Ferill 177. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 177 . mál.


Nd.

195. Frumvarp til laga



um framkvæmdasjóð á sviði menningarmála.

Flm.: Birgir Ísl. Gunnarsson, Ragnhildur Helgadóttir, Geir H. Haarde,


Ólafur G. Einarsson.



1. gr.

    Stofna skal sérstakan sjóð er nefnist Framkvæmdasjóður menningarmála. Skal sjóðurinn varðveittur í Seðlabanka Íslands og skulu tekjur af sérstökum eignarskatti renna óskiptar í sjóð þennan jafnóðum og þær innheimtast. Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn sjóðsins.

2. gr.

    Framkvæmdasjóði menningarmála skal varið til framkvæmda við menningarstofnanir. Meðan byggingu Þjóðarbókhlöðu er ekki lokið skal sú framkvæmd hafa forgang við fjárveitingar úr sjóðnum. Af öðrum framkvæmdum, sem fá skulu fjárveitingu úr sjóðnum, skal nefna: Endurbygging Þjóðleikhúss, endurbygging Þjóðminjasafns, innrétting Þjóðskjalasafns og bygging tónlistarhúss. Alþingi skal við afgreiðslu fjárlaga ár hvert ráðstafa fé úr sjóðnum.

3. gr.

    Frá og með gjaldárinu 1990 skal leggja á sérstakan eignarskatt er renna skal óskiptur til framkvæmda á sviði menningarmála samkvæmt því sem nánar greinir í lögum þessum.

4. gr.

    Sérstakur eignarskattur skv. 3. gr. skal lagður á eignarskattsstofn, sbr. lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Skatturinn skal vera sem hér segir:
a.     0,25% á þann eignarskattsstofn manna, sbr. 80.–82. gr. laga nr. 75/1981, sem er umfram 3.505.560 kr. Skattskylt mark til sérstaks
                eignarskatts skal breytast samkvæmt skattvísitölu, sbr. 122. gr. greindra laga, í samræmi við breytingar á henni frá og með gjaldárinu 1989. Þó skal ekki leggja sérstakan eignarskatt á eignir manna sem orðnir eru 67 ára eða eldri fyrir upphaf gjaldárs né heldur þá menn sem nutu örorkulífeyris skv. II. og IV. kafla laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum, á því tekjuári sem næst er á undan álagningarári.
. b.     0,25% á eignarskattsstofn lögaðila, sbr. 2. gr. laga nr. 75/1981, og þeirra aðila sem takmarkaða skattskyldu bera, sbr. 3. gr. sömu laga, ákvarðaðan samkvæmt ákvæðum 80.–82. gr. greindra laga.

5. gr.

    Ákvæði VIII.–XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, skulu gilda um álagningu og innheimtu þessa sérstaka eignarskatts og eftir því sem við á.

6. gr.

    Sérstakan eignarskatt samkvæmt lögum þessum er ekki heimilt að draga frá tekjum við ákvörðun tekjuskattsstofns og útsvarsskyldra tekna og við álagningu tekjuskatts, útsvars og annarra skatta og gjalda sem miðast við greinda gjaldstofna. Um frádrátt þessa sérstaka eignarskatts til frádráttar eignum við ákvörðun eignarskattsstofns fer eftir lokaákvæðum 1. mgr. 76. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum.

7. gr.

    Fara skal með þennan sérstaka eignarskatt á sama hátt og eignarskatt varðandi ráðstöfun ónýtts skattafsláttar skv. 1. og 3. málsl. 2. mgr. 68. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 1. og 3. málsl. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 47/1985.

8. gr.

    Menntamálaráðherra setur nánari reglugerð samkvæmt lögum þessum.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990 og koma fyrst til framkvæmda við álagningu gjalda á gjaldárinu 1990 miðað við eignarskattsstofn í árslok 1989.


Greinargerð.


