Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ætli hv. þm. Friðrik Sophusson sé inni í hliðarherbergi. Hann heyrir þar eflaust til mín.
    Í fyrsta lagi spurði hv. þm. Friðrik Sophusson um aflamiðlun og hvað því máli liði. Ég ætla með leyfi forseta að lesa hér blöð sem hafa farið á milli um það mál síðasta sólarhring. Í fyrsta lagi bréf frá Verðlagsráði sjávarútvegsins dags. 19. febr. sem barst mér seint í gærkvöldi og ég ætla að lesa. Þar segir:
    ,,Stefnt er að því í yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins að ákveða fiskverð sem gilda á frá 1. febr. sl. með samkomulagi. Ef samkomulag tekst mun það fela í sér það markmið að bæta kjör þeirra fiskseljenda sem landa afla sínum til íslenskrar fiskvinnslu samanborið við kjör þeirra sem selja afla á uppboðsmörkuðum heima og erlendis. Það er samkomulag aðila málsins að draga úr útflutningi á ferskum fiski og efla innlenda fiskvinnslu. Til þess að ná þessum markmiðum eru aðilar sammála um að nauðsyn beri til að komið verði á fót aflamiðlun í því skyni að greiða fyrir fiskviðskiptum innan lands og takmarka útflutning á óunnum fiski með þeim hætti að hann sé bundinn við nýtingu ferskfiskmarkaðar.
    Til þess að aflamiðlun verði komið á fót telja undirritaðir fulltrúar hagsmunaaðila í sjávarútvegi að leyfi til útflutnings á ferskum fiski þurfi að flytja frá utanrrn. til sjútvrn. Með þessum hætti má betur tryggja samræmi ákvarðana um útflutning á ferskum fiski og betri framkvæmd fiskveiðistefnunnar og eðlilegt eftirlit. Samtök í sjávarútvegi lýsa sig reiðubúin að stofna aflamiðlun til þess að taka að sér þetta verkefni eftir að ákvörðun hefur verið tekin um flutning leyfisveitinga milli ráðuneyta. Gert er ráð fyrir að eftirtaldir aðilar eigi aðild að stjórn aflamiðlunar: Landssamband ísl. útvegsmanna tvo fulltrúa, samtök sjómanna einn fulltrúa, samtök
fiskvinnslunnar einn fulltrúa, Verkamannasamband Íslands einn fulltrúa. Allur útflutningur á ferskum fiski mun að áliti undirritaðra falla undir aflamiðlun. Ljóst er að samkomulag næst ekki um fiskverð nema fyrir liggi ákvörðun ríkisstjórnar um þetta efni.``
    Undir þetta skrifa fulltrúar allir í yfirnefnd nema oddamaður, Þórður Friðjónsson.
    Þetta mál var ítarlega rætt í ríkisstjórninni í morgun og þar staðfest að staðið yrði við það samkomulag sem gert var við aðila vinnumarkaðarins að koma á fót aflamiðlun undir stjórn fulltrúa hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fiskvinnslu eins og reyndar var greint frá áðan í því sem hv. þm. Friðrik Sophusson las hér upp. Hins vegar er rétt að geta þess að ríkisstjórnin ákvað að utanrrh. gæfi út reglugerð um þetta og gerði hann ráð fyrir því að gera það án tafar. Mál þetta fellur undir utanrrh. og í samkomulagi því sem gert var við aðila vinnumarkaðarins er ekkert um það fjallað að flytja þennan málaflokk yfir til sjútvrh. sem hins vegar er af ýmsum talið skynsamlegt og er til athugunar í ríkisstjórninni að það verði gert í tengslum við stjórn fiskveiða og skapa þar betri tengsl á milli. Hins vegar

er talið rétt að utanrrh. skipaði þessum málum eins og nú er háttað.
    En í lok fundarins barst bréf frá Verkamannasambandi Íslands sem ég ætla einnig að leyfa mér að lesa hér:

    ,,Herra forsætisráðherra Steingrímur Hermannsson, Reykjavík.
