Ferill 460. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 460 . mál.


Nd.

821. Frumvarp til laga



um breytingu á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, ásamt síðari breytingum.

Flm.: Pálmi Jónsson, Alexander Stefánsson, Ingi Björn Albertsson,


Hjörleifur Guttormsson, Málmfríður Sigurðardóttir, Stefán Valgeirsson.



1. gr.

    4. mgr. 65. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 62/1988, falli brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Við slit á félaginu „Bifreiðaskoðun Íslands hf.“ skal dómsmálaráðherra heimilt að semja um kaup á þeim hluta af eignum félagsins sem henta þykir fyrir Bifreiðaeftirlit ríkisins.

Greinargerð.


    Á síðasta Alþingi voru lögfestar breytingar á umferðarlögum sem fólu í sér tvö meginatriði. Í fyrsta lagi að hætt skyldi að skrá ökutæki í umdæmi þar sem skráningarskyldur eigandi þess á lögheimili eða varnarþing. Í öðru lagi var ríkissjóði heimilað að taka þátt í hlutafélagi sem gæti tekið við hlutverki Bifreiðaeftirlits ríkisins samkvæmt nánari ákvörðun dómsmálaráðherra. Þrátt fyrir þetta eru ákvæði umferðarlaga um Bifreiðaeftirlit ríkisins óskert í lögunum.
    Það er skoðun flutningsmanna þessa frumvarps að þær breytingar, sem gerðar voru á lögunum á síðasta Alþingi, hafi ekki verið til bóta, heldur þvert á móti. Látið var í veðri vaka af þeim sem knúðu breytingarnar fram að þeim mundi fylgja bætt þjónusta og hagkvæmni, sparnaður bæði fyrir almenning og hið opinbera. Þessu er að flestu leyti öfugt farið og kemur það flutningsmönnum ekki á óvart. Nægir í því efni að vitna til varnaðarorða af þeirra hálfu í umræðum um málið á síðasta Alþingi.
    Með þessu frumvarpi leggja flutningsmenn til að felld verði niður úr umferðarlögum sú málsgrein sem upp var tekin í lögin á síðasta Alþingi og heimilar ríkissjóði að taka þátt í hlutafélagi sem tæki við hlutverki Bifreiðaeftirlits ríkisins samkvæmt nánari ákvörðun dómsmálaráðherra, þ.e. 4. mgr. 65. gr. Þetta þýðir að ríkissjóður mundi draga sinn hlut út úr fyrirtækinu „Bifreiðaskoðun Íslands hf.“ og það síðan lagt niður. Í frumvarpinu er ákvæði til bráðabirgða þar sem dómsmálaráðherra er heimilað að semja um kaup á þeim hluta af eignum „Bifreiðaskoðunar Íslands hf.“ sem við slit þess félags mundu henta Bifreiðaeftirliti ríkisins.
    Þrátt fyrir að hið nýja skráningarkerfi hafi mikla galla í för með sér og nýjan kostnað líta flutningmenn svo á að það sé komið of langt til þess að frambærilegt sé að hverfa frá því. Með frumvarpinu er því ekki lagt til að því sé breytt.
    Tilefni þess að flutningmenn telja sig knúða til að flytja þetta frumvarp er einkum eftirfarandi:
1.     Skráning, skoðun og eftirlit með ökutækjum, sem í eðli sínu er lögreglu- og öryggiseftirlit, á ekki heima í höndum einkaaðila.
2.     Þjónusta „Bifreiðaskoðunar Íslands hf.“ virðist eiga að vera stórum lakari og handahófskenndari en var hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins, enda í sumum atriðum háð geðþóttaákvörðunum fyrirtækisins.
3.     Þjónustugjöld hafa verið hækkuð óhóflega, þvert ofan í boðaða hagkvæmni og sparnað.
4.     Bílpróf, sem áður voru á vegum Bifreiðaeftirlits ríkisins, eru nú á vegum dómsmálaráðuneytisins og í algerum ólestri, þannig að ungmenni þurfa víða að leggja í stóraukinn kostnað og langferðir til að fá að gangast undir bílpróf.
5.     Samtímis því að gjaldskrá fyrir veitta þjónustu hefur stórhækkað hefur ríkissjóður verið sviptur tekjustofni því flest ár skilaði Bifreiðaeftirlit ríkisins verulegum tekjum til ríkissjóðs. Þannig voru t.d. tekjur af þjónustugjöldum Bifreiðaeftirlitsins 1986 216 millj. kr., útgjöldin 109,8 millj. kr. og því skilað til ríkissjóðs 106,2 millj. kr.
    Gjaldskrá Bifreiðaeftirlits ríkisins, dags. 2. júní 1988, er hér birt með sem fylgiskjal og enn fremur gjaldskrá „Bifreiðaskoðunar Íslands hf.“ sem gefin er út af dómsmálaráðuneytinu 2. jan. 1989. Við samanburð á gjaldskránum sést að ýmsir gjaldskrárliðir hafa hækkað óhóflega, þ.e. þrefaldast eða meira, og t.d. ógerlegt að vita hvaða breytingar ráða því að um sé að ræða það sem kallað er „breytt ökutæki“, en þá kostar skoðun 10.000 kr.
    Flutningsmenn telja að öll þessi skipulagsbreyting hafi farið af stað með þeim hætti að rétt sé að snúa við áður en lengra er haldið. Lagaákvæði um Bifreiðaeftirlitið eru enn í gildi. Starfsemi þess var að sjálfsögðu ekki óbreytanleg og eðlilegt að athuga af fullri alvöru að fela löggiltum verkstæðum hluta af því skoðunarstarfi sem fram þarf að fara. Það mun á hinn bóginn ekki vera á döfinni hjá hinu nýja fyrirtæki.



