Ferill 393. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 393 . mál.


Ed.

736. Frumvarp til laga



um málefni aldraðra.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    Markmið þessara laga er að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast og hagkvæmast miðað við þörf og ástand hins aldraða.
    Tilgangur þessara laga er að aldraðir geti svo lengi sem verða má búið við eðlilegt heimilislíf en að jafnframt sé tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar gerist þörf. Eftir því sem kostur er skal sjálfsákvörðunarréttur aldraðra í því efni virtur.

I. KAFLI

Skipulag öldrunarþjónustu.

2. gr.

    Heilbrigðisráðherra fer með yfirstjórn öldrunarmála. Öldrunarmálefni skulu vera undir stjórn sérstaks deildarstjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.
    Verkefni heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins á sviði öldrunarmála skulu vera m.a.:
1.     Að hafa frumkvæði að stefnumótun um málefni aldraðra.
2.     Að annast áætlanagerð um málefni aldraðra fyrir landið í heild.

3. gr.

    Skipa skal samstarfsnefnd um málefni aldraðra til fjögurra ára í senn frá 1. janúar 1990.
    Í nefndinni eiga sæti þrír menn, einn tilnefndur af Öldrunarráði Íslands, einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn án tilnefningar. Heilbrigðisráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Varamenn skulu
skipaðir með sama hætti.
    Deildarstjóri öldrunarmála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu skal vera ritari samstarfsnefndar um málefni aldraðra.

4. gr.

    Verkefni samstarfsnefndar um málefni aldraðra eru:
1.     Að vera tengiliður milli ráðuneyta, stofnana og samtaka sem starfa að málefnum aldraðra.
2.     Að vera heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um málefni aldraðra.
3.     Að stjórna Framkvæmdasjóði aldraðra og gera tillögur til heilbrigðisráðherra um úthlutun úr sjóðnum.
4.     Að skera úr um ágreiningsmál sem upp kunna að koma um málefni aldraðra samkvæmt lögum þessum, enda beri mál ekki að réttu undir dómstóla. Vísa má úrskurði samstarfsnefndarinnar til heilbrigðisráðherra.

5. gr.

    Á starfssvæði hverrar heilsugæslustöðvar skal starfa öldrunarnefnd. Í nefndinni skulu eiga sæti fjórir menn. Stjórn heilsugæslustöðvar svæðisins tilnefnir tvo í nefndina og félagsmálaráð eða félagsmálanefndir viðkomandi sveitarfélaga tilnefna tvo. Nefndin skal skipuleggja öldrunarmál á starfssvæðinu.
    Í Reykjavík tilnefnir félagsmálaráð tvo og heilbrigðismálaráð tvo í öldrunarnefnd og skal nefndin annast skipulagningu öldrunarmála í Reykjavík.
    Sveitarstjórnir velja nefndinni oddvita úr hópi tilnefndra. Oddviti nefndarinnar skal kalla hana saman.
    Öldrunarnefndir annist eftirtalin verkefni:
1.     Að gera tillögur um öldrunarþjónustu á starfssvæðinu í samráði við forstöðumenn hinna ýmsu þátta þjónustunnar.
2.     Að kveðja menn til starfa í þjónustuhópi aldraðra þannig að samsetning hópsins sé í samræmi við ákvæði 7. gr.
3.     Að gera tillögur til viðkomandi sveitarstjórna um fjölda starfsliðs í heimaþjónustu starfssvæðisins, sbr. III. kafla þessara laga.
4.     Að fylgja eftir að ákvæðum staðla eða reglugerða skv. 19. og 30. gr. sé framfylgt.
5.     Að annast samningsgerð við einstaklinga eða félagasamtök, sem taka að sér þjónustu fyrir aldraða, sé það ekki verksvið annarra.
    Kostnaður, sem kann að verða af starfi öldrunarnefndar, greiðist af sveitarfélögum á því starfssvæði sem hún nær til í hlutfalli við fjölda íbúa 65 ára og eldri í hverju sveitarfélaganna.
    Þegar málefni einstakra öldrunarstofnana á starfssvæði öldrunarnefndar eru til umfjöllunar skal nefndin gefa fulltrúa viðkomandi stofnunar kost á að sitja fundinn. Á þeim fundi hefur fulltrúinn málfrelsi og tillögurétt.

6. gr.

    Á starfssvæði hverrar öldrunarnefndar skal starfa þjónustuhópur aldraðra. Þar sem heilsugæslustöðvar eru fleiri en ein í sama sveitarfélagi getur sveitarstjórn ákveðið að heilsugæslustöðvarnar sameinist um þjónustuhóp aldraðra.
    Þar sem það þykir hentugra er sveitarstjórnum heimilt að ákveða að fela öldrunarnefnd starfssvæðisins hlutverk þjónustuhóps aldraðra.
    Kostnaður, sem verða kann af starfi þjónustuhóps aldraðra, greiðist af sveitarfélögum á því starfssvæði sem hann nær til í hlutfalli við fjölda íbúa 65 ára og eldri í hverju sveitarfélaganna.

7. gr.

    Þjónustuhópur aldraðra er samstarfshópur starfsliðs heilsugæslustöðva(r) starfssvæðisins og starfsliðs í félagslegri þjónustu sveitarfélags(a) á starfssvæðinu.
    Í þjónustuhópi aldraðra skulu starfa fjórir menn. Í hópnum sé læknir með sérmenntun á sviði heimilislækninga, lyflækninga eða öldrunarlækninga, hjúkrunarfræðingur með þekkingu á öldrunarþjónustu eða heilsugæslu og tveir starfsmenn félagslegrar þjónustu í sveitarfélögum á starfssvæði hópsins. Skal annar þeirra vera félagsráðgjafi ef unnt er.
    Sveitarstjórnir velja þjónustuhópnum oddvita úr hópi tilnefndra. Oddviti hópsins skal kalla hópinn saman.
    Þjónustuhópur aldraðra getur ákveðið að gefa öldrunarstofnunum á starfssvæðinu kost á að koma sér saman um einn fulltrúa sem yrði áheyrnarfulltrúi á fundum hópsins.

8. gr.

    Hlutverk þjónustuhóps aldraðra er:
1.     Að fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð aldraðra á starfssvæðinu.
2.     Að meta vistunarþörf aldraðra á starfssvæðinu, sbr. 18. og 19. gr.
3.     Að leitast við að tryggja að aldraðir á starfssvæðinu fái þá þjónustu sem þeir þarfnast. Ætíð skal haft að leiðarljósi það markmið laganna að aldrað fólk geti sem lengst búið við eðlilegt heimilislíf.

II. KAFLI

F ramkvæmdasjóður aldraðra.

9. gr.

    Framkvæmdasjóður aldraðra, sem stofnaður var með lögum nr. 49 29. maí 1981, hefur það hlutverk að stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu um land allt og að byggingu húsnæðis fyrir aldraða.

10. gr.

    Tekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra eru:
1.     Tekjur af sérstöku gjaldi, sem skattstjórar leggja á þá, sem skattskyldir eru samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Skal gjaldið nema 2.500 krónum á hvern gjaldanda árið 1989 (byggingarvísitala 124,9). Fjárhæð gjaldsins er heimilt að breyta árlega í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu. Undanþegin gjaldinu eru börn innan 16 ára aldurs og þeir sem eru 70 ára og eldri, svo og þeir sem hafa tekjur undir 530.190 krónum á árinu 1988. Tekjuviðmiðun er heimilt að breyta í samræmi við breytingar á skattvísitölu. Skattstjóri skal einnig fella gjald þetta niður af þeim elli- og örorkulífeyrisþegum, undir 70 ára aldri, sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Um álagningu og innheimtu gjaldsins skulu gilda sömu reglur og um innheimtu eignarskatts.
2.     Frjáls framlög og aðrar tekjur er til kunna að falla.
3.     Vaxtatekjur.
    Í miðmánuði hvers ársfjórðungs skal fjármálaráðuneytið skila Framkvæmdasjóði aldraðra fjórðungi tekna sjóðsins á því ári.

11. gr.

    Framkvæmdasjóður aldraðra skal vera í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra annast stjórn sjóðsins, sbr. 3. tölul. 4. gr. Þegar samstarfsnefnd um málefni aldraðra fjallar um málefni
Framkvæmdasjóðs aldraðra skal fulltrúi tilnefndur af fjárveitinganefnd Alþingis taka sæti í nefndinni.
    Sjóðstjórn gerir árlega tillögur til ráðherra um úthlutun.

12. gr.

    Hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra er:
1.     Að styrkja byggingu þjónustumiðstöðva, dagvista, þjónustuhúsnæðis aldraðra, og hjúkrunarrýmis fyrir aldraðra, sbr. 17. og 18. gr.
2.     Að veita styrki til breytinga og endurbóta sem nauðsynlegar eru á eldra húsnæði fyrir aldraða eða leiða af ákvæðum þessara laga.
3.     Að styðja sveitarfélög, einkum dreifbýlissveitarfélög, til að koma á fót heimaþjónustu fyrir aldraða.
4.     Önnur verkefni sem stjóðstjórn mælir með og heilbrigðisráðherra samþykkir.

13. gr.

    Um framkvæmdir skv. 12. gr. fer samkvæmt lögum nr. 63 12. maí 1970, um skipan opinberra framkvæmda, eftir því sem við á.

14. gr.

    Heilbrigðisráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um Framkvæmdasjóð aldraðra.

III. KAFLI

Heimaþjónusta.

15. gr.

    Í hverju sveitarfélagi skal reka heimaþjónustu fyrir aldraða. Eftir því sem kostur er skulu sveitarfélög þau sem standa saman að öldrunarnefnd sameinast um rekstur heimaþjónustu aldraðra á starfssvæðinu.
    Með heimaþjónustu er átt við þá aðstoð sem veitt er á heimili aldraðra og er hún tvíþætt. Annars vegar er heilbrigðisþáttur heimaþjónustu, svo sem læknisvitjanir, heimahjúkrun og endurhæfing í heimahúsum, sem er í höndum starfsliðs heilsugæslustöðva. Hins vegar er félagslegur þáttur heimaþjónustu, svo sem aðstoð við heimilisstörf og innkaup, félagsráðgjöf og heimsending matar, sem er í höndum félagslegrar þjónustu viðkomandi sveitarfélaga eða aðila, sem sveitarfélög semja við.
    Veita skal heimaþjónustu um kvöld, nætur og helgar, þegar þess er þörf.

16. gr.

    Hinir ýmsu þættir heimaþjónustu skulu skipulagðir af viðkomandi sveitarfélögum að fengnum tillögum öldrunarnefndar og þjónustuhóps aldraðra á starfssvæðinu.

IV. KAFLI

Fyrirkomulag öldrunarþjónustu.

17. gr.

    Til opinnar öldrunarþjónustu samkvæmt lögum þessum telst:
1.     Heimaþjónusta aldraðra, sbr. III. kafla.
2.     Þjónustumiðstöðvar aldraðra sem bjóða upp á aðstöðu til tómstundavinnu og skipulegs félagsstarfs. Þjónustumiðstöð getur starfað sjálfstætt eða í tengslum við dagvist aldraðra, sbr. 17. gr. 3. tölul., sjálfseignar- og búseturéttaríbúðir, sbr. 17. gr. 4. tölul., stofnanir aldraðra, sbr. 18. gr. eða heilsugæslustöð. Leitast skal við að þjónustumiðstöðvar séu sem næst öðrum þjónustukjörnum en þó dreifðar um íbúðahverfi þannig að ekki séu fleiri en 1000 íbúar í heimahúsum, 65 ára og eldri um hverja þjónustumiðstöð.
3.     Dagvist aldraðra telst sú starfsemi sem býður a.m.k. upp á eftirtalda þjónustu: flutningsþjónustu að og frá heimili einstaklingsins, tómstundaiðju, aðstöðu til léttra líkamsæfinga, fæði, hvíldaraðstöðu og aðstoð við böðun. Einstaklingar sem þurfa á dagvist að halda geta sótt hana daglega eða ákveðna daga. Dagvist getur verið rekin sjálfstætt eða í tengslum við aðra starfsemi, t.d. þjónustumiðstöð aldraðra, sbr. 2. tölul. þessarar greinar, sjálfseignar- og búseturéttaríbúðir fyrir aldraða, sbr. 4. tölul. þessarar greinar eða stofnanir fyrir aldraða skv. 18. gr.
4.     Sjálfseignar-, leigu- og búseturéttaríbúðir fyrir aldraða. Þar skal vera völ á sömu þjónustu og um getur í 1. tölul. 18. gr., annað hvort í húsnæðinu sjálfu eða næsta nágrenni.

18. gr.

    Stofnanaþjónusta fyrir aldraða samkvæmt lögum þessum er:
1.     Þjónustuhúsnæði aldraðra sem getur verið tvenns konar: Íbúðir og dvalarheimili, hvort tveggja sérhannað fyrir þarfir aldraða og ætlað þeim öldruðum sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. Þar skal vera varsla allan sólarhringinn, öryggiskerfi í hverri íbúð og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum og félagsþjónustu. Aðstaða skal vera fyrir læknishjálp, hjúkrun og endurhæfingu. Þjónusta, sem hver einstaklingur nýtur, fer eftir einstaklingsbundnu mati á þörf, sbr. 19. gr.
2.     Hjúkrunardeildir eða hjúkrunarheimili eru ætluð öldruðum einstaklingum, sem eru of lasburða til að dveljast í þjónustuhúsnæði aldraðra, sbr. 1. tölul. Á hjúkrunardeildum og hjúkrunarheimilum skal vera aðstaða til hjúkrunar- og læknisþjónustu. Við hönnun skal þess sérstaklega gætt að stofnunin sé heimilisleg og hlýleg. Aðstaða skal vera fyrir aldraða sjúklinga með heilabilunareinkenni. Eftir því sem kostur er skulu hjúkrunardeildir og hjúkrunarheimili vera í starfstengslum við öldrunarlækningadeild, lyflækningadeild eða sjúkradeild eftir aðstæðum í hverju tilviki.

