Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 241 . mál.


Nd.

697. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Seðlabanka Íslands, nr. 36 5. maí 1986.

Frá minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Að ósk okkar, sem skipum minni hl. nefndarinnar, voru Jóhannes Nordal og Geir Hallgrímsson, bankastjórar Seðlabanka Íslands, og Ólafur B. Thors, formaður bankaráðs, Seðlabankans, boðaðir á fund nefndarinnar til viðræðna um frumvarpið.
    Með þessu frumvarpi er ríkisstjórnin enn að gera tilraun til að auka miðstýringu í banka- og peningamálum í staðinn fyrir það frjálsræði sem verið hefur að þróast á peningamarkaðinum á undanförnum árum. Ríkisstjórnin og einstakir ráðherrar hafa verið sérlega yfirlýsingaglaðir um handaflsaðgerðir í vaxta- og peningamálum og með samþykkt sinni 6. febrúar 1989 um peninga- og vaxtamál, sem birt er sem fylgiskjal með frumvarpinu, segir meðal annars:
    „Með samræmdu átaki verði unnið að því að lækka raunvexti þannig að vextir af verðtryggðum ríkisskuldabréfum verði ekki hærri en 5% og raunvextir af öðrum fjárskuldbindingum lagi sig að því.
    Vaxtamunur hjá bönkum og sparisjóðum og öðrum lánastofnunum minnki frá því sem nú er.
    Starfsskilyrði fjármálastofnana verði samræmd með breytingum á reglum um bindi- og lausafjárskyldu og hvað varðar heimildir til tímabundinnar íhlutunar um ávöxtunarkjör.
    Skipulag bankakerfisins verði bætt og samkeppni aukin á lánamarkaði.“
    Það er fróðlegt að heyra viðbrögð bankakerfisins við þessari samþykkt. Í nýútkomnu fréttabréfi Samvinnubankans um verðbréfaviðskipti segir orðrétt:
    „Maður fær það á tilfinninguna að verið sé að villa um fyrir lesandanum á ýmsan hátt. Látið er í veðri vaka að Seðlabankinn geti lækkað raunvexti með sölu á spariskírteinum ríkissjóðs gegn 5% raunvöxtum óháð verðbólgu og væntingum fólks. Ríkissjóður getur auðvitað náð þessu markmiði fyrir sitt leyti með því að gefa úr skírteini sem seljast ekki. Raunvextir lækka hins vegar ekki fremur en verðbólga með einfaldri ríkisstjórnarsamþykkt. Það er
verið að ruglast á orsök og afleiðingu og finna sökudólga í lánastofnunum og Seðlabanka fyrir háum raunvöxtum.
    Til þess að raunvextir lækki þarf að snúa dæminu við. Það verður að byrja á því að ákveða fjárlög og áætla erlendar lántökur og peningaframboð í landinu í heild með tilliti til þess að heildareftirspurn í þjóðfélaginu sé í samræmi við heildarframboð þannig að ákveðnu markmiði í verðlagsmálum sé náð. Þetta gerist með því að breyta peningaframboði af hálfu Seðlabankans með reglum um bindiskyldu og lausafjárhlutfall og með sölu spariskírteina með þeim vöxtum sem með þarf til þess að ná tilteknu sölumarkmiði. Á venjulegum markaði getur fyrirtæki annaðhvort ákveðið verð vöru sinnar eða það magn sem það vill selja á tilteknu verði. Þegar bæði verð og magn eru ákveðin er nánast um tilboð að ræða fremur en markaðsstarfsemi. En það er einmitt vegna þess sem svo mörgum stjórnmálamönnum er illa við markaðinn. Það er erfitt fyrir þá að ráða honum eða ákveða með lögum að hann skuli láta að vilja þeirra.“
    Við sem skipum minni hl. nefndarinnar teljum að þær breytingar, sem efri deild gerði á „tæknilegum“ atriðum í Seðlabankalögunum, ættu að vera til bóta, en hins vegar erum við andvígir þeim ákvæðum sem sett voru inn í frumvarpið um bindiskyldu og takmörkun á vaxtahámark. Að undanskildum þessum síðast nefndu breytingum teljum við að frumvarpið feli í reynd ekki í sér mikilvægar breytingar á Seðlabankalögunum og höfum þá í huga þær athugasemdir sem bankastjórn Seðlabankans hefur haft fram að færa og komu m.a. fram á minnisblaði frá fundi fjárhags- og viðskiptanefndar efri deildar 15. mars sl. sem prentað er sem fylgiskjal með þessu nefndaráliti.

