðkomandi fjármagni sem lagt er til hennar á beinan hátt.
    Til að koma upp íslenskum húsbönkum er talið ráðlegt að nota hlutafélagaformið þótt það sé ekki einhlítt. Eðlilegt er að lífeyrissjóðirnir hafi frumkvæði að stofnun húsbanka í samvinnu við bankakerfið.

Lánskjör.
    Það sem hefur í mörg ár gert lánveitingar illframkvæmanlegar á Íslandi er verðbólgan. Með almennri verðtryggingu útlána, sem hófst um 1980, hefur verið reynt að gera útlán almennt og sér í lagi löng veðskuldalán óháð verðbólgunni. Lánskjaravísitalan var tekin upp 1. júní 1979 í samræmi við svokölluð Ólafslög frá sama ári. Um fátt hefur verið meira deilt í umræðu um efnahagsmál á Íslandi en lánskjaravísitöluna og áhrif hennar. Hún hefur að margra dómi reynst hinn mesti bölvaldur í íslensku efnahagslífi, en aðrir telja að hún sé forsenda fyrir heilbrigðu efnahagslífi. Þróun efnahagsmála eftir að lánskjaravísitalan kom til sögunnar hefur hins vegar ekki verið sérlega hagstæð ef litið er á breytingar á nokkrum þekktum efnahagsstærðum síðustu tíu árin.
    Í töflu 1 er sýnd þróun gjaldeyrisvísitalna, þ.e. vestur-þýsks marks (DM), bandarísks dals (USD), ensks punds (BPD) og danskrar krónu (DKK), og enn fremur þróun lánskjaravísitölu, byggingarvísitölu, launavísitölu og kaupgjaldsvísitölu tímabilið 1979 til 1988. Allar vísitölurnar eru hundraðastilltar miðað við júní 1979, en þá var lánskjaravístalan fyrst skráð. Gengisvísitölurnar eru reiknaðar miðað við meðalgengi hvers árs, en aðrar vísitölur eru júnítölur hvers árs.

Tafla 1.

Þróun verðlags á Íslandi 1979–1988.



         1979     1980     1981     1982     1983     1984     1985     1986     1987     1988
DM         100    138    166    266    505    576    739    986    1116    1252
USD         100    136    206    356    710    899    1178    1166    1097    1209
BPD         100    150    195    291    507    564    723    808    849    1008
DKK         100    127    152    222    406    456    590    760    844    934
Lánskjaravísitala         100    180    245    359    656    885    1144    1448    1687    2051
Byggingarvísitala         100    158    239    370    672    786    1037    1294    1534    1751
Launavísitala         100    152    232    353    558    716    747    1215    1598    2060
Kaupgjaldsvísitala             152    228    336    530    604    785    968