19. gr.

    Stjórn dagvistar skv. 3. tölul. 17. gr. og stofnunar fyrir aldraða skv. 18. gr. ákveða um vistun fólks á stofnuninni enda hafi öðrum skilyrðum þessarar greinar verið fullnægt.
    Enginn má vistast til langdvalar á stofnun fyrir aldraða skv. 18. gr. nema að undangengnu mati á vistunarþörf. Mat á vistunarþörf skal að jafnaði vera í höndum þjónustuhóps aldraðra, eða öldrunarnefndar, þar sem þær sinna hlutverki þjónustuhóps aldraðra.
    Hafi aldraður einstaklingur verið lengur en sex vikur á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar skal þjónustuhópur aldraðra meta þörf einstaklingsins fyrir vistun á öldrunarstofnun.
    Í reglugerð skal setja reglur um vistunarmat og framkvæmd þess.

20. gr.

    Áður en framkvæmdir hefjast við dagvist fyrir aldraða skv. 3. tölul. 17. gr. eða stofnun fyrir aldraða skv. 18. gr. skal afla framkvæmdaleyfis heilbrigðisráðherra.
    Áður en framkvæmdir hefjast við sjálfseignar-, leigu- og búseturéttaríbúðir aldraðra, sbr. 17. gr. 4. tölul. skal afla samþykkis heilbrigðisráðuneytis á teikningum.
    Beiðni um framkvæmdaleyfi skulu fylgja upplýsingar um verksvið stofnunar og staðsetningu, svo og uppdrættir af byggingum, lóð og umhverfi og afstöðu til nágrennis ásamt lýsingu á húsakynnum. Enn fremur skal fylgja greinargerð um eigendur og fjárhagsástæður. Beiðninni skal og fylgja umsögn öldrunarnefndar á því starfssvæði sem stofnunin mun verða.
    Sama gildir um allar meiri háttar breytingar á húsakynnum og starfsemi stofnunar fyrir aldraða.
    Áður en ráðherra heimilar framkvæmdir skal umsóknin send til umsagnar samstarfsnefndar um málefni aldraðra. Ef um hjúkrunarrými er að ræða skal umsóknin einnig send til umsagnar landlæknis og héraðslæknis.

21. gr.

    Áður en rekstur dagvistar skv. 3. tölul. 17. gr. og stofnunar fyrir aldraða, skv. 18. gr. getur hafist skal sækja um rekstrarleyfi til heilbrigðisráðherra.
    Umsókn um rekstrarleyfi skal fylgja greinargerð um eigendur stofnunar og fjárhagsástæður, skýrsla um starfsáætlun, stjórn, starfsfólk, rekstrarfyrirkomulag og hve mörgum vistmönnum stofnuninni er ætlað að sinna.
    Heilbrigðisráðherra veitir rekstrarleyfi ef stofnunin fullnægir heilbrigðiskröfum og ákvæðum þessara laga og ætla má að hún geti leyst verkefni sín á viðunandi hátt.

22. gr.

    Eigendur stofnana fyrir aldraða, sbr. 18. gr. skipa stjórn stofnunarinnar.
    Sé stofnunin í beinum starfstengslum við sjúkrahús gilda um stjórn stofnunar ákvæði 30. gr. laga nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum.
    Starfsmannaráð tilnefnir einn mann af sinni hálfu til setu á fundum stjórnar stofnunar fyrir aldraða, með málfrelsi og tillögurétti. Sama gildir um vistmannaráð.

23. gr.

    Þær dvalarstofnanir fyrir aldraða, sem starfandi eru við gildistöku þessara laga, skulu í hvívetna háðar ákvæðum þeirra. Skal stefnt að því að innan þriggja ára hafi þær uppfyllt þær kröfur um gerð og búnað er felast í 18. gr.,
enda hafi Framkvæmdasjóður aldraðra bolmagn til að styrkja framkvæmdir af þessu tagi.

V. KAFLI

Kostnaður við öldrunarþjónustu.

24. gr.

    Þeir, sem þjónustu dagvistar njóta, skulu taka þátt í kostnaði af dagvistinni, að hámarki sem nemur einstaklingsgrunnlífeyri Tryggingastofnunar ríkisins. Að öðru leyti greiðist kostnaður vegna dagvistar af Tryggingastofnun ríkisins.

25. gr.

    Íbúar í sjálfseignar-, leigu- og búseturéttaríbúðum, sbr. 17. gr. 4. tölul. greiða sjálfir þá þjónustu, sem þar er veitt, aðra en heimaþjónustu, sbr. 29. gr. samkvæmt ákvörðun rekstraraðila.

26. gr.

    Dvalarkostnaður á stofnunum fyrir aldraða, skv. 18. gr., þ.e. þjónustuhúsnæði og hjúkrunarrými, greiðist af Tryggingastofnun ríkisins, sbr. þó 27. gr.

27. gr.

    Vistmenn, sem hafa tekjur umfram 11.000 kr. á mánuði, skulu taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á stofnunum fyrir aldraða, sbr. 18. gr.
    Með tekjum sínum, sem eru umfram 11.000 kr., skal vistmaður greiða dvalarkostnað sinn að hluta eða öllu.
    Setja skal með reglugerð nánari ákvæði um þátttöku vistmanna í greiðslu dvalarkostnaðar, m.a. um hækkun viðmiðunartekna.

28. gr.

    Vistmaður á stofnun fyrir aldraða, sbr. 18. gr., sem ekki hefur aðrar tekjur en bætur almannatrygginga, fær ráðstöfunarfé frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. lokamálsgrein 51. gr. laga um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum.

29. gr.

    Kostnaður af rekstri heimaþjónustu skiptist þannig að sveitarfélög bera kostnað af félagslegum þætti hennar en ríkissjóður af heilbrigðisþættinum.
    Sveitarstjórnir geta með gjaldskrá ákveðið þátttöku einstaklinga í þeirri heimaþjónustu sem þau veita.
    Undanþegnir gjaldskyldu vegna heimaþjónustu skulu þeir sem ekki hafa aðrar tekjur en ellilífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga.

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði

30. gr.

    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga, m.a. búnað stofnana fyrir aldraða, aðbúnað og þjónustu við vistmenn svo og starfslið stofnana eftir starfsemi þeirra.

31. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990. Þó skal 1. tölul. 10. gr. öðlast gildi þegar í stað. Við gildistöku þessara laga falla úr gildi lög nr. 91 31. desember 1982, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lög um málefni aldraðra hafa nú verið í gildi í rúmlega sex ár. Stór skref hafa verið stigin í uppbyggingu öldrunarþjónustu, ekki síst húsnæðismálum aldraðra á þessum tíma. Er nú svo komið að húsnæði fyrir aldraða er að finna í allflestum þéttbýliskjörnum landsins. Er það ekki síst fyrir tilstuðlan Framkvæmdasjóðs aldraðra sem stofnaður var með lögum árið 1981.
    Lög um málefni aldraðra hafa verið í endurskoðun í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu nú um nokkurt skeið. Við endurskoðunina hefur verið haft að leiðarljósi að sníða af þá agnúa sem í ljós hafa komið á lögunum þau sex ár sem þau hafa verið í gildi. Auk þess hafa ýmis ákvæði verið færð til samræmis við þróun öldrunarmála síðustu árin.
    Helstu nýmæli frumvarpsins eru þessi:
    Á starfssvæði hverrar heilsugæslustöðvar skal starfa öldrunarnefnd. Í öldrunarnefnd eiga sæti fjórir, tveir tilnefndir af stjórn heilsugæslustöðvar svæðisins og tveir tilnefndir af félagsmálaráðum sveitarfélaganna á starfssvæðinu. Sveitarstjórnir skulu velja nefndinni oddvita úr hópi tilnefndra. Þessi nýskipan leysir af hólmi fyrirkomulag núgildandi laga um að stjórn heilsugæslustöðvar og félagsmálaráð á hverju svæði annist sameiginlega ákveðin verkefni á sviði öldrunarmála.
    Breytt er fjölda þeirra sem eiga sæti í þjónustuhópi aldraðra á hverju starfssvæði. Skulu þeir nú vera fjórir, þ.e. læknir og hjúkrunarfræðingur frá heilsugæslustöð svæðisins og tveir fulltrúar félagslegrar þjónustu, þar af einn félagsráðgjafi ef kostur er. Með þessum hætti verður félagsleg þjónusta og heilbrigðisþjónusta jöfn að vægi í þjónustuhópi aldraðra. Sveitarstjórnir skulu velja hópnum oddvita úr hópi tilnefndra. Jafnframt er gert ráð fyrir að þjónustuhópi sé heimilt að gefa fulltrúa (einum) öldrunarstofnana starfssvæðisins kost á að vera áheyrnarfulltrúi í hópnum.
    Tekjustofn Framkvæmdasjóðs aldraðra er hafður óbreyttur, þ.e. sérstakt gjald, sem leggja skal á alla gjaldendur, með ákveðnum undantekningum. Gert er ráð fyrir að skatturinn verði 2500 kr. (byggingavísitala 124,9) á hvern gjaldanda við álagningu árið 1989 en að gjaldið hækki síðan árlega í samræmi við breytingar á byggingavísitölu. Undanþegnir gjaldinu eru einstaklingar yngri en 16 ára annars vegar og eldri en 70 ára hins vegar. Í núgildandi lögum eru þeir sem eru eldri en 75 ára undanþegnir gjaldinu. Rétt þykir að miða við starfslokaaldur við álagningu þessa skatts. Jafnframt er óbreytt gert ráð fyrir að skattstjórar felli niður álagningu skattsins á elli- og örorkulífeyrisþega yngri en 70 ára sem dveljast á dvalar- eða hjúkrunarheimilum. Þeir gjaldendur, sem hafa tekjur undir 530.190 kr. á árinu 1988, eru undanþegnir gjaldinu. Gert er ráð fyrir að skattleysismörkum verði breytt árlega í samræmi við breytingar á skattvísitölu. Gera má ráð fyrir að gjaldendur verði um 95 þúsund og að skattheimtan, miðað við 85% innheimtu, gefi Framkvæmdasjóði aldraðra um 200 m.kr. á árinu 1989.
    Hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra er rýmkað nokkuð. Fyllsta samræmis hefur verið gætt varðandi hlutverk sjóðsins annars vegar og fyrirhugaðar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hins vegar. Uppbygging íbúða og dvalarheimila aldraðra er verkefni sveitarstjórna en Framkvæmdasjóðnum er heimilt að styrkja sveitarfélög vegna verkefna af þessu tagi. Þá er það nýmæli að sjóðnum er heimilað að aðstoða sveitarfélög, einkum fámennari sveitarfélög í dreifbýli, við uppbyggingu öldrunarþjónustu.
    Gert er ráð fyrir að það sé skylda hvers sveitarfélags að reka heimaþjónustu fyrir aldraða í sveitarfélaginu. Jafnframt er hvatt til samvinnu um rekstur heimaþjónustu milli þeirra sveitarfélaga sem standa að rekstri heilsugæslustöðvar. Skipulagning heimaþjónustu er falin þeim sveitarfélögum sem að henni standa í stað þess að áður hvíldi hún á herðum stjórnar heilsugæslustöðvar og félagsmálaráða. Eins og fram kemur í athugasemdum við einstakar greinar var haft samstarf um orðalag heimaþjónustukafla frumvarpsins við nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins sem vinnur að undirbúningi lagafrumvarps um félagslega þjónustu sveitarfélaga. Ljóst er að gangi löggjöf um félagslega þjónustu sveitarfélaga í gildi þarf að gera breytingar til samræmis á ákvæðum III. kafla þessa frumvarps, hvort sem það verður orðið að lögum eða enn í frumvarpsformi.
    Veigamestu nýmæli frumvarpsins felast í IV. kafla þess þar sem fjallað er um fyrirkomulag öldrunarþjónustu. Þar er skilið á milli opinnar öldrunarþjónustu annars vegar og stofnanaþjónustu hins vegar. Til opinnar öldrunarþjónustu telst heimaþjónusta, þjónustumiðstöðvar aldraðra, dagvist og sjálfseignar-, leigu- og búseturéttaríbúðir aldraðra. Til stofnanaþjónustu telst þjónustuhúsnæði, þ.e. leiguíbúðir og dvalarheimili sem uppfylla ákveðin skilyrði um þjónustu og hjúkrunardeildir eða hjúkrunarheimili. Þetta fyrirkomulag er mjög í takt við þær breytingar sem nú eru að verða á skipulagi öldrunarþjónustu um land allt og í raun eingöngu staðfesting á því.
    Gerður er skýrari greinarmunur en áður var á framkvæmdaleyfi annars vegar og rekstrarleyfi hins vegar fyrir dagvist og stofnanir fyrir aldraða. Gert er ráð fyrir að enginn megi hefja framkvæmdir við dagvist eða stofnun fyrir aldraða fyrr en að fengnu leyfi heilbrigðisráðherra. Jafnframt er gert ráð fyrir því að leita þurfi staðfestingar heilbrigðisráðuneytis á teikningum sjálfseignar-, leigu- og búseturéttaríbúða aldraðra. Leita skal umsagnar samstarfsnefndar um málefni aldraðra nema þegar um hjúkrunarrými er að ræða, þá skal einnig leita umsagnar landlæknis og héraðslæknis. Sömuleiðis má ekki hefja rekstur dagvistar eða stofnunar fyrir aldraða fyrr en að fengnu rekstrarleyfi heilbrigðisráðherra. Með þessu fyrirkomulagi fær heilbrigðisráðuneytið tækifæri til, í auknum mæli frá því sem nú er, að hafa eftirlit með því að ekki sé hafist handa við framkvæmdir sem e.t.v. eru ótímabærar.
    Önnur meginbreyting frumvarpsins felst í fyrirkomulagi greiðslu vegna dvalar á öldrunarstofnunum.
.      Þrátt fyrir ákvæði gildandi laga um málefni aldraðra er enn við lýði sú regla að aldraðir greiði hlutdeild í dvalarheimiliskostnaði hafi þeir lífeyrissjóðstekjur umfram frítekjumark. Þeir sem ekki hafa aðrar tekjur en bætur almannatrygginga fá ákveðna fjárhæð á mánuði til ráðstöfunar frá Tryggingastofnun ríkisins og stofnunin annast greiðslu vistkostnaðar með svokallaðri elliheimilisuppbót.
.      Þetta fyrirkomulag hefur sætt mikilli gagnrýni af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi sökum þess að þeir sem hafa lífeyrissjóðstekjur og greiða dvöl sína sjálfir hætta því ef heilsa versnar og þeir flytjast yfir á þyngra og dýrara þjónustustig. Þá tekur sjúkratryggingadeild Tryggingarstofnunar ríkisins við greiðslu hjúkrunarkostnaðar og lífeyrissjóðstekjur renna óskertar til hins aldraða. Í öðru lagi hefur gagnrýnin beinst að því að það skuli eingöngu vera lífeyrissjóðstekjur sem með þessum hætti hafa áhrif á hvort hinn aldraði greiði fyrir dvalarheimilisdvöl. Aldraður einstaklingur, sem hefur engar lífeyrissjóðstekjur en e.t.v. verulegar skattfrjálsar eignatekjur, sætir ekki sömu meðferð. Hann heldur eignatekjum sínum óskertum og Tryggingastofnun ríkisins greiðir dvalarheimilisdvöl hans að fullu auk þess sem hann fær mánaðarlega ráðstöfunarfé frá Tryggingarstofnun ríkisins.
.      Þessu fyrirkomulagi er breytt í frumvarpinu þannig að Tryggingastofnun ríkisins greiði fyrir vist á stofnunum fyrir aldraða, sbr. 18. gr. frumvarpsins. Hafi vistmaður tekjur umfram 11.000 kr. á mánuði skal hann taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar. Með tekjum umfram 11.000 kr. skal vistmaðurinn greiða dvalarkostnað að hluta eða öllu. Nánari fyrirmæli um fyrirkomulag þessara greiðslna skal setja með reglugerð. Vistmenn, sem engar tekjur hefur aðrar en bætur almannatrygginga, skulu fá mánaðarlegt ráðstöfunarfé frá Tryggingastofnun ríkisins, samkvæmt reglum síðustu málsgreinar 51. gr. laga um almannatryggingar.
    Í samræmi við frumvarp til laga um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er breytt fyrirkomulagi á greiðslum vegna heimaþjónustu aldraðra. Samkvæmt núgildandi lögum um málefni aldraðra endurgreiða sjúkrasamlög sveitarfélögum 35% rekstrarkostnaðar heimaþjónustu. Nú er gert ráð fyrir að kostnaður af heimaþjónustu skiptist þannig að félagslegi þáttur hennar verði á ábyrgð sveitarfélaga en heilbrigðisþátturinn á vegum ríkisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Efnislega óbreytt frá gildandi lögum. Minni háttar orðalagsbreytingar hafa verið gerðar. Jafnframt hefur verið bætt inn í ákvæðið málslið um að eftir því sem kostur sé skuli virða sjálfsákvörðunarrétt aldraðra varðandi val á úrræðum.

