Tvískipting starfs ráðuneytisstjóra
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir till. til þál. um að tvískipta starfi ráðuneytisstjóra. Ástæðan fyrir því að þessi tillaga er flutt er sú að næstum því öll fjárlög íslenska ríkisins fara í gegnum hendur íslensku ráðuneytanna og þar eru engir yfirmenn sérstaklega menntaðir eða sérhæfðir á sviði fjármála. Mikilvægi fjármálanna er því mjög svo vanmetið hjá hinu opinbera.
    Núna er hart á dalnum og við þurfum að velta hverri krónu fyrir okkur áður en henni er eytt. Þess vegna er það nauðsynlegt að æðsta vald í hverju ráðuneyti einbeiti sér að fjármálum og til þess að svo megi verða þarf að tvískipta ráðuneytisstjórastarfinu. Enda eru fordæmi víða fyrir því í atvinnulífinu, bæði í einkarekstri og í opinberum rekstri og blönduðum rekstri.
    Hin ýmsu útgerðarfyrirtæki hafa til að mynda tvo framkvæmdastjóra. Annar er faglegur útgerðarstjóri sem fylgist með öllu sem lýtur að útgerð skipanna, aflanum, vinnslunni og þeim hluta rekstursins. Hinn er fjármálastjóri sem snýr sér að þeim málefnum sem varða beinharða peninga og öðru sem að því lýtur. Ráðuneytin eru í eðli sínu ekkert annað en nokkurs konar skilvinda þar sem fé skattborgaranna er dreift út í þjóðfélagið og þar hefur hlutur fjármálanna verið stórlega vanræktur.
    Þessi tillaga lýtur að því að sérstaklega verði tekið á þeim málum í framtíðinni. Ráðuneytisstjórar fjármála mundu starfa náið með fjmrn., með Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Ríkisendurskoðun og fjvn. Alþingis. Þar með væri komin ný stoð undir fjármál íslenska ríkisins. Í framhaldi af því mætti byrja að móta þá stefnu að ráðuneytin fengju eina heildarfjárhæð á ári hverju sem þau mundu síðan skipta sjálf á milli þeirra liða sem undir ráðuneytin heyra.
    Í framhaldi af því væri hægt að auka sjálfstæði landshlutanna, að þeir fengju eina fjárhæð til þess að skipta. Að því sé ráðið heima í héraði hvernig peningunum er skipt á milli hinna ýmsu skóla. Hvort þeir eru sameinaðir og nemendur keyrðir á milli eða gripið er til annarrar hagræðingar. Þess eru dæmi að hafnir eru byggðar í hverju plássi þegar það er kannski ekki nema nokkurra mínútna akstur á góðum vegi í næstu höfn.
    Með þessu móti telur flm. að mundi fást miklu meiri hagræðing í ríkisfjármálin ef héruðin yrðu sjálfstæðari og fengju meira að ráða sínum innri málum sjálf. Tillagan lýtur að því að opna þann möguleika.
    Jafnframt þessu vex svo fjárhagsleg ábyrgð innan ráðuneytanna þannig að það er ekki eingöngu hlutverk ráðherra, ráðuneytisstjóra og helstu yfirmanna að biðja um peninga frá Alþingi heldur vex nú ábyrgðin að verja þessum peningum vel. Það er að sjálfsögðu liður í því að allir peningar ríkisins beri meiri ávöxt.
    Í þessu sambandi má geta að stutt er síðan Alþingi sjálft réði til sín fjármálastjóra og er alveg óhætt að segja að hans starf hefur gefið mjög góða raun. Það

er því ekki langt fyrir þingheim að leita að samjöfnuði. Í raun er það rökrétt framhald af þeirri ráðningu að ráðuneytin fái sinn fjármálastjóra er verður á ráðuneytisstjóraplani.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fylgja þessu úr hlaði með fleiri orðum, en með þessu móti verður ábyrgð aukin í ríkisfjármálum og dregið úr miðstjórn.
    Að svo mæltu mæli ég með að þessari tillögu verði vísað til 2. umr. og til hv. allshn.