Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Ég vil nú er kemur að lokum umræðunnar svara í örfáum orðum því helsta sem hér hefur verið til mín beint og þá fyrst hv. 1. þm. Reykv. þar sem hann mun þurfa að bregða sér úr salnum.
    Það er alveg rétt að eitt af þeim verkefnum sem þarf að taka á er hvernig fara skuli með skuldir vegna framkvæmda í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum. Reyndar voru haldnir tveir fundir á sl. sumri um það mál en af ýmsum ástæðum, sem ég tímans vegna fer ekki út í að rekja, hefur orðið töf á því að áfram yrði haldið viðræðum milli borgarinnar og ríkisstjórnar um meðferð þeirra mála. Þar er ekki bara um að ræða skuldir vegna fyrri framkvæmda heldur eru í gangi og bíða mjög miklar og mikilvægar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu sem að sjálfsögðu verður að tryggja fjármagn til. Og það er einmitt ætlunin með núgildandi vegáætlun. Þá voru framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu í fyrsta skipti teknar upp sem sérstakur framkvæmdaflokkur og það hversu miðar framkvæmdunum og uppgjöri skulda hlýtur auðvitað fyrst og fremst að tengjast því fjármagni sem til ráðstöfunar verður í þessum framkvæmdaflokki sem einum af þremur flokkum hinna svonefndu stórverkefna. Ég tek undir það sem hv 1. þm. Reykv. sagði. Þetta er að sjálfsögðu atriði sem þarf að ræða í fjvn. við afgreiðslu vegáætlunar sem þar er nú unnið að.
    Þá vil ég svara lítillega því sem hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson og reyndar fleiri komu inn á í sambandi við fjármögnun þessara framkvæmda. Ég skal taka undir það og geri það af fullri hreinskilni að gjarnan hefði mátt setja meira af upplýsingum um þann þátt málsins í grg. Það var reyndar búið að vinna ýmislegt í því máli en horfið var frá því að hafa það allt saman með og frekar reiknað með því að þau gögn yrðu síðan lögð fyrir hv. fjvn. og mundu birtast þá sem fskj. eða hluti af nál. fjvn. þá hún afgreiddi málið frá sér. M.a. vegna þess að talið var rétt að fjvn. færi yfir það hvernig staðið skyldi að hinni sérstöku fjármögnun.
    Rétt til upplýsingar fyrir hv. þm. er heildarframkvæmdakostnaður við verkið á núgildandi verðlagi tæpir 3 milljarðar kr. Það er, eins og kemur fram í tillögunni, gert ráð fyrir því að uppsöfnuð lántaka á síðasta framkvæmdaárinu, miðað við flýtingu, geti orðið allt að 1300 millj. kr. sem síðan mundu endurgreiðast á næstu 3--4 árum eftir framkvæmdatímann af tekjum vegáætlunar.
    Síðan vil ég gera það alveg ljóst að grundvöllur málsins er sá að þessi sjálfstæða ákvörðun um flýtingu hefur ekki áhrif á aðrar vegaframkvæmdir. Það liggur í því hlutarins eðli að allur viðbótarkostnaður, sem af flýtingunni leiðir, er samkvæmt tillgr. sjálfri færður þannig að hann greiðist sérstaklega úr ríkissjóði sem byggðaframlag. Þar með er ljóst að af vegatekjum verður einungis endurgreidd verðbætt lántökuupphæðin

sjálf en ekki annar kostnaður þegar þær tekjur berast inn til Vegasjóðs. Og af sjálfu leiðir að þessi sjálfstæða ákvörðun um flýtingu á ekki að hafa áhrif á aðrar vegaframkvæmdir og er í raun sjálfur grundvöllur málsins eins og það er hugsað og upp lagt.
    Um jarðgangaframkvæmdirnar að öðru leyti liggja þegar fyrir ýmsar upplýsingar á hinu háa Alþingi. Bæði voru þær lagðar fram við afgreiðslu vegáætlunar á sl. ári og nægir að mínu mati að vísa til þeirra og þess framreiknings á heildarframkvæmdakostnaði sem ég gat um. Miðað við núgildandi vegavísitölu eða verðlag er heildarframkvæmdakostnaðurinn að nálgast 3 milljarða kr.
    Ég hygg ég hafi þá jafnframt svarað hv. 2. þm. Vesturl. Friðjóni Þórðarsyni og hv. 11. þm. Reykn. Hreggviði Jónssyni.
    Tímans vegna verð ég að biðjast undan því að fara út í langar umræður í framhaldi af því sem hv. 6. þm. Norðurl. e. nefndi um staðsetningu álvers og hvort yfirleitt þýddi að reyna að leggja öðrum byggðamálum lið ef sú ákvörðun yrði tekin að staðsetja álver hér á suðvesturhorninu. Að sjálfsögðu mundi það hafa mikil áhrif á alla byggðaþróun og þarf ekki að fjölyrða um það. En ég hygg engu að síður, með tilliti til þeirrar stöðu sem það mál er í nú um stundir, að við eigum ekki að látra deigan síga og skorast undan því að ýta öðrum málum áfram á meðan svo stendur.
