Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 175 . mál.


Ed.

192. Frumvarp til laga



um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



1. gr.

    Ríkissjóður veitir námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum eða efnaleysi torveldar þeim nám, sbr. 5. gr.

2. gr.

    Réttar til námsstyrkja samkvæmt lögum þessum njóta íslenskir nemendur sem stunda reglubundið framhaldsnám hér á landi og verða að vista sig utan lögheimilis og fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins, enda sé ekki unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum dvalarstað sem námsstyrkjanefnd metur jafngildan. Eigi skulu þeir njóta styrks er eiga rétt til láns úr Lánasjóði íslenskra námsmanna eða njóta hliðstæðrar fyrirgreiðslu.

3. gr.

    Styrkir, sem nemendur njóta, samkvæmt lögum þessum eru:
a.     ferðastyrkir, en þeir eru veittir nemendum sem verulegan ferðakostnað bera vegna búsetu sinnar,
b.     fæðisstyrkir er samsvari áætluðum hlut launakostnaðar í heildarfæðiskostnaði nemanda í skólamötuneyti,
c.     húsnæðisstyrkir, en þeir eru veittir nemendum sem ekki eiga kost á heimavist og miðast þeir við helming áætlaðs húsnæðiskostnaðar,
d.     sérstakir styrkir sem námsstyrkjanefnd er heimilt að veita efnalitlum nemendum.

4. gr.

    Menntamálaráðherra skipar fimm manna nefnd sem skal leggja fyrir ráðuneytið tillögur um árlegar fjárveitingar í samræmi við markmið laganna. Þá skal nefndin úthluta námsstyrkjum til styrkhæfra nemenda.
    Tillögur nefndarinnar skulu grundvallaðar á ítarlegum upplýsingum um ferðakostnað, fæðiskostnað og húsnæðiskostnað nemenda sem og á öðrum þeim upplýsingum sem nauðsynlegar kunna að vera hverju sinni.
    Námsstyrkjanefnd er skipuð sem hér segir:
    Tveir nefndarmenn skulu skipaðir án tilnefningar, og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar, einn skipaður samkvæmt tilnefningu fjármálaráðuneytis og einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Skulu þeir allir skipaðir til fjögurra ára í senn. Auk þess skipar menntamálaráðherra einn mann í nefndina til eins árs í senn eftir tilnefningu samtaka framhaldsskólanemenda, eða eftir reglum sem ráðherra setur.
    Þóknun til nefndarmanna greiðist úr ríkissjóði, svo og annar kostnaður við framkvæmd þessara laga.

5. gr.

    Heimilt er námsstyrkjanefnd að verja hluta af árlegri fjárveitingu með eftirfarandi hætti:
a.     Að veita einstökum nemendum viðbótarstyrki ef efnaleysi torveldar þeim nám.
b.     Að veita einstökum nemendum styrki þótt þeir fullnægi ekki skilyrðum 2. gr. þessara laga ef þröngur efnahagur eða aðrar gildar ástæður torvelda þeim nám.
    Einnig er námsstyrkjanefnd heimilt að skerða eða fella niður styrki til einstakra nemenda ef þeir njóta umtalsverðra tekna samhliða námi sínu eða ef aðrar gildar ástæðir mæla með fráviki frá meginreglum.

6. gr.