    Tölurnar í þessari töflu segja alla söguna. Fram til 1985 virðist allt með felldu og gengisskráning breytast í takt við verðlagsþróunina. Upp úr því fer allt úr böndum og verðlag innan lands geysist fram miðað við nágrannalöndin. Svo virðist sem gengið sé nú vitlaust skráð sem nemur tugum prósenta. Á þennan
hátt virðist lánskjaravísitalan hafa haft óbærilegar afleiðingar fyrir allt efnahagslíf landsmanna, einkum útflutningsfyrirtæki sem ramba nú flest á barmi gjaldþrots. Hefðu einstaklingar og atvinnufyrirtæki fengið að taka erlend lán beint í þeim erlendu gjaldmiðlum, sem taflan sýnir, væri skuldastaðan allt önnur og betri en með innlendum lánum á lánskjaravísitölu.
    Kaupgjaldsvísitalan sýnir mjög vel hvernig launafólki hefur reitt af í verðbólgubálinu þar sem lánskjörin eru stillt eftir verðbólgunni en launin ekki. Enda urðu menn sammála um að taka hana úr sambandi í ágúst 1986. Misgengishópurinn, sem varð að þola stórhækkun lánskjaravísitölu umfram kaupgjaldsvísitölu á árunum 1983–1984, hefur enn ekki fengið leiðréttingu sinna mála hvað húsnæðislánin áhrærir. Þróun launavísitölunnar, en mjög er umdeilt hvort hún sýni rétta mynd af afkomu launafólks, er ekki mikið hagstæðari. Kaupmáttaraukningin 1987 sýnir þó hagstæða útkomu árið 1988. Það að breyta lánskjaravísitölunni, þannig að launin vegi þyngra eða allt að 70% í vísitölunni, virðist vera stórhættulegt. Má búast við því að lánskjaravísitalan taki kipp upp á við þegar samningar verða á ný frjálsir á næsta ári og haldi áfram að skrúfa upp verðbólguna sem aldrei fyrr. Sjálfvirk tenging vísitalna við mikilvæga þætti efnahagslífsins svo sem fjárskuldbindingar og laun er afar óheppileg og verðbólguhvetjandi. Augljóslega verður að leita leiða til þess að tryggja kaupmátt og fjárskuldbindingar með öðrum hætti en beinum vísitölutengingum.
    Í frumvarpinu er því einungis gert ráð fyrir að heimilt verði að verðtryggja lán en jafnframt bent á aðra valkosti. Nágrannaþjóðirnar hafa ekki nema að litlu leyti farið inn á þá braut að verðtryggja lán. Finnar voru einir Norðurlandaþjóðanna með almenna verðtryggingu fjárskuldbindinga fram til 1967 er þeir tóku sína lánskjaravísitölu úr sambandi. Efnahagsástand í Finnlandi er nú betra en það var áður og verðbólga mjög lítil. Í Danmörku er boðið upp á vísitölutengd lán í einhverjum mæli. Eru þau þá tengd við byggingarvísitölu eða kaupgjaldsvísitölu. Yfirleitt er fólki ráðið frá því að taka slík lán og fremur hvatt til að taka venjuleg skuldabréfalán með afföllum. Vísitölubundin lán eru talin koma helst til greina þar sem hægt er að tengja rekstur fasteignar við sömu vísitölu. Þannig má hugsa sér að nota vísitölubundin lán til byggingar leiguíbúða þar sem húsaleigan fylgir sömu vísitölu.
    Húsnæðislán í formi vaxtaaðlögunarlána (rentetilpasningslaan) ryðja sér til rúms í nálægum löndum. Þau byggja á því að fyrir t.d. 40 ára veðlán er samið um fasta vexti til ákveðins tíma, t.d. fimm ára í senn. Gengi skuldabréfsins er háð vöxtunum sem samið er um í upphafi hvers vaxtatímabils
og þar með ljóst hver lánsupphæðin er. Við upphaf næsta vaxtatímabils er á ný samið um fasta vexti til næstu fimm ára. Er þá gamla lánið endurgreitt með nýju láni og svo koll af kolli. Afborgunarrunan er hins vegar miðuð við 40 ára lánstíma og lánið er í raun veitt til þess tíma þótt það sé endurreiknað á t.d. fimm ára fresti. Þannig er tekið tillit til verðlagsþróunar á skynsamlegan hátt. Lántakandinn situr ekki uppi með lán þar sem lánsupphæðin, þ.e. skuldin, hækkar í sífellu þrátt fyrir stöðugar afborganir.
    Í töflu 2 eru yfirlit sem sýna vexti og afföll af skuldabréfum fyrir vaxtaaðlögunarlán sem stærsta húsnæðislánastofnun Danmerkur, Kreditforeningen Danmark, býður þýskum húsbyggjendum og íbúðarkaupendum á lánamarkaði í Frankfurt.

Tafla 2.

Vextir og kaupgengi vaxtaaðlögunarskuldabréfa.


(Lánamarkaður í Frankfurt, 20. október 1987.)