Alþingi, 22. mars 1989.



Matthías Bjarnason,

Hreggviður Jónsson.


frsm.







Fylgiskjal.


Seðlabanki Íslands:


Minnisblað frá fundi í fjárhags- og


viðskiptanefnd efri deildar 15. mars 1989.



    Á fund nefndarinnar í morgun mættu fulltrúar Seðlabankans þeir Geir Hallgrímsson og Eiríkur Guðnason til að ræða frumvarp um breytingu á lögum um Seðlabankann. Eftirfarandi atriði, sem fram komu í máli þeirra, eru sett á blað að beiðni nefndarinnar. Hér er ekki um að ræða ítarlega skýrslu, enda var mjög skammur tími ætlaður til verksins. Hér er aðeins fjallað um tvö þeirra mála sem rædd voru, þ.e. tillögu um bindiskyldu verðbréfasjóða annars vegar og tillögu um að Seðlabankinn geti hlutast til um ávöxtunarkröfu verðbréfasjóða, verðbréfafyrirtækja og eignarleigufyrirtækja.

Um bindiskyldu verðbréfasjóða.
    Tillagan er á þá leið að við 1. mgr. 8. gr. laga nr. 36/1986 bætist nýr málsliður þannig að 1. mgr. í heild verði á þessa leið (tillagan um viðbót er skáletruð):
    „Þegar sérstaklega stendur á getur Seðlabankinn ákveðið með samþykki ráðherra að innlánsstofnanir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum er nemi tilteknu hlutfalli af heildarinnlánsfé hjá hverri stofnun eða af ráðstöfunarfé hennar. Með ráðstöfunarfé í lögum þessum er átt við allt það fé sem innlánsstofnun hefur til útlána. Þó er heimilt að undanskilja tiltekna flokka útlána að fengnu samþykki ráðherra. Á sama hátt skal Seðlabanki Íslands láta sömu reglur, eftir því sem við getur átt, gilda um verðbréfasjóði eða jafngildi þeirra með kaupskyldu á öruggum verðbréfum.“
    Spurt var um álit fulltrúa Seðlabankans á þessari tillögu og um það hvort og hvernig slíku ákvæði yrði beitt og enn fremur hvort verðbréfasjóðir fengju hliðstæða fyrirgreiðslu hjá Seðlabankanum og innlánsstofnanir ef þeir yrðu háðir bindiskyldu.
    Í svarinu kom m.a. fram að hugmynd um bindiskyldu á verðbréfasjóði hafi komið fram í 30. gr. frumvarpsins um verðbréfaviðskipti. Er það var lagt fram var um að ræða heimildarákvæði. Í meðförum þingsins tók orðalag greinarinnar breytingum þannig að um var að ræða skyldu til að láta sömu reglur gilda um bindiskyldu verðbréfasjóða og innlánsstofnana. Seðlabankinn telur ekki einsýnt að bindiskyldu eða samsvarandi kvöðum beri ávallt að beita gagnvart verðbréfasjóðum eins og innlánsstofnunum. Verði það að vera matsatriði eftir aðstæðum á hverjum tíma. Þá er ekki vitað til að bindiskyldu sé beitt gagnvart verðbréfasjóðum erlendis, enda þótt í nokkrum löndum virðist vera til staðar sá lagalegi möguleiki að grípa til hennar ef það er talið æskilegt á einhverjum tíma.
    Nú virðist mega skilja tillöguna þannig að unnt yrði að beita bindiskyldu gagnvart verðbréfasjóðum með „kaupskyldu á öruggum verðbréfum“. Vafalítið mundi þá Seðlabankinn beita kaupskyldu fremur en innlánsbindingu ef um annað tveggja væri að ræða. En slík kaupskylda er nú þegar til staðar á grundvelli bráðabirgðalaga frá síðastliðnu vori þar sem Seðlabankanum er veitt heimild til að skylda verðbréfasjóði til að kaupa ríkisskuldabréf fyrir sem svarar 20% af aukningu ráðstöfunarfjár frá 1. júlí 1988, en þessi bráðabirgðalög munu falla úr gildi 10. apríl 1989.
    Verði bindiskyldu hins vegar beitt gagnvart verðbréfasjóðum á sama hátt og gagnvart innlánsstofnunum er eðlilegt að spyrja hvort því ætti að fylgja að sjóðirnir fengju sama aðgang að fyrirgreiðslu hjá Seðlabankanum og innlánsstofnanir hafa. Slíkur aðgangur veitir innlánsstofnunum, og þar með innstæðueigendum, visst öryggi enda þótt reynt sé að halda fyrirgreiðslunni innan hóflegra marka. Ekki er talin ástæða til að skapa verðbréfasjóðum hliðstætt öryggi heldur halda þeim greinarmun, sem nú er á verðbréfasjóðum og innlánsstofnunum, að meiri áhætta fylgi kaupum verðbréfa en innlánum. Á þann hátt er verðbréfasjóðum veitt verulegt aðhald.
    Er lagt til að ákvæðið verði í heimildarformi.

