Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Þeim spurningum sem til mín hefur verið beint skal ég leitast við að svara. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson spurði: Hvað kosta 1--3 gr. í frv. þar sem gert er ráð fyrir að ellilífeyrisþegar fái aðgang að lífeyri vegna orlofsgreiðslna? Samkvæmt upplýsingum frá fjmrn. nemur kostnaður að þessu leyti 11 millj. kr. á ári.
    Í öðru lagi spurði hv. þm. um frv. um lífeyrissjóði, hvort og hvenær það yrði lagt fram og hvort það yrði þá lagt fram óbreytt. Frv. um lífeyrissjóði verður lagt fram fljótlega eftir Norðurlandaráðsþing. Það verður lagt fram óbreytt frá því samkomulagi sem gert var í svonefndri 17 manna nefnd. Hins vegar gerir ríkisstjórnin ráð fyrir að frv. fari í milliþinganefnd á milli þinga í sumar og verði þá lagt fram á ný á haustþingi. Að sjálfsögðu getur ríkisstjórnin ekki ábyrgst að það frv. verði í öllu og einu óbreytt frá því sem milliþinganefndin tekur við. Milliþinganefndin hlýtur að hafa heimild til að hreyfa þar atriði. Hins vegar hefur ríkisstjórnin í viðræðum sínum við aðila vinnumarkaðarins lofað að beita sér fyrir að frv. um lífeyrissjóði, eins og nákvæmlega er orðað í bréfi mínu, verði samþykkt á öðru þingi.
    Hv. þm. spurði um félagslega kerfið og við hvaða tillögur væri átt sem þar er vísað til. Þar er vísað til mjög viðamikillar vinnu sem fer fram núna í samráði m.a. við verkalýðshreyfinguna um endurskoðun á félagslega kerfinu í heild. Niðurstaða þeirrar nefndar er nýkomin fram. Ég hef ekki haft tækifæri til að kynna mér hana þannig að ég geti rætt um hana hér í neinum smáatriðum. Hins vegar var á það lögð áhersla og á það fallist að á grundvelli þessarar skýrslu verði gerð áætlun um þörf fyrir félagslegar íbúðir og sú áætlun þá að sjálfsögðu framkvæmd.
    Spurt var um fiskverð og aflamiðlun. Það er mikill misskilningur að strandi á deilum innan ríkisstjórnarinnar um aflamiðlun. Þar er fullt samkomulag.
Ríkisstjórnin er sammála um að aflamiðlun verði með þeim hætti sem t.d. sjútvrh. lýsti hér á Alþingi í fyrradag. Hann lýsti því að hann teldi að í stjórn Aflamiðlunar ætti að vera einn fulltrúi frá hverjum aðila, þ.e. LÍÚ, sjómannasamtökunum, fiskvinnslunni og Verkamannasambandi Íslands og veldu þessir fjórir aðilar sér síðan oddamann. Sömu yfirlýsingu hefur hæstv. utanrrh. gefið í fjölmiðlum og hefur horfið frá því að í þessari aflamiðlunarstjórn verði fulltrúar m.a. svokallaðra útflutningsheildsala og fiskmarkaða. Þetta er sú tillaga sem ég styð og ég geri fastlega ráð fyrir því að frá henni verði gengið á ríkisstjórnarfundi í fyrramálið. Þá verður ekki af ríkisstjórnarinnar hálfu neitt því til fyrirstöðu að fiskverð ákvarðist á næsta fundi yfirnefndar sem er reyndar, ef ég veit rétt, boðaður á morgun. Ég vil leggja áherslu á að ég tel afar mikilvægt að allir þeir aðilar sem aðild eiga að hafa að stjórn Aflamiðlunar séu sáttir við skipun stjórnar hennar, m.a. Verkamannasamband Íslands sem gerði við það athugasemdir og ég tel að það

samkomulag sé að nást.
    Hv. þm. taldi afar alvarlegt að hér væri gefið undir fótinn með það að samstarfsnefnd vinnuveitenda og launþega ætti að leita leiða í erfiðleikum sem upp kunna að koma. Ég er ósammála þessu. Í lögum frá 1979 um efnahagsmál segir að stjórnvöld skuli hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins. Þetta samráð hefur verið með ýmsum hætti og ég hef ekki orðið var við að nokkur hafi að því fundið þótt í slíku samráði hafi verið leitað leiða. Það er að sjálfsögðu síðan ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins að framkvæma þær tillögur sem þar koma fram. Það er allt annað mál. Sumum kann að verða hafnað af einhverjum þessara aðila, aðrar samþykktar og framkvæmdar og reyndar er þetta samstarf þegar hafið. Ég vek athygli á því að ég átti viðræður við verkfræðinga sem höfðu hækkað sinn taxta um 10% eða um það bil og fór fram á að hann yrði lækkaður. Á það var fallist samstundis. Og ég vek athygli á að Verðlagsráð hefur verið á fundum m.a. í dag, að sjálfsögðu að ósk ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins, til að brjóta á bak aftur hækkanir sem eru umfram það sem samræmist því samkomulagi sem hefur verið gert. Og þar er um samráð og samstarf að ræða sem er ekkert um að segja nema gott eitt.
    Hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir ræddi nokkuð um atvinnuleysi og ég tek undir það með hv. þm. að atvinnuleysi er hið mesta böl og þó að það sé miklu, miklu minna hér en annars staðar tíðkast viljum við ekki þola það. Atvinnuleysi í janúar var nokkru minna en spáð hafði verið. Talið hafði verið að það yrði um 4,5% vinnufærra manna en varð um 3,2%. Í nýlegri könnun sem Þjóðhagsstofnun gerði kemur fram að mjög hefur dregið úr fyrirætlunum um uppsagnir og fækkun hjá atvinnurekendum. Sums staðar er vöntun, eins og t.d. í fiskvinnslunni, en fullkomið jafnvægi virðist vera núna í byggingariðnaðinum þannig að Þjóðhagsstofnun telur að fram undan muni vera minnkandi atvinnuleysi.
    Hv. þm. spurði um störf atvinnumálanefndar sem er samstarfsnefnd aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins. Ein af þeim nefndum sem var gerð athugasemd við áðan er að leita leiða og gera tillögur um hvernig megi vinna gegn atvinnuleysi og skapa meira öryggi og jafnvægi í þjóðarbúskapnum þegar til
lengri tíma er litið. Hún hefur haldið tíu fundi og henni er ætlað að skila áliti næsta haust. Henni var veitt ár til að vinna þetta verk og eftir því sem ég best veit er verið að vinna þar athyglisverða vinnu sem ég get ekki greint frá nánar núna enda er hún í miðjum klíðum.
    Það er rétt hjá hv. þm. að gerð var athyglisverð skýrsla um atvinnumál kvenna á landsbyggðinni. Hún kom fram um það leyti sem verið var að ljúka meðferð fjárlaga hér á Alþingi. Félmrh. gerði tillögu um 15 millj. kr. fjárveitingu til að framkvæma það sem þar er lagt til. Því miður tókst ekki að koma því inn í fjárlög og brann það úti. Ég hef síðan rætt við forstjóra Byggðastofnunar um hvort stofnunin gæti

tekið þetta mál í sínar hendur og það er til athugunar. Að vísu verður að viðurkennast að þar er líka fjárskortur en við höfum rætt það í ríkisstjórninni að þessu máli sé brýnt að koma áfram.
    Það er rétt hjá hv. þm. að mjög mikil vinna hefur verið unnin síðustu ár má segja við að kanna tekjur kvenna og karla og komin reyndar út mjög athyglisverð skýrsla með samanburði við Norðurlönd og margt fleira. Það liggur sem sagt orðið afar mikið fyrir um þessi mál. Þarna er tekjumunur sem stafar að vísu af fjölmörgum þáttum sem ekki er tími til að rekja hér en sem mikilvægast er að mínu mati að koma á framfæri m.a. við aðila vinnumarkaðarins sem semja. Ríkisvaldið hefur lýst sig reiðubúið að stuðla í sínum samningum að meira tekjujafnvægi og fjmrh. kom inn á það hér áðan. Samningar á almennum vinnumarkaði eru ekki í höndum stjórnvalda en þar sýnist mér vera aukinn skilningur á þessum málum þó ég taki undir með hv. þm. að það hefur miðað heldur lítið í þessa átt.
    Ég hefði haft mjög gaman af að ræða við hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson um heimspekilegar hugleiðingar hans áðan en það skal bíða annars tíma. Engar spurningar komu frá hv. þm. Karvel Pálmasyni. Ég tók þetta meira sem vestfirskan gamanþátt. Ég er vanur þeim og læt mér þá nokkuð í léttu rúmi liggja. (Gripið fram í.) Já, já, svona stundum og stundum ekki.
    Ég vil taka það fram vegna þess sem hann sagði um ábyrgðarleysi. Að vísu var þarna kallað fram í. Ég skal taka fulla ábyrgð á öllu sem ég hef tekið þátt í í ríkisstjórnum hvort sem það hefur verið til góðs eða ekki tekist eins og að var stefnt. Ég hef einnig þegar ég hef verið þm., ekki í ríkisstjórn, ætíð tekið ábyrgð á því sem sú ríkisstjórn hefur gert sem ég hef stutt og aldrei leikið þar tveimur skjöldum.
    Hv. þm. Egill Jónsson spurði um verð sauðfjárafurða. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt mál og var ítarlega rætt við fulltrúa bænda bæði á milli aðila vinnumarkaðarins og þeirra og einnig á milli stjórnvalda og þeirra. Ég átti margar viðræður við forustumenn Stéttarsambands bænda. Eins og kemur fram í bréfi mínu ábyrgjast stjórnvöld óbreytt heildsöluverð til 1. des. 1990. Í því sambandi hafa bændur tekið á sig að verð til framleiðenda verði óbreytt þennan tíma þó með þeim fyrirvörum að áburðarverð hækki ekki nema um 12% og það mun ekki hækka meira og sömuleiðis að fasteignagjöldin lækki til fyrra horfs og í frv. er einmitt ákvæði sem tryggja það. Þeir hafa hins vegar haft þann fyrirvara gagnvart stjórnvöldum að þau 3% launa sem greidd eru núna af niðurgreiðslufé, lokagreiðslan er í næsta mánuði, hljóti annaðhvort að koma inn í verðlagsgrundvöllinn 1. sept. eða greiðast áfram af niðurgreiðslufé. Stjórnvöld hafa þegar lýst yfir að rúmist það ekki innan verðmarka muni það verða greitt áfram af niðurgreiðslufé. Ég vek athygli á því að sú greiðsla fellur ekki nema að hluta á árið 1990.