TAFLA Í GUT




    Samkvæmt þessari töflu eru raunvextir vaxtaaðlögunarlána frá 7,15% að 8,45% á ári. Raunvaxtahugtakið er þó mjög villandi, a.m.k. eins og það hefur verið túlkað hér á landi. Raunvextirnir í töflu 2 eru reiknaðir út miðað við kaupgengi skuldabréfanna. Það er ekki tekið tillit til verðbólgu með öðrum hætti. Raunvextir á Íslandi eru hins vegar miðaðir við ávöxtun á lánskjaravísitölulánum. Samkvæmt töflu 1 er ljóst að slíkir raunvextir eru allt aðrir og hlutfallslega hærri en raunvextir samkvæmt hinni venjulegu skilgreiningu nágrannalandanna.
    Það er forvitnilegt að dönsku húsnæðislánastofnanirnar hafa fengið heimild til þess að veita dönsk húsnæðislán í löndum sem eiga aðild að Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD. Hafa þær hafið starfsemi í Portúgal, Þýskalandi og Wales. Danska húsnæðislánakerfið virðist þannig ráða auðveldlega við heimamarkaðinn og geta bætt á sig húsnæðislánum til annarra landa. Í viðræðum, sem annar flutningsmanna átti við fulltrúa Kreditforeningen Danmark, kom fram að vel gæti komið til greina að stofnunin veitti húsnæðislán til Íslands annaðhvort í samvinnu við hliðstæða íslenska stofnun eða með því að stofna útibú á Íslandi. Eftir verðlagsþróuninni að dæma hefði ekki verið ónýtt að geta tekið dönsk húsnæðislán í staðinn fyrir íslensk lán með lánskjaravísitölu.
    Að lokum er rétt að minnast á lán með greiðslumarki og afkomutryggingu. Þau eru byggð á bandarískri fyrirmynd en einnig er farið að tala um afborgunartryggingu í nálægari löndum svo sem í Danmörku. Lántakandi, sem fær t.d. 25 ára veðlán, semur um það við húsbankann að sett sé greiðslumark á lánið, þ.e. mánaðarleg eða árleg greiðslubyrði af láninu, vextir, afborgun, hugsanleg verðtrygging o.fl., fari ekki upp fyrir greiðsluþol hans miðað við þær tekjur sem hann hefur við upphaf lánstímans. Samhliða greiðslumarksláninu er keypt afkomutrygging þannig að tryggingafélag tekur að sér að greiða mismun á greiðslumarki og greiðsluþoli lántakanda við atvinnumissi, veikindi, missi maka eða annað óvænt sem hefur áhrif á afkomu lántakandans. Oft er afkomutryggingin tekin á þann hátt að lánstíminn er lengdur, t.d. úr 25 árum í 35 ár, án þess að greiðslubyrði vegna lánsins sé minnkuð. Mismunurinn, þ.e. það sem greiðslubyrðin hefði átt að minnka um, er iðgjaldið sem lántakandinn greiðir fyrir afkomutrygginguna. Þannig er á einfaldan og hagkvæman hátt komið í veg fyrir að lántakandinn lendi í greiðsluerfiðleikum sem því miður er að verða regla fremur en undantekning hjá stórum hópi íslenskra lántakenda.
    Það er skoðun flutningsmanna að væru einhverjar af þeim hugmyndum sem hér hefur verið lýst notaðar til að bæta húsnæðislánakerfi landsmanna mundi stórt skref verða stigið í þá átt að koma okkur út úr þeim ógöngum sem við búum við í húsnæðislánamálum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að félagsmálaráðherra geti veitt heimild til starfsemi sérstakra húsbanka sem fást eingöngu við lánveitingar til húsbygginga, aðallega íbúðarhúsa. Slíkir húsbankar koma til með að sinna þeim sem ekki eiga rétt til lána úr Byggingarsjóði ríkisins sem eingöngu er ætlaður til lána fyrir félagslegar íbúðarbyggingar og stofnanir.

Um 2. gr.


    Húsbankar, sem starfa samkvæmt þessum lögum, verða að haga starfsemi sinni í samræmi við þær reglugerðir sem félagsmálaráðherra setur um húsnæðislánastofnanir. Nauðsynlegt er að tryggja rækilega hagsmuni lántakenda og veita þeim þá vernd sem er nauðsynleg til að húsnæðislánakerfi landsmanna gangi snurðulaust. Á sama hátt verður að tryggja að húsnæðislánastofnanir fái traustan rekstrargrundvöll og bolmagn til þess að sinna hlutverki sínu.