    Það var aðeins spurt um það hvernig Vestfjarðakjördæmi færi að því að reiða fram sinn hluta framkvæmdakostnaðarins. Það er auðvitað ljóst að svo stór framkvæmd, þó hún sé ekki greidd nema að 20% af framkvæmdafé kjördæmisins, mun hafa veruleg áhrif á svigrúm til framkvæmda í kjördæminu meðan á því stendur, enda geri ég ekki ráð fyrir því að neinum hafi dottið í hug að þau kjördæmi, sem væru að fá í sinn hlut þvílíkar stórframkvæmdir og það greiddar að jafnvel 80% úr óskiptum sjóði, fengju þær án þess að þurfa að leggja talsvert að sér og talsvert af mörkum sjálf. Það liggur held ég í hlutarins eðli að þrátt fyrir allt er einmitt hið nýja fyrirkomulag um stórverkefnasjóðinn og kostnaðarskiptingu verkefna forsenda þess að einstök kjördæmi geti yfir höfuð ráðist í framkvæmdir af þessari stærðargráðu, ella hefði það með öllu orðið þeim ofviða. Ég hygg þess vegna að hér sé á ferðinni fyrirkomulag sem geri einmitt kleift að slíkar framkvæmdir geti náð fram að ganga. Af því að hv. 1.
þm. Vesturl. ber nú í borðið þá veit ég að hann ætlar að segja það að einmitt svona tilhögun hefði þurft að vera komin til sögunnar þegar Borgarfjarðarbrúin var byggð, alveg rétt.
    Ég ætla svo að lokum, herra forseti, að biðjast undan því, ef hv. 1. þm. Suðurl. væri sama, að fara hér í pólitískan eldhúsdag við hann um framkvæmdir almennt til vegamála og þvílíka hluti, vegna þess m.a. að hér var almennt og þverpólitískt tekið jákvætt undir sjálft efni málsins þó menn hefðu svo sem ýmislegt annað að ræða, og biðst undan því að framgangur þess verði tafinn með slíkum hlutum. En vegna þess

að hann vildi fara að eigna mér sérstakt met í því að skammta illa til vegaframkvæmda neyðist ég til að minna á það, en skal svo ekki hafa um það fleiri orð, að allra lélegasta ár síðustu áratuga til vegamála á Íslandi, og þarf að fara alveg aftur á hin mögrustu ár viðreisnarstjórnarinnar til að finna jafn bága frammistöðu, verður því miður að skrifast á reikning hv. 1. þm. Suðurl. ásamt með hans flokksbræðrum og samstarfsmönnum í ríkisstjórn á þeim tíma. Í miðju góðærinu 1987 fór bæði hlutfall þjóðartekna og raungildi fjárveitinga til vegamála lægst af því sem við höfðum upplifað á þessum áratug og reyndar held ég alveg aftur fyrir 1970 eða 1971 frá því að stjórnarskipti urðu. Þess vegna er ég ansi hræddur um að hæstv. þáv. fjmrh. Þorsteinn Pálsson, sem stóð að afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1987 og þar með fjárveitingum til vegamála, verði að bíta í það súra epli að ef einhver á met í þeim efnum er engin samkeppni um það við hann.
    Og að lokum þetta, herra forseti. Ég lít svo á að ef eitthvað má kallast byggðamál á Íslandi í dag hljóti það að vera það að reyna að reisa rönd við því að mér liggur við að segja byggðin í heilum landsfjórðungi rústist niður. Við skulum horfast í augu við það eins og það er, góðir alþingismenn, að auðvitað blasir ekkert annað við Vestfjörðum, ef svo heldur fram sem horfir, en að byggðin í heilum landsfjórðungi rústist hreinlega meira og minna niður. Það gefur auga leið að það landsvæði mun ekki standast það til lengdar að búa ár frá ári við beina fólksfækkun svo nemur kannski allt að 2,5% á hverju ári. Það mun einfaldlega þýða það að hvert samfélagið á fætur öðru kemst þar í slíkt ójafnvægi og slíka upplausn að til hruns horfir.
    Ég segi því að lokum einungis þetta: Ef menn geta ekki sameinast um það á hinu háa Alþingi, þrátt fyrir öll ræðuhöld um byggðamál, að gera eitthvað og reyna eitthvað til þess að reisa rönd við þeirri hrikalegu þróun sem verið hefur í byggðamálum Vestfjarða, þá held ég að menn geti stytt ræðuhöldin um byggðamál á næstu árum. Því það mun ekki verða mikið mark á þeim tekið ef menn ekki, í ljósi þeirra mjög svo alvarlegu aðstæðna sem þar eru, ná saman um að reyna að reisa þar einhverja rönd við.