Fylgiskjal I.


G jaldskrá Bifreiðaeftirlits ríkisins frá 2. júní 1989.


(Upphæðir í kr.)



Skráningargjöld.



     1. Skráning bifreiðar, nýskráning ..................         2.900
     2. Skráning bifreiðar, umskráning ..................         4.300
     3. Skráning eigendaskipta að bifreið ...............         1.500
     4. Skráning bifhjóls, nýskráning ...................         2.900
     5. Skráning bifhjóls, umskráning ...................         4.300
     6. Skráning eigendaskipta að bifhjóli ..............         1.500
     7. Skráning og umskráning létts bifhjóls ...........         1.100
     8. Skráning eigendaskipta að léttu bifhjóli ........         1.100
     9. Skráning og umskráning torfærutækis .............         1.100
    10. Skráning og umskráning dráttarvélar .............         1.100
    11. Skráning og umskráning dráttarvélar .............         1.100
    12. Skráning eigendaskipta að dráttarvél ............         1.100
    13. Skráning og umskráning eftirvagns ...............         1.500
    14. Skráning eigendaskipta að eftirvagni ............         1.500
    15. Skráning og umskráning tengitækis ...............         1.500
    16. Skráning eigendaskipta að tengitæki .............         1.500

Skráningarmerki o.fl.


     1. Skráningarmerki á bifreið, tvö merki ............         1.500
     .Endurskin á parið ...............................         1.200
     2. Skráningarmerki á eftirvagn/tengitæki, eitt merki         750
     3. Skráningarmerki á létt bifhjól, eitt merki ......         750
     4. Skráningarmerki á bifhjól, eitt merki ...........         750
     5. Skráningarmerki á torfærutæki, eitt merki .......         750
     6. Skráningarmerki á dráttarvél, eitt merki ........         750
     7. CD-merki, eitt merki ............................         1.500
     8. Kennslumerki, eitt merki ........................         2.500
     9. Merki fyrir neyðarútgang, eitt merki ............         750
    10. Merki fyrir farþegafjölda, eitt merki ...........         750

Skoðun ökutækja.


     1. Aðalskoðun eftirvagns ...........................         1.200
     2. Aðalskoðun létts bifhjóls .......................         300
     3. Endurskoðun ökutækis nema létts bifhjóls ........         600
     4. Endurskoðun létts bifhjóls ......................         200
     5. Skoðun endurskráðrar bifreiðar ..................         1.500
     6. Skoðun innfluttrar notaðrar bifreiðar ...........         1.500
     7. Skoðun breyttrar bifreiðar ......................         3.000
     8. Skoðun bifreiðar fyrir aksturskeppni ............         600
     9. Skoðun bifreiðar 10 farþega og fleiri ...........         3.000

    Ath.:     Samkvæmt reglugerð sem gilti á þessum tíma var gjald fyrir aðalskoðun bifreiðar eða bifhjóls 1200 kr. Ekkert gjald var greitt fyrir skoðun á innfluttri bifreið ef hún var hluti af búslóð eiganda.



Fylgiskjal II.


Stjórnartíðindi B 1 — 1989.




Repró.