Ferill 475. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 475 . mál.


Sþ.

1082. Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Þorvalds Garðars Kristjánssonar um þróun launa ríkisstarfsmanna miðað við laun á

    Allt fram til ársins 1962 voru laun ríkisstarfsmanna ákveðin með launalögum. Með lögum nr. 55/1962 fengu opinberir starfsmenn takmarkaðan samningsrétt, en í þeim lögum var kveðið á um að ef samningar tækjust ekki skyldi deilunni vísað til sáttasemjara ríkisins. Næðust ekki sættir innan tiltekins tíma skyldi Kjaradómur úrskurða í deilunni.
    Ríkisstarfsmenn, sem eru félagar í aðildarfélögum BSRB, fengu samnings- og verkfallsrétt með lögum nr. 29 frá 26. maí 1976. Háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn fengu verkfallsrétt rúmum áratug síðar, en með lögum nr. 94 frá 31. desember 1986 fékk Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna í ríkisþjónustu (BHMR) fullan samnings- og verkfallsrétt. Kjaradómur ákveður hins vegar enn laun og starfskjör æðstu yfirmanna ríkisins.
    Opinberar upplýsingar um laun ríkisstarfsmanna eru fyrirliggjandi í fréttariti kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna (KOS) fyrir árin 1987 og 1988. Þá hefur Launaskrifstofa ríkisins (áður launadeild fjármálaráðuneytisins) gert árlegar launagreiningar sem ná aftur til ársins 1980. Þjóðhagsstofnun hefur metið kauptaxta opinberra starfsmanna og nær það mat aftur til ársins 1970. Þó vantar þar sundurliðun á stéttarfélög og bandalög. Þessar upplýsingar eru nýttar við gerð þeirra taflna sem hér fara á eftir. Rétt er að benda á að hér er um áætlanir að ræða, einkum fyrir eldri ár, og þá skal tekið fram að nokkuð kann að skorta á að innbyrðis samræmi sé milli ára vegna mismunandi heimilda. Tölur um laun á almennum markaði eru fengnar úr Fréttabréfi kjararannsóknarnefndar.
    Eins og fram kom hér að ofan fengu ríkisstarfsmenn verkfallsrétt í tveimur áföngum, fyrst BSRB og síðar BHMR, og er því rétt að fjalla um hvorn hópanna fyrir sig. Taka skal einnig fram að samanburður á launum og launakjörum einstakra stétta er ákaflega erfiður. Hér koma til fjölmargir þættir, svo sem menntun, ábyrgð, aðbúnaður á vinnustað (þar með niðurgreiddar máltíðir), dagvinnuskylda og greiddir matar- og kaffitímar og launakerfi (þar með þáttur afkastahvetjandi greiðslufyrirkomulags í myndun launa).

1. BSRB.
    Með lögum nr. 29/1976 fengu félagar í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja verkfallsrétt. BSRB er eins og nafnið bendir til bandalag ýmissa stéttarfélaga. Nú eru aðildarfélög þess alls 39, þar af 13 þeirra félög ríkisstarfsmanna.
    Þegar yfir lengri tíma er litið hafa orðið mjög miklar breytingar á Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Þannig gengu háskólamenn úr bandalaginu 1959 er BHM var stofnað og Kennarafélag Íslands gekk úr bandalaginu árið 1985. Þá má enn nefna að forstöðumenn ýmissa ríkisstofnana hafa farið úr BSRB, en sú þróun hefur átt sér stað yfir lengra tímabil.
    Vegna þessara breytinga sem orðið hafa á BSRB, verður að túlka allar tölur um laun þeirra miðað við aðra hópa með mikilli varúð. Þegar á heildina er litið hafa þau atriði sem hér hafa verið nefnd leitt til lækkunar meðallauna félaga innan BSRB. Til þess að gera samanburð við eldri tölur raunhæfan eru BSRB og KÍ dregin hér saman, en ekki er kostur á að taka tillit til annarra breytinga, sem orðið hafa á aðildarfélögum bandalagsins og hér hafa verið nefndar.