I. KAFLI.


Skipulag öldrunarþjónustu.


Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir að yfirstjórn öldrunarmála verði óbreytt, þ.e. í höndum heilbrigðis- og tryggingaráðherra. Í 2. gr. er kveðið skýrar en áður á um hver verkefni heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins eru á sviði öldrunarmála. Hluti verkefna samstarfsnefndar um málefni aldraðra er færður til öldrunardeildar heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins.
    Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins skal heibrigðis- og tryggingaráðuneytið m.a. hafa frumkvæði að stefnumótun í málefnum aldraðra, annast áætlanagerð um málefni aldraðra fyrir landið allt og gera tillögur til heilbrigðis- og tryggingaráðherra um gerð reglna um kröfur til húsnæðis fyrir aldraða og vistunarmat á öldrunarstofnanir.

Um 3. gr.


    Óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því að ekki er gert ráð fyrir milligöngu félagsmálaráðuneytisins vegna tilnefningar fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Um 4. gr.


    Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því að hluti þeirra verkefna sem áður voru í höndum samstarfsnefndar um málefni aldraðra færast nú beint til deildar þeirrar í heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu sem fer með málefni aldraðra, sbr. 2. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.


    Í ljósi þeirrar reynslu, sem fengist hefur undanfarin sex ár af svæðisstjórnun í málefnum aldraðra samkvæmt lögum um málefni aldraðra, nr. 91/1982, þykir rétt að gera þar á nokkrar breytingar. Í raun er hér ekki um efnisbreytingu að ræða heldur nánari útfærslu á því fyrirkomulagi sem núgildandi lög gáfu kost á.
    Samkvæmt núgildandi lögum skulu stjórnir heilsugæslustöðva og félagsmálaráð þar sem þau starfa annast stjórn öldrunarmála í hverju heilsugæsluumdæmi. Það að hugtakið heilsugæsluumdæmi er notað í gildandi lögum hefur valdið nokkrum misskilningi og staðið í vegi fyrir að svæðisskipulagi öldrunarmála væri hrint í framkvæmd með þeim hætti sem lögin gera ráð fyrir. Jafnframt hefur komið í ljós að ekki þótti nægilega greinilegt hvernig stjórn heilsugæslustöðvar og félagsmálaráð skyldu standa að því samstarfi sem 5. gr. núgildandi laga mælir fyrir um.
    Með orðalagi 5. gr. í frumvarpi þessu er skýrt tekið fram að starfssvæði hverrar heilsugæslustöðvar er sú eining sem svæðisstjórn öldrunarmála byggist á. Þá er og gert ráð fyrir að á hverju starfssvæði starfi öldrunarnefnd. Í öldrunarnefnd eiga sæti fjórir menn, tveir tilnefndir af stjórn viðkomandi heilsugæslustöðvar og tveir tilnefndir af félagsmálaráði(um) eða félagamálanefnd(um) sveitarfélaganna sem starfssvæði heilsugæslustöðvarinnar nær yfir. Þar með er glöggt hvernig að svæðisstjórn öldrunarmála skuli standa.
    Sérákvæði er um öldrunarnefnd í Reykjavík, enda er það eina sveitarfélagið þar sem fleiri en ein heilsugæslustöð er starfandi. Gert er ráð fyrir að í Reykjavík verði ein öldrunarnefnd og í hana tilnefnt af heilbrigðismálaráði og félagsmálaráði, tveir frá hvorum.
    Gert er ráð fyrir að sveitarstjórnir velji nefndinni oddvita úr hópi tilnefndra. Oddviti skal kalla hópinn saman.
    Öldrunarnefnd er ætlað að annast sömu verkefni og áður voru falin stjórnum heilsugæslustöðva og félagsmálaráðum í sameiningu í 5. gr. gildandi laga.
    Þá er nýmæli í greininni að kveðið er á um hver bera skuli kostnað af starfi öldrunarnefnda. Skal hann borinn af þeim sveitarfélögum sem að viðkomandi heilsugæslustöð standa í hlutfalli við fjölda íbúa 65 ára og eldri í hverju sveitarfélagi.
    Gert er ráð fyrir að þegar málefni einstakra öldrunarstofnana á starfssvæði öldrunarnefndar eru til umfjöllunar í nefndinni skuli nefndin gefa stofnuninni kost á að senda fulltrúa sinn á fundinn sem áheyrnarfulltrúa.
    Kosturinn við þetta fyrirkomulag er sá að hér er enn frekar ýtt undir samstarf sveitarfélaga sem þegar standa saman að rekstri heilsugæslustöðvar. Gæti þetta samstarf á sviði öldrunarmála orðið til þess að í ríkara mæli yrði farið að bjóða heimaþjónustu í dreifbýli, en fram til þessa hefur slík þjónusta nær einvörðungu verið í þéttbýlinu.

