Álag á óunninn fisk til útflutnings
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svar það sem hann hefur gefið hér. Ég taldi nauðsynlegt að bera þessa fsp. fram hér í þinginu og fá úr því skorið hvort þetta ákvæði mundi stangast á við þá viðskiptasamninga sem við höfum við erlenda aðila þannig að við gætum þá örugglega staðið frammi fyrir því að við færum rétt með okkar samninga.
    En hitt bendi ég á að mér skilst að núna í síðustu viku hafi komið upp svipað mál í Kanada þar sem Kanadamenn munu vera sakaðir um að brjóta fríverslunarsamninga við Bandaríkin í sambandi við svipaðar takmarkanir á óunnum fiski sem seldur hefur verið til Bandaríkjanna. Ég tel rétt að í framhaldi af þessu verði þetta mál kannað betur þó ég geti ekki alveg af fréttum að dæma sagt hvort það var um nákvæmlega eins atriði að ræða, en það virtist vera mjög svipað. Að öðru leyti vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það svar sem ég taldi mjög mikilvægt að kæmi fram hér, að við fengjum úr því skorið hvort við höldum samninga okkar við þessa aðila.