    Vegna frétta er borist hafa um að stjórn væntanlegrar aflamiðlunar verði skipuð fimm mönnum, einum frá Verkamannasambandi Íslands, einum frá aðilum fiskvinnslunnar, einum frá Sjómannasambandi Íslands og tveimur frá Landssambandi ísl. útvegsmanna.
    Stjórn VMSÍ lýsir því hér með yfir að hún telur með öllu ósæmilegt að LÍÚ hafi tvo fulltrúa í nefnd eða stjórn aflamiðlunar, telur að hún verði skrípaleikur einn og á kostnað fiskvinnslufólks. Við héldum að nóg væri að aflakvóta væri úthlutað á hvert skip þótt þessir aðilar hefðu ekki fiskmiðlun á hendi sér einnig og teljum slíka nefndarskipan hnefahögg í andlit Verkamannasambandsins. Eðlilegasta málamiðlun í þessu teljum við að ráðherra tilnefni formann nefndarinnar og LÍÚ hafi einn fulltrúa sem aðrir.
    Við leggjum þunga áherslu á það við yður að þér beitið yður fyrir að slík verði niðurstaða í stjórn aflamiðlunar.``

    Undir þetta skrifar fyrir hönd Verkamannasambands Íslands Guðmundur J. Guðmundsson, formaður. Síðan stendur hér undir:
    ,,PS. Samkomulag til þrautavara gæti verið einn frá hvorum aðila og samkomulag milli aðila um oddamann.``
    Að þessum bréfum fengnum ritaði ég Verðlagsráði sjávarútvegsins svohljóðandi bréf:

    ,,Verðlagsráð sjávarútvegsins, Tjarnargötu 4, Reykjavík.
    Á ríkisstjórnarfundi í morgun var bréf Verðlagsráðs sjávarútvegsins frá 19. febr. sl. tekið til ítarlegrar umfjöllunar. Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu koma á fót aflamiðlun til að draga úr og stýra útflutningi á óunnum fiski í
samræmi við fyrirheit vegna nýgerðra kjarasamninga. Í stjórn aflamiðlunar munu verða fulltrúar hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Ráðherra utanríkisviðskipta sem nú fer með þessi mál er reiðubúinn að koma slíkri aflamiðlun á fót án tafar með reglugerð.
    Hins vegar með tilvísun til bréfs Verkamannasambands Íslands er barst forsrn. í dag er óhjákvæmilegt að kanna betur með viðtölum við aðila hvernig best verði staðið að skipun stjórnar áður en reglugerð verður gefin út.``
    Ég hef óskað eftir því við utanrrh. að hann ræddi við viðkomandi aðila og hann hefur átt í þessum viðræðum í dag. Hann er mættur hér og getur ef óskað er betur skýrt frá þeim niðurstöðum, en eftir því sem ég best veit var ekki komin niðurstaða í

málið fyrir stuttri stundu.
    Það er vitanlega afar leitt að upp skuli kominn þessi ágreiningur á milli aðila sem ríkisstjórnin taldi að samkomulag hefði verið á milli um skipan stjórnar aflamiðlunar og það mál verður að leysast án tafar. Það er fullt samkomulag um það að koma á fót umræddri aflamiðlun og væntanlega verður hún til þess að draga úr útflutningi eins og yfirlýst er, bæði í bréfi viðkomandi aðila í Verðlagsráði sjávarútvegsins og sömuleiðis eins og kom fram í tengslum við kjarasamninga. En samfara þessari breytingu þarf að gera fleira sem sjútvrh. hefur lagt til, bæði um hækkun á lækkun kvóta vegna siglinga og sömuleiðis um álag vegna vigtunar á afla sem fluttur er úr landi og ég ætla ekki að rekja hér nánar. Þannig mun þetta verða samræmt átak. Við skulum vona að þetta mál leysist á næstu klukkutímum.