Um 6. gr.


    Sjötta gr. frumvarpsins er óbreytt frá 6. gr. gildandi laga um málefni aldraðra að því leyti að á starfssvæði hverrar heilsugæslustöðvar skal starfa þjónustuhópur aldraðra. Jafnframt er gert ráð fyrir því að þar sem heilsugæslustöðvar eru fleiri en ein í sama sveitarfélagi geti sveitarstjórn ákveðið að heilsugæslustöðvarnar sameinist um þjónustuhópinn. Í frumvarpinu er ekki gert að skilyrði, eins og er í gildandi lögum, að þjónustuhópurinn tengist heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi. Rétt þykir að hafa þetta atriði opið og láta heimaaðilum á hverjum stað eftir að ákveða hvort og þá hverjum þjónustuhópurinn skuli tengjast.
    Nýmæli er í ákvæðinu að sveitarstjórnum er heimilað að ákveða að öldrunarnefnd starfssvæðisins annist einnig hlutverk þjónustuhóps aldraðra þyki það hentugra.
    Annað nýmæli er í ákvæðinu um hver skuli bera kostnað af starfi þjónustuhóps aldraðra. Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn verði borinn af þeim sveitarfélögum sem á starfssvæðinu eru í hlutfalli við fjölda íbúa 65 ára og eldri í hverju sveitarfélagi.

Um 7. gr.


    Hér er gerð sú breyting að í þjónustuhópi aldraðra skuli ætíð vera fjórir, tveir frá heilsugæslu og tveir frá félagslegri þjónustu. Þar með er heilbrigðisþjónustu og félagslegri þjónustu gert jafnhátt undir höfði í þjónustuhópnum. Sveitarstjórnir skulu velja hópnum oddvita úr hópi tilnefndra. Reynslan þykir sýna að nauðsynlegt sé að hópurinn hafi oddvita sem beri ábyrgð á að hópurinn sé kallaður saman.
    Jafnframt er það nýmæli að þjónustuhópurinn geti ákveðið að gefa öldrunarstofnunum á starfssvæðinu kost á að koma sér saman um einn fulltrúa sem yrði áheyrnarfulltrúi á fundum hópsins.

Um 8. gr.


    Óbreytt frá gildandi lögum.

II. KAFLI

Framkvæmdasjóður aldraðra.

Um 9. gr.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að Framkvæmdasjóður aldraðra, sem stofnaður var með lögum nr. 49 frá 29. maí 1981, starfi áfram og verði styrktur og efldur. Hlutverki sjóðsins er breytt lítils háttar. Til viðbótar fyrra hlutverki um að stuðla að byggingu húsnæðis fyrir aldraða er lagt til að sjóðurinn stuðli einnig að uppbyggingu öldrunarþjónustu almennt.

Um 10. gr.

    Óbreytt er frá gildandi lögum að sérstakt gjald, sem lagt er á alla gjaldendur með ákveðnum undantekningum, sé megintekjustofn Framkvæmdasjóðs aldraðra.
    Gert er ráð fyrir að undanþegnir gjaldinu verði þeir sem eru yngri en 16 ára svo og þeir sem eru eldri en 70 ára. Jafnframt verða undanþegnir gjaldinu þeir gjaldendur sem höfðu á árinu 1988 tekjur undir 530.190 kr. Gert er ráð fyrir að skattleysismörkunum verði breytt árlega í samræmi við breytingar á skattvísitölu. Skattleysismörkin hækka verulega frá því sem áður var. Við álagningu 1987 voru þau 224.100 kr. eða um 360.000 kr. framreiknað samkvæmt breytingum á launavísitölu.
    Reiknað er með að gjaldið verði 2500 kr. við álagningu ársins 1989, miðað við byggingarvísitölu 124,9. Gjaldinu skal síðan breyta árlega, með reglugerð í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu. Síðast, er skatturinn var lagður á, nam hann 1500 kr. Hér er gert ráð fyrir nokkuð meiri hækkun en breytingar
á byggingarvísitölu frá 1987 hefðu haft í för með sér.
    Á árinu 1988 munu einstaklingar, sem greiddu tekjuskatt í staðgreiðslu hafa verið um 96.500 kr. Miðað við 85% innheimtu mun skattheimtan gefa sjóðnum um 200 m.kr. á árinu 1989.

Um 11. gr.

    Óbreytt frá 11. gr. gildandi laga.

Um 12. gr.

    Þær breytingar sem gerðar eru í 12. gr. frumvarpsins frá 12. gr. gildandi laga eru í samræmi við breytingar sem frumvarpið gerir á skilgreiningu húsnæðis fyrir aldraða. Í samræmi við aukið hlutverk Framkvæmdasjóðsins er og gerð sú viðbót við upptalningu á hlutverkum að í 4. tölul. er gert ráð fyrir að sjóðurinn geti stutt sveitarfélög til að koma á fót heimaþjónustu fyrir aldraða.

Um 13. gr.

    Óbreytt frá 13. gr. gildandi laga.

Um 14. gr.

    Óbreytt frá 14. gr. gildandi laga.

III. KAFLI

Heimaþjónusta.

Um 15. gr.

    Skilgreiningin á heimaþjónustu aldraðra er óbreytt frá 15. gr. gildandi laga. Í frumvarpinu er hins vegar gerð sú meginbreyting að hverju sveitarfélagi er skylt að reka heimaþjónustu fyrir aldraða. Eftir því sem kostur er skulu sveitarfélög þau sem standa saman að öldrunarnefnd sameinast um rekstur heimaþjónustu aldraðra á starfssvæðinu. Í ljósi þess að á öldrunarþjónustu verður að líta sem eina samfellda þjónustuheild þykir nauðsynlegt að setja ákvæði um þessa skyldu til heimaþjónustu. Ef heimaþjónustu er ekki til að dreifa verður óhjákvæmilega meira álag á þeim þætti þjónustukeðjunnar sem fyrir er, þ.e. stofnanaþjónustunni.
    Með hliðsjón af verkaskiptingu milli ráðuneyta er felld niður heimild til handa heilbrigðis- og tryggingaráðherra að setja reglugerð um að heimaþjónusta taki til fleiri en aldraðra.
    Í 15. gr. frumvarpsins er fluttur sá málsliður 16. gr. gildandi laga sem fjallar um að heimaþjónustu skuli veita sem kvöld-, nætur- og helgidagaþjónustu.
    Við undirbúning frumvarps þessa var haft samstarf við stjórnskipaða nefnd sem vinnur að undirbúningi frumvarps um félagslega þjónustu sveitarfélaga. Einsýnt er að verði slíkt frumvarp að lögum eftir gildistöku þessa frumvarps mun nauðsynlegt að endurskoða ákvæði III. kafla um heimaþjónustu til samræmis.