Um 3. gr.


    Miðað við að húsbankar verði háðir eftirliti félagsmálaráðherra er eðlilegt að þeir hafi einkarétt á því að nota heitið „húsbanki“ eða „húsnæðislánastofnun“. Enn fremur er nauðsynlegt að einkaréttur húsbanka til útgáfu á húsbréfum sé ótvíræður. Húsbréfin verða að njóta sambærilegs trausts kaupenda og t.d. verðtryggð spariskírteini ríkissjóðs.

Um 4. gr.


    Gert er ráð fyrir að stjórn stofnunarinnar starfi í líkingu við bankaráð og stjórnir hlutafélaga. Talið er eðlilegt að fulltrúi lántakenda eigi sæti í stjórninni og félagsmálaráðherra, með hliðsjón af eftirlitshlutverki hans, geti einnig skipað fulltrúa í stjórnina.

Um 5. gr.


    Hér er kveðið nánar á um eftirlitshlutverk félagsmálaráðherra. Nauðsynlegt er talið að slíkir húsbankar starfi undir ströngu eftirliti félagsmálaráðherra þar sem um er að ræða langtímaveðlán til íbúðarbygginga fyrir allan almenning. Enn fremur er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra setji með reglugerð nánari fyrirmæli um hvernig rekstri húsbanka skuli háttað þannig að fullt samræmi sé milli slíkra stofnana.

Um 6. gr.


    Erlendar húsnæðislánastofnanir hafa í vaxandi mæli tekið upp samstarf og hafið tilraunir með lánveitingar í öðrum löndum. Í breytingu, sem var gerð á dönsku húsbankalögunum 1986, er veitt heimild til þess að húsnæðislánastofnanir í Danmörku geti veitt húsnæðislán til landa sem eiga aðild að OECD, Efnahags- og framfarastofnun Evrópu. Aðild að samstarfi erlendra húsnæðislánastofnana getur bæði veitt aðgang að margþættum upplýsingum og gögnum varðandi húsnæðislánamál almennt og einnig leitt til þess að erlent fjármagn fengist til húsnæðislána á Íslandi á mjög hagstæðum kjörum.

Um 7. gr.


    Í samþykktum húsnæðislánastofnunar er gert ráð fyrir að gæðakröfur til bygginga séu skilgreindar, enn fremur að þar verði ákvæði um að byggingar skuli vera í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.

Um 8. gr.


    Matsverð fasteigna, sem húsnæðislánastofnun byggir veðhæfni þeirra á, er ákveðin af og á ábyrgð stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra geti sett nánari reglur um það hvernig mati á veðhæfni fasteigna skuli háttað. Nauðsynlegt er þó að húsnæðislánastofnanir hafi tiltölulega frjálsar hendur við ákvörðun matsverðs innan þess ramma sem félagsmálaráðherra setur. Þannig er hugsanlegt ef fleiri en einn húsbanki verður starfræktur samkvæmt þessum lögum að einhver samkeppni geti skapast á grundvelli matsverðsins. Umsækjendur um lán til fasteigna munu þá leita eftir lánstilboðum frá starfandi húsbönkum og hugsanlega taka því tilboði sem gerir ráð fyrir hæstu matsverði að öðrum þáttum undanskildum.
    Huga þarf sérstaklega að vandamálum íbúðareigenda á landsbyggðinni vegna mjög mismunandi fasteignaverðs á landinu. Finna þarf leiðir til þess að fólk festist ekki í fjötrum vegna verðlítilla fasteigna á afskekktum stöðum og eins að tryggja það að minni veðhæfni fasteigna úti á landi í sumum tilvikum skerði ekki möguleika á húsnæðislánum. Stundum verður þó að gera ráð fyrir að koma verði til lán frá Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Í stað þess að veita framkvæmdalán, eins og tíðkast hefur af hálfu Húsnæðisstofnunar ríkisins, gerir jafnvægisskilyrðið, þ.e. að jafnvægi sé á milli útgáfu húsbréfa og útlána, það nauðsynlegt að veitt sé bráðabirgðaveðlán gegn bankatryggingu miðað við væntanlegt matsverð fasteignar.