    Þá spurði hv. þm. um frv. um lífeyrissjóði. Það verður lagt fram. Ég get ekki nefnt dagsetninguna. Það er verið að fara yfir það núna í fjmrn. Ekki er gert ráð fyrir því að málið verði afgreitt á þessu þingi heldur komi til umræðu. Síðan er gert ráð fyrir að skipuð verði milliþinganefnd með mönnum frá öllum flokkum sem fjalli á milli þinga um þetta mjög mikilvæga mál. Ríkisstjórnin gerir síðan jafnframt ráð fyrir því að frv. um lífeyrissjóði verði afgreitt á næsta þingi. Það er afar mikilvægt því að lífeyrissjóðir landsmanna stefna í hreint öngþveiti ef ekki verður tekið á málum.
    Hér er búið að ræða mikið um niðurskurðinn. Hann er að vísu ekki hér til umræðu en eðlilegt að menn spyrji um hann. Fjmrh. gekk frá tillögum um þessi mál sem rædd voru mjög í ríkisstjórninni og síðan rædd við fulltrúa stjórnarflokkanna í fjvn. og þingflokka. Mér þykir það satt að segja mjög miður að hv. þm. Stefán Valgeirsson hefur ekki fengið þau mál og mun kanna án tafar hvernig á því stendur en það er kannski vegna þess að hann situr ekki í fjvn. Sá siður hefur ætíð verið á að viðkomandi ráðherrar hafa séð um að koma málum til allra þingflokka.
    Um niðurskurð að öðru leyti. Hér var spurt um niðurskurð sérstaklega á því sem ráðstafa á til greiðslu til sveitarfélaga. Það verður að sjálfsögðu ekki skorið niður nema að höfðu samráði og þá með samþykki þeirra aðila sem þetta samkomulag var gert við. En það er rétt að fram hefur komið að e.t.v. væri ekki óeðlilegt að sveitarfélög tækju þátt í þessum niðurskurði með því að fresta vissri greiðslu og ég hafði hugsað mér að ræða þetta við formann samtakanna þegar ég hefði séð nokkur viðbrögð við ýmsum þeim hugmyndum sem þarna hafa komið fram. Þetta verður ekki gert án samkomulags við samtök sveitarfélaga, enda eins og kom fram hér liggur fyrir það samkomulag sem ekki verður breytt nema með samkomulagi beggja aðila.
    Ég geri ráð fyrir því að endanleg ákvörðun um niðurskurðinn af hálfu stjórnarflokkanna liggi fyrir í þessari viku og veit ekki um neitt sem á að standa þar í vegi. Ég er sammála því að koma þarf þessu máli fram sem allra fyrst og þó að það sé út af fyrir

sig ekki knýjandi fyrir t.d. næstu mánaðamót, þá þarf að liggja fyrir fljótlega hvernig að þessu máli verði staðið.
    Í ríkisstjórninni liggja fyrir ýmsar athuganir á því hvernig 0,3% lækkun á framfærsluvísitölu verði náð og ég á von á nánari útreikningum frá fjmrn. í dag eða á morgun sem ég hafði síðan hugsað mér að ræða við fulltrúa vinnumarkaðarins. En það væri ekki skynsamlegt hjá mér að greina frá því hér á þessari stundu. Ég held að hv. þm. muni skilja það.
    Það er rétt að í tengslum við fjárlög er gert ráð fyrir hækkun á jöfnunargjaldi og framhaldi þess um 5%. Það er hvergi tekið fram hvenær það verði fellt niður. Það var fallist á að ekki væri óeðlilegt að halda þessu jöfnunargjaldi á meðan virðisaukaskatturinn er að festast í sessi. Það er alls konar óvissa í sambandi við hann en talið að þar gæti varla verið um klögumál að ræða af aðilum fríverslunarsamninga við okkur í Evrópu. Einnig er í þessu sambandi vakin aftur og aftur athygli á því að hinar ótrúlegustu greiðslur eiga sér stað til stuðnings, við skulum segja t.d. fiskvinnslunni í Evrópu. Það skiptir milljörðum kr. sem varið er til slíks stuðnings og ríkisstjórnin hefur aflað sér allítarlegra upplýsinga um. Það eru mjög umtalsverðar upphæðir sem sannanlega breyta mjög samkeppnisstöðu á fiskmörkuðum og yfirleitt í fisksölu í Evrópu. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um það hvenær þetta verður fellt niður, en sú ákvörðun verður tekin á þessu ári að
sjálfsögðu.