Um 16. gr.

    Í 16. gr. frumvarpsins eru gerðar þær breytingar á yfirstjórn heimaþjónustu aldraðra að hún er sett í hendur viðkomandi sveitarfélaga að fengnum tillögum öldrunarnefndar og þjónustuhóps aldraðra á starfssvæðinu.

IV. KAFLI

Fyrirkomulag öldrunarþjónustu.

    Reynslan af sex ára gildistíma laga um málefni aldraðra hefur sýnt að nokkra uppstokkun þarf að gera á skilgreiningum öldrunarþjónustunnar. Þessi uppstokkun kemur fram í 17. og 18. gr. frumvarpsins.

Um 17. gr.

    Í þessu ákvæði er fjallað um opna öldrunarþjónustu. Til hennar telst heimaþjónusta aldraðra, sem III. kafli frumvarpsins (og raunar III. kafli gildandi laga) fjallar ítarlega um. Til opinnar öldrunarþjónustu telst einnig samkvæmt frumvarpinu þjónustumiðstöðvar aldraðra, dagvist aldraðra og sjálfseignar- og búseturéttaríbúðir fyrir aldraðra.
    Með þjónustumiðstöð aldraðra er átt við húsnæði þar sem boðið er upp á aðstöðu til tómstundavinnu og skipulegs félagsstarfs. Þjónustumiðstöðvar geta verið sjálfstæðar eða í starfstengslum við aðrar stofnanir, t.d. dagvistir, sbr. 17. gr. 3. tölul., sjálfseignar-, leigu- og búseturéttaríbúðir aldraðra, sbr. 17. gr. 4. tölul., stofnanir aldraðra, sbr. 18. gr. eða heilsugæslustöð. Gert er ráð fyrir að þjónustumiðstöðvum sé dreift um íbúðahverfi þannig að ekki séu fleiri en 1000 íbúar í heimahúsum 65 ára og eldri um hverja þjónustumiðstöð. Á þetta auðvitað fyrst og fremst við í þéttbýli.
    Með dagvist aldraðra er átt við starfssemi þar sem boðið er a.m.k. upp á eftirtalda þjónustu: flutningsþjónustu að og frá heimili einstaklingsins, tómstundaiðju, aðstöðu til léttra líkamsæfinga, fæði, hvíldaraðstöðu og aðstoð við böðun. Einstaklingur á dagvist getur komið annaðhvort daglega eða
ákveðna daga. Dagvist má hvort sem er reka sjálfstætt eða í tengslum við aðra starfsemi, t.d. þjónustumiðstöð aldraðra, sbr. 17. gr. 3. tölul., sjálfseignar-, leigu-, og búseturéttaríbúðir aldraðra, sbr. 17. gr. 4. tölul., eða aðrar stofnanir aldraðra skv. 18. gr.
    Með sjálfseignar-, leigu- og búseturéttaríbúðum aldraðra er átt við það húsnæðisfyrirkomulag fyrir aldraða sem nú gerist æ algengara. Gert er ráð fyrir að þar sé völ sömu þjónustu og í þjónustuhúsnæði aldraðra skv. 1. tölul. 18. gr.

Um 18. gr.

    Í 18. gr. frumvarpsins er fjallað um stofnanaþjónustu aldraðra. Skilgreiningum þar er fækkað frá því sem er í 17. gr. gildandi laga. Gert er ráð fyrir að stofnanir fyrir aldraða séu tvenns konar, annars vegar þjónustuhúsnæði og hins vegar hjúkrunardeildir eða hjúkrunarheimili.
    Með þjónustuhúsnæði aldraðra er annars vegar átt við þær íbúðir fyrir aldraða, sem í gildandi lögum skilgreinast sem verndaðar þjónustuíbúðir og hins vegar dvalarheimili. Það hefur lengi verið ljóst að sú þjónusta sem veitt er í vernduðum þjónustuíbúðum annars vegar og á dvalarheimilum hins vegar er mjög sambærileg. Í dag felst munurinn fyrst og fremst í tvennu, annars vegar mismunandi greiðslufyrirkomulagi eftir því hvort einstaklingur er í verndaðri þjónustuíbúð eða á dvalarheimili og hins vegar í virkni og þátttöku íbúans.
    Hér er þessar tvær tegundir húsnæðis settar undir sama hatt, þjónustuhúsnæði aldraðra. Gert er ráð fyrir að á báðum stöðum geti verið mismunandi hve mikla þjónustu einstaklingar fái. Greiðslufyrirkomulagið verður einnig samræmt, sbr. 26. gr.
    Skilgreiningin á hjúkrunardeildum eða hjúkrunarheimilum er efnislega óbreytt frá 3. tölul. 17. gr. gildandi laga. Þó er gert ráð fyrir því að krafan um að einstaklingsherbergi séu aldrei færri en helmingur rýmis nái eingöngu til þeirra stofnana sem byggðar eru eftir gildistöku þessa frumvarps.
    Frumvarpið gerir ekki sérstaklega ráð fyrir því húsnæði fyrir aldraða sem í núgildandi lögum er nefnt þjónustuíbúðir aldraðra, enda hefur reynslan orðið sú að eftir því sem íbúar þar hafa elst hefur orðið að breyta þeim smátt og smátt yfir í verndaðar þjónustuíbúðir.

Um 19. gr.

    Í þessu ákvæði er fjallað um vistunarmat sem skilyrði dvalar á öldrunarstofnun.
    Ákvörðun um vistun á öldrunarstofnun er í höndum stjórnar stofnunar, enda hafi öðrum skilyrðum ákvæðisins um vistunarmat þjónustuhóps aldraðra verið fullnægt.
    Vistunarmat er forsenda þess að í hvert laust rými í öldrunarstofnun veljist réttur einstaklingur. Þetta fyrirkomulag er réttlætismál og nauðsynlegt til að nýting þeirra fjármuna, sem í öldrunarmál fara, verði í þágu þeirra sem í mestri þörf eru. Gert er ráð fyrir að matið verði að jafnaði í höndum þjónustuhóps aldraðra (eða öldrunarnefndar þar sem þær sinna hlutverki þjónustuhópsins).
    Sjálfseignarstofnanir hafa talið þetta fyrirkomulag sneiða að sjálfstæði sínu. Svo er ekki. Vistunarmatið er til mikils hagræðis fyrir öldrunarstofnanir. Ferlið yrði eitthvað á þessa leið: Þegar aldraður einstaklingur óskar eftir vistun á öldrunarstofnun þá vísar viðkomandi stofnun honum áfram til þjónustuhóps aldraðra í stað þess að skrá hann á biðlista. Næst þegar rými losnar á öldrunarstofnun hefur hún samband við þjónustuhópinn á starfssvæðinu og fær þar uppgefin nöfn þeirra einstaklinga sem metnir hafa verið í mestri þörf fyrir rými. Stofnunin hefur síðan í hendi sér að velja úr hópi þeirra einstaklinga sem þeir fá þannig uppgefna.
    Í ákvæðinu er það nýmæli að hafi aldraður einstaklingur verið lengur en sex vikur á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar skuli þjónustuhópur aldraðra meta þörf hans á vistun á öldrunarstofnun. Þetta ákvæði er sett til að tryggja það að einstaklingar sem ekki reynist unnt að útskrifa af sjúkrahúsum, t.d. af félagslegum ástæðum, komist á þann biðlista sem þjónustuhópur aldraðra mun halda. Á þessu hefur verið nokkur misbrestur.