2. BHMR.
    Bandalag háskólamanna er annars vegar fagfélag háskólamanna og hins vegar stéttarfélag fyrir háskólamenn í ríkisþjónustu, BHMR. Aðildarfélög bandalagsins eru nú 26 talsins, en verkfræðingar í ríkisþjónustu sögðu sig úr bandalaginu árið 1986. Þá gengu háskólamenntaðir hjúkrunarfræðingar í félagið.
    Í lögum um Kjaradóm, nr. 23/1977 (upphaflega nr. 55 28. apríl 1962) er kveðið á um að „Kjaradómur skal gæta þess við úrlausnir sínar, að ríkisstarfsmenn njóti sambærilegra kjara og þeir menn með svipaða menntun, sérhæfni og ábyrgð, sem vinna hliðstæð störf hjá öðrum en ríkinu. Þá skal hafa hliðsjón af almennum afkomuhorfum þjóðarbúsins.“ Túlkun þessa ákvæðis laganna var mjög umdeilt á þeim tíma er Kjaradómur var málskotsaðili kjaradeilna einkum hvað varðar laun háskólamenntaðra ríkistarfsmanna. Um ýmsa stóra hópa opinberra starfsmanna, svo sem starfsfólk heilbrigðisstofnana og skóla, gildir að þeirra störf eiga sér vart hliðtæður á almennum markaði.
    Árið 1984 vann Hagstofa Íslands samanburðarkönnun á kjörum háskólamanna í ríkisþjónustu og í einkageira að beiðni fjármálaráðherra og BHMR. Þá var skipuð nefnd, svokölluð „nefnd um kjarasamanburð BHMR“, á vegum aðila til að vinna úr þeim gögnum er Hagstofan safnaði. Taka skal fram að ágreiningur varð í nefndinni um túlkun á niðurstöðum könnunar Hagstofu og í séráliti Birgis
Björns Sigurjónssonar, fulltrúa BHMR, í nefndinni kemur fram fyrirvari um aðferðir og niðurstöður í útgefinni álitsgerð nefndarinnar.
    Í áliti nefndarinnar var bent á fjölmörg vandamál sem upp koma þegar bera á saman launatekjur á milli starfshópa með mismunandi launakerfi. Þannig má benda á að yfirmenn eru mun fjölmennari í ríkisþjónustu en í einkageira. Vegna mismunandi launakerfa er mikilvægt að bera saman mismunandi launahugtök. Þannig er til að mynda algengt að háskólamenntuðum starfsmönnum í einkageira sé ekki greitt sérstaklega fyrir eftirvinnu og á móti tíðkast greiðsla metinnar yfirvinnu („óunninnar“) í nokkrum mæli hjá ríkisstarfsmönnum, einkum hjá yfirmönnum.
    Lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna eru eins og kunnugt er betri en gengur og gerist hjá starfsmönnum í einkaþjónustu. Dr. Pétur H. Blöndal tryggingafræðingur gerði að beiðni nefndarinnar athugun á verðmæti lífeyrisréttinda ríkisstarfsmanna. Á grundvelli þess álits gerði meiri hluti nefndarinnar ráð fyrir að betri lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna jafngiltu 9% álagi á dagvinnulaun ríkisstarfsmanna. Í kafla um helstu niðurstöður í áliti nefndarinnar stendur: „Tiltölulega fáir starfshópar háskólamanna í ríkisþjónustu eiga sér beinar hliðstæður á almennum markaði, en þeir eru einkum í verktæknilegum og viðskiptalegum starfsgreinum. Heildartekjur í þessum starfsgreinum voru í maí 1984 um 10–25% hærri á einkamarkaði, en frá því að vera jöfn upp í 16% hærri eftir að reiknað hefur verið með verðmætari lífeyrisréttindum ríkisstarfsmanna.“ Í sama kafla er fjallað um samanburð á dagvinnulaunum. „Sérstök óvissa ríkir um sambærileik dagvinnulauna, eftir því hvernig starfsskyldum og launakerfum er háttað á almennum markaði. Munar miklu meiru á formlegum dagvinnulaunum en heildartekjum, upp í 50–60% á öllum starfsmönnum og meira á almennum starfsmönnum. Hins vegar bæta ríkisstarfsmenn sér þetta að hluta upp með yfirvinnulaunum, sem námu 46% á dagvinnugrunn á móti 23% á almennum markaði 1984, eða með aukagreiðslum alls 66% á móti 37%.“
    Helstu niðurstöður könnunar Hagstofunnar á launum háskólamenntaðra starfsmanna á almennum markaði og ríkisstarfsmanna eru dregnar saman í eftirfarandi töflu sem fengin er úr álitsgerð nefndar um kjarasamanburð BHMR.
Laun ríkisstarfsmanna eru sett jafnt og 100 og sýnir því taflan hversu hærra launaðir starfsmenn í einkageira eru en í ríkisþjónustu:


Tafla sett í Gutenberg.