Um 9. gr.


    Í þessari grein er hámark lánshlutfalls miðað við matsverð fasteignar skilgreint fyrir hinar mismunandi tegundir fasteigna. Til þess að örva byggingu leiguíbúða, sem mikil þörf er fyrir, er gert ráð fyrir hæsta lánshlutfalli til þeirra. Þá eru skilyrði um lágmarksupphæð lána. Enn fremur er gert ráð fyrir lánum til fegrunar á umhverfi og til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði og jafnvel endurnýjunar heilla bæjarhverfa í þeim tilvikum að sveitarstjórn sér sér hag í því að slíkar framkvæmdir eigi sér stað.

Um 10. gr.


    Hér er lýst uppruna þess fjármagns sem er notað til útlána. Það er fengið með sölu húsbréfa á frjálsum markaði. Húsbréfin eru skilgreind sem hver önnur verðbréf eða spariskírteini sem hafa ákveðið sölugengi á hverjum tíma. Kemur það til með að endurspeglast í þeim lánskjörum sem stofnunin getur boðið. Til
greina getur komið að lántakendur annist sjálfir sölu á húsbréfunum, þ.e. að húsbankinn afhendi lántakanda jafnmikið magn húsbréfa og lánsupphæðin segir til um. Ef sölugengi húsbréfanna er 90% fær lántakandinn 90% af lánsupphæðinni til ráðstöfunar. Hér er því í raun um að ræða lán með afföllum. Það er hins vegar meginatriði þessarar lagagreinar að lánveitingar séu ekki endilega verðtryggðar, þótt það sé heimilt.
    Nú er algengara að lántakandi fái hreint peningalán, þ.e. að húsbankinn sér um að selja húsbréfin. Með þeim hætti er hægt að setja upp fjölbreyttari lánskjör. Lánin og þar með húsbréfin geta verið vísitölutryggð. Þá er einnig hægt að nota vaxtaaðlögunarlán eins og lýst hefur verið í greinargerðinni hér að framan. Húsbréfin þurfa þá aðeins að hafa gildistíma til jafns við umsamið vaxtatímabil, þ.e. á bilinu 3–10 ár.
    Afkomutrygging vegna húsnæðislána er nýmæli sem lauslega hefur verið athugað af nokkrum aðilum hérlendis. Svo virðist sem líftryggingafélög í Bandaríkjunum selji lántakendum húsnæðislána afkomutryggingar sem tryggja að þeir lendi ekki í greiðsluerfiðleikum vegna atvinnumissis, heilsuleysis, slysa o.s.frv. Í Danmörku er einnig í undirbúningi að bjóða afborgunartryggingar (terminsforsikring) sem verka á svipaðan hátt.

Um 11. gr.


    Það þykir rétt að skilgreina sjálft lánsformið í lögunum. Yfirleitt hafa jafngreiðslulán tíðkast hérlendis. Þau hafa þann ókost í för með sér að endurgreiðsla lánsins er mjög hæg í fyrstu. Raðlán, þar sem afborgun lánsins er föst upphæð en vextirnir bætast síðan við þannig að heildargreiðslan er breytileg og lækkandi þegar líður á lánstímann, þekkist einnig. Með því að blanda þessum lánsformum saman er hægt að ná fram hagstæðari endurgreiðslu lánsins sem getur komið bæði lántakanda og stofnuninni til góða.

Um 12. gr.


    Hér er lánstími veðlána skilgreindur eftir notkun bygginga sem lánað er til. Lánstíminn er lengstur fyrir leiguíbúðir til þess að húsaleiga geti verið sem lægst. Með því að taka upp skynsamlegri húsnæðislán en þau sem byggja á lánskjaravísitölu er hægt að hafa lánstímann skemmri en gerist í gildandi lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins án þess að greiðslubyrði aukist að mun.