    Menntamálaráðuneyti setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda að fullu frá byrjun skólaárs 1988–1989 að telja.
    Jafnframt falla úr gildi frá sama tíma lög nr. 69/1972, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir verulegri aukningu á fjármunum til stuðnings nemendum í framhaldsskólum
landsins. Fer því vel á því að nú sé tekið á lagafrumvarpi um breytingar á lagaákvæðum um jöfnun námskostnaðar. Hér er flutt stjórnarfrumvarp um þetta efni.
    Með bréfi dagsettu 18. febrúar 1987 skipaði þáverandi menntamálaráðherra, Sverrir Hermannsson, nefnd til að endurskoða lög nr. 69 frá 17. maí 1972, um jöfnun námskostnaðar. Í nefndinni sátu eftirtaldir: Tómas Ingi Olrich framhaldsskólakennari, formaður, Haraldur Ólafsson lektor og Þórður Skúlason sveitarstjóri. Með nefndinni starfaði Örlygur Geirsson, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneyti og einnig sat Hermann Jóhannesson, deildarstjóri í sama ráðuneyti, nokkra fundi nefndarinnar. Í skipunarbréfi menntamálaráðherra segir: „Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögur um breytt fyrirkomulag námsstyrkja með tilliti til þeirra breytinga á framhaldsnámi, sem orðið hafa síðan lögin voru sett.“
    Tilgangur laga nr. 69/1972 er að jafna með styrkveitingum úr ríkissjóði aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum. Einnig eru í lögum þessum ákvæði sem heimila að veita styrki vegna efnaleysis námsmanna. Styrkir voru fyrst veittir samkvæmt lögunum 1972. Í reglugerð nr. 278 frá 1973, sem menntamálaráðuneytið setti um framkvæmd laganna, segir að rétt til námsstyrkja hafi þeir framhaldsskólanemendur „sem verða að vista sig utan lögheimilis og fjarri fjölskyldu sinni, enda sé ekki unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili“. Frá setningu laganna hefur framhaldsskólum fjölgað mikið og er nú hægt að stunda framhaldsnám í öllum kjördæmum landsins. Nemendum hefur fjölgað að sama skapi. Námsframboð innan framhaldsskólanna, einkum hinna stærri, hefur orðið fjölbreyttara og sérhæfðara. Úthlutunarnefnd jöfnunarstyrkja hefur orðið að leggja mat á hvað teljast skuli „sambærilegt nám“, en það orkar oft tvímælis. Fjölgun framhaldsskólanema og aukin sérhæfing skólanna hefur viðhaldið þörfinni fyrir jöfnunarstyrki. Fjöldi styrkþega fyrstu árin eftir setningu laganna var tæplega 3000, en hefur nú á síðari árum verið 2300 til 2400. Hlutfall styrkþega af heildarfjölda framhaldsskólanema hefur lækkað mun meira.
    Nefndin aflaði sér gagna um helstu kosti og galla gildandi kerfis, bæði með viðræðum við starfsmenn menntamálaráðuneytis og með því að kveðja stjórnendur nokkurra framhaldsskóla sér til ráðuneytis. Lögin hafa reynst einföld í framkvæmd og vita nemendur í stórum dráttum hver réttur þeirra er og hvers þeir mega vænta. Námsstyrkjanefndin, sem gerir tillögur um árlega fjárveitingu og úthlutar styrknum til nemenda, hefur nokkurt svigrúm til að leysa einstaklingsbundin vandamál. Í lögunum eru afdráttarlaus ákvæði um rétt
til styrks eftir búsetu. Þessi ákvæði leiða af sér nokkurn ósveigjanleika í framkvæmd þar sem ekki er hægt að taka nema lítið tillit til efnahags nemandans eða þeirrar aðstöðu sem hann býr við á námsstað. Megingalli á framkvæmd laganna er sá að fjárveitingar hafa aldrei náð því markmiði laganna að jafna að fullu þann kostnaðarmun sem búseta veldur. Næst því marki komust styrkveitingar árið 1975 þegar meðalstyrkupphæð nam 26.500 kr. (miðað við verðlag í árslok 1987). Meðalupphæð á styrkþega sl. tvö ár hefur verið 12.000–12.500 kr. og hefur ekki í annan tíma orðið lægri, en í gildandi fjárlögum voru ætlaðar 25 millj. kr. til þessa verkefnis eins og í fjárlögum ársins 1987. Yfirlit um þróun námsstyrkja á árunum 1975–1987 er prentað með frumvarpinu sem fylgiskjal.
    Nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að gildandi lög um jöfnun námskostnaðar framhaldsskólanema hafi þjónað tilgangi sínum vel að ýmsu leyti og beri því að styðjast áfram við grundvallaratriði þeirra. Í lagafrumvarpi því sem nefndin hefur samið er leitast við að setja lögunum með afdráttarlausari hætti en áður var gert það markmið að veita styrk þeim nemendum sem efnaleysi torveldar nám. Þá eru í frumvarpinu ákvæði sem miða að því að styrkir fylgi fjárþörf á hverjum tíma. Að öðru leyti þjónar frumvarpið þeim tilgangi að laga lögin að breyttum aðstæðum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Fyrsta grein fjallar um tilgang laganna sem er sá að veita námsstyrki til að draga úr fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum.
    Í gildandi lögum er heimildarákvæði sem gerir það mögulegt að veita efnalitlum nemendum sérstaka styrki. Hér er sambærilegt ákvæði tekið inn í 1. gr. samhliða ákvæði um jöfnun á aðstöðumun vegna búsetu.

Um 2. gr.


    Hér er fjallað um hverjir eiga rétt til stuðnings samkvæmt lögum þessum og hverjir ekki, og er þar m.a. miðað við framkvæmd gildandi laga. Efnislegar breytingar frá gildandi lögum eru í raun ekki aðrar en þær sem beinlínis leiðir af breytingum á framhaldsskólakerfinu á undanförnum árum. Rétt er þó að benda á að ákvæði um skerðingu, eða niðurfellingu styrkja vegna verulegra launatekna samhliða námi, eða af öðrum ástæðum, er nú tekið upp í 5. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.


    Í þessari grein eru mikilvægustu nýmæli frumvarpsins. Í gildandi lögum eru ekki taldar sérstaklega þær tegundir styrkja, sem veittar eru samkvæmt lögunum, heldur voru slík ákvæði sett í reglugerð.
    Hér eru hins vegar skilgreindar fjórar mismunandi tegundir styrkja og kveðið á um sérstaka kostnaðar viðmiðun hverrar þeirra.

Um 4. gr.


    Þessi grein fjallar um skipun og verksvið nefndar sem gerir tillögur um námsstuðning og tekur mið af 3. og 4. gr. gildandi laga.

Um 5. gr.


    Fyrri málsgrein þessarar greinar er að mestu efnislega samhljóða 5. gr. gildandi laga. Þó er nokkur áherslumunur og er námsstyrkjanefnd gefið nokkurt svigrúm til að vega og meta ástæður til styrkveitinga, þótt þeirra sé ekki sérstaklega getið í frumvarpinu.
    Í síðari málsgrein er fjallað um heimild til að skerða eða fella niður styrki. Í gildandi lögum (a-lið, 3. mgr., 2. gr.) er ákvæði um skerðingu styrkja til þeirra nemenda sem hafa fast eða samningsbundið kaup á námstímanum. Ákvæði frumvarpsins er efnislega samhljóða varðandi þetta, en opnar jafnframt leið til að bregðast við undantekningartilvikum.

Um 6. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

— REPRÓ Í GUTENBERG —