Um 20. gr.

    Í 20. gr. er fjallað um hvernig standa skuli að því að afla framkvæmdaleyfis áður en farið er af stað með byggingu dagvistar eða öldrunarstofnunar.
    Með þessum hætti verður auðveldara en nú er að hafa eftirlit með byggingu húsnæðis fyrir aldraða strax frá upphafi og jafnvel að koma í veg fyrir að húsnæði, sem ekki er tímabært, verði byggt.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að áður en framkvæmdir hefjast við sjálfseignar-, leigu- og búseturéttaríbúðir fyrir aldraða skuli afla samþykkis
heilbrigðisráðuneytis. Þetta er gert til að tryggja það að húsnæði af þessu tagi uppfylli þau skilyrði sem gera þarf til sérhannaðs húsnæðis fyrir aldraða.

Um 21. gr.

    Hér er fjallað um það hvernig staðið skuli að því að fá rekstrarleyfi þegar búið er að reisa dagvist eða stofnun fyrir aldraða.

Um 22. gr.

    Ákvæðinu er breytt frá 22. gr. gildandi laga í þá veru að eigendum stofnana fyrir aldraða skv. 18. gr. er í sjálfsvald sett hvernig þeir skipa stjórn og hversu margir sitja þar. Óbreytt er þó að ef stofnun er í beinum starfstengslum við sjúkrahús skuli ákvæði 30. gr. laga nr. 59/1983 um heilbrigðisþjónustu gilda.

Um 23. gr.

    Óbreytt frá 23. gr. gildandi laga.

V. KAFLI

Kostnaður við öldrunarþjónustu.

    Núverandi fyrirkomulag um greiðslur vegna dvalar á dvalarheimilum aldraðra hefur lengi verið gagnrýnt. Í núgildandi lögum um málefni aldraðra er að finna ákvæði sem gerðu ráð fyrir breytingum á því en með bráðabirgðaákvæði í sömu lögum var ríkisstjórn falið að ákveða hvenær nýtt fyrirkomulag skyldi öðlast gildi. Af því hefur enn ekki orðið, m.a. sökum þess að fyrirkomulagið var talið óframkvæmanlegt með þeim hætti, sem lögin gera ráð fyrir.
    Staðan er því enn óbreytt frá því sem hún var við gildistöku laga um málefni aldraðra, 1. janúar 1983, þ.e. íbúar á dvalarheimilum sem hafa aðrar tekjur en bætur almannatrygginga greiða fyrir vist sína sjálfir að hluta eða fullu. Flytjist þessi einstaklingur síðan á hjúkrunardeild hættir hann að greiða hlutdeild í kostnaði og lífeyrissjóðstekjur renna að fullu til einstaklingsins.
    Hér er gerð tillaga um sama fyrirkomulag og núgildandi lög gerðu ráð fyrir, en með nýrri útfærslu sem samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins er framkvæmanleg. Þessi útfærsla er í raun hin sama og notuð hefur verið nú um árabil gagnvart greiðsluþátttöku íbúa á dvalarheimilum aldraðra.

Um 24. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að kostnaður af dagvist aldraðra greiðist af Tryggingstofnun ríkisins. Þeir sem á dagvist eru skulu þó taka þátt í kostnaði af dagvistinni, þó aldrei með hærri fjárhæð á mánuði en sem nemur einstaklingsgrunnlífeyri Tryggingastofnunar ríkisins.

Um 25. gr.

    Hér er að finna ákvæði um það hvernig greiða skuli fyrir þjónustu sem veitt er í sjálfseignar- og búseturéttaríbúðum aldraðra. Gert er ráð fyrir að hinn aldraði sjálfur standi að fullu undir þeim kostnaði. Rekstraraðili þjónustunnar ákveður gjaldið. Um heimaþjónustu í þessum íbúðum gilda þó sömu reglur og um heimaþjónustu sem veitt er almennt, sbr. 29. gr.

Um 26. gr.

    Samkvæmt 26. gr. skal dvalarkostnaður á stofnunum fyrir aldraða skv. 18. gr. greiðast af Tryggingastofnun ríkisins, sbr. þó 27. gr.

Um 27. gr.

    Vistmenn, sem hafa tekjur umfram ákveðna fjárhæð á mánuði, 11.000 kr., skulu taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar. Með þeim tekjum, sem þessir aðilar hafa umfram viðmiðunarmarkið, 11.000 kr., skulu þeir greiða dvalarkostnað sinna, að hluta eða öllu.
    Ítarlegri ákvæði um þátttöku vistmanna í greiðslu dvalarkostnaðar skal setja með reglugerð, m.a. með hvaða hætti viðmiðunarmarkið skuli hækka.

Um 28. gr.

    Þetta ákvæði tryggir vistmönnum á stofnunum fyrir aldraða skv. 18. gr. mánaðarlegt ráðstöfunarfé frá Tryggingastofnun ríkisins. Um mánaðarlegt ráðstöfunarfé skulu gilda ákvæði lokamgr. 51. gr. laga um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum.

Um 29. gr.

    Gerð er breyting á skiptingu kostnaðar vegna heimaþjónustu aldraðra til samræmis við frumvarp til laga um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélög skulu bera kostnað af félagslegum þætti hennar en ríkissjóður af heilbrigðisþættinum.
    Gert er ráð fyrir að sveitastjórnum sé heimilt að taka gjald vegna ýmissa félagslegra þátta heimaþjónustu.
    Undanþegnir gjaldskyldu skulu þó alltaf vera þeir einstaklingar sem ekki hafa aðrar tekjur en sem nemur ellilífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga.

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

Um 30. gr.

    Þarfnast ekki skýringa.

Um 31. gr.

    Gert er ráð fyrir rúmum gildistökufresti, m.a. til að unnt verði að undirbúa nauðsynlegar reglugerðir, t.d. um vistunarmat. Jafnframt er gert ráð fyrir að 1. tölul. 10. gr. öðlist þegar gildi þannig að unnt verði að leggja hið sérstaka gjald á við álagningu sumarið 1989.