    Einnig átti ég persónulega fund með fulltrúum vinnslustöðvanna ásamt sérfræðingum úr fjmrn. og

landbrn. og þar var farið ítarlega í gegnum þær fyrirgreiðslur sem vinnslustöðvarnar fá. M.a. var staðfest að það er búið að breyta til fyrra horfs greiðslu vegna vaxta- og geymslukostnaðar sem er nú greiddur mánaðarlega. Þar var staðfest að ríkisvaldið tekur ábyrgð á þeirri greiðslu sem að hluta er í gegnum bankakerfið og þessir aðilar lýstu sérstakri ánægju með þá breytingu. Einnig var staðfest að hluti af þeim 750 millj. sem ætlaðar eru í aukna niðurgreiðslu eru til að lækka byrði. Mikil ánægja kom fram með það einnig á þessum fundi og þeir staðfestu að þeir sæju ekki að frá þeirra hendi væri þörf á hækkun, a.m.k. ekki þar til nýr verðlagsgrundvöllur verður ákveðinn 1. sept. Það er rétt hjá hv. þm. að þá þarf að hafa varann á og það er skoðun ríkisstjórnarinnar að verði þá um hækkun að ræða sé borð fyrir báru í því fjármagni sem ætlað er til niðurgreiðslna og tekið tillit til þess þannig að það getur a.m.k. orðið óbreytt út þann tíma sem ábyrgðin gildir eða til 1. des. 1990.
    Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt að bændur og aðilar vinnslustöðvanna leggja afar mikið af mörkum í þetta mál, alveg sérstaklega mikið. Þeir rökstyðja það að vísu með því, sem er tvímælalaust rétt, að það sé mikil búbót fyrir bændur að vextir lækki sem fyrst og að sjálfsögðu sé mikil hagkvæmni í minni verðbólgu.
    Hv. þm. Salome Þorkelsdóttir lýsti í fyrstu efasemdum um að málið ætti að fara til félmn. Ég hugleiddi það einnig nokkuð og ræddi það við skrifstofustjóra og niðurstaðan varð sú að stærstur hluti þessa frv., þ.e.
kaflinn um greiðsluábyrgðir, á tvímælalaust að vera í félmn. Auk þess eru þetta kjaramál. Því fór það til félmn. í Nd.
    Um lækkun framfærsluvísitölu um 0,3% hefur verið fjallað og liggja fyrir hugmyndir um það. Auðveldast er að gera það með því að hækka bensíngjaldið minna en heimildir gera ráð fyrir. Þannig má auðveldlega ná þessari lækkun á framfærsluvísitölu. Það er nú til meðferðar, m.a. í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins og verður gengið frá þeim hlutum á þriðjudaginn, þ.e. það verður gert fyrir næstu mánaðamót. Á það er lögð áhersla.
    Ég vil geta þess að ríkisvaldið hefur reyndar verið með aðra hluti í athugun sem geta einnig stuðlað að lækkun eða minni hækkun framfærsluvísitölu, m.a. að fresta þeirri hækkun sem ákveðin var með lögum í fyrra á bifreiðagjaldi í einn mánuð, það þýðir 0,1%. Sömuleiðis hefur t.d. verið ákveðið að höfðu samráði við Póst og síma að þær hækkanir sem þar áttu að koma til framkvæmda, sem reyndar voru ákveðnar langtum lægri en í upphafi hafði verið ráðgert, komi ekki til framkvæmda um sinn. Það má rekja fleira þess háttar sem gert er til að stuðla að lækkun framfærsluvísitölu af stjórnvalda hálfu, eða minni hækkun.
    Hv. þm. spurði um frítekjumarkið og það er von að um það sé spurt. Satt að segja er það ekki að öllu leyti skemmtileg framkvæmd. Þarna er heimilað í raun

að mismuna á milli þeirra sem hafa tekjur af lífeyrissjóðum og þeirra sem hafa tekjur af vinnu. Frítekjumarkið verður með þessu móti hærra fyrir þá sem hafa tekjur af lífeyrissjóðum, en hins er að gæta, sem ég nefndi áðan, að hafi menn tekjur af sparifé er enginn frádráttur. Þar njóta menn fullra lífeyrisgreiðslna, sama hve miklar tekjur þeir hafa af sínu sparifé svo að þarna er mismunun þegar í dag sem verður að leiðrétta.
    Ég vona að ég hafi svarað þessum spurningum, virðulegi forseti, og læt lokið máli mínu.