Ferill 287. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 287 . mál.


Ed.

519. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 76/1982, um lyfjadreifingu, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    Við síðustu málsgrein 36. gr. bætist eftirfarandi málsliður:
    Lyfjaverslun ríkisins er þó heimilt að selja bóluefni til ónæmisaðgerða samkvæmt lögum nr. 38/1978, um ónæmisaðgerðir, með síðari breytingum, svo og flúortöflur og flúorupplausnir til tannverndar, til lækna (tannlækna), heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Um nokkurt skeið hefur Lyfjaverslun ríkisins annast milliliðalaust sölu bóluefnis til ónæmisaðgerða til lækna, heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa, enda ber stofnuninni að annast útvegun þessa bóluefnis í samræmi við 10. gr. laga nr. 38/1978, um ónæmisaðgerðir.
    Þótt þessi framkvæmd hafi viðgengist á undanförnum árum verður ekki séð að lög um lyfjadreifingu heimili Lyfjaverslun ríkisins þessa milliliðalausu sölu. Hins vegar er það skoðun ráðuneytis, Lyfjaeftirlits ríkisins og landlæknis að nauðsynlegt sé að hafa þennan hátt á varðandi bóluefni því Lyfjaverslun ríkisins ber ein þessa skyldu og nauðsynlegt er að afgreiðsla geti gengið fljótt fyrir sig.
    Almenna reglan er sú að öll sala lyfja fari fram á vegum lyfsala, þ.e. apóteka og annarra aðila, sem hafa leyfi til lyfjasölu.
    Hvað snertir flúor til tannverndar er rétt að það komi fram að ætlast er til að flúortöflum og flúorupplausnum verði dreift ókeypis til barna og ungmenna á skólaskyldualdri. Hér er um að ræða forvarnarstarf sem skipulagt
hefur verið af hálfu ráðuneytisins á vegum sérstakrar tannheilsudeildar í samvinnu við heilsugæslustöðvar og hefur skilað nokkrum árangri á undanförnum missirum. Til þess að hlúa enn frekar að þessari starfsemi telur ráðuneytið eðlilegt að Lyfjaverslun ríkisins verði heimilað að selja flúor til tannverndar til lækna, tannlækna og heilsugæslustöðva. Þetta ætti að spara tíma, fé og fyrirhöfn.
    Með skírskotun til ofanritaðs telur ráðuneytið nauðsynlegt að lögum um lyfjadreifingu verði breytt þannig að sú framkvæmd sem viðgengist hefur á undanförnum árum verði lögfest, enda er hér um undantekningu að ræða frá þeirri meginreglu, sem áður hefur verið lýst, og ekki er heimilt að víkja frá samkvæmt öðrum ákvæðum laga um lyfjadreifingu.