    Samræmi skattalaga. Öll sú gífurlega vinna sem nú er unnið að í samræmingu á, ekki bara skattalögum heldur fjölmörgu fleiru er á góðri ferð. Að vísu eru þar erfiðleikar eins og þýðing á mjög miklu af gögnum sem rætt hefur verið um í fjölmiðlum og er áhyggjuefni hvernig á að standa að. En það er rétt að ítrekað var í þessum samningum að aðilar vinnumarkaðarins skuli vera með í ráðum. Þeir eru með í ráðum í fjölmörgum nefndum sem starfa að samræmingu á íslenskum reglum og reglum sem gilda innan Evrópubandalagsins. Út af fyrir sig gæti utanrrh. flutt hér langa ræðu um allt það mál. Það hefur verið haft náið samband m.a. við Félag ísl. iðnrekenda og framkvæmdastjóri Félags ísl. iðnrekenda hefur starfað sem formaður í nefnd hjá EFTA sem fjallar mjög um þessi mál. Við teljum að þarna sé fullra samráða gætt, en það er ekki enn þá komið á það stig að teknar hafi verið ákvarðanir um slík mál.
    Ég vil geta þess hér að ósk kom frá samtökum sveitarfélaga um samráð við ríkisvaldið um framkvæmd á virðisaukaskatti gagnvart sveitarfélögum. Þetta var rætt í ríkisstjórninni nú fyrir skömmu og það er ákveðið að verða við þeirri ósk samtaka sveitarfélaga að menn frá þeim og fjmrn. kynni sér sérstaklega þau mál og að öllum líkindum með því að fara til þeirra landa, einkum Danmerkur þar sem talið er að hlutirnir séu sem líkastir því sem hér þarf að vera. Staðreyndin er sú að það gengur ekkert allt of vel að fá upplýsingar um hvernig þessi mál eru innan dyra í Evrópubandalaginu því að þetta er mjög

mismunandi frá einu landi til annars og Evrópubandalaginu hefur ekki enn tekist að samræma þessi mál hjá sér eins og allir vita. Ég held að of fljótt sé að segja að það standi neitt upp á íslensk stjórnvöld í þessu sambandi.
    Þá kem ég að 7. gr. frv. og ég skal strax taka undir með fyrirspyrjanda að sú grein þarf að athugast vel og getur valdið misskilningi. En staðreyndin er sú að þegar lesið er í gegnum þetta samkomulag allt, þá eru ýmsir hlutir þar heldur óljósir. Í samkomulagi Stéttarsambands bænda, ASÍ, BSRB, VSÍ og VMS segir, með leyfi forseta: ,,2. liður. Stéttarsamband bænda fellst á að verð til framleiðenda samkvæmt verðlagsgrundvelli búvöru mjólkur- og kindakjötsframleiðslu verði óbreytt til 30. nóv. 1990. Sjá bókun framleiðenda.`` Í bókun framleiðenda segir: ,,Samþykkt Stéttarsambands bænda fyrir því að halda búvöruverði óbreyttu fram til 30. nóv. 1990 er háð því að stjórnvöld sjái til þess að ekki verði um að ræða lagalega meinbugi á þeirri framkvæmd með tilvísun til ákvæðis laga nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru, er fjallar um framreikning og ákvörðun á verði búvöru til framleiðenda.``