Um 13. gr.


    Nauðsynlegt er að hafa ákveðnar reglur um notkun og gerð þeirra bygginga
sem lánað er til. Hugsanlegt er að tæknideild húsnæðislánastofnunar verði að segja til um hvort bygging standist tæknilegar kröfur og skipulagsreglur áður en lán er veitt.

Um 14. gr.


    Húsbréfunum hafa verið gerð allgóð skil í umsögn um 10. gr. Hér er nánar kveðið á um með hvaða hætti húsbréfin tengjast veðskuldabréfum lántakenda sem þeir undirrita og afhenda húsbankanum. Nafnverð allra slíkra veðskuldabréfa skal a.m.k. vera jafnhátt nafnverði allra húsbréfa sem eru í umferð. Þessi jafnaðarkrafa er undirstöðuatriði varðandi lánveitingar sem byggjast á húsbréfum.
    Húsbréfin geta verið mismunandi. Happdrættisbréf eru seld með föstum vöxtum. Sölugengi þeirra fer eftir raunvaxtakröfu markaðarins hverju sinni. Vextir af húsbréfunum eru greiddir handhöfum um leið og vextir af veðlánum eru greiddir til húsbankans. Samanlögð afborgun þeirra lána sem byggjast á happdrættisbréfunum er hverju sinni notuð til þess að endurgreiða húsbréf sem eru dregin út. Þannig fær handhafi bréfs, sem hefur verið dregið út, nafnverð þess endurgreitt án tillits til þess söluverðs sem hann greiddi fyrir bréfið á sínum tíma. Ef um er að ræða pappírslaus bréf, þ.e. rafeindabréf, er upphæðin færð inn á reikning skráðs handhafa sjálfkrafa.
    Vísitölutryggð bréf eru ekki dregin út til greiðslu, heldur hafa þau sama gildistíma og veðlánið sem byggist á þeim. Fær handhafi slíkra húsbréfa vexti og afborgun greidd í takt við greiðslur af veðlánunum. Skammtímabréf eru notuð vegna vaxtaaðlögunarlána og fylgja samningstíma vaxta. Þau eru ekki dregin út til greiðslu heldur innleyst við lok samningstíma vaxta.
    Ef lántakandi vill greiða upp lán sitt hjá stofnun verður hann að afhenda henni jafnmikið magn húsbréfa úr þeirri röð bréfa sem seld var til að mynda lánið og svarar til þess er hann skuldar af höfuðstól lánsins.

Um 15. gr.


    Húsnæðislánastofnunum, sem starfa samkvæmt lögum þessum, er gert skylt að hafa varasjóð til þess að tryggja fjárskuldbindingar sínar, einkum húsbréfin. Gerður er greinarmunur á mismunandi húsnæðislánastofnunum, þ.e. stofnunum sem eru félög lántakenda og húsbönkum sem eru reknir sem hlutafélög.
    Varasjóðir húsnæðislánastofnana eða húsbanka verða að svara til 5% af skuld lántakenda við stofnunina hverju sinni ef um félag lántakenda er að ræða en 10% af skuld lántakenda ef um hlutafélag er að ræða. Varasjóðirnir myndast
með lántökugjöldum, varasjóðsgreiðslum, sem eru hluti af föstum greiðslum lántakenda og refsivöxtum vegna vanskila. Allar eignir stofnunar teljast til varasjóðs hennar.

Um 16. gr.


    Grein þessi þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.


    Talið er að ekki fari saman afskipti af stjórn húsnæðislánastofnana og venjulegra bankastofnana.

Um 18. gr.


    Hér er enn hert á eftirlitshlutverki félagsmálaráðherra sem er talið nauðsynlegt vegna hagsmuna hinna fjölmörgu lántakenda sem eru í húfi.

Um 19. gr.


    Sektarákvæði greinarinnar gerir félagsmálaráðherra kleift að tryggja það að farið sé eftir fyrirmælum hans.

Um 20. gr.


    Grein þessi þarfnast ekki skýringa.