    Á sviði menningarmála blasa nú við stór og fjárfrek verkefni sem a.m.k. sum hafa verið vanrækt of lengi. Reynslan sýnir að erfitt er að fá fjármagn eftir venjulegum leiðum á fjárlögum og því er nauðsynlegt að fara aðrar leiðir.
    Vorið 1986 voru samþykkt á Alþingi „lög um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu“, nr. 49/1986. Samkvæmt þeim lögum var ákveðið að á gjaldaárunum 1987, 1988 og 1989 skyldi leggja á sérstakan eignarskatt er renna skyldi óskiptur til byggingarsjóðs þjóðarbókhlöðunnar. Með samþykkt þessara laga átti að vera tryggt að unnt yrði að ljúka þessu mannvirki á þessum þremur árum. Því miður hefur reynslan orðið sú að fjármálaráðuneytið hefur reynt að seilast í þessa peninga til almennra útgjalda ríkissjóðs. Engu að síður er ljóst að með samþykkt þessara laga komst á ný verulegur skriður á byggingu þjóðarbókhlöðunnar þótt framkvæmdum muni ekki ljúka á árinu 1989.
    Lögin um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu munu falla úr gildi í árslok 1989, þ.e. þau fjárlög sem nú eru til meðferðar á Alþingi eru síðustu fjárlög á gildistíma þessara laga. Frumvarp það sem hér er flutt gerir ráð fyrir því að hinn sérstaki eignarskattur verði áfram innheimtur og að tekjur af þessum skatti renni í sérstakan sjóð sem hafi víðtækara hlutverk en byggingarsjóður þjóðarbókhlöðu. Rétt er að taka fram að flutningsmenn gera ráð fyrir að eignarskattsinnheimta verði eftir samþykkt þessa frumvarps sambærileg við það sem nú er, þ.e. lýst er andstöðu við þá hækkun eignarskatts sem boðuð er. Er gert ráð fyrir að stofnaður verði sérstakur framkvæmdasjóður menningarmála sem fái tekjur af þessum skatti og sjóðurinn fjármagni síðan ýmis brýn verkefni á sviði menningarmála. Þau verkefni, sem nú blasa helst við, eru þessi:
     Þjóðarbókhlaða. Ljúka þarf byggingu þjóðarbókhlöðu sem fyrst. Þjóðarbókhlaðan var samþykkt í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar — er eins konar gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín og því ekki vansalaust að þessi framkvæmd skuli ekki hafa gengið betur. Því er ráðgert að hún hafi forgang við fjárveitingu úr sjóðnum þar til byggingunni er lokið.
     Þjóðleikhúsið. Mjög hefur skort á að viðhaldi Þjóðleikhúsbyggingarinnar væri sinnt sem skyldi. Er nú svo komið að húsið þarfnast gagngerða endurbóta. Hafa verið gerðar áætlanir um hvað nauðsynlegt er að gera við húsið. Kostnaður er mjög mikill.
     Þjóðminjasafn. Þjóðminjasafnsbyggingin liggur undir skemmdum vegna skorts á viðhaldi. Sérstök nefnd hefur unnið að áætlun um viðgerðir á húsinu og uppbyggingu safnsins að öðru leyti til aldamóta. Núverandi bygging þarfnast gagngerðrar
viðgerðar og áætlanir eru uppi um viðbyggingu til að bæta aðstöðu safnsins.
     Þjóðskjalasafn. Nýtt hús var keypt fyrir Þjóðskjalasafnið fyrir fáum árum, þ.e. hús gömlu mjólkurstöðvarinnar við Laugaveg. Aðbúnaður Þjóðskjalasafnsins hefur verið afar bágborinn og voru þessi húsakaup hugsuð til að bæta þar úr og til að auðvelda safninu að gegna því hlutverki sem því er ætlað samkvæmt nýlegum lögum. Ríkisendurskoðun hefur gert skýrslu um þessi húsakaup. Þar kemur fram að hér hefur verið um hagstæð kaup að ræða og að húsið geti hentað vel starfsemi Þjóðskjalasafnsins. Hins vegar skorti fjármagn til innréttinga og nauðsynlegt sé að gera áætlun um það verk.
     Tónlistarhús. Þörfin á sérstöku tónlistarhúsi hefur lengi verið ljós. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur lengi búið við mjög ófullkomnar aðstæður í Háskólabíói og ýmiss konar annað tónleikahald hefur verið á hrakhólum. Samtök um byggingu tónlistarhúss hafa verið stofnuð af áhugasömum einstaklingum og hafa þau unnið gott starf til undirbúnings byggingu tónlistarhúss. Ljóst er að ríkisvaldið verður að koma myndarlega við sögu með fjárframlögum ef tónlistarhús á að verða að veruleika. Því er gert ráð fyrir að veitt verði fjármagn úr framkvæmdasjóði menningarmála til þessa verkefnis.
    Hér hafa verið tilgreind stór verkefni sem nú blasa við á sviði menningarmála. Vafalaust mætti nefna fleira en ljóst er að mikil þörf er á sjóði sem þessum sem hafi fastan og öflugan tekjustofn. Talið er að hinn sérstaki eignarskattur muni á árinu 1989 gefa í tekjur 240 millj. kr. samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1989.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um stofnun framkvæmdasjóðs menningarmála. Til að forðast ásælni fjármálaráðuneytisins í tekjustofn þennan er skýrt tekið fram að tekjur af hinum sérstaka eignarskatti skuli lagðar í sjóðinn jafnóðum og þær innheimtast. Enn fremur að sjóðurinn skuli varðveittur í Seðlabanka Íslands og að menntamálaráðherra fari með yfirstjórn hans.

Um 2. gr.


    Í þessari grein eru tilgreind þau helstu verkefni sem nú blasa við þessum sjóði, en jafnframt að Alþingi skuli við afgreiðslu fjárlaga ákveða hvernig fé úr sjóðnum skuli ráðstafað til einstakra verkefna.

Um 3. gr.


    Í þessari grein er sú stefna mörkuð að frá ársbyrjun 1990 skuli leggja á sérstakan eignarskatt er renna skuli óskiptur til framkvæmda á sviði menningarmála.

Um 4. gr.


    Grein þessi er efnislega samhljóða 2. gr. núgildandi laga nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu. Eina undantekningin er þó sú að í ákvæðið um að ellilífeyrisþegar skuli ekki greiða þennan skatt er bætt örorkulífeyrisþegum. Frumvarp um það efni liggur nú fyrir Alþingi á þskj. 85 varðandi breytingu á lögum nr. 49/1986 og eru flutningsmenn Halldór Blöndal o.fl. Þá er viðmiðunartölu varðandi eignarskattsstofn breytt í samræmi við breytingar á skattvísitölu.


Um 5.–7. gr.


    Greinar þessar eru efnislega í samræmi við 3.-5. gr. laga nr. 49/1986 og þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra setji nánari reglugerð samkvæmt lögum þessum, þar á meðal nánari skilgreiningu á þeim verkefnum sem njóta skuli framlaga úr sjóðnum.

Um 9. gr.


    Í þessari grein er gert ráð fyrir að lög þessi taki gildi 1. jan. 1990, þ.e. þegar lögin nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu, falla úr gildi.



Prentað upp.