    Við samningu þessarar greinar var leitað til landbrn. og lögfræðingar þess beðnir að taka þetta mál fyrir og setja í lagatexta þannig að fullnægði þessum bókunum og samkomulagi. En í þessum bókunum kemur hvergi fram hvort frestað sé hækkunum eða algerlega felldar út. En mönnum er að sjálfsögðu ljóst að þegar framreikningur hefst á ný, þá verður hann að byrja á einhverjum grundvelli. Hann verður að byrja á grundvelli og sá grundvöllur liggur núna þegar fyrir og er samþykktur í sex manna nefndinni. Ég vil geta þess að eftir að þetta frv. var prentað komu athugasemdir frá aðilum vinnumarkaðarins sem sjálfsagt er að láta nefndinni í té og hún skoði. En ég sé ekki að þær leysi úr þeirri spurningu hvort þarna er um frestun að ræða eða algerlega falli brott. Og reyndar er ekkert í þessu samkomulagi sem segir að algerlega sé fallið frá því að þessar hækkanir komi síðar inn í verðið. Þó vil ég vekja athygli á því að bændur hafa í raun eins konar rautt strik 1. des. 1990 í sínu samkomulagi og vitanlega mundi allt svona, ef kemur inn í verðlag, hafa þar veruleg áhrif á. En þetta rauða strik var þó fyrst og fremst gert með tilvísun til þess að sauðfjárbændur fá nú greidd laun, 3%, gegnum niðurgreiðslur, þ.e. niðurgreiðslur voru fluttar beint af greiðslu til bænda og því er ljóst að þau 3% eru ekki inni í verðlagsgrundvellinum. Ríkisstjórnin hefur gefið út yfirlýsingu um það að ljóst sé að þegar þetta verðlagstímabil sauðfjárafurða rennur út 1. sept. og mjólkurafurða má segja 1. des. þegar þessi ákvæði koma til, þá verður að taka afstöðu til þess hvort þetta verður tekið inn í verðlagsgrundvöllinn eða greiðslum á niðurgreiðslufé haldið áfram.
    Hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir spurði m.a. um verðbólguna 29%. Framfærsluvísitalan hækkaði um 1,6% núna 10. þessa mánaðar. Í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um framreikning var gert ráð fyrir

1,5%. Hér er hins vegar þessi háa verðbólgutala færð til ársgrundvallar og þá verður hún þetta há. Þarna ber nú ekki mikið á milli. Sjálfir töldu þeir að töluvert væri í pípunum, eins og sagt er, og það mundi koma fram núna. Ég vil geta þess að aðrir aðilar töldu að þetta yrði reiknað fyrir neðan 1,5 en þetta varð niðurstaðan, 1,6%. Og samkvæmt öllum áætlunum á hún að verða töluvert lægri núna í marsmánuði.
    Spurt var hvort ríkisvaldið hafi tekið að sér að tryggja að engar verðhækkanir verði. Það er ekki svo. Um verðstöðvun var rætt en ekki óskað eftir henni af aðilum vinnumarkaðarins. Verðstöðvun hefur bæði kosti og galla. Hún safnar á bak við sig ýmsum hækkunum sem síðan brjótast fram og ég held að
það sé almenn niðurstaða þeirra sem um þessi mál hafa fjallað að æskilegra sé að losna við þessa hluti úr pípunum, svo að ég noti það orð aftur, frekar en að loka þessi hækkunartilfelli inni. Hins vegar varð samkomulag um það milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda að fylgjast mjög náið með þróun þessara mála og er gert ráð fyrir því að setja á fót samstarf launanefndar aðila vinnumarkaðarins og ýmissa opinberra starfsmanna sem á þessum sviðum eru. Ég get jafnframt getið þess hér að ég hef lagt drög að því að kalla saman ýmsa opinbera starfsmenn og fela þeim að vinna jafnt og þétt að athugun á þessum málum og benda á hættur sem kunna að vera á verðhækkunum einhvers staðar. Í því verða menn eins og fulltrúi Seðlabankans, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, forstjóri Verðlagsstofnunar og hagsýslustjóri, hagstofustjóri og fleiri, þannig að allar stofnanir verða virkjaðar til þess að fylgjast með þeim málum.