Íhlutun um vaxtaákvarðanir.
    Frumvarp um breytingu á lögum um Seðlabankann felur í sér breytingu á 9. gr. Til umræðu er tillaga um viðbótarmálsgrein í 9. gr., sem verði 3. mgr., og fjallar m.a. um ávöxtunarkröfur verðbréfafyrirtækja. Í heild yrði þá 9. gr. seðlabankalaganna svona (breytingar frá núgildandi lögum eru skáletraðar):
    „Seðlabankinn ákveður vexti af innlánum við bankann og af lánum sem hann veitir.
    Seðlabankinn getur að fengnu samþykki ráðherra bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til að tryggja að raunvextir útlána verði hóflegir og eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslendinga svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána að teknu tilliti til annarra tekna innlánsstofnana.
    Hafi Seðlabanki Íslands hlutast til um vexti hjá innlánsstofnunum á grundvelli þessarar greinar getur bankinn, meðan
sú íhlutun varir, að fengnu samþykki ráðherra bundið ávöxtunarkröfur og annað endurgjald fyrir fjármagn í viðskiptum eignarleigufyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða takmörkunum sem miðast við hliðstæða áhættuflokka. Setur Seðlabankinn um það nánari reglur.
    Ákvarðanir Seðlabankans skv. 2. mgr. skulu birtar í Lögbirtingablaði.“
    Álit fulltrúa Seðlabankans var á þá leið að ekki væri ljóst með hvaða hætti unnt sé að setja þær reglur, sem um er fjallað í 3. mgr., né hvernig mætti fylgja þeim eftir svo hald sé í. Sé sett hámark á ávöxtun í verðbréfaviðskiptum jafngildir það því að sett sé lágmark á verð þessara fjármuna. Ekki er þá fjarri lagi að álykta að til samræmis þurfi að setja lágmark á verð annarra fjármuna sem ganga kaupum og sölum, svo sem notaðra bifreiða og fleira. Bent var á að svona ákvæði um viðskipti með verðbréf geti leitt til niðurstöðu sem væri beinlínis í andstöðu við markmiðið, sé markmiðið það að lækka fjárfestingarkostnað. Áhrifin af þessu gætu nefnilega orðið annars vegar þau að draga úr sparnaði í formi verðbréfakaupa sem leitt getur til hækkunar vaxta. Í stað fjárfestingar í verðbréfum mundi fólk m.a. velja fasteignir eða lausafjármuni. Í öðru lagi geta áhrifin orðið þau að færa verðbréfaviðskipti út á „skúmaskotamarkaðinn“ en síðustu ár hafa þau einmitt komist upp á yfirborðið hér á landi sem víðast annars staðar. Síðustu ár hefur verið reynt að skapa hér á landi skilyrði fyrir heilbrigðum verðbréfaviðskiptum fyrir opnum tjöldum. Umrætt ákvæði mundi eyða slíkum möguleikum og spilla t.d. fyrir starfsemi Verðbréfaþings Íslands og öðrum markaðsviðskiptum með verðbréf, þar á meðal húsbréfum og verðbréfum Atvinnutryggingarsjóðs.
    Einnig hefur verið bent á nauðsyn þess að auka eigið fé fyrirtækja og koma í því skyni á fót öflugum markaði fyrir hlutabréf, m.a. á Verðbréfaþingi. Ekki verður annað séð en tillagan um 3. mgr. komi einnig í veg fyrir það.