    Í þessari töflu eru einungis bornir saman þeir hópar háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna sem hafa markaðsviðmiðun, þ.e. að eftirspurn er eftir þjónustu þeirra á almennum markaði, en hér er um að ræða um 1 / 4 ríkisstarfsmanna. Launatekjur annarra hópa ríkisstarfsmanna sýndu sig að vera nokkru lægri en þeirra sem hafa markaðsviðmiðun. Hér munar um 6% í dagvinnutekjum almennra starfsmanna og um 16% í heildarlaunagreiðslum.
    Að beiðni samanburðarnefndar fjármálaráðherra og BHMR vann Þjóðhagsstofnun einnig samanburðarkönnun á launatekjum félagsmanna innan BHMR og háskólamanna í einkaþjónustu, en við þá könnun var stuðst við skattframtöl 1984 (tekjur 1983). Könnunin tók til fullvinnandi launþega í einkaþjónustu og í opinberri þjónustu og í fyrri hópnum voru um 700 manns en 3000 í þeim síðari. Til þess að nálgast laun fyrir dagvinnu var beitt þeirri aðferð að reikna dagvinnulaun út frá lífeyrissjóðsiðgjöldum og þannig fundin „stílfærð dagvinnulaun“. Niðurstaða þessarar könnunar var að laun háskólamenntaðra í einkaþjónustu væru um 9–15% hærri en í opinberri þjónustu, án tillits til betri lífeyrisréttinda
hinna síðarnefndu. Könnunin leiddi í ljós verulegan mun á launum háskólamenntaðra karla og kvenna í opinberri þjónustu, en heildarlaun karla í opinberri þjónustu reyndust 45–50% hærri en laun kvenna. Svipaður mismunur var á launum karla og kvenna í einkaþjónustu, en hlutfallslega færri konur voru í einkaþjónustu en í opinberri þjónustu. Könnunin leiddi í ljós að laun háskólamenntaðra karla í einkaþjónustu væru 6–8% hærri en í opinberri þjónustu.
    Mikill mismunur er á aðferðum í könnunum Hagstofu og Þjóðhagsstofnunar. Í þeirri fyrri var eingöngu leitað eftir upplýsingum um laun háskólamanna í einkaþjónustu og þau síðan borin saman við upplýsingar Launaskrifstofu ríkisins um laun í ríkisþjónustu. Síðari könnunin var alfarið byggð á skattframtölum launþega í einka- og opinberri þjónustu. Niðurstöður þessara kannana eru í raun ekki ósvipaðar hvað heildarlaun varðar, en hér er stuðst við túlkun í álitsgerð títtnefndrar nefndar um kjarasamanburð BHMR á Hagstofukönnuninni. Hins vegar er meiri munur á mati á dagvinnulaunum, en Þjóðhagsstofnun mat mun á stílfærðum dagvinnulaunum 9 1 / 2 % starfsmönnum í einkaþjónustu í vil og í álitsgerð samanburðarnefndar er munurinn talinn vera upp í 50–60%.
    Rétt er að benda á að þessar kannanir voru gerðar þegar kaupmáttur launa, og þó einkum taxtakaups, var verulega rýr miðað við það sem síðar varð. Ekki hafa verið unnar neinar viðlíka kannanir og þær sem hér var gerð grein fyrir síðan 1984 og liggja því ekki fyrir óyggjandi tölur um þróunina til dagsins í dag. Slíkar kannir eru viðamiklar og vandasamar, eins og hér hefur verið vikið að.

Niðurstöður.
    Sá samanburður sem hér fylgir er við launþega innan ASÍ, en allgóðar upplýsingar um laun þeirra er að finna í fréttabréfum kjararannsóknarnefndar. Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna birtir í fréttariti sínu upplýsingar um laun opinberra starfsmanna, en þær tölur ná einungis til áranna 1987 og 1988. Stuðst er við óbirt gögn frá Launaskrifstofu ríkisins um meðallaun félaga innan BSRB og BHMR aftur til ársins 1980. Upplýsingar um laun opinberra starfsmanna fyrir 1980 eru af mjög skornum skammti, en hér hefur verið notuð vísitala kauptaxta opinberra starfsmanna, sem Þjóðhagsstofnun hefur birt, til þess að áætla laun opinberra starfsmanna. Sama vísitala er notuð til að áætla laun félaga innan BSRB og BHMR og rýrir það óneitanlega samanburð þeirra ára.
Verkfræðingum og tæknifræðingum, sem eins og áður sagði fóru úr BHMR árið 1986, er bætt við tölur ársins 1987 og 1988 til að gæta samræmis við fyrri ár.
    Þær töflur sem hér fylgja á eftir gefa vísbendingar um þróun launa og samanburð launa ríkisstarfsmanna og starfsmanna á almennum markaði. Samanburðurinn tekur einvörðungu til dagvinnulauna og eins og bent var á hér að ofan er slíkur samanburður ekki fullnægjandi, en haldgóðar tölur um heildarlaun opinberra starfsmanna eru ekki fyrirliggjandi fyrir fyrri ár. Þannig er rétt að undirstrika að þótt kaupmáttur dagvinnulauna ASÍ-félaga hafi aukist lítillega frá 1987 til 1988 dróst kaupmáttur heildarlauna þeirra saman um 2% vegna minni eftirvinnu. Hins vegar stóð vinnutími opinberra starfsmanna að mestu í stað og er því minni munur á hækkun heildarlauna en dagvinnulauna.
    Í töflunum kemur fram að þróun launa ríkisstarfsmanna miðað við laun félaga innan ASÍ hefur verið þeim fyrrnefndu í hag á síðustu tveimur árum. Ástæða þessa er einkum sú að verulegs launaskriðs gætti á árinu 1987 á almennum markaði sem hafði áhrif á fyrri hluta síðasta árs. Þegar á heildina er litið er hins vegar ekki hægt að draga neinar ályktanir af þessu talnaefni um árangur kjarabaráttu opinberra starfsmanna eftir að þeir fengu verkfallsrétt.


Samanburður á launum opinberra starfsmanna


og starfsmanna á almennum markaði.



Repró.