    Hv. þm. Stefán Valgeirsson spurði um skatt á fjármagnstekjur. Það er rétt, það er í stjórnarsáttmála og liggja reyndar þegar fyrir ýmsar hugmyndir um hvernig það verði gert. Það hefur sýnt sig að það er afar erfitt í framkvæmd í verðbólgu. Það er rétt hjá hv. þm. að flestöll lönd eru með slíka skattlagningu en skattleggja yfirleitt nafnvexti, ekki raunvexti. Ég held að það séu eiginlega í öllum tilfellum nafnvextir skattlagðir. Það sýnir sig að að sjálfsögðu er dálítið erfitt að skattleggja nafnvexti þegar verðbólga er þetta mikil og ekki skynsamlegt að skattleggja nafnvexti. Svo það var ákveðið að hinkra við með þetta mál þangað til verðbólgu væri náð nokkuð verulega meira niður. En það hefur alls ekki verið fallið frá skattlagningu fjármagnstekna, þvert á móti og ég sagði áðan að það væri afar mikilvægt að hrinda því máli í framkvæmd.
    Það er misskilningur að í stjórnarsáttmála sé ákvæði um hátekjuþrep. Ég kannast ekki við það. Hins vegar var ákveðið í tengslum við lækkun á virðisaukaskatti, eins og menn muna, að gera línuna brattari, hækka persónufrádráttinn eða skattleysismörkin og gera línuna brattari þannig að meira félli af tekjuskatti á hátekjumenn.
    Hvernig ríkisstjórnin hyggst ná raunvöxtum í a.m.k. 6%. Ég hef nú ekki ómerkari mann en hv. 1. þm. Suðurl., formann Sjálfstfl., fyrir mér því hann sagði í ræðu á fimmtudaginn, sem ég er með hér fyrir framan

mig, þar sem hann vitnar í skýrslu Seðlabanka Íslands um vexti, með leyfi forseta: ,,Og í þessari skýrslu kemur fram að þeir voru að meðaltali 4,7--5%``, þ.e. raunvextir. Þarna gætir þess náttúrlega að lánskjaravísitölugrundvellinum var breytt og menn mega ekki sleppa því að það er ekki bæði hægt ... ( ÞP: Miðað við framfærsluvísitöluna.) Þetta er miðað við framfærsluvísitölu, já, ég veit það. ( ÞP: Það er annað miðað við lánskjaravísitölu.) Þetta er miðað við framfærsluvísitölu en lækkunin náðist með því m.a. að breyta lánskjaravísitölu. ( Gripið fram í: Þeir eru hærri miðað við lánskjaravísitölu.) Við nýja grundvöllinn. Þetta er mikill misskilningur og ótrúlegt að hv. þm., sem svo vel er að sér um bankamál, skuli haldinn þessum misskilningi. Í skýrslu Seðlabankans segir einnig að meta megi lækkun vegna breytingar á lánskjaragrundvellinum um 3--4%. Það er varla hægt að halda því fram annars vegar, eins og haldið er fram í fjölmiðlum, að sparifjáreigendur hafi verið hýrudregnir um fleiri milljarða vegna breytinga á lánskjaravísitölugrundvellinum ef á sama tíma það hefur ekki þýtt minni greiðslur hjá þeim sem lánin hafa tekið. Svo þetta er rétt. Miðað við framfærsluvísitölu yfir allt tímabilið, þ.e. fært yfir á sama grundvöll, þá þýðir þetta að meðaltali 4,7--5% og það er vitanlega ekki hægt að bera saman raunvexti á tveimur ólíkum lánskjaragrundvöllum. Þess vegna var horfið að því að bera þetta saman á þessum grundvelli.
    Hækkun áburðarverðs um 12%. Ríkisstjórnin hefur heitið því að við það muni verða staðið. Núna er verið að endurreikna fyrri útreikning Áburðarverksmiðjunnar miðað við nýjan grundvöll, fastgengi t.d. sem munar Áburðarverksmiðjuna mjög miklu því að lán hennar eru yfirleitt erlend lán, og sömuleiðis þá lækkun vaxta sem þegar hefur orðið á því sem hún er með af innlendum lánum, sem að vísu er miklu minna. Núna liggja því fyrir útreikningar á þessu dæmi bæði frá Áburðarverksmiðjunni og fjmrn. og eru til meðferðar hjá fjmrh. og landbrh.
    Hv. 2. þm. Reykv. spurði um tvo liði sem ég tel mig báðum hafa svarað.